Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

17. KAFLI

„Enginn á meiri kærleika“

„Enginn á meiri kærleika“

1–4. (a) Hvað gerist þegar Pílatus leiðir Jesú fram fyrir reiðan mannfjöldann sem hefur safnast saman fyrir utan höll hans? (b) Hvernig bregst Jesús við auðmýkingunni og þjáningunum og hvaða spurningar vakna?

 „SJÁIÐ manninn!“ Með þessum orðum leiðir Pontíus Pílatus Jesú fram fyrir reiðan múginn sem safnast hefur saman fyrir framan höll rómverska landstjórans að morgni páskadags árið 33. (Jóhannes 19:5) Aðeins fáeinum dögum áður hafði mannfjöldinn fagnað Jesú þegar hann reið inn í Jerúsalem sem konungur útvalinn af Guði. En þennan dag er mannfjöldinn fjandsamlegur og sér hann allt öðrum augum.

2 Jesús er klæddur purpuraskikkju eins og konungur væri og er með kórónu á höfði. En með skikkjunni, sem er lögð yfir tætt og blóði drifið holdið á baki hans, og kórónunni, sem er fléttuð úr þyrnum og þrýst inn í blæðandi hársvörðinn, er verið að hæðast að konungstign hans. Að áeggjan æðstuprestanna hafnar fólkið illa leiknum manninum sem stendur þarna. Prestarnir hrópa: „Staurfestu hann! Staurfestu hann!“ Mannfjöldinn er í morðhug og tekur undir fullum hálsi. – Jóhannes 19:1–7.

3 Með reisn og hugrekki lætur Jesús auðmýkinguna og þjáningarnar yfir sig ganga án þess að hreyfa andmælum. a Hann er tilbúinn til að deyja. Síðar þennan páskadag deyr hann kvalafullum dauða á aftökustaur. – Jóhannes 19:17, 18, 30.

4 Jesús reyndist sannur vinur fylgjenda sinna með því að fórna lífi sínu fyrir þá. „Enginn á meiri kærleika en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína,“ sagði hann. (Jóhannes 15:13) Þetta vekur nokkrar mikilvægar spurningar. Þurfti Jesús virkilega að líða allar þessar þjáningar og deyja síðan? Af hverju var hann fús til þess? Hvernig getum við líkt eftir honum sem vinir hans og fylgjendur?

Af hverju þurfti Jesús að þjást og deyja?

5. Hvernig vissi Jesús nákvæmlega hvaða prófraunir biðu hans?

5 Jesús var hinn fyrirheitni Messías og vissi hvað hann átti í vændum. Hann þekkti hina mörgu spádóma í Hebresku ritningunum sem lýstu ítarlega þjáningum Messíasar og dauða. (Jesaja 53:3–7, 12; Daníel 9:26) Til að undirbúa lærisveinana sagði hann þeim oftar en einu sinni frá þeim þjáningum sem biðu hans. (Markús 8:31; 9:31) Þegar þeir voru á leið til Jerúsalem til að halda páska í síðasta sinn sagði hann postulunum beinum orðum: „Mannssonurinn verður látinn í hendur yfirpresta og fræðimanna. Þeir munu dæma hann til dauða og láta hann í hendur manna af þjóðunum sem munu hæðast að honum, hrækja á hann, húðstrýkja og taka af lífi.“ (Markús 10:33, 34) Jesús vissi hvað hann var að segja. Eins og fram hefur komið var hann hæddur, það var hrækt á hann, hann var húðstrýktur og að lokum tekinn af lífi.

6. Af hverju þurfti Jesús að þjást og deyja?

6 En af hverju þurfti Jesús að þjást og deyja? Fyrir því voru nokkrar mjög mikilvægar ástæður. Í fyrsta lagi: Með því að vera trúr myndi Jesús sanna sig ráðvandan og helga nafn Jehóva. Við munum að Satan fullyrti ranglega að mennirnir þjónuðu Guði aðeins af eigingjörnum hvötum. (Jobsbók 2:1–5) Með því að vera „hlýðinn allt til dauða … á kvalastaur“ gaf Jesús skýrasta svar sem hægt var við tilhæfulausum ásökunum Satans. (Filippíbréfið 2:8; Orðskviðirnir 27:11) Í öðru lagi: Með því að þjást og deyja myndi Messías friðþægja fyrir syndir annarra. (Jesaja 53:5, 10; Daníel 9:24) Jesús gaf „líf sitt sem lausnargjald fyrir marga“ þannig að við gætum átt velþóknun Guðs. (Matteus 20:28) Í þriðja lagi: Með því að ganga gegnum alls konar þrengingar og þjáningar var Jesús „reyndur á allan hátt eins og við“. Hann er því miskunnsamur æðstiprestur og getur „haft samúð með okkur í veikleika okkar“. – Hebreabréfið 2:17, 18; 4:15.

