Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Kæru bræður og systur:

Kærleikur til Guðs og náungans hvetur okkur til að ‚gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum og skíra það‘. (Matt. 28:19, 20; Mark. 12:28–31) Óeigingjarn kærleikur býr yfir krafti og hreyfir við hjörtum þeirra ‚sem hafa það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘. – Post. 13:48.

Áður lögðum við áherslu á að læra kynningar og skilja eftir rit. Nú þurfum við að bæta samræðulistina. Við viljum sýna öðrum kærleika með því að tala um málefni sem liggja þeim á hjarta. Það þýðir að við þurfum að vera sveigjanleg og miða umræður okkar út frá einstaklingnum, áhyggjum hans og hugðarefnum. Hvernig getur þessi bæklingur hjálpað okkur við það?

Bæklingurinn skiptist í 12 kafla. Hver kafli leggur áherslu á ákveðinn eiginleika sem við þurfum að rækta með okkur til að vera kærleiksrík þegar við gerum fólk að lærisveinum. Kaflarnir sýna hver um sig hvernig Jesús eða aðrir boðberar fagnaðarboðskaparins á fyrstu öld sýndu þennan eiginleika í boðuninni. Markmiðið er ekki að læra kynningar utanbókar heldur að leita leiða til að sýna fólki kærleika. Þótt þessir eiginleikar eigi alltaf við í boðuninni skoðum við hvernig sumir þeirra eru sérstaklega gagnlegir þegar við hefjum samræður, förum í endurheimsóknir og höldum biblíunámskeið.

Við lestur hvers kafla skaltu hugleiða vel hvernig þú getur sýnt umræddan eiginleika þegar þú talar við fólk í nágrenni við þig. Leitastu við að dýpka kærleika þinn til Jehóva og fólks almennt. Kærleikurinn er áhrifaríkari en nokkur tækni og hann mun hjálpa þér að gera fólk að lærisveinum en það er aðalmarkmið okkar.

Það er okkur mikið gleðiefni að vinna ykkur við hlið. (Sef. 3:9) Megi Jehóva blessa ykkur ríkulega þegar þið haldið áfram að elska fólk og gera það að lærisveinum.

Bræður ykkar,

stjórnandi ráð Votta Jehóva.