Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

„Ég er … lítillátur í hjarta“

„Ég er … lítillátur í hjarta“

„Sjáðu! Konungur þinn kemur til þín.“

1–3. Með hvaða hætti kemur Jesús inn í Jerúsalem og hvers vegna kann það að hafa komið sumum áhorfendum á óvart?

 JERÚSALEM ólgar af spenningi og eftirvæntingu. Mikill maður er væntanlegur. Fólk kemur sér fyrir meðfram veginum utan borgarinnar. Það bíður óþreyjufullt eftir að bjóða hann velkominn því að sumir segja að hann sé erfingi Davíðs konungs og réttmætur stjórnandi Ísraels. Margir halda á pálmagreinum til að veifa honum en aðrir breiða föt og trjágreinar á veginn sem hann á eftir að fara um. (Matteus 21:7, 8; Jóhannes 12:12, 13) Fólk er án efa spennt að sjá hvernig innreið hans verði háttað.

2 Sumir búast kannski við töluverðum íburði. Þeir vita eflaust af stórmennum sem höfðu mikla viðhöfn samfara komu sinni. Þegar Absalon sonur Davíðs lýsti sjálfan sig konung lét hann 50 menn hlaupa fyrir vagni sínum. (2. Samúelsbók 15:1, 10) Júlíus Sesar, keisari Rómaveldis, heimtaði enn meiri íburð. Einu sinni fór hann fyrir sigurgöngu að rómverska þinghúsinu og hafði þá til beggja handa 40 fíla sem báru lampa! En nú bíða Jerúsalembúar eftir miklu meira stórmenni en þetta. Hvort sem mannfjöldinn gerir sér fulla grein fyrir því eða ekki er þetta Messías, mesta mikilmenni sem lifað hefur. En sumir verða án efa forviða þegar þessi tilvonandi konungur birtist.

3 Þarna eru engir vagnar, engir hlauparar, engir hestar – og þaðan af síður fílar. Jesús ríður ósköp venjulegu burðardýri, ungum asna. a Hvorki Jesús né reiðskjótinn bera skrautklæði. Jesús situr ekki í dýrum söðli heldur hafa nánustu fylgjendur hans lagt yfirhafnir á bak skepnunnar. Af hverju ætli Jesús hafi kosið að koma til borgarinnar með svona fábrotnum hætti, ekki síst í ljósi þess að minni menn en hann hafa krafist miklu meiri viðhafnar?

4. Hvernig átti konungurinn Messías að koma inn í Jerúsalem samkvæmt biblíuspádómi?

4 Með komu sinni er Jesús að uppfylla spádóm: „Fagnaðu mjög … Rektu upp siguróp, Jerúsalemdóttir. Sjáðu! Konungur þinn kemur til þín. Hann er réttlátur og færir frelsun, auðmjúkur og ríður asna.“ (Sakaría 9:9) Í þessum spádómi kemur fram að smurður þjónn Guðs, Messías, myndi koma til Jerúsalem sem konungur útnefndur af Guði. Og hann myndi gera það með þeim hætti að einn fegursti eiginleiki hans – hógværðin – kæmi greinilega í ljós. Val hans á reiðskjóta yrði þáttur í því.

5. Af hverju er hjartnæmt að hugleiða hógværð Jesú og af hverju er mikilvægt að læra að líkja eftir honum að þessu leyti?

5 Hógværð Jesú er einn hjartnæmasti eiginleiki hans og fátt laðar okkur meira að honum. Eins og fram kom í kaflanum á undan er enginn nema Jesús „vegurinn, sannleikurinn og lífið“. (Jóhannes 14:6) Enginn þeirra milljarða manna sem lifað hafa er nándar nærri eins mikilvægur og sonur Guðs. Aldrei sýndi Jesús þó minnsta vott um það dramb, stolt og stærilæti sem ófullkomnir menn eru oft haldnir. Til að fylgja Kristi verðum við að berjast gegn þeirri tilhneigingu að láta stolt ná tökum á okkur. (Jakobsbréfið 4:6) Höfum hugfast að Jehóva hatar drambsemi. Það er því afar mikilvægt að læra að líkja eftir hógværð og auðmýkt Jesú.

