Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

„Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann“

„Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann“

1, 2. (a) Hvers vegna komu mennirnir sem voru sendir til að handtaka Jesú tómhentir til baka? (b) Af hverju var Jesús framúrskarandi kennari?

 FARÍSEARNIR eru fokvondir. Jesús er í musterinu að kenna og fræða fólk um föður sinn. Áheyrendur skiptast í tvo hópa. Margir trúa á Jesú en aðrir vilja láta taka hann höndum. Trúarleiðtogarnir hafa ekki hemil á reiði sinni og senda menn til að handtaka hann. En mennirnir koma tómhentir til baka. Æðstuprestarnir og farísearnir krefja þá skýringar: „Af hverju komuð þið ekki með hann?“ Mennirnir svara: „Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann.“ Svo hrifnir voru þeir af kennslu Jesú að þeir fengu sig ekki til að handtaka hann. aJóhannes 7:45, 46.

2 Þessir menn voru ekki þeir einu sem hrifust af kennslu Jesú. Fólk safnaðist saman í stórum hópum til að heyra hann kenna. (Markús 3:7, 9; 4:1; Lúkas 5:1–3) Af hverju var Jesús framúrskarandi kennari? Eins og fram kom í 8. kafla elskaði hann sannleikann sem hann kenndi og sömuleiðis fólkið sem hlýddi á. Hann var einnig afburðasnjall kennari. Lítum á þrjár áhrifaríkar aðferðir sem hann notaði og könnum hvernig við getum líkt eftir þeim.

Einföld kennsla

3, 4. (a) Af hverju notaði Jesús einfalt mál þegar hann kenndi? (b) Hvernig er fjallræðan dæmi um það hve Jesús kenndi á einfaldan hátt?

3 Við getum rétt ímyndað okkur hvílíkan orðaforða Jesús hefði getað notað. Þegar hann kenndi gætti hann þess hins vegar að vera ekki svo háfleygur að áheyrendur skildu hann ekki en margir þeirra voru „ómenntaðir almúgamenn“. (Postulasagan 4:13) Hann tók tillit til takmarka þeirra og kaffærði þá aldrei í of miklum upplýsingum. (Jóhannes 16:12) Hann notaði einföld orð til að kenna djúpstæð sannindi.

4 Lítum á fjallræðuna sem dæmi en hana er að finna í Matteusi 5:3–7:27. Ráð Jesú voru djúphugsuð og komust að kjarna málsins. Í ræðunni eru hvorki torskildar hugmyndir né flókið tungutak. Varla er að finna þar orð sem barn á ekki auðvelt með að skilja. Það kemur því ekki á óvart að í lok ræðunnar „var mannfjöldinn agndofa yfir kennslu hans“, og þar á meðal var trúlega fjöldi bænda, fjárhirða og fiskimanna. – Matteus 7:28.

5. Nefndu dæmi um orð Jesú sem voru í senn einföld en innihaldsrík.

5 Jesús talaði oft í stuttum og einföldum setningum og mælti fram hnitmiðuð og innihaldsrík sannindi. Með meitluðum orðum festi hann boðskap sinn í hugum og hjörtum áheyrenda, löngu áður en bækur urðu almenningseign. Tökum nokkur dæmi: „Hættið að dæma svo að þið verðið ekki dæmd.“ „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ „Andinn er ákafur en holdið er veikt.“ „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ b (Matteus 7:1; 9:12; 26:41; Markús 12:17; Postulasagan 20:35) Þessi orð eru jafn minnisstæð núna og þau voru þegar Jesús sagði þau fyrir nálega 2.000 árum.

6, 7. (a) Af hverju þurfum við að nota auðskilið mál þegar við kennum? (b) Hvernig getum við gætt þess að kaffæra ekki nemandann í of miklum upplýsingum?

6 Hvernig getum við kennt á einfaldan hátt? Eitt mikilvægt skilyrði er að nota hversdagslegt mál sem flestir eiga auðvelt með að skilja. Undirstöðukenningar Biblíunnar eru ekki flóknar. Jehóva hefur opinberað fyrirætlanir sínar einlægu og auðmjúku fólki. (1. Korintubréf 1:26–28) Með einföldum og vel völdum orðum er hægt að miðla sannleikanum í orði Guðs á áhrifaríkan hátt.

Hafðu kennsluna einfalda.