Hvers vegna var Jesús fús til að gefa líf sitt?

7. Hverju afsalaði Jesús sér þegar hann kom til jarðar?

7 Til að sjá í réttu samhengi það sem Jesús gerði skaltu velta fyrir þér eftirfarandi: Hver myndi yfirgefa heimili sitt og fjölskyldu og flytja til fjarlægs lands ef hann vissi að flestir landsmanna myndu hafna honum, hann yrði auðmýktur og pyntaður og síðan myrtur? Lítum nú á það sem Jesús gerði. Áður en hann kom til jarðar hafði hann háa stöðu á himnum hjá föður sínum. En hann yfirgaf fúslega heimili sitt á himnum og kom til jarðar sem maður. Hann gerði þetta þó að hann vissi að flestir myndu hafna honum, hann yrði miskunnarlaust auðmýktur og þyrfti að líða óbærilegar þjáningar og kvalafullan dauða. (Filippíbréfið 2:5–7) Af hvaða hvötum færði Jesús slíka fórn?

8, 9. Af hvaða hvötum gaf Jesús líf sitt?

8 Jesús gerði þetta fyrst og fremst af því að honum þótti afar vænt um föður sinn. Með því að vera þolgóður sýndi hann hve heitt hann elskaði Jehóva. Það var þess vegna sem honum var annt um nafn hans og orðstír. (Matteus 6:9; Jóhannes 17:1–6, 26) Jesús þráði heitar en nokkuð annað að sjá nafn föður síns hreinsað af þeirri miklu vanvirðu sem það hafði mátt þola. Þess vegna taldi hann það einstakan heiður að mega þjást vegna réttlætisins. Hann vissi að með ráðvendni sinni myndi hann eiga þátt í að helga hið góða og fagra nafn föður síns. – 1. Kroníkubók 29:13.

9 Jesú gekk annað til með því að leggja lífið í sölurnar. Hann elskaði mannkynið og það átti rætur sínar að rekja allt aftur til upphafs mannkynssögunnar. Biblían segir frá því að honum hafi verið þannig innanbrjósts löngu áður en hann kom til jarðar. Hún segir að hann hafi haft „sérstakt yndi af mönnunum“. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Þessi kærleikur var augljós þegar Jesús var hér á jörð. Eins og fram kemur í síðustu þrem köflunum hér á undan sýndi hann á marga vegu að hann elskaði fólk almennt og ekki síst fylgjendur sína. En hinn 14. nísan árið 33 gaf hann líf sitt fúslega fyrir okkur mennina. (Jóhannes 10:11) Betur gat hann ekki sýnt hve heitt hann elskaði okkur. Ættum við að líkja eftir honum að þessu leyti? Já, og okkur er meira að segja skipað að gera það.

„Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur“

10, 11. Hvert er nýja boðorðið sem Jesús gaf fylgjendum sínum, hvað er fólgið í því og af hverju er mikilvægt að fylgja því?

10 Kvöldið áður en Jesús dó sagði hann lærisveinunum sem voru honum nákomnastir: „Ég gef ykkur nýtt boðorð, að þið elskið hver annan. Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur. Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) „Elskið hver annan“ – af hverju er þetta „nýtt boðorð“? Nú stóð í Móselögunum: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ (3. Mósebók 19:18) En nýja boðorðið kallar á enn meiri kærleika – kærleika sem er okkur hvöt til að leggja lífið í sölurnar fyrir aðra. Jesús tók það fram þegar hann sagði: „Það er boðorð mitt að þið elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur. Enginn á meiri kærleika en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:12, 13) Nýja boðorðið er efnislega þetta: „Elskið aðra, ekki eins og sjálfa ykkur heldur meira en sjálfa ykkur.“ Með lífi sínu og dauða var Jesús dæmi um slíkan kærleika.

11 Af hverju er mikilvægt að við hlýðum nýja boðorðinu? Við munum að Jesús sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ Já, fórnfús kærleikur staðfestir að við séum sannkristin. Það mætti líkja honum við barmmerki. Gestir á árlegum mótum Votta Jehóva bera slík merki. Á merkinu stendur nafn og heimasöfnuður þess sem ber það. Fórnfús kærleikur sannkristinna manna er eins og „barmmerki“ þeirra. Við ættum með öðrum orðum að elska hvert annað með svo áberandi hætti að það sé eins og merki eða skilríki sem segja öðrum að við séum sannir fylgjendur Krists. Okkur er öllum hollt að spyrja hvort þetta „merki“ um fórnfúsan kærleika sé augljóst hjá sjálfum okkur.

