Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

13. KAFLI

„Ég elska föðurinn“

„Ég elska föðurinn“

1, 2. Hvað upplýsir Jóhannes postuli varðandi síðasta kvöldið sem þeir postularnir eru með Jesú?

 ALDRAÐUR maður dýfir fjaðurpenna í blek og minningarnar streyma fram í hugann. Þetta er Jóhannes og hann er nú einn eftir á lífi af postulum Jesú Krists. Hann stendur á tíræðu. Hugurinn leitar um sjötíu ár aftur í tímann og að síðasta kvöldinu sem hann og hinir postularnir voru með Jesú áður en hann dó. Með leiðsögn heilags anda rifjast upp fyrir honum atburðir þessa minnisstæða kvölds svo að hann getur skrásett þá af mikilli nákvæmni.

2 Þetta kvöld hafði Jesús sagt berum orðum að hann yrði tekinn af lífi innan skamms. Jóhannes einn upplýsir hvers vegna Jesús sagðist myndu líða þennan kvalafulla dauða: „Til að heimurinn viti að ég elska föðurinn geri ég eins og faðirinn hefur gefið mér fyrirmæli um. Standið upp, við skulum fara héðan.“ – Jóhannes 14:31.

3. Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði föðurinn?

3 „Ég elska föðurinn.“ Ekkert skipti Jesú meira máli. Ekki svo að skilja að hann hafi sagt þessi orð sí og æ. Reyndar er það aðeins í Jóhannesi 14:31 sem Jesús segir svona berum orðum að hann elski föðurinn. Hann lifði hins vegar í samræmi við þessi orð. Það var augljóst dag hvern að hann elskaði Jehóva. Hugrekki hans, hlýðni og þolgæði voru allt saman merki þess að hann elskaði Guð. Þjónusta hans hér á jörð stjórnaðist að öllu leyti af kærleika.

4, 5. Um hvers konar kærleika er aðallega talað í Biblíunni og hvað má segja um kærleika Jesú til Jehóva?

4 Sumir ímynda sér kannski að ást og kærleikur sé veikleikamerki. Þeim verður ef til vill hugsað til ástarljóða og dægurlaga og jafnvel til þeirrar léttúðar sem menn setja gjarnan í samband við rómantíska ást. Biblían fjallar vissulega um ástir karls og konu en með meiri virðuleik en gerist og gengur núna. (Orðskviðirnir 5:15–21) En í orði Guðs er miklu meira fjallað um kærleika af öðru tagi. Þessi kærleikur er annað og meira en ástríða eða stundartilfinning og ekki er hann þurr og fræðilegur. Hann snertir bæði hugann og hjartað. Hann á sér rætur í hinum innri manni, stjórnast af göfugum meginreglum og birtist í uppbyggilegum verkum. Hann er allt annað en léttúðugur. Slíkur kærleikur „bregst aldrei“ segir í orði Guðs. – 1. Korintubréf 13:8.

5 Af öllum mönnum sem lifað hafa hefur enginn elskað Jehóva eins og Jesús. Enginn hefur lifað betur eftir orðunum sem hann sjálfur sagði vera mest allra boðorða: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:30) Hvernig lærði hann að elska Jehóva þannig? Hvernig viðhélt hann þessum kærleika meðan hann var á jörðinni? Og hvernig getum við líkt eftir honum?

Elsta og sterkasta kærleiksbandið

6, 7. Hvernig vitum við að lýsingin í Orðskviðunum 8:22–31 á við son Guðs en ekki aðeins viskuna?

6 Hefurðu einhvern tíma unnið að verkefni með góðum vini og uppgötvað að vináttuböndin styrktust af samvinnunni? Ánægjuleg reynsla af því tagi veitir vissa innsýn í kærleikann sem þroskaðist milli Jehóva og eingetins sonar hans. Við höfum vitnað oftar en einu sinni í Orðskviðina 8:30 en nú skulum við líta nánar á versið í samhengi. Í versi 22 til 31 er að finna innblásna lýsingu þar sem viskan er persónugerð. Hvernig vitum við að þessi orð eiga við son Guðs?

7 Í versi 22 segir viskan: „Jehóva skapaði mig á undan öllu öðru, fyrir óralöngu var ég fyrsta verk hans.“ Hér hlýtur að vera átt við meira en viskuna vegna þess að hún var aldrei ‚sköpuð‘. Viskan á sér ekkert upphaf af því að Jehóva hefur alltaf verið til og hann hefur alltaf verið vitur. (Sálmur 90:2) Sonur Guðs er hins vegar „frumburður alls sem er skapað“. Hann var skapaður, fyrstur allra verka Jehóva. (Kólossubréfið 1:15) Sonurinn var til orðinn á undan himni og jörð eins og lýst er í Orðskviðunum. Og sem Orðið, það er að segja talsmaður Guðs, var hann fullkomin ímynd visku Jehóva. – Jóhannes 1:1.

