Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

10. KAFLI

„Skrifað stendur“

„Skrifað stendur“

„Í dag hefur ræst þessi ritningarstaður.“

1–3. Að hvaða mikilvægu niðurstöðu vill Jesús að Nasaretbúar komist og hvaða rök ber hann fram?

 ÞETTA er skömmu eftir að Jesús hóf starf sitt. Hann er kominn aftur heim til Nasaret þar sem hann ólst upp. Markmið hans er að hjálpa fólki að komast að þeirri mikilvægu niðurstöðu að hann sé hinn langþráði Messías. Hvernig sýnir hann fram á það?

2 Margir búast eflaust við að hann vinni kraftaverk enda hafa þeir frétt af undraverðum verkum sem hann hefur unnið annars staðar. En hann gefur þeim ekkert slíkt tákn heldur leggur leið sína í samkunduhúsið eins og hann er vanur. Þar stendur hann upp til að lesa og honum er fengin bók Jesaja spámanns. Þetta er löng bókrolla og Jesús vefur stranganum varlega milli keflanna þangað til hann finnur staðinn sem hann leitar að. Síðan les hann upphátt úr bókinni þar sem nú er 61. kafli, vers 1–3. – Lúkas 4:16–19.

3 Áheyrendur þekkja vafalaust þessa ritningargrein. Þetta er spádómur um Messías. Allir í samkundunni einblína á Jesú. Grafarþögn ríkir. Jesús tekur nú að skýra ritningarorðin, ef til vill í alllöngu máli: „Í dag hefur ræst þessi ritningarstaður sem þið heyrðuð.“ Áheyrendur undrast hugnæm orð hans en greinilegt er að margir vilja eftir sem áður sjá hann gera tilkomumikið tákn. Jesús tekur hins vegar dæmi úr Ritningunni til að afhjúpa vantrú þeirra. Áður en langt um líður reyna borgarbúar að ráða honum bana! – Lúkas 4:20–30.

4. Hvaða aðferð beitti Jesús meðan hann þjónaði á jörðinni og hvað könnum við í þessum kafla?

4 Jesús beitti hér aðferð sem hann fylgdi meðan hann þjónaði á jörðinni. Hann reiddi sig á innblásið orð Guðs. Kraftaverkin voru vissulega mikilvæg til að sýna fram á að andi Guðs væri með honum en ekkert var samt þýðingarmeira í huga Jesú en Heilög ritning. Kynnum okkur nánar fordæmi hans á þessu sviði. Við skulum kanna hvernig meistari okkar vitnaði í orð Guðs, varði það og skýrði.

Hann vitnaði í orð Guðs

5. Hvað vildi Jesús sýna áheyrendum sínum fram á og hvernig gerði hann það?

5 Jesús vildi að fólki vissi hvaðan boðskapur hans væri kominn. Hann sagði: „Það sem ég kenni kemur ekki frá mér heldur þeim sem sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Öðru sinni sagði hann: „Ég geri ekkert að eigin frumkvæði heldur tala það sem faðirinn kenndi mér.“ (Jóhannes 8:28) Og sömuleiðis sagði hann: „Það sem ég segi ykkur eru ekki mínar eigin hugmyndir heldur er faðirinn, sem er sameinaður mér, að vinna verk sín.“ (Jóhannes 14:10) Jesús sýndi meðal annars fram á réttmæti þessara orða með því að vitna ríkulega í ritað orð Guðs.

6, 7. (a) Hve mikið vitnaði Jesús í Hebresku ritningarnar og af hverju er það athyglisvert? (b) Hvernig var kennsla Jesú ólík kennslu fræðimannanna?