Hvað er fórnfús kærleikur?

12, 13. (a) Hve langt þurfum við að vera fús til að ganga til að sýna hvert öðru kærleika? (b) Hvað merkir það að vera fórnfús?

12 Við sem fylgjum Jesú þurfum að elska hvert annað eins og hann elskaði okkur. Það merkir að við eigum að vera fús til að færa fórnir fyrir trúsystkini okkar. Hve miklu ættum við að vera fús til að fórna? Í Biblíunni segir: „Við þekkjum kærleikann af því að hann gaf líf sitt fyrir okkur, og okkur er skylt að gefa líf okkar fyrir bræður okkar og systur.“ (1. Jóhannesarbréf 3:16) Við þurfum, líkt og Jesús, að vera fús til að deyja hvert fyrir annað ef þörf krefur. Þegar við erum ofsótt viljum við frekar fórna eigin lífi en svíkja trúsystkini okkar og stofna lífi þeirra í hættu. Í löndum þar sem átök geisa milli kynþátta eða þjóðarbrota erum við tilbúin til að hætta lífinu til að vernda trúsystkini okkar, óháð kynþætti þeirra eða þjóðerni. Þegar þjóðir heyja stríð viljum við frekar sitja í fangelsi eða láta lífið en grípa til vopna gegn trúsystkinum – eða nokkrum öðrum ef út í það er farið. – Jóhannes 17:14, 16; 1. Jóhannesarbréf 3:10–12.

13 Fórnfús kærleikur er ekki aðeins fólginn í því að vera fús til að láta lífið fyrir trúsystkini okkar. Sannleikurinn er sá að fáir þurfa nokkurn tíma að færa svo mikla fórn. En ef við elskum trúsystkini okkar nógu heitt til að deyja fyrir þau, ættum við þá ekki að vera fús til að færa smærri fórnir og leggja lykkju á leið okkar til að hjálpa þeim núna? Að vera fórnfús merkir að fórna eigin hag eða þægindum fyrir aðra. Við látum þarfir þeirra og velferð ganga fyrir okkar eigin, jafnvel þó að það valdi okkur einhverjum óþægindum. (1. Korintubréf 10:24) Hvernig getum við sýnt fórnfúsan kærleika í verki?

Í söfnuðinum og fjölskyldunni

14. (a) Hvaða fórnir þurfa öldungar að færa? (b) Hvernig lítur þú á öldungana sem leggja sig alla fram í söfnuðinum þínum?

14 Safnaðaröldungar færa margar fórnir til að gæta hjarðarinnar. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Auk þess að annast eigin fjölskyldu geta þeir þurft að nota tíma á kvöldin eða um helgar til að sinna safnaðarmálum, þar á meðal að undirbúa verkefni fyrir samkomur, fara í hirðisheimsóknir og sitja í dómnefndum. Margir öldungar færa líka fórnir með vinnu sinni á mótum Votta Jehóva, í spítalasamskiptanefndum og vitjunarhópum sem heimsækja sjúka á spítölum. Aðrir vinna sem sjálfboðaliðar hjá hönnunar- og byggingardeildinni. Gleymið aldrei að þið sýnið fórnfúsan kærleika með því að þjóna af fúsu geði og nota tíma ykkar, krafta og fjármuni til að gæta hjarðarinnar. (2. Korintubréf 12:15) Bæði Jehóva og söfnuðurinn sem þið gætið kunna að meta óeigingjarna þjónustu ykkar. – Filippíbréfið 2:29; Hebreabréfið 6:10.

15. (a) Hvaða fórnir þurfa eiginkonur öldunga að færa? (b) Hvað finnst þér um fórnfýsi eiginkvenna sem þurfa að sjá af mönnum sínum vegna safnaðarstarfa?

15 En hvað um eiginkonur safnaðaröldunga? Færa þær ekki líka fórnir með því að styðja eiginmenn sína til að þeir geti annast hjörðina? Eiginkona er auðvitað að færa fórnir á þeim stundum þegar maðurinn hennar sinnir safnaðarmálum í stað þess að vera með fjölskyldunni. Og hvað um eiginkonur farandhirða sem færa ýmsar fórnir til að geta ferðast með eiginmönnum sínum frá einum söfnuði til annars og frá einu farandsvæði til annars? Þær neita sér um það að eiga eigið heimili og þurfa kannski stundum að sofa í ókunnu rúmi í hverri viku. Eiginkonur sem taka hagsmuni safnaðarins fúslega fram yfir sína eigin eiga hrós skilið fyrir örlæti sitt og fórnfúsan kærleika. – Filippíbréfið 2:3, 4.

