16. KAFLI
„Jesús … elskaði þá allt til enda“
1, 2. Hvernig notar Jesús síðasta kvöldið sem hann á með postulunum og af hverju eru þessar stundir honum dýrmætar?
POSTULARNIR eru samankomnir ásamt Jesú í herbergi á efri hæð húss í Jerúsalem. Jesús veit að þetta er síðasta kvöldið sem þeir eiga saman. Nú er komið að því að hann snúi aftur til föður síns. Eftir aðeins fáeinar klukkustundir verður hann handtekinn og trú hans reynd til hins ýtrasta. En ekkert getur dregið athygli hans frá þörfum postulanna, ekki einu sinni yfirvofandi dauði hans.
2 Jesús hefur búið postulana undir það að hann yfirgefi þá. En hann á enn ýmislegt ósagt til að styrkja þá fyrir það sem fram undan er. Hann notar því síðustu stundirnar sem hann á með þeim til að kenna þeim mikilvæga lærdóma sem geta hjálpað þeim að vera trúir. Sjaldan hefur hann verið hlýlegri og innilegri við þá. En af hverju hugsar Jesús meira um þarfir postulanna en sjálfs sín? Af hverju eru þessar síðustu stundir sem hann á með þeim svona dýrmætar í augum hans? Svarið er einfalt: Hann elskar þá afar heitt.
3. Hvernig vitum við að Jesús beið ekki fram á síðasta kvöldið til að sýna að hann elskaði fylgjendur sína?
3 Áratugum síðar skrifar Jóhannes postuli innblásna frásögn sína af atburðum þessa kvölds. Hann byrjar frásögnina með þessum orðum: „Jesús vissi fyrir páskahátíðina að tíminn var kominn til að hann yfirgæfi þennan heim og færi til föðurins. Hann hafði elskað sína sem voru í heiminum og hann elskaði þá allt til enda.“ (Jóhannes 13:1) En Jesús beið ekki fram á þetta kvöld með að sýna fylgjendum sínum að hann elskaði þá heldur sýndi það í stóru og smáu þau þrjú og hálft ár sem þjónusta hans stóð yfir. Það er gagnlegt að kynna sér hvernig hann lét kærleika sinn í ljós vegna þess að við sýnum að við erum sannir lærisveinar hans með því að líkja eftir honum.
Hann var þolinmóður
4, 5. (a) Hvers vegna þurfti Jesús að vera þolinmóður við lærisveinana? (b) Hvernig brást Jesús við þegar þrír af postulunum héldu ekki vöku sinni í Getsemanegarðinum?
4 Kærleikur og þolinmæði haldast í hendur. „Kærleikurinn er þolinmóður,“ segir í 1. Korintubréfi 13:4, og þolinmæði felur í sér að umbera aðra. Þurfti Jesús að vera þolinmóður við lærisveinana? Svo sannarlega. Eins og fram kom í 3. kafla áttu postularnir erfitt með að temja sér lítillæti. Oftar en einu sinni sló í brýnu með þeim um það hver þeirra væri mestur. Hvernig brást Jesús við því? Reiddist hann og svaraði þeim með gremju og þjósti? Nei, hann rökræddi við þá með þolinmæði, jafnvel þegar þeir fóru að rífast um þetta síðasta kvöldið sem þeir voru saman! – Lúkas 22:24–30; Matteus 20:20–28; Markús 9:33–37.
5 Síðar þetta sama kvöld reyndi enn á ný á þolinmæði Jesú þegar hann fór í Getsemanegarðinn ásamt 11 trúföstum postulum sínum. Þar skildi hann átta af postulunum eftir en tók Pétur, Jakob og Jóhannes með sér lengra inn í garðinn. „Ég er yfirkominn af harmi,“ sagði hann þeim. „Bíðið hér og vakið.“ Hann gekk spölkorn frá þeim og baðst ákaft fyrir. Eftir að hafa beðist fyrir drykklanga stund gekk hann aftur til postulanna þriggja. Hvað voru þeir að gera? Þeir voru steinsofandi á þessari ögurstund í lífi Jesú! Skammaði hann þá fyrir að halda ekki vöku sinni? Nei, hann hvatti þá þolinmóður í bragði. Vingjarnleg orð hans vitna um að hann skildi hvaða álagi þeir höfðu verið undir og hvaða veikleika þeir áttu við að glíma. a „Andinn er ákafur en holdið er veikt,“ sagði hann. Jesús var þolinmóður allt þetta kvöld, jafnvel þó að hann kæmi að þeim sofandi eftir þetta, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar. – Matteus 26:36–46.