Hógvær frá öndverðu

6. Hvað er hógværð og hvernig vissi Jehóva að Messías yrði hógvær?

6 Hógværð er sama og lítillæti, auðmýkt og hrokaleysi. Þetta er eiginleiki sem á sér rætur í hjartanu og kemur fram í tali, hegðun og framkomu við aðra. Hvernig vissi Jehóva að Messías yrði hógvær? Hann vissi að sonur sinn sýndi sömu hógværð og hann sjálfur bjó yfir í fullkomnum mæli. (Jóhannes 10:15) Auk þess hafði hann séð son sinn sýna auðmýkt í verki. Hvenær?

7–9. (a) Hvernig sýndi Mikael auðmýkt í deilunni við Satan? (b) Hvernig geta kristnir menn líkt eftir auðmýkt Mikaels?

7 Í Júdasarbréfinu er að finna prýðisdæmi um þetta. Þar segir: „Þegar erkiengillinn Mikael átti í deilu við Djöfulinn um lík Móse vogaði hann sér ekki að dæma hann með niðrandi orðum heldur sagði: ‚Jehóva ávíti þig.‘“ (Júdasarbréfið 9) Nafnið Mikael er notað um Jesú, bæði fyrir og eftir veru hans hér á jörð. Mikael er nefndur erkiengill og er settur yfir himneskan englaher Jehóva. b (1. Þessaloníkubréf 4:16) En tökum eftir hvernig Mikael tók á deilunni við Satan.

8 Frásögn Júdasar lætur þess ekki getið hvað Satan ætlaði að gera við líkama Móse en við getum verið viss um að hann hafði eitthvað illt í huga. Hugsanlega ætlaði hann að láta misnota jarðneskar leifar þessa trúa manns í tengslum við falska guðsdýrkun. Mikael stóð gegn illum áformum Satans en sýndi jafnframt aðdáunarverða sjálfstjórn. Satan átti auðvitað skilið að fá harðar ákúrur. En Mikael leit svo á að slíkur dómur ætti aðeins að koma frá Jehóva Guði, enda var ekki búið að fela honum „allt dómsvald“ þegar hann átti í orðadeilunni við Satan. (Jóhannes 5:22) Sem erkiengill var Mikael afar valdamikill. Engu að síður laut hann Jehóva í auðmýkt í stað þess að reyna að sölsa undir sig aukin völd. Hann var hógvær og þekkti takmörk sín.

9 Það var ástæða fyrir því að Júdasi var innblásið að segja frá þessu atviki. Því miður voru ekki allir kristnir samtíðarmenn hans hógværir. Sumir þeirra ‚töluðu illa um allt sem þeir skildu ekki‘. (Júdasarbréfið 10) Það þarf ekki mikið til að við, ófullkomnir mennirnir, látum stolt og yfirlæti ná tökum á okkur. Hvernig bregðumst við við ef við skiljum ekki eitthvað sem gert er í söfnuðinum, til dæmis ákvörðun sem öldungaráðið hefur tekið? Bæri það ekki vott um að okkur skorti auðmýkt ef við færum að gagnrýna slíka ákvörðun án þess að þekkja allar forsendur hennar? Líkjum heldur eftir Mikael, eða Jesú, og dæmum ekki í málum sem við höfum ekkert umboð frá Guði til að blanda okkur í.

10, 11. (a) Af hverju er það einstakt að sonur Guðs skyldi taka að sér það verkefni að koma til jarðar? (b) Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt Jesú?

