Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

18. KAFLI

„Haltu áfram að fylgja mér“

„Haltu áfram að fylgja mér“

1–3. (a) Hvernig skildi Jesús við postulana og af hverju var þetta ekki harmþrungin kveðjustund? (b) Af hverju þurfum við að kynna okkur hvaða verkefni Jesús hefur haft með höndum síðan hann sneri aftur til himna?

 ELLEFU menn standa saman uppi á hæð. Þeir horfa með ást og aðdáun á veru í mannsmynd. Þetta er Jesús. Hann er nú upprisinn og er orðinn voldugasti andasonur Guðs á nýjan leik. Hann hefur kallað postulana til fundar við sig á Olíufjallinu í síðasta sinn.

2 Olíufjallið er kalksteinshæð, ein af nokkrum sem liggja handan við Kedrondal, skammt frá Jerúsalem. Þessi staður hlýtur að kalla fram margar minningar í huga Jesú. Í fjallshlíðinni stendur bærinn Betanía þar sem hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Nokkrum vikum áður hafði hann lagt upp frá Betfage, þar í grenndinni, þegar hann reið sem konungur inn í Jerúsalem. Sennilegt er að Getsemanegarðurinn hafi verið í hlíðum fjallsins en þar eyddi Jesús angistarfullum klukkustundum áður en hann var handtekinn. Núna er hann staddur uppi á þessari sömu hæð og býr sig undir að kveðja nánustu vini sína og fylgjendur. Hann segir nokkur hlýleg orð að skilnaði. Síðan lyftist hann upp frá jörðinni! Postularnir standa eins og þeir séu límdir við jörðina og horfa á eftir ástkærum meistara sínum þar sem hann stígur upp til himins. Að lokum hverfur hann sjónum þeirra bak við ský og þeir sjá hann ekki framar. – Postulasagan 1:6–12.

3 Er þetta ljúfsár endir og harmþrungin kveðjustund? Nei, tveir englar birtast postulunum og minna þá á að saga Jesú sé hvergi nærri á enda. (Postulasagan 1:10, 11) Að mörgu leyti er burtför hans til himna aðeins upphafið. Orð Guðs upplýsir hvað gerist hjá Jesú í framhaldi af þessu. Það er mikilvægt að kynna sér hverju hann hefur unnið að síðan hann yfirgaf jörðina. Af hverju? Mundu að Jesús sagði Pétri: „Haltu áfram að fylgja mér.“ (Jóhannes 21:19, 22) Við þurfum öll að hlýða þessum fyrirmælum, ekki aðeins um stundar sakir heldur alla ævi. Til að gera það þurfum við að vita hvað meistari okkar er að gera núna og hvaða verkefni hann hefur fengið á himnum.

Hvað hefur Jesús gert síðan hann fór frá jörðinni?

4. Hvernig opinberaði Biblían fyrir fram hvað myndi gerast á himnum eftir að Jesús sneri þangað?

4 Biblían lýsir ekki komu Jesú til himna, viðtökunum sem hann fékk né ánægjulegum endurfundum hans við föður sinn. Hins vegar var opinberað löngu fyrir fram hvað myndi gerast á himnum skömmu eftir að hann sneri þangað. Í meira en 15 aldir höfðu Gyðingar orðið vitni að heilagri athöfn á friðþægingardeginum ár hvert. Þann dag gekk æðstipresturinn inn í hið allra helgasta í musterinu og sletti blóði friðþægingarfórnarinnar frammi fyrir sáttmálsörkinni. Æðstipresturinn táknaði Messías þennan dag. Jesús uppfyllti spádómlega merkingu þessarar athafnar í eitt skipti fyrir öll eftir að hann sneri aftur til himna. Hann gekk fram fyrir Jehóva á himnum – helgasta stað alheims – og bar fram andvirði lausnarfórnar sinnar. (Hebreabréfið 9:11, 12, 24) Veitti Jehóva því viðtöku?

5, 6. (a) Hvað sýnir að Jehóva veitti lausnarfórn Krists viðtöku? (b) Hverjir njóta góðs af lausnarfórninni og hvernig?