8. Hvað hafði sonurinn fyrir stafni áður en hann varð maður og hvað gæti komið upp í hugann þegar við dáumst að sköpunarverkinu?

8 Hvað hafði sonurinn fyrir stafni allan þann tíma sem hann var á himni áður en hann kom til jarðar? Í 30. versinu segir að hann hafi verið Guði við hlið sem „listasmiður“. Hvað er fólgið í því? Í Kólossubréfinu 1:16 segir: „Með hjálp hans var allt annað skapað á himni og jörð … Allt var skapað með aðstoð hans og fyrir hann.“ Skaparinn Jehóva notaði son sinn, listasmiðinn, til að mynda allt annað – allt frá andaverunum á himni til hins víðáttumikla alheims. Hann notaði hann til að skapa jörðina með fjölbreyttu jurta- og dýralífi og manninn sem er hátindur hinnar jarðnesku sköpunar. Að vissu leyti mætti líkja samvinnu föður og sonar við samvinnu arkitekts og byggingarmeistara sem sérhæfir sig í því að reisa byggingarnar sem arkitektinn hannar. Þegar eitthvert af sköpunarverkum Guðs vekur lotningu okkar erum við í rauninni að lofa hönnuðinn mikla fyrir verk hans. (Sálmur 19:1) En okkur verður kannski líka hugsað til langrar og ánægjulegrar samvinnu skaparans og ‚listasmiðs‘ hans.

9, 10. (a) Hvað styrkti böndin milli Jehóva og sonar hans? (b) Hvernig getum við styrkt tengslin við föðurinn á himnum?

9 Þegar tveir ófullkomnir menn vinna náið saman getur stundum kastast í kekki milli þeirra. En svo var ekki hjá Jehóva og syni hans. Sonurinn vann óralengi með föðurnum og „gladdist frammi fyrir honum öllum stundum“, eins og hann segir sjálfur frá. (Orðskviðirnir 8:30) Já, hann naut þess að vera með föður sínum og tilfinningin var gagnkvæm. Eðlilega líktist sonurinn föðurnum meir og meir eftir því sem hann tileinkaði sér eiginleika hans. Það er því eðlilegt að böndin milli föður og sonar skyldu verða jafn sterk og raun ber vitni. Það má réttilega kalla þau elstu og sterkustu kærleiksbönd í alheiminum.

10 En hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Við hugsum ef til vill sem svo að við getum aldrei eignast svona náin tengsl við Jehóva. Ekkert okkar er auðvitað í jafn hárri stöðu og sonurinn. Engu að síður er okkur gefið einstakt tækifæri. Við munum að Jesús styrkti tengslin við föður sinn með því að vinna með honum. Jehóva býður okkur í kærleika sínum að vera „samverkamenn“ sínir. (1. Korintubréf 3:9) Þegar við líkjum eftir Jesú í þjónustu okkar skulum við alltaf hafa hugfast að við erum samverkamenn Guðs. Það styrkir kærleiksböndin milli okkar og hans. Er hægt að hugsa sér nokkuð háleitara?

Hvernig viðhélt Jesús sterkum kærleika til Jehóva?

11–13. (a) Af hverju er gott að líta á kærleikann eins og hann sé lifandi og hvernig hélt Jesús kærleika sínum sterkum sem ungur piltur? (b) Hvernig sýndi sonur Guðs að hann langaði til að fræðast af föður sínum, bæði fyrir jarðvist sína og meðan á henni stóð?

11 Að mörgu leyti er gott að hugsa um kærleikann í hjörtum okkar eins og hann sé lifandi. Eigi kærleikurinn að dafna og vaxa þarf að hlúa að honum, rétt eins og fallegu stofublómi. Sé hann vanræktur og vannærður visnar hann og deyr. Jesús leit ekki á kærleika sinn til föðurins sem sjálfsagðan hlut heldur hélt honum sterkum og lifandi alla tíð meðan hann var hér á jörð. Hvernig fór hann að því?

12 Rifjum upp fyrir okkur atvikið þegar Jesús talaði opinskátt við lærifeðurna í musterinu í Jerúsalem, þá 12 ára gamall. Við munum að hann sagði foreldrum sínum sem höfðu leitað hans angistarfull: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að ég á að vera í húsi föður míns?“ (Lúkas 2:49) Ekkert bendir til þess að Jesús hafi sem ungur piltur munað eftir fortilveru sinni á himnum. En það breytti ekki því að hann elskaði Jehóva föður sinn afar heitt. Hann vissi að slíkur kærleikur fengi eðlilega útrás í tilbeiðslu. Enginn staður á jarðríki togaði því jafn sterkt í hann og húsið þar sem faðir hans var tilbeðinn. Hann þráði að vera þar og vildi ógjarnan fara þaðan. Og hann kom ekki bara til að horfa og hlusta. Hann brann í skinninu að fræðast um Jehóva og segja frá því sem hann vissi. Þessi löngun spratt ekki skyndilega upp þegar hann var 12 ára og hún hvarf ekki heldur við svo búið.