10 Sonur Guðs sýndi einnig af sér auðmýkt með því að taka að sér það verkefni að koma til jarðar. Veltu aðeins fyrir þér hverju hann þurfti að afsala sér. Hann var erkiengillinn. Hann var líka „Orðið“, það er að segja talsmaður Jehóva. (Jóhannes 1:1–3) Hann bjó á himnum, „heilögum og dýrlegum bústað“ Jehóva. (Jesaja 63:15) Engu að síður „afsalaði [hann] sér öllu og varð eins og þræll, eins og hver annar maður“. (Filippíbréfið 2:7) Hugsaðu þér hvað fólst í verkefni hans hér á jörð. Líf hans var flutt í móðurkvið meyjar af þjóð Gyðinga þar sem hann óx og þroskaðist í níu mánuði. Hann fæddist sem hjálparvana hvítvoðungur og ólst upp sem barn og unglingur á heimili fátæks smiðs. Þótt hann væri fullkominn sjálfur var hann undirgefinn ófullkomnum mennskum foreldrum á uppvaxtarárunum. (Lúkas 2:40, 51, 52) Hvílík auðmýkt!

11 Getum við líkt eftir auðmýkt Jesú með því að taka fúslega að okkur þjónustuverkefni sem virðast fremur lítilfjörleg? Það virðist ef til vill ekki merkilegt verkefni að boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs þegar fólk er áhugalaust, hæðist að okkur eða sýnir okkur fjandskap, svo dæmi sé tekið. (Matteus 28:19, 20) En ef við höldum áfram að boða fagnaðarboðskapinn getum við kannski átt þátt í að bjarga mannslífum. Við lærum að minnsta kosti heilmikið um auðmýkt og fetum í fótspor meistara okkar, Jesú Krists.

Jesús var auðmjúkur maður

12–14. (a) Hvernig sýndi Jesús auðmýkt þegar fólk bar lof á hann? (b) Hvernig var Jesús auðmjúkur í samskiptum við aðra? (c) Hvað sýnir að auðmýkt Jesú snerist ekki aðeins um formsatriði eða góða mannasiði?

12 Þjónusta Jesú hér á jörð einkenndist af auðmýkt allt frá upphafi til enda. Hann sýndi þennan eiginleika með því að beina alltaf lofi og vegsemd að föður sínum. Fólk bar stundum lof á Jesú fyrir viturleg orð hans, kraftaverkin sem hann vann og jafnvel fyrir manngæsku hans. Jesús bægði slíkri vegsemd alltaf frá sjálfum sér og gaf Jehóva heiðurinn. – Markús 10:17, 18; Jóhannes 7:15, 16.

13 Jesús sýndi auðmýkt í framkomu sinni við aðra. Hann sagði berum orðum að hann væri ekki kominn til jarðar til að láta þjóna sér heldur til að þjóna öðrum. (Matteus 20:28) Hann var mildur og sanngjarn í samskiptum við fólk. Hann ávítaði ekki fylgjendur sína þegar þeir ollu honum vonbrigðum heldur reyndi að höfða til hjartna þeirra. (Matteus 26:39–41) Einu sinni streymdi fólk að honum og hindraði að hann gæti hvílst og haft næði til að vera einn með lærisveinunum. En hann sendi fólkið ekki burt heldur hélt áfram að gefa af sjálfum sér og „fór að kenna því margt“. (Markús 6:30–34) Þegar erlend kona sárbændi hann um að lækna dóttur sína gaf hann fyrst til kynna að hann ætlaði sér ekki að gera það. Hann neitaði þó ekki reiðilega og að lokum lét hann undan vegna þess hve einstaka trú konan sýndi. Nánar verður fjallað um þetta í 14. kafla. – Matteus 15:22–28.

14 Jesús sýndi á ótal vegu að hann lifði í samræmi við orð sín þegar hann sagði: „Ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta.“ (Matteus 11:29) Auðmýkt hans var ekki yfirborðsleg. Hún snerist ekki aðeins um formsatriði eða góða mannasiði heldur átti hún sér rætur í hjarta hans, hinum innri manni. Það er því engin furða að Jesús skyldi leggja ríka áherslu á að kenna fylgjendum sínum að vera auðmjúkir.

Hann kenndi fylgjendum sínum auðmýkt

15, 16. Hvernig benti Jesús á að fylgjendur hans yrðu að vera ólíkir veraldlegum valdhöfum?

