Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Kvöldmáltíð Drottins haldin til heiðurs Guði

Kvöldmáltíð Drottins haldin til heiðurs Guði

KRISTNUM mönnum er sagt að halda minningarhátíð um dauða Krists. Hún er líka þekkt sem kvöldmáltíð Drottins. (1. Korintubréf 11:20) Hvaða þýðingu hefur hún og hvenær og hvernig á að halda hana?

Jesús Kristur innleiddi þessa hátíð að kvöldi páskadags árið 33. Gyðingar héldu páska einu sinni á ári, 14. dag mánaðarins nísan samkvæmt almanaki sínu. Dagurinn mun hafa verið reiknaður út frá vorjafndægrum þegar dagur og nótt eru hér um bil jafnlöng eða 12 stundir hvort. Mánuðurinn nísan hófst þegar nýtt tungl var sýnilegt næst jafndægrum á vori. Páskar voru haldnir 14 dögum síðar, eftir sólsetur.

Jesús hélt páska með postulum sínum, vísaði Júdasi Ískaríot á dyr og innleiddi síðan kvöldmáltíð Drottins. Hún kom í staðinn fyrir páska Gyðinga og því átti aðeins að halda hana einu sinni á ári.

Í Matteusarguðspjalli segir svo frá: „Jesús [tók] brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ‚Takið og etið, þetta er líkami minn.‘ Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.‘“ — Matteus 26:26-28.

Sumir álíta að Jesús hafi breytt brauðinu í bókstaflegt hold sitt og víninu í blóð sitt. Líkami Jesú var hins vegar alheill þegar hann gaf postulunum þetta brauð. Átu þeir virkilega bókstaflegt hold hans og drukku blóð hans? Nei, það hefði verið mannát og skýlaust brot á lögum Guðs. (1. Mósebók 9:3, 4; 3. Mósebók 17:10) Samkvæmt Lúkasi 22:20 sagði Jesús: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ Breyttist kaleikurinn bókstaflega í ‚hinn nýja sáttmála‘? Auðvitað ekki, því að sáttmáli er samningur en ekki áþreifanlegur hlutur.

Brauðið og vínið eru því aðeins tákn. Brauðið táknar fullkominn líkama Jesú. Brauðið, sem hann notaði, var afgangsbrauð eftir páskamáltíðina en það var bakað ósýrt, án gers. (2. Mósebók 12:8) Súrdeig er oft notað í Biblíunni sem tákn um synd og spillingu. Brauðið táknar því hinn fullkomna líkama sem Jesús fórnaði. Hann var syndlaus. — Matteus 16:11, 12; 1. Korintubréf 5:6, 7; 1. Pétursbréf 2:22; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Rauðvínið táknar blóð Jesú sem fullgildir nýja sáttmálann. Jesús sagði að blóði hans yrði úthellt „til fyrirgefningar synda“. Þannig geta menn orðið hreinir í augum Guðs og fengið aðild að nýja sáttmálanum við hann. (Hebreabréfið 9:14; 10:16, 17) Vegna þessa sáttmála geta 144.000 trúfastir kristnir menn farið til himna. Þeir þjóna síðan þar sem konungar og prestar til blessunar mannkyni. — 1. Mósebók 22:18; Jeremía 31:31-33; 1. Pétursbréf 2:9; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-3.

Hverjir eiga að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni? Rökrétt er að það séu aðeins þeir sem eiga aðild að nýja sáttmálanum, það er að segja þeir sem hafa von um að fara til himna. Heilagur andi Guðs veitir þeim vissu fyrir því að þeir séu útvaldir til að verða konungar á himnum. (Rómverjabréfið 8:16) Þeir eiga einnig aðild að sáttmálanum við Jesú um ríkið. — Lúkas 22:29.

Hvað um þá sem eiga von um að lifa að eilífu í paradís á jörð? Þeir hlýða fyrirmælum Jesú og eru viðstaddir kvöldmáltíð Drottins, en þeir koma þangað sem áhorfendur en ekki þátttakendur. Vottar Jehóva halda kvöldmáltíð Drottins einu sinni á ári, eftir sólsetur kvöldið 14. nísan. Hátíðin er öllum kristnum mönnum mjög kær enda þótt það séu aðeins nokkrar þúsundir sem játa himneska von. Minningarhátíðin er gott tækifæri fyrir alla til að ígrunda hinn mikla kærleika Jehóva Guðs og Jesú Krists. — Jóhannes 3:16.