Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

6. KAFLI

Hann lærði hlýðni

Hann lærði hlýðni

1, 2. Hvers vegna gleður það ástríkan föður að sjá son sinn hlýða og hvernig endurspeglar það tilfinningar Jehóva?

 FAÐIR horfir út um gluggann á ungan son sinn sem er í boltaleik með vinum sínum. Boltinn skoppar út úr garðinum og út á götu. Drengurinn horfir löngunaraugum á eftir honum. Einn af vinunum segir honum að hlaupa út á götuna og sækja boltann en drengurinn hristir höfuðið. „Ég má það ekki,“ segir hann. Faðirinn brosir með sjálfum sér.

2 Hvers vegna er faðirinn svona ánægður? Vegna þess að hann er búinn að segja drengnum að hann megi ekki fara einn út á götu. Þegar drengurinn hlýðir, jafnvel þótt hann viti ekki að faðirinn sjái til hans, veit faðirinn að drengurinn er að læra hlýðni, og hann veit að hlýðnin er honum til verndar. Þessum föður er eins innanbrjósts og Jehóva, föðurnum á himnum. Jehóva veit að við verðum að læra að treysta honum og hlýða til að vera trúföst og til að fá að njóta þeirrar unaðslegu framtíðar sem hann hefur búið okkur. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Hann sendi okkur besta kennara sem hugsast getur til að hjálpa okkur.

3, 4. Hvernig ‚lærði Jesús hlýðni‘ og varð ‚fullkomnaður‘? Lýstu með dæmi.

3 Í Biblíunni er að finna athyglisverða lýsingu á Jesú: „Þótt hann væri sonur hans lærði hann hlýðni af þeim þjáningum sem hann gekk í gegnum. Og eftir að hann var fullkomnaður varð hann ábyrgur fyrir eilífri frelsun allra sem hlýða honum.“ (Hebreabréfið 5:8, 9) Sonur Guðs hafði lifað óralengi á himnum. Hann hafði séð Satan og aðra engla gera uppreisn en slóst aldrei í lið með þeim. Í innblásnum spádómi segir að hann hafi ekki sýnt uppreisnarhug. (Jesaja 50:5) Hvernig er þá hægt að segja að þessi frumgetni sonur, sem hlýddi föður sínum í einu og öllu, hafi ‚lært hlýðni‘? Hvernig gat fullkomin sköpunarvera orðið ‚fullkomnuð‘?

4 Tökum dæmi. Hermaður er vopnaður sverði úr járni. Það er vel smíðað og gallalaust en hefur aldrei verið notað í bardaga. Hermaðurinn skiptir á þessu sverði og öðru sem er gert úr hertu stáli. Þetta sverð hefur áður reynst vel í bardaga. Eru þetta ekki skynsamleg skipti? Jesús hlýddi föður sínum fullkomlega áður en hann kom til jarðar. En eftir að hann hafði verið hér á jörð var hlýðni hans á allt öðru stigi. Nú var hún reynd og hert í prófraunum sem Jesús hefði aldrei getað orðið fyrir á himnum.

5. Af hverju var hlýðni Jesú afar mikilvæg og hvað könnum við í þessum kafla?

5 Það var afar mikilvægt að Jesús væri hlýðinn til að gera hlutverki sínu skil hér á jörð. Hann var „hinn síðari Adam“ og kom hingað til að gera það sem foreldrum mannkyns mistókst – að vera Jehóva Guði hlýðinn, jafnvel í prófraunum. (1. Korintubréf 15:45) En Jesús hlýddi ekki bara vélrænt. Hann hlýddi af öllu hjarta, huga og sál. Og hann gerði það glaður í bragði. Honum þótti mikilvægara að gera vilja Guðs en að matast. (Jóhannes 4:34) Hvað getur hjálpað okkur að líkja eftir hlýðni Jesú? Byrjum á því að kanna af hvaða hvötum hann hlýddi. Ef við ræktum með okkur sams konar hvatir og hann, hjálpar það okkur að standast freistingar og gera vilja Guðs. Í framhaldinu lítum við á þá umbun sem fylgir því að hlýða Guði eins og Kristur gerði.

Af hvaða hvötum hlýddi Jesús?