6 Nákvæm skoðun á þeim orðum sem höfð eru eftir Jesú leiðir í ljós að hann vitnaði beint eða óbeint í meira en helminginn af bókum Hebresku ritninganna. Það virðist ef til vill ekki ýkja merkilegt við fyrstu sýn. Þér er kannski spurn hvers vegna hann hafi ekki, á þeim þrem og hálfu ári sem hann kenndi og prédikaði meðal almennings, vitnað í allar hinar innblásnu bækur sem til voru. Reyndar getur vel verið að hann hafi gert það. Höfum hugfast að ekki var skrásett nema brot af orðum og verkum Jesú. (Jóhannes 21:25) Sennilega tæki ekki nema fáeinar klukkustundir að lesa upphátt allt sem haft er eftir Jesú. Hugsaðu þér að tala um Guð og ríki hans í aðeins fáeinar stundir og takast að flétta inn í það vísunum í meira en helminginn af bókum Hebresku ritninganna! Auk þess hafði Jesús í fæstum tilfellum bókrollur við höndina. Þegar hann flutti hina frægu fjallræðu sína vitnaði hann margoft beint eða óbeint í Hebresku ritningarnar – og það eftir minni.

7 Með því að vitna í Ritninguna sýndi Jesús hve djúpa virðingu hann bar fyrir orði Guðs. Áheyrendur voru „agndofa yfir kennslu hans því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald en ekki eins og fræðimennirnir“. (Markús 1:22) Þegar fræðimennirnir kenndu vitnuðu þeir gjarnan í orð lærðra rabbína fyrr á tímum og vísuðu þá til hinna munnlegu laga sem svo voru nefnd. Jesús studdi mál sitt aldrei með vísun í hin munnlegu lög eða orð einhverra rabbína. Hann leit á orð Guðs sem æðstu heimildina. Aftur og aftur sagði hann: „Skrifað stendur.“ Oft tók hann þannig til orða eða svipað þegar hann kenndi fylgjendum sínum og leiðrétti rangar hugmyndir.

8, 9. (a) Hvernig beitti Jesús orði Guðs þegar hann hreinsaði musterið? (b) Með hvaða hætti sýndu trúarleiðtogarnir í musterinu orði Guðs megnustu óvirðingu?

8 Þegar Jesús hreinsaði musterið í Jerúsalem sagði hann: „Skrifað stendur: ‚Hús mitt verður kallað bænahús,‘ en þið gerið það að ræningjabæli.“ (Matteus 21:12, 13; Jesaja 56:7; Jeremía 7:11) Daginn áður hafði hann unnið mörg kraftaverk þar. Börn voru djúpt snortin og tóku að lofa hann. En trúarleiðtogarnir spurðu Jesú reiðilega hvort hann heyrði hvað börnin væru að segja. „Já,“ svaraði hann. „Hafið þið aldrei lesið þetta: ‚Af munni barna og ungbarna kallarðu fram lof‘?“ (Matteus 21:16; Sálmur 8:2) Þessir menn máttu vita að það sem var að gerast þarna væri heimilt samkvæmt orði Guðs.

9 Seinna komu sömu trúarleiðtogar til Jesú og spurðu með þjósti: „Hvaða vald hefurðu til að gera þetta?“ (Matteus 21:23) Jesús hafði margoft sýnt fram á með hvaða valdi hann starfaði. Hann hafði ekki sett fram nýjar hugmyndir og kennisetningar heldur einfaldlega heimfært það sem stóð í innblásnu orði föður hans. Þessir prestar og fræðimenn sýndu Jehóva og orði hans því megnustu óvirðingu með framkomu sinni. Þeir áttu fyllilega skilið að Jesús skyldi setja harðlega ofan í við þá og afhjúpa illar hvatir þeirra. – Matteus 21:23–46.