16. Hvaða fórnir færa kristnir foreldrar í þágu barnanna?

16 Hvernig getum við sýnt fórnfúsan kærleika í fjölskyldunni? Þið foreldrar færið margar fórnir til að annast börnin og ala þau upp með því að „aga þau og leiðbeina þeim eins og Jehóva vill“. (Efesusbréfið 6:4) Sum ykkar þurfa að vinna langan og strangan vinnudag til að sjá börnunum fyrir viðunandi fæði, klæði og húsnæði. Frekar viljið þið neita sjálfum ykkur um eitthvað en að börnin vanti brýnustu nauðsynjar. Þið leggið sömuleiðis mikið á ykkur til að kenna börnunum, fara með þau á safnaðarsamkomur og vera með þeim í boðunarstarfinu. (5. Mósebók 6:6, 7) Fórnfýsi ykkar gleður höfund fjölskyldunnar og hún getur orðið til þess að börnin ykkar hljóti eilíft líf. – Orðskviðirnir 22:6; Efesusbréfið 3:14, 15.

17. Hvernig geta kristnir eiginmenn líkt eftir óeigingirni Jesú?

17 Hvernig getið þið eiginmenn líkt eftir fórnfúsum kærleika Jesú? Biblían svarar: „Þið menn, elskið eiginkonur ykkar eins og Kristur elskaði söfnuðinn og gaf líf sitt fyrir hann.“ (Efesusbréfið 5:25) Eins og fram hefur komið elskaði Jesús fylgjendur sína svo heitt að hann dó fyrir þá. Kristinn eiginmaður líkir eftir óeigingirni Jesú sem „hugsaði ekki um eigin hag“. (Rómverjabréfið 15:3) Hann tekur þarfir og óskir eiginkonunnar fram yfir sínar eigin. Hann heimtar ekki að fá sínu framgengt heldur er hann sveigjanlegur þegar málið snýst ekki um biblíulegar meginreglur. Eiginmaður sem sýnir fórnfúsan kærleika ávinnur sér velþóknun Jehóva og ást og virðingu konu sinnar og barna.

Hvað ætlar þú að gera?

18. Hvað hvetur okkur til að fylgja nýja boðorðinu, að elska hvert annað?

18 Það er ekki auðvelt að fara eftir nýja boðorðinu, að elska hvert annað, en við höfum sterka hvöt til þess. Páll skrifaði: „Kærleikur Krists knýr okkur því að við höfum ályktað sem svo: Einn maður dó fyrir alla … Og hann dó fyrir alla til að þeir sem lifa lifðu ekki lengur fyrir sjálfa sig heldur fyrir hann sem dó fyrir þá og var reistur upp.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Fyrst Jesús dó fyrir okkur, ættum við þá ekki að finna okkur knúin til að lifa fyrir hann? Við getum gert það með því að fylgja fordæmi hans og sýna fórnfúsan kærleika.

19, 20. Hvaða dýrmætu gjöf hefur Jehóva gefið okkur og hvernig getum við sýnt að við tökum við henni?

19 Jesús var ekki að ýkja þegar hann sagði: „Enginn á meiri kærleika en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Með því að fórna lífi sínu vann Jesús mesta kærleiksverk sem hann gat í okkar þágu. En Jehóva Guð vann þó enn meira kærleiksverk. Jesús sagði: „Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Guð elskar okkur svo heitt að hann gaf son sinn sem lausnargjald þannig að hægt væri að frelsa okkur úr fjötrum syndar og dauða. (Efesusbréfið 1:7) Lausnargjaldið er dýrmæt gjöf frá Jehóva en hann þvingar okkur samt ekki til að taka við henni.

20 Það er undir okkur komið að þiggja gjöf Jehóva. Hvernig gerum við það? Með því að trúa á son hans. En það er ekki nóg að segjast trúa heldur þarf trúin að sýna sig í verkum okkar og líferni. (Jakobsbréfið 2:26) Við sönnum trú okkar á Jesú Krist með því að fylgja honum dag frá degi. Ef við gerum það hljótum við mikla blessun, bæði núna og í framtíðinni. Nánar verður fjallað um það í síðasta kafla þessarar bókar.

a Tvisvar þennan dag var hrækt á Jesú. Fyrst voru það trúarleiðtogarnir sem gerðu það en síðan rómversku hermennirnir. (Matteus 26:59–68; 27:27–30) Hann tók þessari smánarlegu meðferð án þess að mótmæla og uppfyllti þar með spádóminn sem segir: „Ég huldi ekki andlitið fyrir háðsglósum og hrákum.“ – Jesaja 50:6.