6, 7. Nefndu dæmi um af hvaða hvötum hlýðni Jesú var sprottin.

6 Hlýðni Jesú átti sér rætur í hjarta hans. Eins og fram kom í 3. kafla var hann hógvær og af hjarta lítillátur. Þeir sem eru hrokafullir eru frábitnir því að hlýða en þeir sem eru auðmjúkir hlýða Jehóva fúslega. (2. Mósebók 5:1, 2; 1. Pétursbréf 5:5, 6) Hlýðni Jesú var sömuleiðis sprottin af því sem hann elskaði og því sem hann hataði.

7 Síðast en ekki síst elskaði Jesús föður sinn á himnum. Við fjöllum nánar um það í 13. kafla. Kærleikur Jesú kveikti með honum guðsótta. Svo heitt elskaði hann Jehóva og svo djúp var lotning hans að hann óttaðist að gera nokkuð sem honum misþóknaðist. Guðsótti Jesú var ein af ástæðunum fyrir því að hann fékk bænheyrslu. (Hebreabréfið 5:7) Guðsótti er áberandi einkenni Jesú sem konungs Messíasarríkisins. – Jesaja 11:3.

Sýnirðu með vali þínu á skemmtiefni að þú hatir hið illa?

8, 9. Hvernig leit Jesús á réttlæti og ranglæti eins og spáð var og hvernig sýndi hann það?

8 Til að elska Jehóva er einnig nauðsynlegt að hata það sem hann hatar. Lítum til dæmis á eftirfarandi spádóm þar sem konungur Messíasarríkisins er ávarpaður: „Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti. Þess vegna hefur Guð, Guð þinn, smurt þig gleðinnar olíu umfram félaga þína.“ (Sálmur 45:7) ‚Félagar‘ Jesú voru aðrir konungar í ætt Davíðs konungs. Jesús hefur ríkari ástæðu en nokkur þeirra til að fagna smurningu sinni. Af hverju? Af því að hann hlýtur miklu meiri umbun en þeir og konungdómur hans veitir óendanlega meiri blessun. Honum er umbunað vegna þess að hann elskar réttlætið og hatar ranglætið og hlýðir Guði í einu og öllu.

9 Hvernig kom það í ljós að Jesús elskaði réttlætið og hataði ranglætið? Lítum á dæmi. Hvernig brást hann við þegar lærisveinarnir hlýddu fyrirmælum hans í boðunarstarfinu og hlutu blessun fyrir? Hann fylltist fögnuði. (Lúkas 10:1, 17, 21) Og hvernig var Jesú innanbrjósts þegar Jerúsalembúar sýndu æ ofan í æ að þeir voru óhlýðnir og höfnuðu honum þegar hann reyndi að hjálpa þeim? Hann grét yfir borginni sökum þvermóðsku borgarbúa. (Lúkas 19:41, 42) Hann hafði mjög sterkar tilfinningar gagnvart góðri hegðun og slæmri.

10. Hvaða tilfinningar þurfum við að þroska með okkur gagnvart því að gera rétt eða rangt og hvað getur hjálpað okkur til þess?

10 Að velta fyrir sér tilfinningum Jesú er góð hjálp til að líta í eigin barm og skoða af hvaða hvötum maður hlýðir Jehóva. Þótt við séum ófullkomin getum við lært að elska góð verk og hata ranga breytni. Við þurfum að biðja Jehóva um hjálp til að þroska með okkur svipaðar tilfinningar og hann og sonur hans bera í brjósti. (Sálmur 51:10) Jafnframt þurfum við að forðast áhrif sem gætu veikt þessar tilfinningar. Það er mikilvægt að vera vandfýsin í vali á skemmtiefni og félagsskap. (Orðskviðirnir 13:20; Filippíbréfið 4:8) Ef við leggjum rækt við sömu hvatir og Kristur hlýðum við ekki bara til að sýnast. Við gerum rétt af því að okkur langar til þess. Við forðumst ranga breytni af því að við höfum andstyggð á henni en ekki af því að við séum hrædd við að vera staðin að verki.

„Hann syndgaði aldrei“

11, 12. (a) Hvað gerðist snemma á þjónustuferli Jesú? (b) Hvernig reyndi Satan fyrst að freista Jesú og hvaða slóttugum aðferðum beitti hann?