7 Til að kennsla okkar sé einföld þurfum við að gæta þess að kaffæra ekki biblíunemandann í of miklum upplýsingum. Þegar við höldum biblíunámskeið þurfum við ekki að útskýra hvert einasta smáatriði og það er ekki heldur nauðsynlegt að æða yfir efnið, rétt eins og aðalatriðið sé að komast sem hraðast yfir það. Það er skynsamlegt að láta þarfir og færni nemandans ráða ferðinni. Markmið okkar er að hjálpa nemandanum að fylgja Kristi og tilbiðja Jehóva. Við þurfum að gefa okkur þann tíma sem þarf til að nemandinn fái nægan skilning á efninu. Þá fyrst getur sannleikur Biblíunnar hreyft við hjarta hans og knúið hann til að fara eftir því sem hann hefur lært. – Rómverjabréfið 12:2.

Viðeigandi spurningar

8, 9. (a) Af hverju spurði Jesús spurninga? (b) Hvernig beitti Jesús spurningum til að hjálpa Pétri að komast að réttri niðurstöðu varðandi musterisskattinn?

8 Jesús beitti spurningum af mikilli leikni, jafnvel þó að það hefði stundum verið fljótlegra að segja fólki hreinlega það sem hann vildi koma á framfæri. Af hverju notaði hann þessa aðferð? Stundum spurði hann beinskeyttra spurninga til að afhjúpa hvað andstæðingum hans gekk til og þagga niður í þeim. (Matteus 21:23–27; 22:41–46) Oft beitti hann hins vegar spurningum til að fá lærisveinana til að segja hvað þeim bjó í brjósti og til að örva og þjálfa hugsun þeirra. Þess vegna spurði hann til dæmis: „Hvað haldið þið?“ og „trúirðu þessu?“ (Matteus 18:12; Jóhannes 11:26) Með spurningum sínum snerti Jesús hjörtu lærisveinanna. Lítum á dæmi.

9 Skattheimtumenn spurðu Pétur einu sinni hvort Jesús greiddi musterisskattinn. c Pétur játaði því um hæl. Rétt á eftir tók Jesús að rökræða við hann og spurði: „Hvað heldur þú, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar tolla eða skatta? Af sonum sínum eða öðrum?“ „Af öðrum,“ svaraði Pétur. „Þá eru synirnir undanþegnir skatti,“ sagði Jesús. (Matteus 17:24–27) Pétur skildi eflaust hvert Jesús var að fara því að alkunna var að fjölskyldur konunga voru undanþegnar skatti. Jesús var eingetinn sonur konungsins á himnum sem var tilbeðinn í musterinu og honum bar því engin skylda til að greiða musterisskattinn. Við tökum eftir að Jesús sagði ekki Pétri beint út hvert svarið væri heldur spurði spurninga af nærgætni til að hjálpa honum að komast að réttri niðurstöðu og kannski einnig til að minna hann á að hugsa sig betur um eftirleiðis áður en hann svaraði spurningum annarra.

Spyrðu spurninga í samræmi við þarfir húsráðanda.

10. Hvernig getum við beitt spurningum á áhrifaríkan hátt þegar við prédikum hús úr húsi?

10 Hvernig getum við beitt spurningum á áhrifaríkan hátt í boðunarstarfinu? Þegar við prédikum hús úr húsi getum við notað spurningar til að vekja áhuga og skapa okkur tækifæri til að segja frá fagnaðarboðskapnum. Segjum til dæmis að roskin manneskja komi til dyra. Þá gætum við spurt háttvíslega: „Hvernig hefur heimurinn breyst á þinni lífstíð?“ Eftir að hafa gefið kost á svari gætum við spurt: „Hvað heldurðu að þurfi til að bæta ástandið í heiminum?“ (Matteus 6:9, 10) Ef móðir með ung börn kemur til dyra mætti spyrja: „Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvernig heimurinn verði þegar börnin þín vaxa úr grasi?“ (Sálmur 37:10, 11) Með því að hafa augun opin þegar við göngum að húsi getum við ef til vill undirbúið spurningu sem er sniðin að þörfum húsráðandans.

11. Hvernig getum við beitt spurningum þegar við höldum biblíunámskeið?

11 Hvernig getum við beitt spurningum þegar við höldum biblíunámskeið? Með vel völdum spurningum getum við ef til vill fengið nemandann til að tjá hvað honum finnst. (Orðskviðirnir 20:5) Segjum til dæmis að við séum að fara yfir kafla 43, „Hvernig ættum við að líta á áfengi?“, í bókinni Von um bjarta framtíð. d Í kaflanum er fjallað um afstöðu Guðs til drykkjusakapar og ofdrykkju. Af svörum nemandans má kannski ráða að hann skilji hvað Biblían kennir en er hann sammála því sem hann er að læra? Við gætum spurt: „Finnst þér afstaða Guðs í slíkum málum skynsamleg?“ Eða: „Hvernig geturðu farið eftir þessum upplýsingum?“ Hafðu samt hugfast að þú þarft að vera háttvís og sýna nemandanum tilhlýðilega virðingu. Ekki viljum við gera hann vandræðalegan að nauðsynjalausu með spurningum okkar. – Orðskviðirnir 12:18.