10. Hvernig getum við líkt eftir Jesú með því að nota orð Guðs og hvaða hjálpargögn höfum við sem Jesús hafði ekki?

10 Sannkristnir menn nú á dögum byggja boðun sína og kennslu á orði Guðs, líkt og Jesús gerði. Vottar Jehóva eru kunnir um heim allan fyrir að kynna boðskap Biblíunnar fyrir öðrum. Í ritum okkar er vitnað og vísað ríkulega í Biblíuna. Við gerum slíkt hið sama í boðunarstarfinu og reynum alltaf að halda Biblíunni á lofti þegar við tölum við fólk. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Okkur finnst einkar ánægjulegt að fá að lesa upp úr Biblíunni í samtölum við fólk og fá að ræða um inntak hennar og gildi. Við búum ekki yfir fullkomnu minni eins og Jesús en við höfum hins vegar margs konar hjálpargögn sem hann hafði ekki. Bæði er Biblían öll fáanleg á æ fleiri tungumálum og auk þess höfum við ýmiss konar handbækur sem auðvelda okkur að finna hvaða vers sem er. Verum staðráðin í að halda áfram að vitna í Biblíuna og beina athygli fólks að henni hvenær sem færi gefst.

Hann varði orð Guðs

11. Af hverju þurfti Jesús oft að verja orð Guðs?

11 Jesús komst að raun um að orð Guðs varð oft fyrir aðkasti en það kom honum auðvitað ekki á óvart. „Orð þitt er sannleikur,“ sagði hann í bæn til föður síns. (Jóhannes 17:17) En hann vissi mætavel að Satan, „stjórnandi heimsins“, er „lygari og faðir lyginnar“. (Jóhannes 8:44; 14:30) Jesús vitnaði þrívegis í Ritninguna þegar Satan reyndi að freista hans. Hann varði orð Guðs þegar Satan vitnaði í eitt vers í Sálmunum og rangfærði það af ásettu ráði. – Matteus 4:6, 7.

12–14. (a) Hvernig lítilsvirtu trúarleiðtogarnir Móselögin? (b) Hvernig varði Jesús orð Guðs?

12 Oft varði Jesús Heilaga ritningu gegn rangfærslum og mistúlkun. Trúarkennarar hans tíma brengluðu orð Guðs. Þeir lögðu ofuráherslu á að halda Móselögin í ýtrustu smáatriðum en gáfu lítinn gaum að meginreglunum sem bjuggu að baki lögunum. Þannig hvöttu þeir til yfirborðslegrar guðsdýrkunar þar sem mest var lagt upp úr ytra forminu en minna var gert úr því sem skipti mestu máli – réttlæti, miskunn og trúfesti. (Matteus 23:23) Hvernig varði Jesús lög Guðs?

13 Í fjallræðunni sagði Jesús nokkrum sinnum: „Þið hafið heyrt að sagt var,“ og tiltók síðan eitthvert af ákvæðum Móselaganna. Í framhaldinu sagði hann: „En ég segi ykkur,“ og útskýrði síðan meginreglu sem risti dýpra en yfirborðsleg hlýðni við lögin. Var hann þá að finna að Móselögunum? Nei, hann var að verja þau. Fólk þekkti til dæmis ákvæðið: „Þú skalt ekki myrða.“ Jesús sagði hins vegar að sá sem hataði aðra manneskju bryti gegn andanum að baki þessu lagaákvæði. Sá maður sem girntist aðra konu en eiginkonu sína væri sömuleiðis að brjóta gegn meginreglunni að baki lögum Guðs sem bönnuðu hjúskaparbrot. – Matteus 5:17, 18, 21, 22, 27–39.

14 Síðasta dæmið sem Jesús tók í fjallræðunni var þetta: „Þið hafið heyrt að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘ En ég segi ykkur: Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.“ (Matteus 5:43, 44) Var fólk hvatt til þess í orði Guðs að hata óvini sína? Nei, það voru trúarleiðtogarnir sem kenndu þetta að eigin frumkvæði. Þeir útvötnuðu fullkomin lög Guðs með hugmyndum manna. Jesús hikaði ekki við að verja orð Guðs gegn þeim skaðlegu áhrifum sem erfikenningar manna höfðu á það. – Markús 7:9–13.

15. Hvernig varði Jesús lög Guðs þegar trúarleiðtogarnir létu líta svo út sem þau væru óheyrilega ströng eða jafnvel harðneskjuleg?