15 Það tók sinn tíma fyrir postula Jesú að temja sér auðmýkt og Jesús varð að reyna aftur og aftur að ná til þeirra. Sem dæmi má nefna að einhverju sinni fengu þeir Jakob og Jóhannes móður sína til að biðja Jesú um að lofa þeim hárri stöðu í Guðsríki. Jesús svaraði hógværlega: „Það er ekki mitt að ákveða hver situr mér til hægri handar og vinstri. Þessi sæti eru tekin frá handa þeim sem faðir minn hefur ákveðið að sitji þar.“ Hinir postularnir tíu urðu „gramir“ út í Jakob og Jóhannes. (Matteus 20:20–24) Hvernig tók Jesús á málinu?

16 Hann ávítaði þá alla mildilega og sagði: „Þið vitið að þeir sem ráða yfir þjóðunum drottna yfir þeim og háttsettir menn beita valdi sínu. Þannig má það ekki vera hjá ykkur. Sá sem vill verða mikill á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar og sá sem vill vera fremstur á meðal ykkar á að vera þræll ykkar.“ (Matteus 20:25–27) Postularnir höfðu sennilega veitt því athygli hve hrokafullir, metnaðargjarnir og eigingjarnir valdhafar þjóðanna gátu verið. Jesús benti þeim á að fylgjendur sínir yrðu að vera ólíkir þessum valdagráðugu harðstjórum. Þeir þurftu að vera auðmjúkir. Skildu postularnir hvað Jesús var að kenna þeim?

17–19. (a) Með hvaða eftirminnilega hætti veitti Jesús postulunum kennslu í auðmýkt kvöldið áður en hann dó? (b) Hver var áhrifamesti lærdómurinn í auðmýkt sem Jesús veitti meðan hann var maður?

17 Þeir áttu svolítið erfitt með það. Þetta var hvorki í fyrsta sinn né það síðasta sem Jesús tók fyrir mál af þessu tagi. Einu sinni höfðu þeir þráttað um það hver þeirra væri mestur. Hann hafði þá sett lítið barn á meðal þeirra og sagt þeim að þeir þyrftu að líkjast börnum en þau eru yfirleitt laus við hroka og metnað og gera sér ekki áhyggjur af stöðu sinni eins og margir hinna fullorðnu. (Matteus 18:1–4) Og kvöldið áður en Jesús dó komst hann að raun um að postularnir voru enn að glíma við stolt og stærilæti. Hann veitti þeim þá mjög eftirminnilega kennslu. Hann batt um sig handklæði og veitti þeim hversdagslegustu þjónustu sem hugsast gat, þjónustu sem venja var á þeim tíma að vinnuhjú veittu heimilisgestum. Hann þvoði fætur allra postulanna, þeirra á meðal Júdasar sem var í þann mund að svíkja hann. – Jóhannes 13:1–11.

18 Jesús benti þeim síðan á kjarna málsins og sagði við þá: „Ég hef gefið ykkur fordæmi.“ (Jóhannes 13:15) Náði þessi lærdómur að lokum til hjartna þeirra? Síðar sama kvöld deildu þeir enn einu sinni um það hver þeirra væri mestur! (Lúkas 22:24–27) En Jesús var þolinmóður við þá og kenndi þeim hógværlega. Síðan veitti hann þeim áhrifamesta fordæmið sem hugsast gat: „Hann auðmýkti … sjálfan sig … og var hlýðinn allt til dauða, já, dauða á kvalastaur.“ (Filippíbréfið 2:8) Jesús var fús til að deyja með auðmýkjandi hætti, ranglega dæmdur sem guðlastari og glæpamaður. Með þessu einstaka fordæmi sýndi sonur Guðs eins fullkomna auðmýkt og nokkur sköpunarvera Jehóva gat sýnt.

19 Ef til vill var það þetta sem greypti kennsluna óafmáanlega í hjörtu trúrra postula hans – þessi síðasti lærdómur í auðmýkt sem Jesús kenndi meðan hann var maður. Af Biblíunni sjáum við að þessir menn voru enn þá auðmjúkir að störfum árum og jafnvel áratugum síðar. Hvað um okkur?

Ætlar þú að líkja eftir Jesú?

