Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. KAFLI

Farið og gerið fólk að lærisveinum

Farið og gerið fólk að lærisveinum

Hvað getur bóndi gert ef uppskeran er meiri en svo að hann ráði við að safna henni einsamall?

1–3. (a) Hvað gerir bóndi ef uppskeran er meiri en svo að hann geti safnað henni einn? (b) Hvaða vandi er Jesú á höndum vorið 33 og hvernig bregst hann við?

 BÓNDANUM er vandi á höndum. Nokkrum mánuðum áður hafði hann plægt akrana og sáð í þá. Hann hafði fylgst af natni með því hvernig fyrstu gróðurvísarnir skutu upp kollinum og glaðst yfir því að sjá plönturnar vaxa og þroskast. Nú hefur hann fengið umbun erfiðis síns því að uppskerutíminn er genginn í garð. En vandinn er sá að uppskeran er meiri en svo að hann geti safnað henni einn. Hann tekur þá skynsamlegu ákvörðun að ráða nokkra verkamenn og senda þá út á akrana. Tíminn til að safna uppskerunni er naumur.

2 Hinum upprisna Jesú er svipaður vandi á höndum vorið 33. Hann hafði sáð sæði sannleikans meðan hann prédikaði hér á jörð. Nú er komið að því að skera upp og uppskeran er mikil. Margir hafa tekið við því sem hann boðaði og nú þarf að safna saman nýju lærisveinunum. (Jóhannes 4:35–38) Hvernig bregst Jesús við þessum vanda? Á fjalli í Galíleu, skömmu áður en hann stígur upp til himna, gefur hann lærisveinunum fyrirmæli um að finna fleiri verkamenn. Hann segir: „Farið því og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum, skírið það … og kennið því að halda öll fyrirmæli mín.“ – Matteus 28:19, 20.

3 Þessi fyrirmæli lýsa í hnotskurn hvað er fólgið í því að vera fylgjandi Krists. Við skulum nú leita svara við þrem spurningum: Af hverju gaf Jesús fyrirmæli um að kallaðir væru til fleiri verkamenn? Hvernig bjó hann lærisveinana undir að finna þá? Hvernig ná fyrirmæli hans til okkar?

Hvers vegna vantaði fleiri verkamenn?

4, 5. Af hverju gat Jesús ekki lokið því verki sem hann hóf og hverjir yrðu að halda því áfram eftir að hann sneri til himna?

4 Þegar Jesús tók að boða fagnaðarboðskapinn árið 29 vissi hann að hann var að hefja starf sem hann myndi ekki geta lokið einsamall. Á þeim stutta tíma sem hann átti eftir á jörðinni voru því takmörk sett hve stórt svæði hann komst yfir og fyrir hve mörgum hann gat prédikað boðskapinn um ríkið. Hann prédikaði að vísu aðallega fyrir Gyðingum og trúskiptingum, ‚týndum sauðum af ætt Ísraels‘. (Matteus 15:24) Hins vegar voru þessir ‚týndu sauðir‘ dreifðir um Ísrael þvert og endilangt, um landsvæði sem var þúsundir ferkílómetra. Auk þess þurfti að boða fagnaðarboðskapinn um allan heim þegar fram liðu stundir. – Matteus 13:38; 24:14.

5 Jesús vissi að mikið yrði ógert eftir dauða sinn. Hann sagði 11 trúföstum postulum sínum: „Ég segi ykkur með sanni: Hver sem trúir á mig mun vinna sömu verk og ég, og hann mun vinna enn meiri verk því að ég fer til föðurins.“ (Jóhannes 14:12) Þar eð sonurinn myndi snúa til himna yrðu fylgjendur hans – ekki aðeins postularnir heldur allir væntanlegir lærisveinar – að halda áfram að boða og kenna. (Jóhannes 17:20) Jesús viðurkenndi með auðmýkt að þeir myndu vinna „meiri verk“ en hann. Hvernig þá?

6, 7. (a) Í hvaða skilningi myndu fylgjendur Jesú vinna meiri verk en hann? (b) Hvernig getum við sýnt að við verðskuldum það traust sem Jesús sýndi fylgjendum sínum?