11 Snemma á þjónustuferli Jesú reyndi á hvort hann hataði syndina. Eftir að hann var skírður var hann 40 daga og nætur í óbyggðunum án matar. Þá kom Satan til að freista hans. Tökum eftir hve slóttugur hann var. – Matteus 4:1–11.

12 Satan byrjaði á því að segja: „Ef þú ert sonur Guðs segðu þá þessum steinum að verða að brauði.“ (Matteus 4:3) Hvernig leið Jesú eftir að hafa fastað svona lengi? Í Biblíunni segir blátt áfram að hann var „orðinn sársvangur“. (Matteus 4:2) Satan spilaði á hið eðlilega hungur eftir mat og beið áreiðanlega vísvitandi eftir að Jesús væri orðinn veikburða af matarleysi. Og tökum líka eftir hæðninni í orðum Satans: „Ef þú ert sonur Guðs.“ Satan vissi mætavel að Jesús var „frumburður alls sem er skapað“. (Kólossubréfið 1:15) En Jesús leyfði Satan ekki að espa sig til að óhlýðnast Guði. Hann vissi að hann átti ekki að nota mátt sinn í eigingjörnum tilgangi. Hann neitaði að gera það og sýndi þar með að hann treysti að Jehóva myndi leiðbeina honum og sjá honum fyrir viðurværi. – Matteus 4:4.

13–15. (a) Hvernig var önnur og þriðja freisting Satans og hvernig brást Jesús við? (b) Hvernig vitum við að Jesús mátti aldrei slaka á verðinum gagnvart Satan?

13 Í annarri freistingunni fór Satan með Jesú hátt upp á virkisvegg musterisins. Kænlega rangfærði hann orð Guðs og reyndi að freista Jesú til að láta á sér bera með því að kasta sér fram af brúninni svo að englar þyrftu að koma honum til bjargar. Myndi nokkur voga sér að efast um að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías ef mannfjöldinn í musterinu yrði vitni að slíku kraftaverki? Og gæti ekki Jesús umflúið alls konar þrautir og erfiðleika ef fjöldinn viðurkenndi hann sem Messías eftir að hafa orðið vitni að slíku sjónarspili? Ef til vill. En Jesús vissi að það var vilji Jehóva að Messías ynni starf sitt með hógværð og lítillæti. Hann átti ekki að halda tilkomumikla sýningu til að fá fólk til að trúa á sig. (Jesaja 42:1, 2) Jesús neitaði aftur að óhlýðnast Jehóva. Frægð og frami freistaði hans ekki.

14 En skyldi vera hægt að freista Jesú með því að bjóða honum áhrif og völd? Í þriðju freistingunni bauð Satan Jesú öll ríki heims ef Jesús myndi aðeins falla fram og tilbiðja hann einu sinni. Hugleiddi Jesús þetta tilboð í alvöru? Nei, hann svaraði: „Farðu burt, Satan!“ og bætti við: „Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“ (Matteus 4:10) Ekkert gæti nokkurn tíma fengið Jesú til að tilbiðja annan guð. Ekkert tilboð um áhrif og völd í þessum heimi gæti komið honum til að óhlýðnast á nokkurn hátt.

15 Gafst Satan þá upp? Hann hafði sig á brott eins og Jesús skipaði honum. Í Lúkasarguðspjalli segir hins vegar að hann hafi farið frá honum og beðið „færis að freista hans síðar“. (Lúkas 4:13) Satan átti eftir að finna fleiri tækifæri til að freista Jesú og reyna hann, allt til enda. Biblían segir að Jesús hafi verið „reyndur á allan hátt“. (Hebreabréfið 4:15) Hann mátti því aldrei slaka á verðinum og það megum við ekki heldur.

