Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

15. KAFLI

Tilbeiðsla sem Guð hefur velþóknun á

Tilbeiðsla sem Guð hefur velþóknun á
  • Eru öll trúarbrögð þóknanleg Guði?

  • Á hverju þekkist hin sanna trú?

  • Hverjir tilbiðja Guð á réttan hátt?

1. Hvernig er það okkur til góðs að tilbiðja Guð á réttan hátt?

JEHÓVA GUÐI er mjög annt um okkur og hann vill að við njótum góðs af handleiðslu sinni. Ef við tilbiðjum hann á réttan hátt erum við hamingjusöm og firrum okkur ýmiss konar vandræðum. Þá njótum við líka hjálpar hans og blessunar. (Jesaja 48:17) Hundruð trúarbragða í heiminum segjast kenna sannleikann um Guð en það eru mjög skiptar skoðanir meðal þeirra um það hver hann sé og til hvers hann ætlast af okkur.

2. Hvernig getum við lært að tilbiðja Jehóva á réttan hátt og hvaða samlíking auðveldar okkur að skilja það?

2 Hvernig er hægt að þekkja réttu leiðina til að tilbiðja Jehóva? Það er ekki nauðsynlegt að kynna sér og bera saman kenningar allra trúarbragða heims. Þú þarft ekki annað en að skoða hvað Biblían kennir í raun og veru um sanna tilbeiðslu. Lýsum þessu með dæmi: Peningafölsun er stunduð víða um lönd. Hvernig myndirðu bera þig að ef þú fengir það verkefni að leita uppi falsaða seðla? Myndirðu leggja á minnið allar hugsanlegar gerðir falsaðra peninga? Nei, tímanum væri betur varið í að kynna sér útlit ófalsaðra peninga. Ef þú veist hvernig ófalsaðir seðlar líta út geturðu þekkt úr þá fölsuðu. Við getum sömuleiðis þekkt falska trú úr ef við vitum hvað einkennir sanna trú.

3. Hvað sagði Jesús að við þyrftum að gera til að Guð hefði velþóknun á okkur?

3 Það er mikilvægt að tilbiðja Jehóva á þann hátt sem hann vill. Margir halda að öll trúarbrögð séu Guði þóknanleg en Biblían er á öðru máli. Og það er ekki nóg að segjast bara vera kristinn. Jesús sagði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ Til að Guð hafi velþóknun á okkur verðum við sem sagt að kynna okkur hvaða kröfur hann gerir til okkar og uppfylla þær. Jesús kallaði þá „illgjörðamenn“ sem gera ekki vilja Guðs. (Matteus 7:21-23) Fölsk trú er einskis virði rétt eins og falsaðir peningar, og það sem verra er, hún er skaðleg.

4. Hvað merkir það sem Jesús sagði um vegina tvo og hvert liggja þeir?

4 Jehóva gefur öllum jarðarbúum tækifæri til að hljóta eilíft líf í paradís. En til að hljóta það þurfum við að tilbiðja Guð á réttan hátt og lifa eins og hann vill að við gerum. Margir vilja því miður ekki gera það. Þess vegna sagði Jesús: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Sönn trú leiðir til eilífs lífs en fölsk trú til dauða. Jehóva vill ekki að nokkur maður farist þannig að hann gefur öllum mönnum tækifæri til að kynnast sér. (2. Pétursbréf 3:9) Það er því mikilvægt að tilbiðja Guð á réttan hátt vegna þess að það er um líf eða dauða að tefla fyrir okkur.

Á HVERJU ÞEKKIST HIN SANNA TRÚ?

5. Hvernig getum við þekkt úr þá sem iðka sanna trú?

5 Hvernig getum við fundið ‚veginn til lífsins‘? Jesús sagði að það sæist á líferni fólks hvort það iðkaði sanna trú. „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá,“ sagði hann. „Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu.“ (Matteus 7:16, 17) Þeir sem iðka sanna trú ættu með öðrum orðum að þekkjast á hegðun sinni og trúarskoðunum. Enginn þeirra er auðvitað fullkominn og öllum verða á mistök, en sem hópur leggja þeir sig fram um að gera vilja Guðs. Við skulum nú líta á sex atriði sem einkenna þá sem iðka sanna trú.

6, 7. Hvernig líta þjónar Guðs á Biblíuna og hvaða fordæmi gaf Jesús?

6 Þjónar Guðs byggja kenningar sínar á Biblíunni. Biblían segir: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er.“ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Trú og trúarathafnir þeirra sem iðka sanna trú byggjast því á innblásnu orði Guðs, Biblíunni, en ekki á erfikenningum eða hugmyndum manna.

7 Jesús Kristur gaf fyrirmyndina með því að byggja kenningar sínar að öllu leyti á orði Guðs. „Þitt orð er sannleikur,“ sagði hann í bæn til föður síns á himnum. (Jóhannes 17:17) Hann trúði orði Guðs og kenndi að öllu leyti í samræmi við það. Oft sagði hann: „Ritað er,“ og vitnaði síðan í ritningarstað. (Matteus 4:4, 7, 10) Þjónar Guðs nú á dögum kenna ekki heldur sínar eigin hugmyndir. Þeir trúa að Biblían sé orð Guðs og byggja kenningar sínar á henni í einu og öllu.

