Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. KAFLI

„Til þess var ég sendur“

„Til þess var ég sendur“

1–4. (a) Hvernig kennir Jesús samverskri konu og með hvaða árangri? (b) Hvernig bregðast postularnir við?

 ÞEIR hafa gengið klukkustundum saman. Jesús og postular hans eru á norðurleið frá Júdeu til Galíleu. Stysta leiðin, um þrjár dagleiðir, liggur um Samaríu. Það er komið að hádegi og sólin hæst á lofti þegar þeir koma að lítilli borg sem kallast Síkar. Þar nema þeir staðar til að fá sér matarbita.

2 Postularnir fara inn í Síkar til að kaupa vistir en Jesús hvílist við brunn fyrir utan borgina. Kona kemur til að sækja vatn. Jesús gat látið sem hann sæi hana ekki. Hann er „þreyttur eftir ferðalagið“. (Jóhannes 4:6) Það hefði verið skiljanlegt ef hann hefði bara lygnt aftur augunum og látið samversku konuna koma og fara án þess að gefa henni gaum. Eins og fram kom í 4. kafla hefur konan eflaust búist við að Gyðingur sýndi henni fyrirlitningu. Jesús bryddar hins vegar upp á samræðum við hana.

3 Jesús byrjar á líkingu sem er sótt í daglegt líf konunnar, reyndar í það sem hún er að gera þá stundina. Hún er að sækja vatn og Jesús talar um lifandi vatn sem hann segir geta slökkt andlegan þorsta hennar. Konan imprar nokkrum sinnum á málefnum sem hefði hæglega mátt gera að deiluefni. a Jesús sneiðir með háttvísi hjá slíku og heldur sig við það sem hann hóf máls á. Hann einbeitir sér að andlegum málum og ræðir um hreina tilbeiðslu og Jehóva Guð. Með orðum sínum hefur hann víðtæk áhrif því að konan segir karlmönnunum í borginni frá og þeir vilja líka fá að hlusta á Jesú. – Jóhannes 4:3–42.

4 Postularnir koma nú aftur. Hvað finnst þeim um þessa merkilegu kennslu sem Jesús hefur veitt konunni? Að því er best verður séð láta þeir sér fátt um finnast. Þeir furða sig hins vegar á að Jesús skuli vera að tala við konuna. Ekkert bendir til þess að þeir hafi yrt á hana. Þegar hún er farin hvetja þeir Jesú til að borða matinn sem þeir keyptu en hann segir við þá: „Ég hef mat að borða sem þið vitið ekki um.“ Þeir taka orð hans bókstaflega í fyrstu og verða hissa. Þá bætir hann við: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og ljúka verkinu sem hann fól mér.“ (Jóhannes 4:32, 34) Þannig bendir hann þeim á að sér þyki aðalstarf sitt í lífinu mikilvægara en matur. Hann vill að þeir hugsi þannig líka. Hvaða starf er þetta?

5. Hvert var aðalstarf Jesú og um hvað er fjallað í þessum kafla?

5 Jesús sagði einu sinni: „Ég þarf líka að flytja … fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Já, Jesús var sendur til að boða og kenna fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. b Fylgjendur hans nú á dögum hafa sama verk að vinna. Það er því mikilvægt að kanna af hverju Jesús boðaði trúna, hver boðskapurinn var og hvernig hann leit á verkefni sitt.

Af hverju boðaði Jesús trúna?

6, 7. Hvernig vildi Jesús að „hver kennari“ liti á það að segja frá fagnaðarboðskapnum? Lýstu því með dæmi.

6 Könnum hvernig Jesús leit á sannleikann sem hann kenndi. Síðan skulum við fjalla um afstöðu hans til fólksins sem naut kennslu hans. Jesús notaði sterka líkingu til að sýna fram á hvernig hann leit á það að segja öðrum frá þeim sannindum sem Jehóva hafði kennt honum. Hann sagði: „Hver kennari sem hefur fengið fræðslu um himnaríki er eins og húsbóndi sem ber fram bæði nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ (Matteus 13:52) Hvers vegna ber maðurinn í líkingunni fram það sem hann geymir í forðabúri sínu?

7 Maðurinn er ekki bara að stæra sig af eigum sínum, svipað og Hiskía konungur gerði forðum daga með sorglegum afleiðingum. (2. Konungabók 20:13–20) Hvað gengur húsbóndanum til? Lítum á dæmi: Þú heimsækir eftirlætiskennarann þinn. Hann dregur út skrifborðsskúffu og tekur upp tvö bréf. Annað er nýlegt en hitt gulnað af elli. Þetta eru bréf frá föður hans, annað áratugagamalt, þegar kennarinn var enn á barnsaldri, en hitt nýrra. Augu hans glampa af gleði þegar hann segir þér hve mikils virði honum þyki bréfin og hvernig ráðleggingar föður hans hafi breytt líf hans og geti sömuleiðis gagnast þér. Ljóst er að kennaranum þykja bréfin afar verðmæt og honum þykir ákaflega vænt um þau. (Lúkas 6:45) Hann sýnir þér ekki bréfin til að gorta af þeim eða hafa einhvern hag af því sjálfur. Hann er að hugsa um það gagn sem þú getur haft af bréfunum og vill gefa til kynna hve dýrmæt þau eru.

