5. KAFLI
„Allir fjársjóðir viskunnar“
1–3. Við hvaða aðstæður flutti Jesús ræðu vordag einn árið 31 og af hverju voru áheyrendur hans agndofa?
ÞETTA er á vordegi árið 31. Jesús Kristur er staddur í grennd við Kapernaúm sem er blómlegur bær á norðvesturströnd Galíleuvatns. Hann er búinn að vera einn alla nóttina á bæn til Guðs uppi á fjalli þar í grenndinni. Þegar morgnar kallar hann á lærisveinana og velur 12 úr hópnum og nefnir þá postula. Mikill fjöldi fólks hefur elt Jesú á þennan stað og sumir eru komnir langt að. Fólkið hefur safnast saman á sléttri flöt á fjallinu og bíður í ofvæni eftir að hlusta á hann kenna og fá lækningu meina sinna. Jesús bregst ekki vonum þeirra. – Lúkas 6:12–19.
2 Jesús gengur til fólksins og læknar alla sem eru sjúkir. Að lokum er enginn eftir í hópnum sem er alvarlega veikur og þá sest Jesús niður og tekur að kenna. a Orð hans á þessum ferska vordegi hljóta að hafa komið áheyrendunum á óvart. Aldrei hafa þeir heyrt nokkurn mann kenna svona. Hann vitnar hvorki til erfikenninga Gyðinga né þekktra rabbína til að gefa orðum sínum vægi heldur vitnar hann óspart í hinar innblásnu Hebresku ritningar. Boðskapur hans er hreinn og beinn, orðalagið einfalt og merkingin skýr. Mannfjöldinn er furðu lostinn þegar Jesús lýkur máli sínu. Og það er ástæða til því að fólkið hefur fengið að hlýða á vitrasta mann sem lifað hefur. – Matteus 7:28, 29.
3 Þessi ræða Jesú, ásamt mörgu öðru sem hann sagði og gerði, stendur skráð í orði Guðs. Það er ástæða til að sökkva sér niður í það sem sagt er um hann í hinni innblásnu frásögu vegna þess að „allir fjársjóðir viskunnar“ eru fólgnir í honum. (Kólossubréfið 2:3) Hvernig öðlaðist hann þessa visku – þennan hæfileika til að beita þekkingu og skilningi? Á hvaða hátt birtist viska Jesú og hvernig getum við líkt eftir honum?
„Hvaðan hefur maðurinn þessa visku?“
4. Um hvað spurðu áheyrendur Jesú í Nasaret og af hverju?
4 Í einni af boðunarferðum sínum kom Jesús til Nasaret, bæjarins þar sem hann ólst upp, og tók að kenna í samkunduhúsinu. Margir af áheyrendum hans undruðust stórum og spurðu: „Hvaðan hefur maðurinn þessa visku?“ Þeir þekktu fjölskyldu hans, foreldra hans og systkini, og vissu að hann var af óbreyttu alþýðufólki kominn. (Matteus 13:54–56; Markús 6:1–3) Eflaust vissu þeir líka að þessi málsnjalli smiður hafði ekki setið í neinum af hinum virtu skólum rabbínanna. (Jóhannes 7:15) Þetta var því eðlileg spurning af þeirra hálfu.
5. Hvar sagðist Jesús hafa fengið viskuna?
5 Jesús bjó ekki aðeins yfir mikilli visku vegna þess að hugur hans var fullkominn. Síðar á þjónustuferli sínum var hann að kenna opinberlega í musterinu og gaf þá til kynna að viska sín ætti sér mun háleitari uppsprettu. „Það sem ég kenni kemur ekki frá mér,“ sagði hann, „heldur þeim sem sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Viska Jesú var því komin frá föðurnum sem hafði sent hann til jarðar. (Jóhannes 12:49) En hvernig fékk Jesús viskuna frá Jehóva?
6, 7. Með hvaða hætti fékk Jesús visku frá föður sínum?
6 Heilagur andi Jehóva orkaði á huga og hjarta Jesú. Jesaja spáði um hann í hlutverki hins fyrirheitna Messíasar: „Andi Jehóva mun hvíla yfir honum, andi visku og skilnings, andi leiðsagnar og máttar, andi þekkingar og ótta við Jehóva.“ (Jesaja 11:2) Er nokkur furða að orð og verk Jesú skuli hafa endurspeglað óviðjafnanlega visku úr því að andi Jehóva hvíldi yfir honum og hafði áhrif á hugsanir hans og ákvarðanir?