8. Hvað er fólgið í því að tilbiðja Jehóva?

8 Þeir sem iðka sanna trú tilbiðja engan nema Jehóva og þeir kunngera nafn hans. „Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum,“ sagði Jesús. (Matteus 4:10) Þjónar Guðs tilbiðja því engan nema Jehóva og tilbeiðslan felur meðal annars í sér að segja fólki hvað hinn sanni Guð heitir og hvernig hann er. Í Sálmi 83:19 segir: „Þú einn heitir Jahve [eða Jehóva], hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (Biblían 1908) Jesús gaf fyrirmyndina um að hjálpa öðrum að kynnast Guði eins og hann sagði sjálfur í bæn: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum.“ (Jóhannes 17:6) Sannir guðsdýrkendur nú á tímum líkja eftir Jesú og segja öðrum frá nafni Guðs, fyrirætlun og eiginleikum.

9, 10. Hvernig sýna sannkristnir menn hver öðrum kærleika?

9 Þjónar Guðs bera ósvikinn kærleika hver til annars. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Frumkristnir menn elskuðu hver annan. Kærleikur, sem byggist á meginreglum Biblíunnar, er hafinn yfir kynþætti, þjóðfélagsstöðu og þjóðerni, og hann tengir fólk saman í órjúfanlegt bræðralag. (Lestu Kólossubréfið 3:14.) Þess konar bræðralag þekkist ekki meðal falskra trúarbragða. Við sjáum það af því að þar drepa menn hver annan vegna þjóðernislegs ágreinings. Sannkristnir menn taka sér ekki vopn í hönd til að drepa trúbræður sína eða nokkra aðra. Í Biblíunni stendur: „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. . . . Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; 4:20, 21.

10 Sannur kærleikur er auðvitað meira en að drepa ekki aðra. Sannkristnir menn sýna af sér þá óeigingirni að nota tíma, krafta og fjármuni til að hjálpa hver öðrum og uppörva hver annan. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þeir hjálpast að á neyðartímum og eru heiðarlegir við aðra. Þeir leggja sig fram um að „gjöra öllum gott“ eins og Biblían hvetur til. — Galatabréfið 6:10.

11. Af hverju er mikilvægt að viðurkenna að Guð noti Jesú til að veita hjálpræði?

11 Sannkristnir menn viðurkenna að Guð notar Jesú Krist til að veita mönnum hjálpræði. Biblían segir: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Postulasagan 4:12) Jesús gaf líf sitt sem lausnargjald fyrir hlýðna menn eins og fram kom í 5. kafla. (Matteus 20:28) Auk þess er Jesús sá konungur sem Guð hefur skipað til að fara með völd í ríkinu á himnum en það mun bráðlega stjórna allri jörðinni. Og Guð gerir þá kröfu til okkar að hlýða Jesú og fara eftir kenningum hans, ef við viljum hljóta eilíft líf. Þess vegna segir í Biblíunni: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf.“ — Jóhannes 3:36.

12. Hvað er fólgið í því að tilheyra ekki heiminum?

12 Sannkristnir menn tilheyra ekki heiminum. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði Jesús þegar rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus réttaði yfir honum. (Jóhannes 18:36) Sannir fylgjendur Jesú eru þegnar ríkis hans á himnum, hvar í heimi sem þeir búa, og eru því algerlega hlutlausir í stjórnmálum. Þeir taka ekki þátt í átökum heimsins. Þeir skipta sér hins vegar ekki af því þótt aðrir ákveði að ganga í stjórnmálaflokk, bjóða sig fram í kosningum eða kjósa. Og tilbiðjendur Guðs eru löghlýðnir þó að þeir séu hlutlausir í stjórnmálum. Af hverju? Af því að orð Guðs fyrirskipar þeim að ‚hlýða yfirvöldum‘. (Rómverjabréfið 13:1) Þegar kröfur Guðs og stjórnmálakerfisins stangast á fylgja sannkristnir menn hins vegar fordæmi postulanna sem sögðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29; Markús 12:17.

13. Hvernig líta sannir fylgjendur Jesú á ríki Guðs og hvað gera þeir þess vegna?

13 Sannir fylgjendur Jesú boða að ríki Guðs sé eina von mannkynsins. Jesús sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Í stað þess að hvetja fólk til að treysta á það að mennskir leiðtogar leysi vandamál veraldar boða fylgjendur Jesú að himneskt ríki Guðs sé eina von mannkynsins. (Sálmur 146:3) Jesús sagði að við ættum að biðja fyrir þessari fullkomnu stjórn. „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ sagði hann. (Matteus 6:10) Í orði Guðs er sagt um hið himneska ríki: „Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

14. Hvaða trúarsöfnuður finnst þér uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til sannrar tilbeiðslu?

14 Spyrðu þig nú með hliðsjón af efninu hér á undan: Hvaða trúarsöfnuður byggir allar kenningar sínar á Biblíunni og kunngerir nafnið Jehóva? Hverjir ástunda kærleika eins og Jehóva segir að gera skuli, trúa á Jesú, tilheyra ekki heiminum og boða að ríki Guðs sé eina raunverulega von mannkynsins? Hverjir, af öllum trúarsöfnuðum jarðar, uppfylla öll þessi skilyrði? Staðreyndir sýna að það eru Vottar Jehóva. — Jesaja 43:10-12.

