22. KAFLI
Postularnir prédika djarfmannlega
Kristni söfnuðurinn vex hratt þrátt fyrir ofsóknir.
TÍU dögum eftir að Jesús steig upp til himna safnast saman um 120 lærisveinar í húsi einu í Jerúsalem. Þetta er sama dag og Gyðingar halda hvítasunnuhátíðina árið 33. Skyndilega heyrist gnýr eins og óveður sé að skella á og fyllir húsið. Lærisveinarnir taka á undraverðan hátt að tala ýmis tungumál sem þeir þekktu ekki fyrir. Hver var skýringin á þessum undarlega atburði? Hún var sú að Guð hafði gefið lærisveinunum heilagan anda.
Mikill mannfjöldi er staddur fyrir utan húsið því að fólk hafði komið frá mörgum löndum til að halda hátíðina. Menn eru forviða að heyra lærisveina Jesú tala reiprennandi á þeirra tungu. Pétur skýrir þennan atburð fyrir fjöldanum og bendir á spádóm Jóels þar sem segir að Guð myndi „úthella“ anda sínum og þeir sem fengju hann myndu fá undraverða hæfileika. (Jóel 3:1, 2) Þetta er óhrekjandi vitnisburður þess að mikilvæg breyting hafi átt sér stað. Guð var ekki lengur með Ísrael heldur studdi hinn nýstofnaða kristna söfnuð. Þeir sem vildu þjóna Guði í samræmi við vilja hans urðu nú að fylgja Kristi.
Andstaðan gegn kristna söfnuðinum færist í aukana og lærisveinunum er varpað í fangelsi. Um nóttina opnar engill Jehóva fangelsisdyrnar og segir þeim að halda áfram að prédika. Og það gera þeir. Í dögun ganga þeir í musterið og taka að boða fagnaðarerindið um Jesú. Trúarlegir fjandmenn þeirra eru ævareiðir og skipa þeim að hætta. En postularnir svara djarfmannlega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:28, 29.
Ofsóknirnar stigmagnast. Nokkrir Gyðingar saka lærisveininn Stefán um guðlast og grýta hann til bana. Ungur maður, Sál frá Tarsus, er vitni að morðinu og lætur sér það vel líka. Hann heldur síðan áleiðis til Damaskus til að handtaka fylgjendur Krists. Á leiðinni leiftrar ljós af himni og hann heyrir rödd sem segir: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Ljósið blindar Sál og hann spyr: „Hver ert þú?“ Þá er svarað: „Ég er Jesús.“ — Postulasagan 9:3-5.
Þrem dögum síðar sendir Jesús lærisvein sem heitir Ananías til að gefa Sál sjónina aftur. Sál lætur skírast og tekur að prédika með djörfung að Jesús sé sonur Guðs. Sál er síðar þekktur sem Páll postuli og reynist ötull og kappsamur trúboði kristna safnaðarins.
Fram til þessa höfðu lærisveinar Jesú aðeins boðað fagnaðarerindið um ríki Guðs meðal Gyðinga og Samverja. Engill birtist nú Kornelíusi en hann er guðhræddur rómverskur liðsforingi. Engillinn segir honum að senda eftir Pétri postula. Pétur og nokkrir fleiri fara til Kornelíusar og Pétur prédikar fyrir honum og heimilisfólki hans. Meðan Pétur er enn að tala kemur heilagur andi yfir þessa heiðingja, sem hafa tekið trú, og postulinn lætur skíra þá í nafni Jesú. Leiðin til eilífs lífs er nú opin fólki af öllum þjóðum. Söfnuðurinn er reiðubúinn að boða fagnaðarerindið vítt og breitt.
— Byggt á Postulasögunni 1:1–11:21.