6. Hvernig getum við líkt eftir Jesú í samskiptum við aðra?
6 Það er traustvekjandi að Jesús skyldi ekki gefast upp á postulunum. Þolinmæði hans skilaði sér um síðir því að þessir dyggu fylgjendur hans gerðu sér grein fyrir hve mikilvægt það væri að vera bæði auðmjúkir og árvakrir. (1. Pétursbréf 3:8; 4:7) Hvernig getum við líkt eftir Jesú í samskiptum við aðra? Safnaðaröldungar þurfa að vera sérstaklega þolinmóðir. Öldungur er kannski úrvinda af þreytu eða er með hugann bundinn við sín eigin mál þegar einhver í söfnuðinum leitar til hans og ber upp vandamál sín. Stundum eru þeir sem þarfnast hjálpar seinir að fara eftir ráðleggingum. Þolinmóðir öldungar leiðbeina með hógværð og eru mildir við hjörðina. (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25; Postulasagan 20:28, 29) Foreldrar ættu einnig að líkja eftir þolinmæði Jesú vegna þess að stundum geta börnin verið sein að taka við ráðum eða leiðréttingu. Kærleikur og þolinmæði hjálpar foreldrum að gefast ekki upp á að kenna og leiðbeina börnunum. Slík þolinmæði skilar sér ríkulega. – Sálmur 127:3.
Hann fullnægði þörfum þeirra
7. Hvernig fullnægði Jesús líkamlegum og efnislegum þörfum lærisveinanna?
7 Kærleikur birtist í óeigingjörnum verkum. (1. Jóhannesarbréf 3:17, 18) Hann „hugsar ekki um eigin hag“. (1. Korintubréf 13:5) Jesús fullnægði líkamlegum og efnislegum þörfum lærisveinanna af því að hann elskaði þá. Oft gerði hann það án þess að þeir hefðu látið vita hvers þeir þörfnuðust. Þegar hann sá að þeir voru þreyttir stakk hann upp á að þeir færu einir saman á „óbyggðan stað“ til að hvíla sig aðeins. (Markús 6:31) Þegar hann áttaði sig á að þeir voru svangir sá hann til þess að þeir fengju að borða – ásamt þúsundum annarra sem komið höfðu til að heyra hann kenna. – Matteus 14:19, 20; 15:35–37.
8, 9. (a) Af hverju má sjá að Jesús gerði sér grein fyrir andlegum þörfum lærisveinanna og fullnægði þeim? (b) Hvernig sýndi Jesús umhyggju sína fyrir velferð móður sinnar þegar hann hékk á aftökustaurnum?
8 Jesús bar skyn á andlegar þarfir lærisveinanna og sá til þess að þeim væri fullnægt. (Matteus 4:4) Oft gaf hann þeim sérstakan gaum þegar hann kenndi. Hann flutti fjallræðuna sérstaklega með þá í huga. (Matteus 5:1, 2, 13–16) Þegar hann talaði í dæmisögum „útskýrði [hann] allt fyrir lærisveinunum þegar þeir voru einir með honum“. (Markús 4:34) Jesús sagði fyrir að hann myndi skipa ‚trúan og skynsaman þjón‘ til að tryggja að fylgjendur sínir fengju næga andlega fæðu á hinum síðustu dögum. Þessi trúi þjónn er lítill hópur andasmurðra bræðra Jesú á jörð og hann hefur, allt frá 1919, séð dyggilega um að gefa þeim andlega fæðu á réttum tíma. – Matteus 24:45.