8. Af hverju höfum við ríka ástæðu til að líta á sannleikann í orði Guðs sem fjársjóð?

8 Það var af sömu hvötum sem Jesús, kennarinn mikli, sagði öðrum frá sannleika Guðs. Í huga hans voru þetta ómetanleg sannindi. Hann elskaði þau og var óðfús að segja frá þeim. Hann vildi að allir fylgjendur sínir, „hver kennari“, hugsaði þannig. Gerum við það? Við höfum ríka ástæðu til að elska hver einustu sannindi sem við lærum í orði Guðs. Við geymum í hjarta okkar dýrmæt sannleiksorð, hvort heldur við höfum þekkt þau lengi eða um er að ræða aukinn skilning á þeim. Með því að tala af einlægum eldmóði og halda áfram að elska það sem Jehóva hefur kennt okkur miðlum við öðrum af þessum kærleika, rétt eins og Jesús gerði.

9. (a) Hvernig leit Jesús á fólkið sem hann kenndi? (b) Hvernig getum við líkt eftir afstöðu Jesú til fólks?

9 Jesús elskaði sömuleiðis fólkið sem hann kenndi, og um það verður fjallað nánar í 3. hluta. Í biblíuspádómi kom fram að Messías myndi „finna til með bágstöddum og snauðum“. (Sálmur 72:13) Jesú var innilega annt um fólk. Hann hafði áhuga á þeim hugsunum og viðhorfum sem knúði það til verka. Hann gerði sér grein fyrir þeim byrðum sem íþyngdu fólki og vissi hvað tálmaði því að skilja sannleikann. (Matteus 11:28; 16:13; 23:13, 15) Tökum samversku konuna sem dæmi. Hún var eflaust djúpt snortin að Jesús skyldi sýna henni áhuga. Það að hann skyldi skilja aðstæður hennar varð þess valdandi að hún viðurkenndi hann sem spámann og sagði öðrum frá honum. (Jóhannes 4:16–19, 39) Fylgjendur Jesú sjá auðvitað ekki hvað býr í hjörtum þeirra sem þeir boða trúna. Við getum hins vegar sýnt fólki áhuga eins og Jesús gerði. Við getum sýnt að okkur sé annt um það og við getum lagað orð okkar að áhugamálum þess, þörfum og erfiðleikum.

Hvað boðaði Jesús?

10, 11. (a) Hvað boðaði Jesús? (b) Hvernig skapaðist þörfin fyrir Guðsríki?

10 Hvað boðaði Jesús? Ef við ætluðum að leita svara í kenningum margra kirkna og trúfélaga sem segjast fylgja honum mætti ætla að hann hafi boðað einhvers konar kristilegar þjóðfélagsumbætur. Eða kannski fengjum við á tilfinninguna að hann hafi aðhyllst pólitískar umbætur eða lagt ofuráherslu á að fólk hugsaði um eigið hjálpræði. En eins og fram hefur komið sagði Jesús skýrt og greinilega: ‚Ég þarf að flytja fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs.‘ Hvað fól það í sér?

11 Munum að Jesús var á himnum þegar Satan rægði heilagt nafn Jehóva í fyrsta sinn og véfengdi stjórnarhætti hans. Honum hlýtur að hafa sárnað að sjá réttlátan föður sinn ásakaðan um að vera ranglátur stjórnandi og meina sköpunarverum sínum um ýmis gæði. Það hlýtur að hafa tekið hann sárt að horfa upp á Adam og Evu, tilvonandi foreldra mannkyns, trúa rógburði Satans. Sonur Guðs sá hvernig mannkynið sýktist af synd og dauða vegna uppreisnarinnar. (Rómverjabréfið 5:12) En það hlýtur að hafa glatt hann mikið að komast að raun um að faðir hans ætlaði að útkljá þetta mál síðar.

12, 13. Hvað mun ríki Guðs útkljá og hvernig einbeitti Jesús sér að því að boða það?