13 Áður en sonurinn kom til jarðar hafði hann verið óðfús að læra af föður sínum. Í spádómi í Jesaja 50:4–6 kemur fram að Jehóva hafi frætt son sinn sérstaklega um hlutverk hans sem Messías. Sonurinn var námfús jafnvel þó að hann þyrfti einnig að fræðast um þær þrengingar sem Messías átti að ganga í gegnum. Jesús hélt uppteknum hætti þegar hann var kominn til jarðar og orðinn fulltíða maður. Hann tók þátt í tilbeiðslunni í musterinu og fræðslunni sem Jehóva vildi halda uppi þar. Í Biblíunni segir frá því að hann hafi sótt bæði musterið og samkunduhúsið dyggilega. (Lúkas 4:16; 19:47) Ef við viljum halda kærleikanum til Jehóva lifandi og sterkum þurfum við að sækja safnaðarsamkomur staðfastlega en þar tilbiðjum við Jehóva og aukum þekkingu okkar á honum og þakklæti til hans.

„Hann [gekk] upp á fjallið einn síns liðs til að biðjast fyrir.“

14, 15. (a) Af hverju sóttist Jesús eftir því að vera einn? (b) Hvernig lýsa bænir Jesú innilegu sambandi við föðurinn og virðingu fyrir honum?

14 Jesús hélt kærleikanum til Jehóva sterkum með því að biðja reglulega. Enda þótt hann væri félagslyndur að eðlisfari vekur athygli að hann sóttist oft eftir því að vera einn. Til dæmis segir um hann í Lúkasi 5:16: „Hann fór … oft á óbyggða staði til að biðjast fyrir.“ Sömuleiðis segir í Matteusi 14:23: „Eftir að hafa sent fólkið burt gekk hann upp á fjallið einn síns liðs til að biðjast fyrir. Um kvöldið var hann þar einn.“ Jesús vildi oft vera einn, ekki af því að hann væri einrænn og væri ami af félagsskap annarra heldur af því að hann vildi vera einn með Jehóva til að geta talað frjálsmannlega við hann í bæn.

15 Þegar Jesús baðst fyrir notaði hann oft orðin „Abba, faðir“. (Markús 14:36) Á dögum Jesú var „abba“ innilegt ávarpsorð sem notað var innan fjölskyldunnar. Það var gjarnan eitt fyrsta orðið sem barn lærði að segja. Þetta var engu að síður virðulegt orð. Það lýsir vel nánu sambandi sonarins við föðurinn en jafnframt djúpri virðingu fyrir föðurlegu valdi Jehóva. Þessi innileiki samhliða virðingu kemur alls staðar fram í þeim bænum Jesú sem skráðar eru. Í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls er til dæmis skráð löng og innileg bæn sem Jesús bað síðasta kvöldið sem hann lifði hér á jörð. Þetta er áhrifamikil bæn og við ættum að líkja eftir henni, ekki með því að endurtaka orð Jesú heldur með því að tala opinskátt og einlægt við föðurinn á himnum eins oft og við getum. Þannig höldum við kærleikanum til hans lifandi og sterkum.

16, 17. (a) Hvernig birtist kærleikur Jesú til föðurins í því sem hann sagði? (b) Hvernig lýsti Jesús örlæti föður síns?

16 Eins og áður hefur verið bent á sagði Jesús ekki sí og æ: „Ég elska föðurinn.“ Engu að síður kom kærleikur hans til föðurins oft fram í því sem hann sagði. Hvernig þá? Hann sagði: „Faðir, Drottinn himins og jarðar, ég lofa þig í áheyrn annarra.“ (Matteus 11:25) Í 2. hluta þessarar bókar kom fram að Jesús hafði yndi af því að lofa föður sinn með því að hjálpa fólki að kynnast honum. Til dæmis líkti hann Jehóva við föður sem var svo mikið í mun að fyrirgefa ódælum syni að hann beið eftir að hann kæmi heim á ný. Og þegar hann sá unga manninn í fjarska hljóp hann á móti honum og faðmaði iðrandi soninn að sér. (Lúkas 15:20) Getur nokkur maður lesið þessa lýsingu á kærleika og fyrirgefningu Jehóva án þess að hlýna um hjartarætur?