6 Fylgjendur Jesú myndu vinna meiri verk en hann í þrennum skilningi. Í fyrsta lagi myndu þeir fara yfir stærra svæði. Núna hafa þeir náð til endimarka jarðar, langt út fyrir landamæri Ísraels þar sem Jesús prédikaði. Í öðru lagi myndu þeir ná til fleira fólks. Jesús skildi eftir sig fámennan hóp lærisveina en áður en langt um leið skiptu þeir þúsundum. (Postulasagan 2:41; 4:4) Núna teljast þeir í milljónum og á ári hverju skírast hundruð þúsunda nýrra lærisveina. Í þriðja lagi myndu þeir prédika lengur, allt fram á þennan dag, næstum 2.000 árum eftir að Jesús lauk þjónustu sinni sem stóð yfir í þrjú og hálft ár.

7 Jesús lét í ljós að hann treysti fylgjendum sínum þegar hann sagði að þeir myndu „vinna enn meiri verk“ en hann. Hann fól þeim á hendur verkefni sem skipti hann afar miklu máli, það að prédika „fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs“ og kenna nýjum lærisveinum. (Lúkas 4:43) Hann var sannfærður um að þeir myndu sinna því af trúmennsku. Hvað þýðir það fyrir okkur? Þegar við boðum fagnaðarboðskapinn dyggilega og af heilum hug sýnum við að við verðskuldum það traust sem Jesús sýndi fylgjendum sínum. Er það ekki mikill heiður? – Lúkas 13:24.

Hann kenndi þeim að boða trúna

Við prédikum hvar sem fólk er að finna vegna þess að við elskum náungann.

8, 9. Hvernig starfaði Jesús og hvernig getum við líkt eftir honum þegar við boðum fagnaðarboðskapinn?

8 Jesús undirbjó lærisveinana sem best hann gat fyrir boðunarstarfið, ekki síst með fullkomnu fordæmi sínu. (Lúkas 6:40) Í kaflanum á undan var fjallað um afstöðu hans til boðunarstarfsins. Setjum okkur eitt andartak í spor lærisveinanna sem voru samferða honum þegar hann fór um og boðaði fagnaðarboðskapinn. Þeir sáu hann prédika fyrir fólki hvar sem það var að finna – niður við vötn, uppi í hlíðum, í borgum, á markaðstorgum og á heimilum. (Matteus 5:1, 2; Lúkas 5:1–3; 8:1; 19:5, 6) Þeir sáu að hann var harðduglegur. Hann fór snemma á fætur og var að langt fram á kvöld. Boðunarstarfið var ekkert tómstundagaman hjá honum. (Lúkas 21:37, 38; Jóhannes 5:17) Eflaust hafa þeir skynjað að það var djúpstæður kærleikur til fólks sem hvatti hann til verka. Ef til vill sáu þeir svip hans endurspegla umhyggjuna sem bjó í hjarta hans. (Markús 6:34) Hvaða áhrif heldurðu að fordæmi Jesú hafi haft á lærisveinana? Hvaða áhrif hefði það haft á þig?

9 Við reynum að líkja eftir Jesú þegar við boðum fagnaðarboðskapinn. Þess vegna gerum við okkar ýtrasta til að vitna fyrir fólki og útskýra boðskapinn vandlega fyrir því. (Postulasagan 10:42) Við förum heim til fólks líkt og Jesús gerði. (Postulasagan 5:42) Við lögum okkur að aðstæðum eftir því sem þörf krefur til að geta bankað upp á hjá fólki þegar líklegast er að það sé heima. Við reynum líka að taka fólk tali á almannafæri og vitna háttvíslega – á götum úti, í almenningsgörðum, í verslunum og á vinnustað. Við leggjum hart að okkur í boðunarstarfinu vegna þess að við tökum þetta verkefni alvarlega. (1. Tímóteusarbréf 4:10) Innilegur kærleikur til náungans er okkur hvöt til að leita færis að prédika hvenær sem er og hvar sem fólk er að finna. – 1. Þessaloníkubréf 2:8.

„Þeir 70 sneru nú aftur fagnandi.“

10–12. Hvað kenndi Jesús lærisveinunum áður en hann sendi þá út til að prédika?