12 Hvað þurfti að útkljá öðru fremur? Það þurfti að helga nafn Jehóva, hreinsa það af sérhverri smán sem Satan og fylgjendur hans höfðu borið á það. Nafn Jehóva felur í sér mannorð hans sem stjórnanda og því þurfti að staðfesta rétt hans til að fara með æðsta vald, það er að segja að hann stjórnaði rétt. Jesús skildi þetta betur en nokkur annar maður. Í faðirvorinu kenndi hann fylgjendum sínum að biðja þess fyrst að nafn föðurins mætti helgast, síðan að ríki hans kæmi og að lokum að vilji hans næði fram að ganga á jörðinni. (Matteus 6:9, 10) Ríki Guðs með Jesú Krist sem konung mun bráðlega losa jörðina við hið spillta kerfi Satans og staðfesta í eitt skipti fyrir öll að stjórn Jehóva sé réttlát. – Daníel 2:44.

13 Ríki Guðs var kjarninn í boðun Jesú. Með öllu sem hann sagði og gerði varpaði hann ljósi á hvað Guðsríki væri og hvernig það myndi þjóna fyrirætlun Jehóva. Jesús lét ekkert draga athygli sína frá því verkefni að boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. Á dögum hans voru ýmis aðkallandi þjóðfélagsleg vandamál og alls konar ranglæti sem þarfnaðist úrlausnar. Engu að síður einbeitti hann sér að boðskap sínum og boðunarstarfi. Þýðir það að Jesús hafi verið þröngsýnn, ónæmur fyrir aðstæðum fólks og staglkenndur í boðun sinni? Því fer fjarri!

14, 15. (a) Hvernig reyndist Jesús vera meiri en Salómon? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar við boðum fagnaðarboðskapinn?

14 Eins og fram kemur í þessum hluta bókarinnar var kennsla Jesú bæði áhugaverð og fjölbreytt. Hann höfðaði til hjartna fólks. Það minnir ef til vill á hinn vitra Salómon konung sem leitaðist við að finna falleg sannleiksorð til að koma á framfæri því sem Jehóva innblés honum að skrifa. (Prédikarinn 12:10) Jehóva „fyllti hjarta“ þessa ófullkomna manns visku og skilningi þannig að hann gat talað um fjölmargt, um trén, fiska, fugla og önnur dýr. Fólk kom langt að til að heyra hann tala. (1. Konungabók 4:29–34) En Jesús var meiri en Salómon. (Matteus 12:42) Hann var margfalt vitrari og bjó yfir langtum meiri skilningi. Þegar Jesús kenndi beitti hann víðtækri þekkingu sinni á orði Guðs og á fuglum, fiskum, dýrum, akuryrkju, veðri, sögu, nýlegum atburðum og þjóðfélagsaðstæðum. En aldrei flaggaði hann þekkingu sinni í þeim tilgangi að sýnast fyrir öðrum. Boðskapur hans var einfaldur og skýr. Það er engin furða að fólk skuli hafa hlustað hugfangið á hann. – Markús 12:37; Lúkas 19:48.

15 Kristnir menn nú á tímum reyna að líkja eftir Jesú. Við búum auðvitað ekki yfir jafn víðtækri visku og þekkingu og hann en öll höfum við samt vissa þekkingu og reynslu sem við getum nýtt okkur þegar við segjum öðrum frá sannleikanum í orði Guðs. Foreldrar geta til dæmis byggt á reynslu sinni af barnauppeldi til að sýna fram á ást Jehóva á börnum sínum. Aðrir geta notfært sér dæmi eða líkingar úr vinnu eða skóla eða þá nýtt sér þekkingu sína á fólki og atburðum líðandi stundar. En við gætum þess alltaf að láta ekkert beina athygli okkar frá boðskapnum – fagnaðarboðskapnum um ríki Guðs. – 1. Tímóteusarbréf 4:16.

Hvernig leit Jesús á boðunarstarfið?

16, 17. (a) Hvernig leit Jesús á boðunarstarf sitt? (b) Hvernig einbeitti Jesús sér að því að boða fagnaðarboðskapinn?

16 Jesús leit á boðunarstarfið sem verðmætan fjársjóð. Hann hafði ánægju af að hjálpa fólki að kynnast föðurnum á himnum eins og hann er í raun og sannleika, án þess að ruglingslegar mannasetningar og erfikenningar byrgðu því sýn. Jesús hafði yndi af því að hjálpa fólki að eignast gott samband við Jehóva og von um eilíft líf. Hann naut þess að veita fólki þá huggun og gleði sem fylgir fagnaðarboðskapnum. Hvernig sýndi hann að hann leit svona á boðunarstarfið? Lítum á þrennt.

17 Í fyrsta lagi einbeitti Jesús sér að boðunarstarfinu. Það var köllun hans, hlutverk og helsta áhugamál að tala um fagnaðarboðskapinn. Þess vegna sýndi hann þá visku að lifa einföldu lífi eins og bent var á í 5. kafla. Hann einbeitti sér að því sem mestu máli skipti, alveg eins og hann ráðlagði öðrum að gera. Hann átti ekki eignir sem kölluðu á athygli hans, hluti sem hann hefði þurft að borga fyrir, viðhalda og gera við eða endurnýja með tímanum. Hann lifði hófsömu lífi þannig að ekkert yrði til þess að gera hann afhuga því að boða fagnaðarboðskapinn. – Matteus 6:22; 8:20.

