Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

26. KAFLI

Paradís endurheimt!

Paradís endurheimt!

Fyrir atbeina ríkisins í höndum Krists helgar Jehóva nafn sitt, ver drottinvald sitt og útrýmir allri illsku.

SÍÐASTA bók Biblíunnar er nefnd Opinberunarbókin og hún veitir öllum mönnum bjarta von. Bókin er skrifuð af Jóhannesi postula og segir frá sýnum sem ná hámarki þegar fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga.

Í fyrstu sýninni hrósar hinn upprisni Jesús nokkrum söfnuðum og leiðréttir þá. Í annarri sýninni birtist himneskt hásæti Guðs þar sem andaverur syngja honum lof.

Fyrirætlun Guðs miðar áfram og lambinu, Jesú Kristi, er afhent bókrolla með sjö innsiglum. Þegar fyrstu fjögur innsiglin eru rofin þeysa fram á sjónarsviðið fjórir táknrænir riddarar. Fyrstur kemur Jesús sem krýndur konungur á hvítum hesti. Því næst koma riddarar á hestum sem eru hver í sínum lit. Þeir tákna stríð, hungur og drepsóttir sem eiga sér stað á síðustu dögum þessa heimskerfis. Þegar sjöunda innsiglið er rofið er blásið í sjö básúnur. Það táknar að dómar Guðs séu boðaðir. Í kjölfarið koma sjö plágur sem tákna reiði Guðs.

Jóhannes sér í sýn að sveinbarn fæðist. Það táknar að ríki Guðs sé nú stofnsett á himnum. Stríð brýst út og Satan og illum englum hans er varpað niður til jarðar. „Vei sé jörðunni,“ segir rödd mikil. Djöfullinn er í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma. — Opinberunarbókin 12:⁠12.

Jóhannes sér lamb á himni sem táknar Jesú. Með honum eru 144.000 sem eru útvaldir úr hópi manna. Þeir eiga að ríkja sem konungar með Jesú. Í Opinberunarbókinni kemur þannig fram að viðbótarniðjarnir eru alls 144.000. — Opinberunarbókin 14:1; 20:⁠6.

Valdhafar jarðar safnast saman til „stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ sem er nefnt Harmagedón. Þeir berjast við þann sem situr á hvíta hestinum, Jesú sem er í forystu fyrir himneskum hersveitum. Öllum valdhöfum þessa heims er útrýmt. Satan er bundinn og Jesús ríkir í „þúsund ár“ ásamt 144.000 meðstjórnendum sínum. Þegar þúsund árin eru á enda er Satan tortímt. — Opinberunarbókin 16:14; 20:⁠4.

Hvað hefur þúsund ára stjórn Jesú og meðstjórnenda hans í för með sér fyrir hlýðna menn? Jóhannes skrifar: „[Jehóva] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:⁠4) Jörðin verður paradís!

Í Opinberunarbókinni kemur fram hvernig fyrirætlun Guðs nær endanlega fram að ganga. Fyrir atbeina Messíasarríkisins er nafn Jehóva helgað og drottinvald hans staðfest um alla eilífð!

— Byggt á Opinberunarbókinni.