7 Jesús fékk einnig visku frá föður sínum með öðrum hætti. Eins og fram kom í 2. kafla hafði hann tækifæri til að drekka í sig sjónarmið föður síns á þeim óralanga tíma sem hann var með honum á himnum áður en hann varð maður. Við getum varla gert okkur í hugarlund hvílíka visku sonurinn hefur fengið þar sem hann vann með föður sínum sem „listasmiður“ að sköpun allra hluta, bæði lifandi og lífvana. Það er ærin ástæða fyrir því að syninum er á þessu tímaskeiði lýst sem persónugervingi viskunnar. (Orðskviðirnir 8:22–31; Kólossubréfið 1:15, 16) Meðan hann þjónaði á jörð gat hann nýtt sér þá visku sem hann hafði aflað sér við hlið föður síns á himnum. b (Jóhannes 8:26, 28, 38) Við þurfum því ekki að undra okkur á þeirri víðtæku þekkingu og þeim djúpa skilningi sem birtist í orðum Jesú og þeirri góðu dómgreind sem sýndi sig í öllum verkum hans.
8. Hvernig getum við aflað okkur visku?
8 Fylgjendur Jesú þurfa einnig að leita til Jehóva til að öðlast visku. (Orðskviðirnir 2:6) Jehóva veitir okkur auðvitað ekki visku með kraftaverki. Hins vegar bænheyrir hann okkur þegar við biðjum hann einlæglega að gefa okkur visku til að takast á við erfiðleika lífsins. (Jakobsbréfið 1:5) Það þarf að leggja töluvert á sig til að hljóta þessa visku. Við þurfum að grafa eftir henni eins og „földum fjársjóðum“. (Orðskviðirnir 2:1–6) Já, við þurfum að halda áfram að kafa djúpt í orð Guðs þar sem hann opinberar visku sína og fara eftir því sem við lærum. Fordæmi sonar Guðs er sérstaklega gagnlegt til að hjálpa okkur að öðlast visku. Lítum á nokkur svið þar sem viska Jesú kemur greinilega fram og könnum hvernig við getum líkt eftir honum.
Viturleg orð Jesú
9. Af hverju vitnar kennsla Jesú um mikla visku?
9 Hópum saman þyrptist fólk til Jesú til að heyra hann tala. (Markús 6:31–34; Lúkas 5:1–3) Og það er engin furða því að Jesús var alltaf með einstaklega viturleg orð á vörum þegar hann talaði. Kennsla hans endurspeglaði djúpstæða þekkingu á orði Guðs og einstakan hæfileika til að komast að kjarna málsins. Það sem hann kenndi höfðar til allra manna og er óháð tíð og tíma. Í einum af spádómum Biblíunnar er Jesús kallaður „Undraráðgjafi“. (Jesaja 9:6) Lítum á nokkur dæmi um viturleg orð hans.
10. Hvaða eiginleika eigum við að þroska með okkur, að sögn Jesú, og hvers vegna?
10 Fjallræðan, sem nefnd var í byrjun kaflans, er lengsta samfellda ræða Jesú. Hvergi er skotið inn í hana orðum annarra né lýsingu á atburðum. Í ræðunni lætur Jesús sér ekki nægja að hvetja áheyrendur til að temja sér að nota tunguna rétt og breyta rétt. Hann gengur miklu lengra. Hann vissi að hugsanir og tilfinningar eru undanfari orða og verka og hvetur okkur til að leggja rækt við góða eiginleika, svo sem hógværð, réttlætisást og miskunnsemi. Hann brýnir fyrir okkur að vera friðsöm og elska aðra. (Matteus 5:5–9, 43–48) Þegar við temjum huga okkar og hjarta á þennan hátt verðum við uppbyggileg í tali og framkomu, og þannig þóknumst við bæði Jehóva og stuðlum að góðum samskiptum við meðbræður okkar. – Matteus 5:16.
11. Hvernig ræðst Jesús að rótum vandans þegar hann varar við syndsamlegri hegðun?
11 Jesús snýr sér beint að rótum vandans þegar hann varar við syndsamlegri hegðun. Hann segir okkur ekki aðeins að forðast ofbeldisverk heldur varar okkur við því að láta reiði krauma í hjartanu. (Matteus 5:21, 22; 1. Jóhannesarbréf 3:15) Hann leggur ekki aðeins bann við hjúskaparbroti heldur varar við ástríðunni sem kviknar í hjartanu og leiðir til verknaðarins. Hann hvetur okkur til að leyfa ekki augunum að vekja upp rangar langanir og kveikja girnd. (Matteus 5:27–30) Jesús beinir athyglinni að orsökum, ekki aðeins afleiðingum. Hann tekur á þeim viðhorfum og löngunum sem eru undanfari syndar. – Sálmur 7:14.