10 Jesús undirbjó lærisveinana sömuleiðis fyrir boðunarstarfið með því að kenna þeim ítarlega hvernig þeir ættu að fara að. Áður en hann sendi postulana 12 út til að prédika, og síðan lærisveinana 70, kallaði hann þá saman og gaf þeim nákvæmar leiðbeiningar. (Matteus 10:1–15; Lúkas 10:1–12) Kennslan skilaði sér því að sagt er svo frá í Lúkasarguðspjalli 10:17 að þeir 70 hafi snúið aftur „fagnandi“. Lítum nánar á tvennt sem Jesús kenndi þeim og höfum hugfast að skilja verður orð hans í ljósi hefða og siða meðal Gyðinga á þeim tíma.

11 Jesús kenndi lærisveinunum að treysta á Jehóva. Hann sagði við þá: „Útvegið ykkur ekki gull, silfur eða kopar til að hafa í peningabelti ykkar og takið ekki nestispoka til ferðarinnar, föt til skiptanna, sandala eða staf því að verkamaðurinn verðskuldar mat sinn.“ (Matteus 10:9, 10) Ferðalangar tóku gjarnan með sér lausafé, poka undir vistir og aukaskó. a Þegar Jesús segir lærisveinunum að gera sér ekki áhyggjur af slíku er hann í rauninni að segja þeim að treysta algerlega á Jehóva í þeirri vissu að hann sjái þeim farborða. Jehóva myndi sjá fyrir þörfum þeirra á þann hátt að þeir sem tækju við fagnaðarboðskapnum myndu sýna þeim gestrisni eins og venja var í Ísrael. – Lúkas 22:35.

12 Jesús kenndi lærisveinunum einnig að þeir ættu ekki að láta trufla sig eða tefja að óþörfu. Hann sagði: „Heilsið engum á leiðinni.“ (Lúkas 10:4) Áttu þeir að vera kuldalegir eða fálátir? Alls ekki. Á biblíutímanum lét fólk sér ekki nægja að kasta stuttri kveðju hvað á annað. Hefðbundnar kveðjur fólu í sér ýmiss konar siðvenjur og langar samræður. Biblíufræðingur segir: „Kveðjur meðal Austurlandabúa voru meira en örlítil hneiging eða handaband eins og við erum vön. Menn föðmuðust og hneigðu sig margsinnis og lögðust jafnvel flatir á jörðina. Þetta var býsna tímafrekt.“ Þegar Jesús sagði lærisveinunum að forðast hefðbundnar kveðjur var hann í rauninni að benda þeim á að nota tímann sem best því að boðskapur þeirra væri áríðandi. b

13. Hvernig getum við sýnt að við tökum til okkar þær leiðbeiningar sem Jesús gaf lærisveinum sínum á fyrstu öld?

13 Við tökum til okkar leiðbeiningar Jesú til lærisveina sinna á fyrstu öld. Við leggjum allt traust okkar á Jehóva þegar við boðum fagnaðarboðskapinn. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Við vitum að okkur mun aldrei skorta lífsnauðsynjar ef við einbeitum okkur „fyrst og fremst að ríki Guðs“. (Matteus 6:33) Út um allan heim geta boðberar í fullu starfi vitnað um að hönd Jehóva er aldrei stutt, ekki einu sinni þegar hart er í ári. (Sálmur 37:25) Við gerum okkur einnig grein fyrir því að við megum ekki láta neitt glepja okkur sýn. Ef við erum ekki á verði gæti heimurinn umhverfis hæglega beint okkur út af réttri braut. (Lúkas 21:34–36) En nú er ekki rétti tíminn til að láta trufla sig eða tefja. Boðskapur okkar er áríðandi því að mannslíf eru í húfi. (Rómverjabréfið 10:13–15) Ef við höfum alltaf efst í huga á hvaða tímum við lifum látum við heiminn ekki glepja okkur sýn því að það myndi kosta okkur tíma og krafta sem væri betur varið í boðunarstarfinu. Höfum hugfast að tíminn er naumur og uppskeran er mikil. – Matteus 9:37, 38.