5 Við sjáum svarið af atburði sem átti sér stað nokkrum dögum eftir að Jesús steig upp til himna. Um 120 kristnir menn voru samankomnir í loftsal í Jerúsalem þegar heyrðist gnýr af himni eins og stormur væri skollinn á. Eitthvað sem líktist eldtungum birtist yfir höfðum þeirra, þeir fylltust heilögum anda og fóru að tala ýmis tungumál. (Postulasagan 2:1–4) Þessi atburður markaði tilurð nýrrar þjóðar, andlegrar Ísraelsþjóðar sem var „útvalinn kynstofn“ Guðs og „konungleg prestastétt“ sem átti að gera vilja hans á jörðinni. (1. Pétursbréf 2:9) Ljóst er að Jehóva Guð hafði veitt lausnarfórn Krists viðtöku og hafði velþóknun á henni. Þessi úthelling heilags anda var ein fyrsta blessunin sem lausnargjaldið hafði í för með sér.

6 Upp frá þessu hafa fylgjendur Krists um heim allan notið góðs af lausnarfórn hans. Við gerum það hvort sem við tilheyrum ‚litlu hjörðinni‘, hinum andasmurðu sem eiga að ríkja með Kristi á himnum, eða erum af ‚öðrum sauðum‘ sem fá að búa á jörðinni undir stjórn hans. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Lausnarfórn Krists er undirstaða vonarinnar sem við berum í brjósti og þess að við fáum syndir okkar fyrirgefnar. Meðan við trúum á fórn Jesú og fylgjum honum dag frá degi getum við haft hreina samvisku og átt bjarta framtíðarvon. – Jóhannes 3:16.

7. Hvaða vald var Jesú gefið eftir að hann sneri til himna og hvernig geturðu stutt hann?

7 Hvað hefur Jesús verið að gera á himnum síðan hann sneri þangað aftur? Honum hefur verið gefið gríðarlegt vald. (Matteus 28:18) Jehóva fól honum yfirráð yfir kristna söfnuðinum og hann hefur farið með þau á kærleiksríkan og réttlátan hátt. (Kólossubréfið 1:13) Eins og spáð var hefur Jesús séð söfnuðinum fyrir ábyrgum mönnum til að annast þarfir hans. (Efesusbréfið 4:8) Sem dæmi valdi hann Pál til að vera „postuli meðal þjóðanna“ og sendi hann til að útbreiða fagnaðarboðskapinn til fjarlægra landa. (Rómverjabréfið 11:13; 1. Tímóteusarbréf 2:7) Undir lok fyrstu aldar flutti Jesús sjö söfnuðum í rómverska skattlandinu Asíu hrós, leiðbeiningar og áminningar. (Opinberunarbókin, 2.–3. kafli) Viðurkennirðu Jesú sem höfuð kristna safnaðarins? (Efesusbréfið 5:23) Til að halda áfram að fylgja honum þarftu að stuðla að hlýðni og góðri samvinnu innan heimasafnaðar þíns.

8, 9. Hvaða vald var Jesú gefið árið 1914 og hvaða áhrif ætti það að hafa á ákvarðanir okkar?

8 Jesú var fengið enn meira vald árið 1914 þegar Jehóva skipaði hann konung Messíasarríkisins. Með valdatöku Jesú „braust út stríð á himni“. Því lauk þannig að Satan og illum öndum hans var varpað niður til jarðar með tilheyrandi hörmungum fyrir jarðarbúa. Styrjaldir, glæpir, hryðjuverk, sjúkdómar, jarðskjálftar og hungursneyðir, sem hafa hrjáð mannkynið æ síðan, minna á að Jesús er við völd á himnum núna. Satan er enn þá ‚stjórnandi þessa heims‘ um „nauman tíma“. (Opinberunarbókin 12:7–12; Jóhannes 12:31; Matteus 24:3–7; Lúkas 21:11) En Jesús gefur fólki um allan heim tækifæri til að viðurkenna stjórn sína.