20. Hvernig er hægt að vita hvort við erum auðmjúk innst inni?

20 Páll hvetur okkur öll til að hafa „sama hugarfar og Kristur Jesús“. (Filippíbréfið 2:5) Við þurfum að vera lítillát í hjörtum okkar eins og Jesús. Hvernig er hægt að vita hvort við erum auðmjúk innst inni? Páll segir okkur: „Verið ekki þrætugjörn og gerið ekkert af sjálfselsku. Verið heldur auðmjúk og lítið á aðra sem ykkur meiri.“ (Filippíbréfið 2:3) Kjarni málsins er því sá hvernig við lítum á sjálf okkur í samanburði við aðra. Við þurfum að meta þá meira en sjálf okkur og telja þá mikilvægari. Ætlar þú að gera það?

21, 22. (a) Af hverju þurfa kristnir umsjónarmenn að vera auðmjúkir? (b) Hvernig getum við sýnt að við íklæðumst auðmýkt?

21 Mörgum árum eftir dauða Jesú var Pétri postula enn hugleikið hve mikilvægt það væri að vera auðmjúkur. Hann benti kristnum umsjónarmönnum á að gegna skyldum sínum af auðmýkt og drottna aldrei yfir sauðum Jehóva. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Ábyrgðarstarf er engin afsökun fyrir hroka heldur eykur þörfina fyrir einlæga auðmýkt. (Lúkas 12:48) En það eru auðvitað ekki aðeins umsjónarmenn heldur allir kristnir menn sem þurfa að vera auðmjúkir.

22 Pétur gleymdi áreiðanlega aldrei kvöldinu þegar Jesús þvoði fætur hans, enda þótt hann hafi í fyrstu mótmælt. (Jóhannes 13:6–10) Hann skrifaði trúbræðrum sínum: „Íklæðist allir auðmýkt hver gagnvart öðrum.“ (1. Pétursbréf 5:5) Sögnin sem þýdd er „íklæðist“ minnir í frummálinu á húsþjón sem bindur um sig svuntu til að sinna störfum sínum. Þetta vers minnir okkur líklega á Jesú þegar hann batt um sig handklæði áður en hann kraup á kné og þvoði fætur postulanna. Ef við fylgjum Jesú ætti ekkert verkefni í þjónustu Guðs að vera fyrir neðan virðingu okkar. Einlæg auðmýkt okkar ætti að vera öllum augljós, rétt eins og við værum íklædd henni.

23, 24. (a) Af hverju ættum við að sporna gegn sérhverri tilhneigingu til hroka? (b) Hvaða ranghugmynd varðandi auðmýkt er fjallað um í næsta kafla?

23 Drambsemi er eins og eitur og getur haft stórskaðleg áhrif. Hún getur gert hæfileikaríkasta mann ónothæfan í þjónustu Guðs. Auðmýkt getur á hinn bóginn gert hinn lítilmótlegasta afar nytsaman í þjónustu Jehóva. Ef við temjum okkur þennan verðmæta eiginleika dag hvern með því að feta auðmjúk í fótspor Krists eigum við mikil laun í vændum. Pétur skrifaði: „Auðmýkið ykkur því undir máttuga hönd Guðs til að hann upphefji ykkur þegar þar að kemur.“ (1. Pétursbréf 5:6) Jehóva launaði Jesú fullkomna auðmýkt hans með því að upphefja hann. Honum er sömuleiðis ánægja að umbuna þér fyrir auðmýkt þína.

24 Sumir halda því miður að auðmýkt sé veikleikamerki. Fordæmi Jesú sýnir hins vegar fram á að það er alrangt vegna þess að hann, auðmjúkastur manna, var sömuleiðis hugrakkastur manna. Nánar verður fjallað um það í næsta kafla.

a Heimildarrit segir um þennan atburð að asninn sé „lítils metinn“ og bætir við: „Hann er hægfara og þrjóskur, hefðbundið vinnudýr fátækra og ekki mikið fyrir augað.“

b Nánari rök fyrir því að Mikael og Jesús séu sama persónan er að finna í greininni „Hver er erkiengillinn Mikael?“ undir „Biblíuspurningar og svör“ á jw.org, opinberu vefsetri Votta Jehóva.