18. Hvernig lagði Jesús sig fram við að boða fagnaðarboðskapinn?

18 Í öðru lagi lagði Jesús sig allan fram í boðunarstarfinu. Hann beitti sér af alefli og fór fótgangandi hundruð kílómetra um Palestínu þvera og endilanga í leit að fólki til að segja frá fagnaðarboðskapnum. Hann talaði við fólk á heimilum þess, á torgum úti, markaðstorgum og víðavangi. Hann talaði jafnvel um fagnaðarboðskapinn þegar hann var svangur, þyrstur, hvíldarþurfi eða vildi fá að slaka á með nánum vinum. Meira að segja sagði hann frá ríki Guðs þegar hann hékk deyjandi á aftökustaurnum. – Lúkas 23:39–43.

19, 20. Hvaða dæmi tók Jesús til að benda á hve boðunarstarfið væri áríðandi?

19 Í þriðja lagi áleit Jesús ákaflega áríðandi að boða ríki Guðs. Mundu eftir samtali hans við samversku konuna hjá brunninum rétt utan við Síkar. Postular Jesú virðast ekki hafa talið sérlega brýnt að segja frá fagnaðarboðskapnum við þessar aðstæður. Jesús sagði við þá: „Segið þið ekki að enn séu fjórir mánuðir í uppskeruna? Sjáið! Ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir og tilbúnir til uppskeru.“ – Jóhannes 4:35.

20 Jesús dró hér líkingu af yfirstandandi árstíma. Þetta mun hafa verið í kíslevmánuði (nóvember–desember) og enn voru fjórir mánuðir fram að bygguppskerunni sem var um páskaleytið, 14. nísan. Bændum fannst ekkert liggja á að skera korn um þetta leyti árs. Það var enn langt þangað til. En hvað um hina táknrænu uppskeru? Margir voru reiðubúnir að hlusta, læra, gerast lærisveinar Krists og öðlast þá einstöku von sem Jehóva bauð þeim. Það var eins og Jesús gæti horft yfir þessa táknrænu akra og séð hvernig þeir voru hvítir af fullþroskuðu korni sem liðaðist í golunni, tilbúið til uppskeru. c Nú var tíminn til að láta hendur standa fram úr ermum! Þess vegna svaraði Jesús þegar íbúar borgar einnar reyndu að fá hann til að dveljast lengur hjá sér: „Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ – Lúkas 4:43.

21. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

21 Við getum líkt eftir Jesú á þessum þrem sviðum sem rætt hefur verið um. Við getum einbeitt okkur að því að boða fagnaðarboðskapinn. Þótt við eigum fyrir fjölskyldu að sjá og höfum öðrum skyldum að gegna getum við sýnt að boðunarstarfið gangi fyrir með því að sinna því af kappi og gera það reglulega eins og Jesús. (Matteus 6:33; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Við getum lagt okkur fram af alefli og gefið örlátlega af tíma okkar, kröftum og fjármunum til að styðja boðunina. (Lúkas 13:24) Og við getum haft í huga öllum stundum að starf okkar er áríðandi. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Við þurfum að grípa hvert tækifæri sem gefst til að prédika.

22. Um hvað er fjallað í kaflanum hér á eftir?

22 Jesús sýndi einnig að hann gerði sér grein fyrir mikilvægi þessa starfs með því að tryggja að því yrði haldið áfram eftir dauða hans. Hann fól fylgjendum sínum það verkefni að halda áfram að boða og kenna. Um það er fjallað í kaflanum hér á eftir.

a Þegar hún spyr hverju það sæti að hann, sem er Gyðingur, skuli ávarpa samverska konu vekur hún máls á aldalöngum illdeilum þjóðanna tveggja. (Jóhannes 4:9) Sömuleiðis fullyrðir hún að þjóð hennar sé komin af Jakobi en Gyðingar mótmæltu því harðlega. (Jóhannes 4:12) Þeir kölluðu Samverja Kútmenn til að leggja áherslu á að þeir væru af erlendum uppruna.

b Að boða merkir að kunngera boðskap. Að kenna er svipaðrar merkingar en felur í sér að fræða einhvern ítarlega um eitthvað. Góður kennari leitar leiða til að ná til hjartna nemenda sinna þannig að þeir finni löngun hjá sér til að fara eftir því sem þeir læra.

c Heimildarrit segir um þetta vers: „Þegar korn þroskast breytist liturinn úr grænu í gult eða fölgult til marks um að það sé tilbúið til uppskeru.“