16. Hvernig freistar Satan þjóna Guðs nú á tímum og hvernig getum við staðið einörð á móti honum?

16 Satan freistar þjóna Guðs enn þann dag í dag. Því miður erum við oft auðveld bráð vegna þess að við erum ófullkomin. Satan höfðar lævíslega til eigingirni, stolts og valdagræðgi. Með efnishyggjuna að vopni á hann það til að höfða til alls þessa í einu. Það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að gera heiðarlega sjálfsrannsókn af og til. Við ættum að hugleiða orðin í 1. Jóhannesarbréfi 2:15–17. Þegar við gerum það gætum við spurt okkur hvort holdlegar girndir þessa heimskerfis, löngunin í efnislegar eigur og þráin eftir að vekja hrifningu annarra sé að einhverju marki farin að skyggja á kærleikann til föður okkar á himnum. Við verðum að hafa hugfast að þessi heimur er á fallanda fæti og hið sama er að segja um Satan, höfðingja hans. Við skulum standa einörð á móti slóttugum tilraunum hans til að tæla okkur til að syndga. Höfum fordæmi meistara okkar að leiðarljósi því að „hann syndgaði aldrei“. – 1. Pétursbréf 2:22.

„Ég geri alltaf það sem hann hefur velþóknun á“

17. Hvernig leit Jesús á það að hlýða föður sínum en hverju gætu sumir haldið fram?

17 Hlýðni felur í sér meira en það eitt að syndga ekki. Kristur lagði sig einnig fram við að gera allt sem faðir hans sagði honum að gera. „Ég geri alltaf það sem hann hefur velþóknun á,“ sagði hann. (Jóhannes 8:29) Jesús hafði mikla ánægju af því að hlýða Guði. Sumir gætu auðvitað haldið því fram að það hafi verið auðveldara fyrir Jesú en okkur að vera hlýðinn. Þeir ímynda sér ef til vill að hann hafi aðeins þurft að lúta valdi Jehóva sem er fullkominn, en við þurfum oft að lúta valdi ófullkominna manna sem eru yfirboðarar okkar. Sannleikurinn er þó sá að Jesús var hlýðinn ófullkomnum mönnum sem voru í valdastöðu.

18. Hvernig gaf Jesús gott fordæmi um hlýðni sem unglingur?

18 Á uppvaxtarárunum laut Jesús yfirráðum ófullkominna foreldra sinna hér á jörð, þeirra Jósefs og Maríu. Trúlega sá hann betur en flest börn að foreldrar hans voru ekki gallalausir. Gerði hann uppreisn gegn þeim, fór hann út fyrir þau mörk sem Guð ætlar börnum og sagði hann foreldrum sínum hvernig þeir ættu að haga fjölskyldulífinu? Tökum eftir því sem sagt er um Jesú þegar hann var 12 ára: „Hann … var þeim hlýðinn“. (Lúkas 2:51) Með hlýðni sinni er hann prýðilegt fordæmi fyrir kristin börn og unglinga sem leitast við að hlýða foreldrum sínum og sýna þeim tilhlýðilega virðingu. – Efesusbréfið 6:1, 2.

19, 20. (a) Í hvaða sérstöku stöðu var Jesús varðandi það að hlýða ófullkomnum mönnum? (b) Af hverju ættu kristnir menn að hlýða þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum?

19 Jesús var í stöðu sem sannkristnir menn nú á tímum lenda aldrei í þegar um er að ræða að hlýða ófullkomnum mönnum. Hann var uppi á mjög sérstökum tímum. Trúarkerfi Gyðinga, með musterið í Jerúsalem og prestastéttina, hafði haft velþóknun Jehóva um langan aldur en nú var hann í þann mund að hafna því og láta kristna söfnuðinn taka við. (Matteus 23:33–38) Margir af trúarleiðtogunum kenndu falskar kenningar sem voru sóttar í gríska heimspeki. Spillingin í musterinu var svo hrikaleg að Jesús kallaði það „ræningjabæli“. (Markús 11:17) Sneiddi hann hjá musterinu og samkunduhúsunum? Nei, Jehóva notaði þetta fyrirkomulag enn þá. Þar sem hann var ekki búinn að gera breytingu þar á fór Jesús á hátíðirnar í musterinu og sótti samkunduhúsin eins og vera bar. – Lúkas 4:16; Jóhannes 5:1.