12. Hvernig líta fylgjendur Jesú á ráðleggingar hans og af hverju?
12 Hvílík viska í orðum Jesú! Það er engin furða að mannfjöldinn skyldi vera „agndofa yfir kennslu hans“. (Matteus 7:28) Við sem erum fylgjendur hans lítum á þessi viturlegu ráð sem leiðsögn í lífinu. Við leggjum okkur fram um að temja okkur þá jákvæðu eiginleika sem hann hvatti til – þar á meðal miskunn, friðsemd og kærleika – því að við vitum að það er undirstaða réttrar breytni sem er Guði þóknanleg. Við leggjum okkur í líma við að uppræta úr hjartanu þær skaðlegu kenndir og langanir sem hann varaði við, meðal annars reiði og siðlausar tilhneigingar. Við vitum að það hjálpar okkur að forðast syndsamlega breytni. – Jakobsbréfið 1:14, 15.
Viturleg lífsstefna
13, 14. Hvernig sjáum við að Jesús sýndi góða dómgreind þegar hann valdi sér stefnu í lífinu?
13 Viska Jesú birtist ekki aðeins í orðum hans heldur einnig verkum. Líferni hans í heild endurspeglaði visku á fjölmargan hátt. Hún birtist í ákvörðunum hans, hvernig hann leit á sjálfan sig og samskiptum hans við aðra. Lítum á nokkur dæmi sem sýna glöggt að Jesús lét „visku og skarpskyggni“ stýra skrefum sínum. – Orðskviðirnir 3:21.
14 Viska birtist í góðri dómgreind. Jesús sýndi góða dómgreind þegar hann valdi sér stefnu í lífinu. Hugsaðu þér hvernig hann hefði getað lifað, hvernig hús hann hefði getað byggt sér, hvaða rekstur hann hefði getað stundað eða hvílíkum frama hann hefði getað náð í heiminum. En Jesús vissi að það væri „tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi“ að helga sig slíku. (Prédikarinn 4:4; 5:10) Að velja slíka lífsstefnu er hrein heimska og heimska er andstæða viskunnar. Jesús kaus að lifa einföldu lífi. Hann hafði ekki áhuga á að safna sér fé eða efnislegum eignum. (Matteus 8:20) Hann einbeitti sér að einu markmiði – að gera vilja Guðs – rétt eins og hann kenndi öðrum. (Matteus 6:22) Hann sýndi þá visku að helga tíma sinn og krafta því að þjóna ríki Guðs og það er miklu mikilvægara og meira gefandi en efnislegir hlutir. (Matteus 6:19–21) Þannig gaf hann fylgjendum sínum fordæmi til eftirbreytni.
15. Hvernig geta fylgjendur Jesú einbeitt sér að hagsmunum Guðsríkis og af hverju er það viturlegt?
15 Fylgjendur Jesú sjá viskuna í því að einbeita sér að hagsmunum Guðsríkis. Þeir forðast þess vegna að íþyngja sjálfum sér með óþarfa skuldum og eltast ekki við veraldleg gæði því að það er bæði tímafrekt og lýjandi. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Margir hafa einfaldað líf sitt til að eiga meiri tíma aflögu til að boða fagnaðarboðskapinn, jafnvel í fullu starfi. Varla er hægt að nota líf sitt betur, því að sá sem lætur hagsmuni Guðsríkis skipa verðugan sess í lífi sínu uppsker mikla hamingju og lífsfyllingu. – Matteus 6:33.
16, 17. (a) Hvernig sýndi Jesús að hann var hógvær og raunsær á getu sína? (b) Hvernig getum við sýnt að við erum hógvær og raunsæ á getu okkar?
16 Biblían setur visku í samband við hógværð sem er meðal annars fólgin í því að gera sér grein fyrir takmörkum sínum. (Orðskviðirnir 11:2) Jesús var hógvær og raunsær á getu sína. Hann vissi að hann ætti ekki eftir að sannfæra alla sem heyrðu boðskap hans. (Matteus 10:32–39) Hann gerði sér einnig grein fyrir því að sjálfur gæti hann aðeins náð til takmarkaðs fjölda fólks. Hann fól því fylgjendum sínum það verkefni að gera fólk að lærisveinum. (Matteus 28:18–20) Með hógværð viðurkenndi hann að þeir myndu „vinna enn meiri verk“ en hann vegna þess að þeir myndu ná til fleira fólks á stærra svæði og á lengri tíma. (Jóhannes 14:12) Hann vissi jafnframt að hann þurfti stundum á hjálp að halda. Hann þáði aðstoð engla sem komu til að þjóna honum í óbyggðunum og engilsins sem kom til að styrkja hann í Getsemanegarðinum. Þegar neyðin var mest hrópaði sonur Guðs á hjálp. – Matteus 4:11; Lúkas 22:43; Hebreabréfið 5:7.