Sterk rökfærsla

12–14. (a) Hvernig beitti Jesús rökvísi sinni? (b) Hvaða sterku rökum beitti Jesús þegar farísearnir sögðu að hann fengi mátt sinn frá Satan?

12 Hugur Jesú var fullkominn og hann var snillingur í að rökræða við fólk. Stundum notaði hann sterk rök til að hrekja rangar ásakanir óvina sinna. Oft beitti hann sannfærandi rökfærslu til að kenna fylgjendum sínum mikilvæg sannindi. Lítum á nokkur dæmi.

13 Einu sinni læknaði Jesús mann sem var haldinn illum anda og var bæði blindur og mállaus. Þá sögðu farísearnir: „Þessi maður rekur ekki út illa anda nema með hjálp Beelsebúls [Satans], höfðingja illu andanna.“ Þeir viðurkenndu með nokkurri tregðu að það þyrfti ofurmannlegt afl til að reka út illa anda en sögðu Jesú fá krafti sinn frá Satan. Þetta var bæði röng og órökrétt ásökun. Jesús afhjúpaði rökvillu þeirra og svaraði: „Hvert það ríki sem er sundrað líður undir lok og engin borg eða fjölskylda sem er sundruð fær staðist. Ef Satan rekur Satan út hefur hann snúist gegn sjálfum sér. Hvernig getur ríki hans þá staðist?“ (Matteus 12:22–26) Jesús sagði efnislega: „Ef ég væri útsendari Satans og ynni gegn honum væri Satan að vinna gegn sjálfum sér og myndi falla innan skamms.“ Hvernig gátu þeir andmælt þessum sterku rökum?

14 Jesús var ekki skilinn að skiptum við þá. Hann vissi að sumir af lærisveinum faríseanna höfðu rekið út illa anda og bar fram einfalda en mergjaða spurningu: „Ef ég rek út illu andana með hjálp Beelsebúls, hver hjálpar þá fylgjendum ykkar að reka þá út?“ (Matteus 12:27) Rök Jesú voru efnislega þessi: „Ef ég rek út illa anda með krafti Satans hljóta lærisveinar ykkar að beita sama krafti til þess.“ Hvað gátu farísearnir sagt? Ekki gátu þeir viðurkennt að lærisveinar þeirra störfuðu undir áhrifum Satans. Jesús notaði rök sjálfra þeirra til að láta þá komast að niðurstöðu sem þeim þótti harla óþægileg. Er ekki heillandi að lesa hvernig Jesús rökræddi við þá? En hugsaðu þér hvernig mannfjöldanum á staðnum hlýtur að hafa verið innanbrjósts því að nærvera Jesú og raddblær hefur áreiðanlega gert orð hans enn áhrifameiri.

15–17. Lýstu með dæmi hvernig Jesús notaði orðalagið „hlýtur hann miklu frekar“ til að kenna hjartnæm sannindi um föður sinn.

15 Jesús beitti sömuleiðis sannfærandi rökum til að kenna áheyrendum hjartnæm sannindi um föður sinn. Oft notaði hann orðalagið „hlýtur hann miklu frekar“ í rökfærslu sinni til að styrkja sannfæringu þeirra. e Þessi rökfærsla er byggð á því að bregða upp andstæðum milli almennra sanninda og einhvers annars, og hún getur verið einstaklega áhrifarík. Lítum á tvö dæmi.

16 Þegar lærisveinar Jesú báðu hann að kenna sér að biðja tók hann dæmi af ófullkomnum mennskum foreldrum sem gefa börnum sínum „góðar gjafir“. Síðan sagði hann: „Fyrst þið, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir hlýtur faðirinn á himnum miklu frekar að gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ (Lúkas 11:1–13) Jesús byggir rökfærslu sína á andstæðum. Fyrst syndugir mennskir foreldrar annast þarfir barna sinna hlýtur fullkominn og réttlátur faðir á himnum þeim mun frekar að veita dyggum dýrkendum sínum heilagan anda þegar þeir biðja auðmjúklega til hans.

17 Jesús notaði svipaða rökfærslu þegar hann ráðlagði áheyrendum sínum að vera ekki áhyggjufullir. Hann sagði: „Hugsið til hrafnanna: Þeir sá hvorki né uppskera og hafa hvorki forðabúr né hlöður en Guð fóðrar þá samt. Eruð þið ekki miklu meira virði en fuglar? Hugsið til þess hvernig liljurnar vaxa. Þær vinna hvorki né spinna … Fyrst Guð prýðir þannig gróðurinn á vellinum sem stendur í dag og er kastað í ofn á morgun hlýtur hann miklu frekar að klæða ykkur, þið trúlitlu.“ (Lúkas 12:24, 27, 28) Fyrst Jehóva annast fuglana og blómin hlýtur hann þeim mun fremur að láta sér annt um menn sem elska hann og tilbiðja! Með rökfærslu af þessu tagi hefur Jesús áreiðanlega hreyft við hjörtum áheyrenda sinna.