Verkefni sem við eigum aðild að

14. Af hverju má sjá að fyrirmælin í Matteusi 28:18–20 ná til allra fylgjenda Krists? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

14 Með orðunum „farið því og gerið fólk … að lærisveinum“ lagði hinn upprisni Jesús mikla ábyrgð á herðar fylgjendum sínum. Hann var ekki aðeins að hugsa um lærisveinana sem voru með honum áðurnefndan vordag á fjallinu í Galíleu. c Verkið sem hann fól þeim að vinna nær til ‚fólks af öllum þjóðum‘ og það heldur áfram „allt þar til þessi heimsskipan endar“. Ljóst er því að fyrirmælin ná til allra fylgjenda hans, einnig okkar. Við skulum rýna betur í orð Jesú í Matteusi 28:18–20.

15. Af hverju er viturlegt af okkur að hlýða fyrirmælum Jesú um að gera fólk að lærisveinum?

15 Áður en Jesús gefur áðurnefnd fyrirmæli segir hann: „Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð.“ (Vers 18) Hefur Jesús svona gríðarlegt vald? Já, hann er erkiengillinn og ræður yfir miklum englasveitum. (1. Þessaloníkubréf 4:16; Opinberunarbókin 12:7) Hann er „höfuð safnaðarins“ og ríkir þar af leiðandi yfir fylgjendum sínum á jörðinni. (Efesusbréfið 5:23) Frá 1914 hefur hann stjórnað sem konungur Messíasarríkisins á himnum. (Opinberunarbókin 11:15) Vald hans nær meira að segja niður í gröfina því að hann hefur umboð til að reisa upp þá sem dánir eru. (Jóhannes 5:26–28) Með því að byrja á að lýsa yfir hve víðtækt vald hann hafi gefur Jesús til kynna að það sem á eftir komi sé ekki tillaga heldur fyrirskipun. Það er viturlegt af okkur að hlýða honum því að hann hefur ekki tekið sér þetta vald sjálfur heldur fékk hann það frá Guði. – 1. Korintubréf 15:27.

16. Til hvers ætlast Jesús af okkur þegar hann segir „farið“ og hvernig innum við það af hendi?

16 Jesús tekur nú að lýsa verkefninu og byrjar á því að segja: „Farið.“ (Vers 19) Hann ætlast greinilega til þess að við eigum frumkvæðið að því að færa öðrum boðskapinn um ríkið. Við höfum svigrúm til að beita fjölbreyttum aðferðum í þessu starfi. Ein af áhrifaríkustu leiðunum til að hitta fólk augliti til auglitis er sú að prédika hús úr húsi. (Postulasagan 20:20) Við leitum einnig færis að vitna óformlega og erum meira en fús til að brydda upp á samræðum um fagnaðarboðskapinn hvenær sem við á í dagsins önn. Boðunaraðferðirnar geta verið breytilegar eftir þörfum og aðstæðum á hverjum stað en eitt breytist ekki: Við ‚förum‘ og leitum að hinum verðugu. – Matteus 10:11.

17. Hvernig gerum við fólk að lærisveinum?

17 Þessu næst útskýrir Jesús hvert sé markmið boðunarstarfsins. Við eigum að ‚gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum‘. (Vers 19) Hvernig förum við að því? Lærisveinn er nemandi, honum er kennt. En til að gera fólk að lærisveinum er ekki nóg að miðla þekkingu. Þegar við hjálpum áhugasömum að kynna sér Biblíuna er markmið okkar að stuðla að því að þeir gerist fylgjendur Krists. Hvenær sem færi gefst leggjum við áherslu á fordæmi Jesú þannig að nemendur okkar læri að líta á hann sem kennara sinn og fyrirmynd, læri að lifa eins og hann og vinna sama verk og hann. – Jóhannes 13:15.

18. Af hverju er skírn mikilvægasti áfanginn í lífi lærisveins?

18 Mikilvægur þáttur þess verkefnis sem Jesús fól fylgjendum sínum kemur fram í orðunum: „Skírið [fólk] í nafni föðurins, sonarins og heilags anda.“ (Vers 19) Skírnin er mikilvægasti áfanginn í lífi lærisveins vegna þess að hún er viðeigandi tákn þess að hann hafi vígst Guði af öllu hjarta. Skírnin er þess vegna nauðsynleg til að hljóta hjálpræði. (1. Pétursbréf 3:21) Skírður lærisveinn sem gerir sitt besta í þjónustu Jehóva á í vændum eilífa blessun í nýjum heimi framtíðarinnar. Hefurðu hjálpað einhverjum að verða skírður lærisveinn Jesú? Ekkert veitir meiri gleði í hinni kristnu þjónustu. – 3. Jóhannesarbréf 4.