9 Daginn sem Jesús dó sýndi hann með hjartnæmum hætti umhyggju fyrir andlegri velferð ástvina sinna. Sjáðu Jesú fyrir þér hangandi á staurnum. Kvalirnar eru óbærilegar. Til að draga andann þarf hann að spyrna með fótunum og lyfta sér. Þetta hefur áreiðanlega verið mjög sársaukafullt því að naglarnir skárust inn í sárin á fótunum. Og bakið, sem var eitt flakandi sár, nuddaðist við staurinn. Það hlýtur að hafa verið erfitt og kvalafullt fyrir hann að tala því að til þess þurfti hann að stjórna önduninni. Rétt áður en hann gaf upp andann sýndi hann þó hve innilega vænt honum þótti um Maríu móður sína. Hann sér hana og Jóhannes postula standa rétt hjá og segir þá við hana nógu hátt til að nærstaddir heyri: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan segir hann við Jóhannes: „Nú er hún móðir þín.“ (Jóhannes 19:26, 27) Jesús vissi að þessi dyggi postuli myndi hugsa vel um andlega velferð Maríu auk þess að annast líkamlegar og efnislegar þarfir hennar. b
10. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jesú við uppeldi barnanna?
10 Það er hollt fyrir umhyggjusama foreldra að hugleiða fordæmi Jesú. Faðir sem elskar fjölskyldu sína sér vel fyrir efnislegum þörfum hennar. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Hann gætir þess að fjölskyldan geti slakað á og notið afþreyingar öðru hverju. En kristnum foreldrum er ekki síður umhugað um að sjá vel fyrir andlegum þörfum barnanna. Þau skipuleggja reglubundið biblíunám fjölskyldunnar og leggja sig fram um að gera námsstundirnar bæði uppbyggilegar og ánægjulegar fyrir börnin. (5. Mósebók 6:6, 7) Þau kenna börnunum, bæði í orði og verki, að það sé mikilvægt að boða fagnaðarboðskapinn og sömuleiðis að hafa það fyrir venju að búa sig undir og sækja safnaðarsamkomur. – Hebreabréfið 10:24, 25.
Fús til að fyrirgefa
11. Hvað kenndi Jesús fylgjendum sínum um fyrirgefningu?
11 Fyrirgefning er einn þáttur kærleikans. (Kólossubréfið 3:13, 14) Kærleikurinn „heldur ekki reikning yfir rangindi“, segir í 1. Korintubréfi 13:5. Jesús brýndi nokkrum sinnum fyrir fylgjendum sínum hve mikilvægt það væri að fyrirgefa. Hann hvatti þá til að fyrirgefa „ekki allt að sjö sinnum heldur 77 sinnum“, það er að segja ótal sinnum. (Matteus 18:21, 22) Hann kenndi þeim að það ætti að fyrirgefa syndara ef hann iðraðist þegar hann væri áminntur. (Lúkas 17:3, 4) En Jesús var ekki eins og hræsnisfullir farísear sem kenndu aðeins í orði. Hann kenndi einnig með því að vera góð fyrirmynd. (Matteus 23:2–4) Við skulum kanna hvernig Jesús var fús til að fyrirgefa, jafnvel þegar tryggur vinur brást honum.
12, 13. (a) Hvernig olli Pétur Jesú vonbrigðum nóttina sem hann var handtekinn? (b) Hvernig sýndi Jesús eftir upprisu sína að hann lét sér ekki aðeins nægja að prédika fyrirgefningu?
12 Jesús átti náin tengsl við Pétur postula sem var hjartahlýr maður en stundum hvatvís. Jesús sá hvaða góðu eiginleika Pétur hafði að geyma og veitti honum ýmis verkefni. Pétur fékk, ásamt Jakobi og Jóhannesi, að sjá viss kraftaverk sem hinir af postulunum 12 fengu ekki að sjá. (Matteus 17:1, 2; Lúkas 8:49–55) Eins og áður hefur komið fram var Pétur einn af postulunum sem fóru með Jesú lengra inn í Getsemanegarðinn nóttina sem hann var handtekinn. En þessa sömu nótt, þegar Jesús var svikinn og hnepptur í varðhald, yfirgáfu Pétur og hinir postularnir hann og lögðu á flótta. Seinna um nóttina sýndi Pétur það hugrekki að standa fyrir utan þar sem réttað var ólöglega yfir Jesú. En þá varð Pétur hræddur og honum varð alvarlega á – hann sagði ósatt og neitaði þrisvar að hann þekkti Jesú! (Matteus 26:69–75) Hvernig brást Jesús við? Hvað hefðir þú gert ef náinn vinur hefði brugðist þér svona?