15 Trúarleiðtogarnir veittust einnig að lögum Guðs með því að láta líta svo út sem þau væru óheyrilega ströng eða jafnvel harðneskjuleg. Lærisveinar Jesú gengu einu sinni um akur og tíndu nokkur kornöx á leiðinni. Farísear fullyrtu þá að þeir hefðu brotið hvíldardagslögin. Jesús notaði dæmi úr Ritningunni til að verja orð Guðs gegn slíkum öfgum. Hann vitnaði í eina dæmið í Ritningunni um að skoðunarbrauðin í musterinu hefðu verið notuð fyrir utan helgidóminn. Þetta var þegar Davíð og hungraðir menn hans átu þau. Jesús sýndi fram á að farísearnir hefðu misst sjónar á miskunn og umhyggju Jehóva. – Markús 2:23–27.

16. Hvernig höfðu trúarleiðtogarnir rangsnúið skilnaðarákvæðum Móselaganna og hvernig brást Jesús við því?

16 Trúarleiðtogar fundu einnig upp á ýmsum lagakrókum til að draga úr kraftinum í lögum Guðs. Samkvæmt lögmálinu var manni til dæmis heimilt að skilja við konu sína ef hann varð var við „eitthvað fráhrindandi“ hjá henni en þar mun vera átt við eitthvað alvarlegt sem varpaði smán á fjölskylduna. (5. Mósebók 24:1) Á dögum Jesú var hins vegar svo komið að trúarleiðtogarnir notuðu þetta ákvæði sem afsökun fyrir því að maður gæti skilið við konu sína af alls konar tilefni – jafnvel fyrir að brenna við matinn hans! a Jesús sýndi fram á að þeir hefðu gróflega rangtúlkað innblásin orð Móse. Síðan endurvakti hann upprunaleg viðmið Jehóva varðandi hjónabandið, sem er einkvæni, og benti á að kynferðislegt siðleysi væri eina leyfilega skilnaðarástæðan. – Matteus 19:3–12.

17. Hvernig geta þjónar Guðs varið orð hans líkt og Jesús gerði?

17 Fylgjendur Krists nú á dögum finna sömuleiðis fyrir nauðsyn þess að verja Heilaga ritningu. Þegar trúarleiðtogar gefa í skyn að siðferðisreglur Biblíunnar séu úreltar eru þeir í rauninni að ráðast á orð Guðs. Biblían sætir einnig árásum þegar trúfélög kenna ósannindi en halda þeim á lofti sem kenningum Biblíunnar. Við lítum á það sem mikinn heiður að mega verja hið hreina sannleiksorð Guðs, til dæmis með því að sýna fram á að Guð sé ekki hluti af þrenningu. (5. Mósebók 4:39) Við gætum þess þó að gera það með háttvísi, hógværð og virðingu. – 1. Pétursbréf 3:15, 16.

Hann skýrði orð Guðs

18, 19. Hvaða dæmi sýna að Jesús bjó yfir einstökum hæfileika til að útskýra orð Guðs?

18 Jesús var á himnum meðan Hebresku ritningarnar voru færðar í letur. Hann hlýtur að hafa haft mikla ánægju af því að fá að koma til jarðar og eiga þátt í að skýra orð Guðs. Hugsum okkur til dæmis hinn eftirminnilega dag eftir upprisu hans þegar hann hitti tvo af lærisveinum sínum á veginum til Emmaus. Þeir áttuðu sig ekki á því í fyrstu hver hann var og sögðu honum hve hryggir og ráðvilltir þeir væru að ástkær meistari þeirra skyldi vera dáinn. Hvernig brást hann við? „Hann byrjaði … á Móse og öllum spámönnunum og skýrði fyrir þeim það sem segir um hann í öllum Ritningunum.“ Hvaða áhrif hafði þetta á þá? Þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og skýrði Ritningarnar vandlega fyrir okkur?“ – Lúkas 24:15–32.