20 Fyrst Jesús var hlýðinn við þessar aðstæður ættu sannkristnir menn nú á dögum ekki síður að vera hlýðnir. Við erum uppi á allt öðrum tímum, þeim tíma þegar hrein tilbeiðsla hefur verið endurvakin eins og spáð var fyrir löngu. Guð hefur fullvissað okkur um að hann leyfi Satan aldrei að spilla kristna söfnuðinum. (Jesaja 2:1, 2; 54:17) Auðvitað gera syndir og ófullkomleiki vart við sig í söfnuðinum. En ættum við að nota mistök annarra sem afsökun fyrir því að óhlýðnast Jehóva, til dæmis með því að gagnrýna öldungana eða sækja ekki safnaðarsamkomur? Nei, við styðjum dyggilega þá sem fara með forystuna í söfnuðinum. Við sækjum safnaðarsamkomur og mót og förum eftir þeim biblíulegu ráðum sem okkur eru gefin þar. – Hebreabréfið 10:24, 25; 13:17.

Við hlýðum því sem við lærum á safnaðarsamkomum.

21. Hvernig brást Jesús við þegar reynt var að fá hann til að óhlýðnast Guði og hvað má læra af því?

21 Jesús lét aðra aldrei hindra sig í að hlýða Jehóva, og gilti þá einu þótt velviljaðir vinir ættu í hlut. Pétur postuli reyndi til dæmis að sannfæra meistara sinn um að hann þyrfti ekki að þjást og deyja. Jesús hafnaði afdráttarlaust vel meintri en vanhugsaðri hvatningu Péturs um að hlífa sér. (Matteus 16:21–23) Velviljaðir ættingjar reyna oft að telja fylgjendur Jesú á að fylgja ekki lögum og meginreglum Guðs. Við förum að dæmi lærisveina Jesú á fyrstu öld en þeir sögðu: „Okkur ber að hlýða Guði frekar en mönnum.“ – Postulasagan 5:29.

Umbunin fyrir að hlýða

22. Hvaða spurningu svaraði Jesús og hvernig?

22 Þegar Jesús horfðist í augu við dauðann reyndi á hlýðni hans sem aldrei fyrr. Á þessum myrka degi „lærði hann hlýðni“ í fyllstu merkingu. Hann gerði vilja föður síns en ekki sinn eigin. (Lúkas 22:42) Og þar með fullkomnaði hann ráðvendni sína. (1. Tímóteusarbréf 3:16) Hann svaraði spurningu sem hafði lengi verið ósvarað: Getur fullkominn maður verið Jehóva hlýðinn, jafnvel í prófraunum? Adam hafði brugðist og Eva sömuleiðis. En svo kom Jesús, lifði og dó og útkljáði málið í eitt skipti fyrir öll. Æðsta sköpunarvera Jehóva svaraði spurningunni ótvírætt. Hann hlýddi þótt hann þyrfti að leggja allt í sölurnar.

23–25. (a) Hvernig tengjast hlýðni og ráðvendni? Lýstu með dæmi. (b) Um hvað verður fjallað í næsta kafla?

23 Ráðvendni, sem er heils hugar hollusta við Jehóva, birtist í hlýðni. Jesús varðveitti ráðvendni sína vegna þess að hann var hlýðinn, og það varð öllu mannkyni til heilla. (Rómverjabréfið 5:19) Jehóva umbunaði honum ríkulega. Hann umbunar okkur einnig ef við hlýðum Kristi, meistara okkar, og hlýðni við hann leiðir til ‚eilífrar frelsunar‘. – Hebreabréfið 5:9.

24 Ráðvendni er einnig umbun í sjálfu sér. Í Orðskviðunum 10:9 segir: „Ráðvandur maður býr við öryggi.“ Ef ráðvendninni er líkt við reisulegt hús hlaðið úr vönduðum múrsteini má líkja hverju verki sem vitnar um hlýðni við einstaka múrsteina. Einn múrsteinn virðist ekki ýkja merkilegur en hver steinn er þó verðmætur og gegnir vissu hlutverki. Og þegar margir eru lagðir saman mynda þeir verðmæta byggingu. Eins má segja að þegar við hlýðum með verkum okkar dag eftir dag og ár eftir ár og þau leggjast öll saman verði úr þeim fallegt hús – ráðvendni okkar.

25 Langvarandi hlýðni minnir okkur á annan eiginleika – þolgæði. Í næsta kafla verður fjallað um þennan þátt í fari Jesú.