17 Oft lofaði Jesús föður sinn fyrir örlæti hans. Hann tók ófullkomna foreldra sem dæmi til að sýna fram á að Jehóva gefi okkur eins mikið af heilögum anda og við þurfum á að halda. (Lúkas 11:13) Hann talaði einnig um vonina sem faðirinn veitir af miklu örlæti. Hann talaði með eftirvæntingu um þá von sína að fara aftur til föður síns á himnum. (Jóhannes 14:28; 17:5) Hann sagði fylgjendum sínum frá voninni sem Jehóva veitir ‚litlu hjörðinni‘ – voninni um að búa á himnum og ríkja með konunginum Messíasi. (Lúkas 12:32; Jóhannes 14:2) Og hann hughreysti deyjandi afbrotamann með voninni um líf í paradís. (Lúkas 23:43) Að tala þannig um hið mikla örlæti föðurins hefur örugglega hjálpað honum að viðhalda sterkum kærleika til hans. Margir af fylgjendum Krists hafa uppgötvað að ekkert styrkir meira kærleikann til Jehóva og trúna á hann en að tala um hann og vonina sem hann gefur þeim sem elska hann.

Ætlar þú að líkja eftir kærleika Jesú til Jehóva?

18. Að hvaða leyti er mikilvægast að líkja eftir Jesú og af hverju?

18 Við getum líkt eftir Jesú á marga vegu en ekkert er þó mikilvægara en þetta: Við verðum að elska Jehóva af öllu hjarta, sál, huga og mætti. (Lúkas 10:27) Styrkur kærleikans fer ekki aðeins eftir því hve sterkar tilfinningar okkar eru heldur einnig hvernig þær birtast í verki. Jesú fannst ekki nóg að segjast elska Jehóva eða bera sterkar tilfinningar til hans. Hann sagði: „Til að heimurinn viti að ég elska föðurinn geri ég eins og faðirinn hefur gefið mér fyrirmæli um.“ (Jóhannes 14:31) Satan hafði haldið því fram að enginn maður myndi þjóna Jehóva af óeigingjörnum kærleika. (Jobsbók 2:4, 5) Jesús vildi svara illskeyttum rógi Satans eins skýrt og hægt væri og sýndi heiminum í verki hve heitt hann elskaði föðurinn. Hann hlýddi Jehóva hugrakkur og lagði jafnvel lífið í sölurnar. Ætlar þú að feta í fótspor Jesú? Ætlar þú að sýna heiminum að þú elskar Jehóva Guð í raun og sannleika?

19, 20. (a) Af hverju viljum við sækja safnaðarsamkomur reglulega? (b) Hvernig ættum við að líta á sjálfsnám, hugleiðingu og bænir?

19 Við höfum djúpstæða þörf fyrir að sýna að við elskum Jehóva. Hann hefur því gert ráðstafanir til þess að við getum tilbeðið með þeim hætti að það næri og styrki þennan kærleika. Þegar þú sækir safnaðarsamkomur skaltu minna þig á að þú ert þangað kominn til að tilbiðja Guð. Tilbeiðslan er meðal annars fólgin í því að sameinast í innilegri bæn, syngja lofsöngva, hlusta með athygli og taka þátt í samkomunum eftir því sem kostur er. Samkomur bjóða einnig upp á tækifæri til að hvetja og uppörva aðra í söfnuðinum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þú styrkir kærleikann til Jehóva með því að tilbiðja hann reglulega á safnaðarsamkomum.

20 Hið sama má segja um sjálfsnám, hugleiðingu og bænir sem þú ferð með í einrúmi. Líttu á þetta sem tækifæri til að vera einn með Jehóva. Með því að lesa og hugleiða orð Guðs ertu að taka til þín hugsanir hans. Þegar þú biðst fyrir ertu að opna hjarta þitt fyrir honum. Mundu að bænin er annað og meira en aðeins að biðja Jehóva um eitthvað. Bænin býður einnig upp á tækifæri til að þakka honum þá blessun sem þú hefur hlotið og lofa hann fyrir undursamleg verk hans. (Sálmur 146:1) Og besta leiðin til að þakka Jehóva og sýna að þú elskir hann er að lofa hann með fögnuði og ákafa meðal fólks.

21. Hve mikilvægt er það að elska Guð og hvað verður skoðað í köflunum á eftir?

21 Eilíf hamingja okkar er undir því komin að við elskum Guð. Annað hefðu Adam og Eva ekki þurft að gera til að vegna vel – en það var einmitt þetta sem þau vantaði. Að elska Guð er það mikilvægasta sem þú getur gert til að standast hvers kyns trúarprófraunir, freistingar og erfiðleika. Kærleikurinn er undirstaða þess að fylgja Jesú. Að elska Guð er auðvitað nátengt því að elska náungann. (1. Jóhannesarbréf 4:20) Í köflunum á eftir könnum við hvernig Jesús sýndi kærleika sinn til annarra manna. Við skulum byrja á því að skoða hvers vegna margir löðuðust að Jesú.