19 Síðar sama dag hitti Jesús postulana og fleiri. Tökum eftir hvað hann gerði fyrir þá: „[Hann] lauk … upp huga þeirra þannig að þeir skildu Ritningarnar.“ (Lúkas 24:45) Eflaust hafa rifjast upp fyrir þeim ánægjulegar minningar um það hvernig Jesús hafði mörgum sinnum áður gert eitthvað ámóta fyrir þá og aðra sem vildu hlusta. Oft tók hann fyrir þekktan ritningarstað og útskýrði þannig að það hafði djúpstæð áhrif á áheyrendurna og þeir fengu nýjan og dýpri skilning á orði Guðs.

20, 21. Hvernig skýrði Jesús orð Jehóva við Móse hjá runnanum logandi?

20 Einhverju sinni var Jesús að tala við hóp saddúkea. Þetta var sértrúarhópur innan gyðingdómsins sem var nátengdur prestastéttinni. Þeir trúðu ekki á upprisuna. Jesús sagði við þá: „Hafið þið ekki lesið það sem Guð segir ykkur um upprisu dauðra: ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘? Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa.“ (Matteus 22:31, 32) Hér vitnaði Jesús í ritningarorð sem saddúkear þekktu mætavel og þau voru rituð af Móse sem þeir báru djúpa virðingu fyrir. En áttarðu þig á kraftinum í skýringu Jesú?

21 Jehóva hafði sagt þessi orð við Móse hjá runnanum logandi um árið 1514 f.Kr. (2. Mósebók 3:2, 6) Þegar þar var komið sögu hafði Abraham verið dáinn í 329 ár, Ísak í 224 ár og Jakob í 197 ár. Samt sem áður sagði Jehóva: „Ég er“ Guð þeirra. Saddúkearnir vissu að Jehóva var ekki eins og einhver heiðinn guð hinna dánu sem réði ríkjum í goðsagnakenndum undirheimum. Nei, hann er Guð „þeirra sem lifa“ eins og Jesús sagði. Hvað þýðir það? Niðurstaða Jesú var einföld og kröftug: „Þeir eru allir lifandi í augum hans.“ (Lúkas 20:38) Ástkærir þjónar Jehóva sem eru látnir eru geymdir í öruggu, takmarkalausu og óbrigðulu minni hans. Svo örugg er sú ætlun Jehóva að reisa þá upp frá dauðum að hægt er að tala um að þeir séu lifandi. (Rómverjabréfið 4:16, 17) Er þetta ekki frábær skýring á orði Guðs? Er nokkur furða að mannfjöldinn skyldi hrífast af kennslu Jesú? – Matteus 22:33.

22, 23. (a) Hvernig getum við skýrt orð Guðs með líkum hætti og Jesús gerði? (b) Hvað kynnum við okkur í næsta kafla?

22 Það er mikill heiður fyrir kristna menn nú á tímum að fá að skýra orð Guðs með svipuðum hætti og Jesús gerði. Hugur okkar er auðvitað ekki fullkominn. Engu að síður fáum við oft tækifæri til að ræða við fólk um ritningarorð sem það þekkir og skýra fyrir því ákveðna þætti sem það hefur ef til vill aldrei velt fyrir sér. Það hefur kannski farið með bænarorðin: „Helgist þitt nafn“ og „til komi þitt ríki“ alla ævi án þess að vita hvað Guð heitir og hvað ríki hans er. (Matteus 6:9, 10, Biblían 2010) Það er yndislegt að fá tækifæri til að skýra slík biblíusannindi fyrir fólki á einfaldan og auðskilinn hátt.

23 Við boðum sannleikann með því að vitna í orð Guðs, verja það og skýra líkt og Jesús gerði. Kynnum okkur nú áhrifaríkar aðferðir sem Jesús notaði til að láta sannindi Biblíunnar hafa áhrif á hjörtu fólks.

a Síðar á fyrstu öld lætur sagnaritarinn Jósefus, sem var fráskilinn farísei, þess getið að hjónaskilnaður hafi verið leyfður „af hvaða ástæðu sem er (og margar slíkar ástæður koma til meðal karla)“.