HVAÐ ÆTLARÐU AÐ GERA?

15. Hvað þurfum við að gera annað en að trúa að Guð sé til?

15 Það er ekki nóg að trúa á Guð til að þóknast honum. Biblían segir að illu andarnir trúi líka að hann sé til en þeir gera auðvitað ekki vilja hans og hafa ekki velþóknun hans. (Jakobsbréfið 2:19) Til að hljóta velþóknun Guðs þurfum við bæði að trúa að hann sé til og gera vilja hans. Við verðum líka að slíta öll tengsl við falstrúarbrögðin og taka upp sanna tilbeiðslu.

16. Hvernig ættum við að líta á þátttöku í falskri guðsdýrkun?

16 Páll postuli bendir á að við megum ekki taka þátt í falskri guðsdýrkun. Hann skrifaði: „Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.“ (2. Korintubréf 6:17; Jesaja 52:11) Sannkristnir menn forðast því hvaðeina sem tengist falstrú.

17, 18. Hvað er „Babýlon hin mikla“ og af hverju er áríðandi að fara „út úr henni“?

17 Biblían bendir á að fölsk trúarbrögð í öllum sínum myndum tilheyri ‚Babýlon hinni miklu‘. * (Opinberunarbókin 17:5) Nafnið minnir á hina fornu borg Babýlon þar sem fölsk trúarbrögð áttu upptök sín eftir Nóaflóðið. Margar útbreiddar kenningar og margir algengir siðir falstrúarbragðanna áttu upptök sín í Forn-Babýlon. Svo dæmi sé tekið tilbáðu Babýloníumenn guðaþrenningar. Nú á dögum er það ein aðalkenning margra trúfélaga að Guð sé þríeinn. Biblían kennir hins vegar að það sé aðeins til einn sannur Guð, Jehóva, og að Jesús Kristur sé sonur hans. (Jóhannes 17:3) Babýloníumenn trúðu einnig að mennirnir hefðu ódauðlega sál sem lifði áfram þótt líkaminn dæi, og að til væri staður þar sem sálir framliðinna gætu kvalist. Flest trúfélög nútímans kenna að maðurinn hafi ódauðlega sál eða anda sem geti kvalist í logum helvítis.

18 Trú og tilbeiðsla Babýlonar breiddist út um alla jörðina þannig að það má líta á Babýlon hina miklu sem heimsveldi falskra trúarbragða. Og Guð hefur boðað að þetta falstrúarveldi líði skyndilega undir lok þegar þar að kemur. (Opinberunarbókin 18:8) Sérðu hvers vegna það er mikilvægt að segja algerlega skilið við Babýlon hina miklu? Jehóva Guð vill að þú forðir þér sem fyrst „út úr henni“ meðan enn er tími til. — Lestu Opinberunarbókina 18:4.

Ef þú þjónar Jehóva ásamt fólki hans eignast þú margfalt meira en þú ef til vill missir.

19. Hvað eignast þú um leið og þú ferð að þjóna Jehóva?

19 Ef þú ákveður að taka ekki lengur þátt í falstrúariðkunum getur það haft í för með sér að sumir sniðgangi þig. En ef þú þjónar Jehóva með fólki hans eignast þú margfalt meira en þú missir. Þú eignast fjölda bræðra og systra í trúnni, rétt eins og lærisveinar Jesú á fyrstu öld sem yfirgáfu allt og fylgdu honum. Þú verður hluti af stórri alheimsfjölskyldu en í henni eru milljónir sannkristinna manna sem sýna þér ósvikinn kærleika. Og þú eignast þá unaðslegu von að hljóta eilíft líf „í hinum komandi heimi“. (Markús 10:28-30) Þeir sem sniðgengu þig vegna trúar þinnar fara kannski að kynna sér kenningar Biblíunnar þegar fram líða stundir og gerast þá tilbiðjendur Jehóva.

20. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þá sem iðka sanna trú?

20 Biblían kennir að Guð ætli bráðlega að binda enda á þennan illa heim og að nýr réttlátur heimur undir stjórn ríkis hans taki þá við. (2. Pétursbréf 3:9, 13) Það verður yndisleg breyting! Og í þessum réttláta nýja heimi verður aðeins ein trú og aðeins stunduð sönn tilbeiðsla. Væri ekki skynsamlegt af þér að gera nú þegar ráðstafanir til að ganga í lið með sönnum guðsdýrkendum?

^ gr. 17 Í viðaukanum „Hvað er „Babýlon hin mikla“?“ er að finna nánari skýringar á því hvers vegna Babýlon hin mikla táknar heimsveldi falskra trúarbragða.