13 Jesús var tilbúinn til að fyrirgefa Pétri. Hann vissi að Pétur var miður sín yfir því að hafa syndgað enda hafði hann ‚brotnað saman og brostið í grát‘ fullur iðrunar. (Markús 14:72) Sama dag og Jesús var reistur upp frá dauðum birtist hann Pétri, trúlega til að hugga hann og hughreysta. (Lúkas 24:34; 1. Korintubréf 15:5) Tæpum tveim mánuðum síðar sýndi hann Pétri þá virðingu að leyfa honum að vera talsmaður lærisveinanna og vitna fyrir mannfjöldanum í Jerúsalem á hvítasunnunni. (Postulasagan 2:14–40) Og höfum líka hugfast að Jesús bar ekki kala til postulanna fyrir að yfirgefa sig heldur kallaði þá enn bræður sína eftir að hann var upprisinn. (Matteus 28:10) Er ekki deginum ljósara að Jesús lét sér ekki aðeins nægja að prédika fyrirgefningu?
14. Af hverju þurfum við að læra að fyrirgefa og hvernig getum við sýnt að við séum fús til þess?
14 Við sem erum lærisveinar Krists þurfum að læra að fyrirgefa. Af hverju? Af því að við erum ófullkomin, ólíkt Jesú, og þeir sem syndga gegn okkur eru það líka. Af og til verður okkur öllum eitthvað á í orðum og verkum. (Rómverjabréfið 3:23; Jakobsbréfið 3:2) Ef við fyrirgefum öðrum þegar tilefni er til að sýna miskunn getur Guð fyrirgefið okkur þegar við syndgum. (Markús 11:25) Hvernig getum við þá sýnt að við séum tilbúin til að fyrirgefa þeim sem syndga gegn okkur? Oft getur kærleikurinn auðveldað okkur að horfa fram hjá minni háttar syndum og mistökum annarra. (1. Pétursbréf 4:8) Þegar þeir sem hafa gert á hlut okkar iðrast í einlægni eins og Pétur viljum við auðvitað líkja eftir Jesú og vera fús til að fyrirgefa. Það er viturlegt að vinna bug á gremjunni í stað þess að bera kala til annarra. (Efesusbréfið 4:32) Þá stuðlum við að friði innan safnaðarins og varðveitum jafnframt frið í huga og hjarta. – 1. Pétursbréf 3:11.
Hann treysti þeim
15. Hvers vegna treysti Jesús lærisveinunum þrátt fyrir galla þeirra?
15 Kærleikur og traust eru nátengdir eiginleikar. Kærleikurinn „trúir öllu“. c (1. Korintubréf 13:7) Jesús elskaði lærisveinana og sýndi að hann var tilbúinn til að treysta þeim þótt þeir væru ófullkomnir. Hann hafði fulla tiltrú á þeim og var sannfærður um að innst inni elskuðu þeir Jehóva og þá langaði til að gera vilja hans. Hann tortryggði ekki hvatir þeirra þegar þeim varð eitthvað á. Tökum dæmi: Þegar postularnir Jakob og Jóhannes fengu móður sína til að fara fram á að þeir fengju að sitja við hlið Jesú í ríki hans efaðist hann ekki um hollustu þeirra né vísaði þeim úr postulahópnum. – Matteus 20:20–28.
16, 17. Hvaða verkefni fól Jesús lærisveinum sínum?