9 Það er mikilvægt að taka afstöðu með konunginum Messíasi. Þegar við tökum ákvarðanir dag frá degi verðum við að sækjast eftir velþóknun hans en ekki heimsins sem er gerspilltur. Þegar hann sem er „konungur konunga og Drottinn drottna“ lítur yfir mannkynið fyllist hjarta hans bæði réttlátri reiði og mikilli gleði. (Opinberunarbókin 19:16) Hvaða ástæðu hefur hann til þess?

Reiði og gleði konungsins Messíasar

10. Hvernig er Jesús að eðlisfari en af hverju fyllist hann réttlátri reiði?

10 Meistari okkar er glaður að eðlisfari eins og faðir hans. (1. Tímóteusarbréf 1:11) Sem maður var hann hvorki gagnrýninn né kröfuharður. Hins vegar hlýtur margt af því sem er að gerast á jörðinni núna að fylla hann réttlátri reiði. Hann er reiður öllum trúfélögunum sem segjast ranglega vera fulltrúar hans. Hann sagði það meira að segja fyrir: „Ekki munu allir sem segja við mig: ‚Drottinn, Drottinn,‘ ganga inn í himnaríki heldur aðeins þeir sem gera vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Drottinn, Drottinn … unnum [við ekki] mörg máttarverk í þínu nafni?‘ Þá svara ég þeim: ‚Ég hef aldrei þekkt ykkur. Farið frá mér, illvirkjar!‘“ – Matteus 7:21–23.

11–13. (a) Af hverju gæti sumum þótt undarlegt hve harðorður Jesús er í garð þeirra sem vinna mörg verk í nafni hans? (b) Af hverju er Jesús reiður? Skýrðu svarið með dæmi.

11 Þessi orð gætu hljómað undarlega í eyrum margra sem kalla sig kristna. Af hverju skyldi Jesús vera svona harðorður í garð fólks sem hefur unnið „mörg máttarverk“ í nafni hans? Kirkjudeildir kristna heimsins hafa starfrækt góðgerðarfélög, aðstoðað fátæka, reist spítala og skóla og gert margt annað í svipuðum dúr. Við skulum bregða upp líkingu til að átta okkur á því af hverju þessar kirkjudeildir hafa kallað yfir sig reiði Jesú.

12 Hjón þurfa að fara í ferðalag. Þau geta ekki tekið börnin með sér og ráða barnfóstru til að gæta þeirra. Fyrirmælin eru einföld: „Gættu barnanna. Gefðu þeim að borða, sjáðu til þess að þau séu hrein og fari sér ekki að voða.“ Þegar hjónin koma heim uppgötva þau sér til skelfingar að börnin eru banhungruð. Þau eru óhrein, vansæl og veikluleg. Börnin grátbiðja fóstruna um að sinna sér en hún lætur sem hún heyri það ekki. Hún stendur uppi í stiga og er að þvo gluggana. Foreldrarnir eru öskureiðir og heimta skýringu. „Sjáið þið ekki allt sem ég er búin að gera?“ svarar barnfóstran. „Eru ekki gluggarnir hreinir? Og ég dyttaði líka að húsinu fyrir ykkur!“ Líður foreldrunum eitthvað betur að heyra þetta? Auðvitað ekki. Þeir báðu barnfóstruna ekki um að gera þetta heldur að annast börnin. Það er ekki nema eðlilegt að þau séu barnfóstrunni fokreið fyrir að hunsa fyrirmæli þeirra.

13 Kirkjudeildir kristna heimsins hafa hegðað sér eins og barnfóstran. Jesús gaf fulltrúum sínum þau fyrirmæli að gefa fólki andlega fæðu með því að kenna því sannleikann í orði Guðs og hjálpa því að halda sér andlega hreinu. (Jóhannes 21:15–17) En kirkjurnar hafa sannarlega ekki farið eftir fyrirmælum hans. Þær hafa svelt fólk andlega og ruglað það með falskenningum svo að það þekkir varla undirstöðukenningar Biblíunnar. (Jesaja 65:13; Amos 8:11) Og þótt kirkjufélögin hafi reynt að bæta heiminn getur það varla réttlætt vísvitandi óhlýðni þeirra. Þar við bætist að þessi heimur er eins og hrörlegt hús sem bíður niðurrifs. Í Biblíunni segir skýrum orðum að heimskerfi Satans verði eytt innan skamms. – 1. Jóhannesarbréf 2:15–17.