19. Hvað kennum við nýjum lærisveinum og af hverju getur þurft að halda áfram að kenna þeim eftir að þeir skírast?

19 Síðan tekur Jesús fram hvað sé falið í verkefni þjóna sinna og segir: „Kennið [fólki] að halda öll fyrirmæli mín.“ (Vers 20) Við kennum nýjum að fara eftir boðum Jesú, þar á meðal boðinu um að elska Guð og náungann og gera aðra að lærisveinum. (Matteus 22:37–39) Við kennum þeim skref fyrir skref að skýra sannleika Biblíunnar fyrir öðrum og verja trú sína. Þegar þeir verða hæfir til að taka þátt í boðunarstarfinu störfum við með þeim og kennum þeim í orði og verki hvernig hægt er að ná árangri. Lærisveinn er ekki endilega fullnuma þegar hann lætur skírast. Hann getur þurft að fá kennslu enn um sinn til að taka á sig allt sem fylgir því að vera lærisveinn Krists. – Lúkas 9:23, 24.

„Ég er með ykkur alla daga“

20, 21. (a) Af hverju getum við fylgt fyrirmælum Jesú óhrædd? (b) Hvers vegna megum við ekki slá slöku við og í hverju ættum við að vera staðráðin?

20 Lokaorð Jesú eru einkar hughreystandi. Hann segir: „Munið að ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ (Matteus 28:19, 20) Jesús veit að hann er að fela lærisveinum sínum afar mikilvægt verkefni. Hann veit líka að þeir geta búist við fjandsamlegum viðbrögðum af hendi andstæðinga. (Lúkas 21:12) En það er engin ástæða til að óttast. Leiðtogi okkar ætlast ekki til að við vinnum þetta verk ein og óstudd. Er ekki hughreystandi að hann sem hefur „allt vald á himni og jörð“ skuli vera með okkur og styðja okkur svo að við getum gert verkefni okkar skil?

21 Jesús fullvissaði lærisveinana um að hann myndi vera með þeim í starfi þeirra í aldanna rás, „allt þar til þessi heimsskipan endar“. En við verðum að halda áfram að vinna verkið samkvæmt fyrirmælum Jesú þar til endirinn kemur. Nú er ekki rétti tíminn til að slá slöku við. Mikið uppskerustarf er í gangi. Verið er að safna saman nýjum lærisveinum hópum saman. Við skulum vera staðráðin í að rísa undir þeirri miklu ábyrgð sem okkur hefur verið falin. Höldum einbeitt áfram að gefa af tíma okkar, kröftum og eigum til að fylgja skipun Krists: ‚Farið og gerið fólk að lærisveinum.‘

a Þegar talað er um peningabelti er hugsanlega átt við belti með vösum fyrir lausafé. Nestispokinn var notaður undir nesti og aðrar nauðsynjar. Hann var yfirleitt úr leðri og borinn um öxl.

b Elísa spámaður gaf einu sinni svipuð fyrirmæli. Þegar hann sendi þjón sinn Gehasí heim til konu sem hafði misst son sinn, sagði hann honum: „Ef þú mætir einhverjum skaltu ekki heilsa honum.“ (2. Konungabók 4:29) Erindið var brýnt og hann mátti ekki tefja að nauðsynjalausu.

c Þar eð flestir fylgjenda hans voru í Galíleu er hugsanlegt að atvikið sem sagt er frá í Matteusi 28:16–20 sé það sama og nefnt er í 1. Korintubréfi 15:6 þar sem segir að hinn upprisni Jesús hafi birst „meira en 500 lærisveinum“. Því má vera að hundruð lærisveina hafi verið viðstaddir þegar Jesús fól þeim það verkefni að gera fólk að lærisveinum.