16 Jesús sýndi að hann treysti lærisveinunum með því að fela þeim ýmiss konar verkefni. Í þau tvö skipti sem hann vann kraftaverk til að metta mikinn mannfjölda gaf hann lærisveinunum það verkefni að útbýta matnum. (Matteus 14:19; 15:36) Þegar að því kom að undirbúa síðustu páskamáltíðina sem hann neytti fól hann Pétri og Jóhannesi að fara til Jerúsalem og hafa allt til reiðu. Þeir útveguðu lamb, vín, ósýrt brauð, beiskar jurtir og annað sem til þurfti. Þetta var ekkert ómerkilegt verkefni vegna þess að samkvæmt Móselögunum var gerð sú krafa að páskar væru haldnir á réttan hátt, og Jesús þurfti að halda þessi lög. Auk þess notaði hann vínið og ósýrða brauðið síðar um kvöldið sem mikilvæg tákn þegar hann stofnaði til minningarhátíðarinnar um dauða sinn. – Matteus 26:17–19; Lúkas 22:8, 13.
17 Jesús taldi rétt að fela lærisveinunum enn mikilvægari verkefni. Munum að Jesús hafði falið þeim það þýðingarmikla verkefni að flytja fagnaðarboðskapinn og gera fólk að lærisveinum. (Matteus 28:18–20) Eins og áður hefur komið fram sagði hann fyrir að hann myndi fela litlum hópi andasmurðra fylgjenda sinna á jörð það ábyrgðarmikla starf að útbýta andlegri fæðu. (Lúkas 12:42–44) Núna er Jesús ósýnilegur stjórnandi á himnum og hefur gefið söfnuðinum hæfa menn sem hann trúir fyrir umsjón hans. – Efesusbréfið 4:8, 11, 12.
18–20. (a) Hvernig getum við sýnt að við berum traust til trúsystkina okkar? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú með því að fela öðrum verkefni? (c) Um hvað verður fjallað í næsta kafla?
18 Hvernig getum við líkt eftir Jesú í samskiptum við aðra? Það er kærleiksmerki að sýna að við berum traust til trúsystkina okkar. Munum að kærleikurinn er jákvæður en ekki neikvæður. Þegar aðrir valda okkur vonbrigðum, sem hlýtur að gerast af og til, ályktum við ekki þegar í stað að þeir beri slæmar hvatir í brjósti. (Matteus 7:1, 2) Ef við sjáum trúsystkini okkar í jákvæðu ljósi byggjum við þau upp í stað þess að brjóta þau niður. – 1. Þessaloníkubréf 5:11.
19 Getum við líkt eftir Jesú með því að vera fús til að fela öðrum verkefni? Það er gott fyrir þá sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum að úthluta viðeigandi og nytsamlegum verkefnum til annarra, og treysta þeim til að gera sitt besta. Þannig geta reyndir öldungar kennt og leiðbeint duglegum, ungum mönnum sem sækjast eftir því að verða að liði í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 3:1; 2. Tímóteusarbréf 2:2) Slík þjálfun er mikilvæg og verðmæt vegna þess að Jehóva hraðar starfinu og það þarf að undirbúa hæfa menn til að annast vaxandi söfnuð. – Jesaja 60:22.
20 Jesús er okkur einstök fyrirmynd með því að sýna öðrum kærleika. Við getum líkt eftir honum á ýmsa vegu en ekkert er mikilvægara en að líkja eftir kærleika hans. Í næsta kafla verður fjallað um mesta kærleiksverkið sem hann vann – að leggja lífið í sölurnar fyrir okkur.
a Það var ekki aðeins líkamleg þreyta sem gerði postulana syfjaða. Í frásögninni af sama atburði í Lúkasi 22:45 kemur fram að þeir hafi verið „örmagna af hryggð“ þegar Jesús kom að þeim.
b María var greinilega orðin ekkja og hin börnin voru augljóslega enn ekki orðin fylgjendur Jesú. – Jóhannes 7:5.
c Þetta merkir auðvitað ekki að kærleikurinn sé auðtrúa eða barnalegur. Það merkir öllu heldur að kærleikurinn sé ekki tortrygginn eða gagnrýninn úr hófi fram. Kærleikurinn dæmir ekki hvatir annarra í fljótræði eða ætlar öðrum allt hið versta.