18, 19. Hvernig gætum við rökrætt við manneskju sem segist ekki trúa á Guð af því að hún sér hann ekki?

18 Við viljum nota góð og sterk rök í boðunarstarfinu til að hrekja rangar trúarskoðanir. Við viljum líka nota sannfærandi rök til að koma á framfæri jákvæðum sannindum um Jehóva. (Postulasagan 19:8; 28:23, 24) Þurfum við þá að læra að beita flókinni rökfræði? Nei, við lærum af Jesú að einföldustu rökin eru oft áhrifaríkust.

19 Tökum dæmi: Hvað gætum við sagt ef viðmælandi okkar segist ekki trúa á Guð af því að hann sér hann ekki? Við gætum rökrætt út frá náttúrulögmálinu um orsök og afleiðingu. Þegar við sjáum ákveðna afleiðingu vitum við að hún hlýtur að eiga sér orsök. Við gætum kannski sagt: „Segjum að þú værir staddur á afskekktum slóðum og gengir fram á vandað hús sem væri vel birgt af matvælum (afleiðing). Myndirðu þá ekki fallast á að einhver (orsök) hljóti að hafa byggt það og fyllt búrið? Nú sjáum við ótal dæmi um hönnun í náttúrunni og miklar nægtir matvæla í forðabúri jarðar (afleiðing). Er þá ekki rökrétt að einhver (orsök) standi á bak við það? Í Biblíunni er rökrætt á þessum nótum: ‚Öll hús eru auðvitað byggð af einhverjum en Guð er sá sem hefur gert allt.‘“ (Hebreabréfið 3:4) En auðvitað láta ekki allir sannfærast þó að þú beitir sterkum rökum. – 2. Þessaloníkubréf 3:2.

Beittu rökum sem ná til hjarta viðmælandans.

20, 21. (a) Hvernig getum við brugðið upp andstæðum til að leggja áherslu á eiginleika og starfshætti Jehóva? (b) Um hvað er fjallað í næsta kafla?

20 Þegar við kennum, hvort sem það er í boðunarstarfinu eða söfnuðinum, getum við líka brugðið upp andstæðum til að leggja áherslu á eiginleika Jehóva og lýsa starfsháttum hans. Segjum til dæmis að við viljum sýna fram á að kenningin um eilífar kvalir í eldum helvítis vanvirði Jehóva. Þá gætum við sagt: „Ætli nokkur faðir myndi refsa barni með því að stinga hendi þess í eld? Kærleiksríkum föður á himnum hlýtur að þykja hugmyndin um vítiseld enn andstyggilegri!“ (Jeremía 7:31) Til að fullvissa niðurdreginn trúbróður um að Jehóva elski hann gætum við sagt: „Fyrst Jehóva þykir vænt um lítinn spörfugl hlýtur honum að þykja enn vænna um hvern einasta tilbiðjanda sinn á jörð, þar á meðal þig.“ (Matteus 10:29–31) Með rökfærslu af þessu tagi getum við ef til vill snert hjörtu annarra.

21 Við höfum aðeins litið á þrjár af kennsluaðferðum Jesú en ljóst er að mennirnir sem hættu við að handtaka hann tóku alls ekki of djúpt í árinni þegar þeir sögðu: „Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann.“ Í næsta kafla skoðum við þá kennsluaðferð sem Jesús er sennilega þekktastur fyrir, það er að segja líkingar og dæmisögur.

a Menn þessir voru líklega í þjónustu Æðstaráðsins og heyrðu undir æðstuprestana.

b Páll postuli er sá eini sem vitnar í síðasta dæmið en það er að finna í Postulasögunni 20:35. Hugsanlegt er að hann hafi það eftir öðrum (sem heyrði Jesú segja það), hann hafi heyrt það beint af munni hins upprisna Jesú eða Guð hafi opinberað honum það.

c Gyðingar áttu að greiða tvær drökmur árlega í musterisskatt en það samsvaraði um það bil tveggja daga vinnulaunum. Heimildarrit segir: „Þessi skattur var aðallega notaður til að standa undir kostnaði við hina daglegu brennifórn og allar aðrar fórnir sem færðar voru í nafni þjóðarinnar almennt.“

d Gefin út af Vottum Jehóva.

e Rökfærsla af þessu tagi er stundum kölluð a fortiori en þetta er latína og merkir ‚af enn ríkari ástæðu; enn öruggari; þeim mun frekar‘.