14. Hvað gleður Jesú og hvers vegna?

14 Á hinn bóginn hlýtur það að gleðja Jesú að horfa ofan af himni og sjá milljónir manna gera fólk að lærisveinum í samræmi við fyrirmæli hans áður en hann yfirgaf jörðina. (Matteus 28:19, 20) Hvílíkur heiður að mega gleðja konunginn Messías! Við skulum vera staðráðin í að hætta aldrei að styðja hinn ‚trúa og skynsama þjón‘. (Matteus 24:45) Ólíkt prestastétt kristna heimsins hefur þessi litli hópur andasmurðra bræðra hlýtt Kristi með því að hafa umsjón með boðuninni og næra sauði hans.

15, 16. (a) Hvaða áhrif hefur kærleiksleysið í heiminum á Jesú og hvernig vitum við það? (b) Hvernig hefur kristni heimurinn kallað yfir sig reiði Jesú?

15 Við megum vera viss um að konungurinn er reiður þegar hann horfir upp á kærleiksleysið sem ríkir á jörðinni núna. Við munum trúlega hvernig farísearnir gagnrýndu Jesú fyrir að lækna á hvíldardegi. Svo harðbrjósta voru þeir og þrjóskir að þeir miðuðu allt við þrönga túlkun sína á Móselögunum og hinum munnlegu lögum. Með kraftaverkum sínum var Jesús að gera fólki meira gott en orð fá lýst. En gleðin, léttirinn og aukinn trúarstyrkur sem kraftaverkin höfðu í för með sér var þessum mönnum einskis virði. Hvað fannst Jesú um þá? Einu sinni leit hann á þá „reiður og miður sín yfir kaldlyndi þeirra“. – Markús 3:5.

16 Jesús hefur enn meira tilefni núna til að vera „miður sín“. Dálæti á hefðum og kennisetningum sem stangast á við Biblíuna hefur blindað leiðtoga kristna heimsins. Og boðun fagnaðarboðskaparins um ríkið vekur heiftarleg viðbrögð hjá þeim. Víða um heim hefur prestastéttin hvatt til grimmilegra ofsókna á hendur þeim sem reyna í einlægni að boða sama boðskap og Jesús. (Jóhannes 16:2; Opinberunarbókin 18:4, 24) Þar við bætist að kirkjunnar menn hvetja gjarnan sóknarbörnin til að fara í stríð og drepa aðra – rétt eins og Jesús Kristur hafi þóknun á því!

17. Hvernig gleðja sannir fylgjendur Jesú hjarta hans?

17 Sannir fylgjendur Jesú leitast hins vegar við að sýna náunganum kærleika. Þeir flytja ‚alls konar fólki‘ fagnaðarboðskapinn eins og Jesús gerði, þrátt fyrir andstöðuna sem mætir þeim. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Og innbyrðis kærleikur þeirra er einstakur; hann er sterkasta auðkenni þeirra. (Jóhannes 13:34, 35) Þeir fylgja Jesú í raun og sannleika með því að elska og virða trúsystkini sín, og með því gleðja þeir hjarta konungsins á himnum.

18. Hvað hryggir Jesú en hvernig getum við þóknast honum?

18 Við skulum einnig hafa hugfast að fylgjendur Jesú hryggja hann ef þeir eru ekki staðfastir heldur láta kærleikann til Jehóva kólna og hætta að þjóna honum. (Opinberunarbókin 2:4, 5) Jesús hefur hins vegar velþóknun á þeim sem eru þolgóðir allt til enda. (Matteus 24:13) Við skulum því fyrir alla muni hafa stöðugt í huga orð Jesú í Jóhannesi 21:19: „Haltu áfram að fylgja mér.“ Lítum að lokum á þá blessun sem konungurinn Messías veitir þeim sem eru þolgóðir allt til enda.

Trúir þjónar konungsins hljóta ríkulega blessun

19, 20. (a) Hvaða blessun hljótum við núna ef við fylgjum Jesú? (b) Hvað eignumst við með því að fylgja Kristi?