17 Við þurfum líka að vera hógvær og raunsæ á getu okkar. Við viljum auðvitað vera heils hugar og kappsöm við að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Lúkas 13:24; Kólossubréfið 3:23) En jafnframt þurfum við að hafa hugfast að Jehóva ber okkur ekki saman við aðra. Við ættum ekki að gera það heldur. (Galatabréfið 6:4) Ef við erum vitur og skynsöm setjum við okkur raunhæf markmið í samræmi við getu okkar og aðstæður. Og þeir sem gegna ábyrgðarstörfum sýna visku með því að viðurkenna að þeir hafa sín takmörk og þarfnast hjálpar og stuðnings af og til. Hógværir menn þiggja hjálpina með þökkum, vitandi að Jehóva getur notað trúsystkini okkar til að veita okkur ‚mikla hughreystingu‘. – Kólossubréfið 4:11.
18, 19. (a) Hvað sýnir að Jesús var jákvæður og sanngjarn við lærisveina sína? (b) Af hverju höfum við fulla ástæðu til að vera jákvæð og sanngjörn hvert við annað og hvernig getum við verið það?
18 „Viskan sem kemur ofan að er … sanngjörn,“ segir í Jakobsbréfinu 3:17. Jesús var jákvæður og sanngjarn í samskiptum við lærisveinana. Hann vissi fullvel af göllum þeirra en horfði samt á hið jákvæða í fari þeirra. (Jóhannes 1:47) Hann vissi að þeir myndu yfirgefa hann nóttina þegar hann yrði handtekinn en hann efaðist ekki um hollustu þeirra. (Matteus 26:31–35; Lúkas 22:28–30) Pétur afneitaði því jafnvel þrisvar að hann þekkti Jesú. Engu að síður bað Jesús fyrir honum og lét í ljós að hann treysti á trúfesti hans. (Lúkas 22:31–34) Í bæn til föður síns síðasta kvöldið fyrir dauða sinn minntist Jesús ekkert á þau mistök sem lærisveinunum hafði orðið á. Hann talaði jákvætt um breytni þeirra fram að þessu og sagði: „Þeir hafa haldið orð þitt.“ (Jóhannes 17:6) Þótt þeir væru ófullkomnir fól hann þeim að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20) Með því að sýna þeim þetta traust hefur hann eflaust gefið þeim styrk til að vinna það verk sem hann var búinn að fela þeim.
19 Fylgjendur Jesú hafa fulla ástæðu til að líkja eftir dæmi hans á þessu sviði. Fyrst fullkominn sonur Guðs var þolinmóður við ófullkomna lærisveina ættum við, ófullkomnir mennirnir, ekki síður að vera sanngjarnir hver við annan. (Filippíbréfið 4:5) Við ættum frekar að horfa eftir hinu góða í fari trúsystkina okkar en einblína á galla þeirra. Munum að Jehóva hefur dregið þá til sín. (Jóhannes 6:44) Hann hlýtur að sjá eitthvað gott í fari þeirra og það ættum við líka að gera. Jákvætt hugarfar hjálpar okkur bæði að „líta fram hjá göllum“ annarra og leita að einhverju til að hrósa þeim fyrir. (Orðskviðirnir 19:11, The New English Bible) Þegar við látum í ljós að við treystum trúsystkinum okkar hjálpum við þeim að gera sitt besta í þjónustu Jehóva og njóta þess að þjóna honum. – 1. Þessaloníkubréf 5:11.
20. Hvernig ættum við að nota þann fjársjóð sem er að finna í guðspjöllunum og hvers vegna?
20 Frásagnir guðspjallanna af ævi og þjónustu Jesú eru óþrjótandi fjársjóður mikillar visku. Hvernig ættum við að nota þessa ómetanlegu gjöf? Í lok fjallræðunnar hvatti Jesús áheyrendur sína til að heyra ekki aðeins viturleg orð sín heldur fara eftir þeim. (Matteus 7:24–27) Ef við látum hugsanir okkar, langanir og verk mótast eftir viturlegum orðum og verkum Jesú er það góð hjálp til að lifa eins farsælu lífi og kostur er við núverandi aðstæður og halda okkur á veginum til eilífa lífsins. (Matteus 7:13, 14) Betri og viturlegri lífsstefnu er varla hægt að velja sér!
a Ræðan sem Jesús flutti þennan dag er kölluð fjallræðan. Í frásögunni í Matteusi 5:3–7:27 er hún 107 vers og það hefur sennilega tekið rétt um 20 mínútur að flytja hana.
b Þegar „himnarnir opnuðust“ við skírn Jesú er ljóst að minningin um tilveruna á himni laukst upp fyrir honum. – Matteus 3:13–17.