Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlaðist Guð til að lífið yrði svona?

Ætlaðist Guð til að lífið yrði svona?

ÞÚ LÍTUR í dagblað, kveikir á sjónvarpinu eða hlustar á útvarpið. Alls staðar eru fréttir af hryðjuverkum, stríðsátökum og glæpum. Þú leiðir hugann að þínum eigin erfiðleikum. Kannski átt þú við veikindi að stríða eða hefur misst ástvin. Þér líður ef til vill eins og Job sem sagðist vera „þjakaður af eymd“. — Jobsbók 10:15.

Þú gætir spurt þig:

  • Ætlaði Guð mér og öðrum mönnum þetta hlutskipti?

  • Hvar get ég fengið hjálp til að glíma við vandamál mín?

  • Er nokkur von um frið á jörð?

Biblían svarar þessum spurningum skýrt og skilmerkilega.

BIBLÍAN KENNIR AÐ GUÐ ÆTLI AÐ GERA ALLAR ÞESSAR BREYTINGAR HÉR Á JÖRÐ.

„Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.

„Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur.“ — Jesaja 35:6.

„Þá munu augu hinna blindu upp lúkast.“ — Jesaja 35:5.

„Allir þeir, sem í gröfunum eru, munu . . . ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

„Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24.

„Gnóttir korns munu vera í landinu.“ — Sálmur 72:16.

NÝTTU ÞÉR TIL GÓÐS ÞAÐ SEM BIBLÍAN KENNIR

Það sem brugðið er upp á opnunni hér á undan eru engir draumórar. Kynntu þér það áður en þú vísar því á bug. Guð hefur lofað að koma því til leiðar. Og því er lýst í Biblíunni hvernig hann ætlar að fara að því.

En Biblían lætur ekki þar við sitja heldur getur hún einnig hjálpað þér að njóta gæfu og gleði við núverandi aðstæður. Leiddu hugann eitt andartak að þeim áhyggjum og erfiðleikum sem þú átt við að glíma. Kannski gengur þér illa að láta enda ná saman, átt við vanheilsu að stríða, hefur misst ástvin eða átt í erfiðleikum í fjölskyldulífinu. Biblían getur hjálpað þér að takast á við vandamál líðandi stundar, og hún getur létt undir með þér af því að hún svarar áleitnum spurningum eins og þessum:

  • Hvers vegna þjáumst við?

  • Hvernig getum við tekist á við áhyggjur lífsins?

  • Hvernig getum við gert fjölskyldulífið hamingjusamara?

  • Hvað verður um okkur þegar við deyjum?

  • Eigum við nokkurn tíma eftir að sjá látna ástvini á ný?

  • Hvernig getum við treyst að Guð uppfylli loforð sín um framtíðina?

Það eitt að þú skulir vera að lesa þessa bók er merki þess að þig langi til að kynna þér hvað Biblían kennir. Þessi bók getur hjálpað þér til þess. Eins og þú sérð eru efnisgreinarnar númeraðar. Neðst á síðunni er að finna spurningar með samsvarandi númerum. Milljónir manna hafa stuðst við spurningar og svör til að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Við vonum að þú gerir það líka. Það er bæði auðgandi og spennandi að kanna efni Biblíunnar. Það er bæn okkar að Guð blessi viðleitni þína til þess.