19 Við auðgum líf okkar til muna ef við fylgjum Jesú. Ef við viðurkennum hann sem meistara okkar og fylgjum leiðsögn hans og fordæmi finnum við fjársjóð sem fólk um heim allan leitar án þess að finna. Við fáum að vinna verk sem gefur lífi okkar tilgang, eignumst fjölskyldu trúsystkina sem er sameinuð sterkum kærleiksböndum og höfum hreina samvisku og hugarfrið. Í stuttu máli verður líf okkar ánægjulegt og hamingjuríkt. En það er ekki allt og sumt.

20 Jesús verður „Eilífðarfaðir“ allra sem vonast eftir eilífu lífi hér á jörð. Jehóva hefur gefið okkur hann í stað Adams, föður mannkyns, sem brást öllum afkomendum sínum svo hrapallega. (Jesaja 9:6, 7) Með því að viðurkenna Jesú sem ‚Eilífðarföður‘ okkar og trúa á hann eigum við örugga von um eilíft líf. Og þannig eignumst við æ nánari tengsl við Jehóva Guð. Eins og fram hefur komið er besta leiðin til að ‚líkja eftir Guði sem elskuð börn hans‘ fólgin í því að reyna að fylgja fordæmi Jesú dag frá degi. – Efesusbréfið 5:1.

21. Hvernig endurkasta fylgjendur Krists ljósi í myrkum heimi?

21 Með því að líkja eftir Jesú og Jehóva föður hans hlotnast okkur ómetanlegur heiður. Við fáum að endurkasta skæru ljósi. Við búum í heimi sem er hjúpaður myrkri. Satan hefur leitt milljarða manna afvega svo að þeir líkja eftir honum. En við sem fylgjum Kristi fáum að endurkasta sterkasta ljósi sem til er, ljósi sannleikans í Biblíunni, ljósi góðra kristinna eiginleika og ljósi sannrar gleði, friðar og kærleika. Og jafnframt styrkjum við tengslin við Jehóva en það er háleitasta markmið sem nokkur vitiborin vera getur stefnt að.

22, 23. (a) Hvaða framtíð bíður þeirra sem halda áfram að fylgja Jesú dyggilega? (b) Hvað ættirðu að vera staðráðinn í að gera?

22 Hugsaðu þér hvað Jehóva vill að konungur Messíasarríkisins geri fyrir þig í framtíðinni. Bráðlega mun konungurinn heyja réttlátt stríð gegn illu heimskerfi Satans. Og það er öruggt að Jesús sigrar! (Opinberunarbókin 19:11–15) Síðan ríkir hann yfir jörðinni í þúsund ár. Himnesk stjórn hans miðlar öllum trúum mönnum af lausnargjaldinu svo að hver einasti maður verður fullkominn. Hugsaðu þér hvernig það verður að vera alheill heilsu, síungur og hraustur og vinna fagnandi að því, ásamt sameinuðu mannkyni, að breyta jörðinni í paradís. Þegar þúsund árunum lýkur lætur Jesús stjórnina aftur í hendur föður síns. (1. Korintubréf 15:24) Ef þú heldur áfram að fylgja Kristi dyggilega áttu í vændum þvílíka blessun að það er erfitt að gera sér hana í hugarlund. Þér verður veitt „dýrlegt frelsi barna Guðs“. (Rómverjabréfið 8:21) Við hljótum allt sem Adam og Eva höfðu en misstu. Við verðum jarðneskir synir og dætur Jehóva og verðum endanlega laus við erfðasyndina frá Adam. Þá verður „dauðinn … ekki til framar“. – Opinberunarbókin 21:4.

23 Manstu eftir unga og ríka leiðtoganum sem rætt var um í 1. kafla? Hann hafnaði boði Jesú: „Komdu … og fylgdu mér.“ (Markús 10:17–22) Gerðu ekki þau mistök! Þiggðu boð Jesú með fögnuði og ákafa. Vertu staðráðinn í að halda áfram að fylgja góða hirðinum dag eftir dag og ár eftir ár, og lifðu þann dag að sjá hann láta dýrlega fyrirætlun Jehóva ná fram að ganga að fullu og öllu!