Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

19. KAFLI

Varðveittu þig í kærleika Guðs

Varðveittu þig í kærleika Guðs
  • Hvað merkir það að elska Guð?

  • Hvernig getum við varðveitt okkur í kærleika Guðs?

  • Hvernig launar Jehóva þeim sem varðveita sig í kærleika hans?

Ætlar þú að leita skjóls hjá Jehóva á þessum stormasömu tímum?

1, 2. Hvar finnum við öruggt skjól nú á tímum?

HUGSAÐU þér að þú sért úti að ganga. Himinninn er orðinn þungbúinn og það er tekið að hvessa. Brátt er skollið á slagveður. Þú hraðar þér eins og þú getur og horfir um leið í kringum þig eftir afdrepi fyrir veðrinu. Skyndilega gengurðu fram á skýli. Það er traust að sjá og inni er allt þurrt og þrifalegt. Hvílíkur munur að komast í skjól!

2 Við lifum á stormasömum tímum. Ástandið í heiminum versnar jafnt og þétt. Við eigum hins vegar kost á öruggu skjóli þar sem ekki er hætta á að við verðum fyrir varanlegu tjóni. Hvaða skjól er það? Biblían talar um mann sem segir við Jehóva: „Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!“ — Sálmur 91:2.

3. Hvernig getum við gert Jehóva að hæli okkar?

3 Hugsaðu þér! Jehóva, skapari og Drottinn alheims, getur verið okkur öruggt hæli og skjól þar sem við erum óhult. Hann er margfalt máttugri en allt og allir sem okkur gæti stafað hætta af. Og jafnvel þótt við verðum fyrir tjóni getur hann bætt það að fullu. Hvernig getum við gert Jehóva að hæli okkar? Við þurfum að treysta honum. Jafnframt erum við hvött til að ‚varðveita sjálf okkur í kærleika Guðs‘. (Júdasarbréfið 21) Já, við þurfum að viðhalda sterkum kærleiksböndum milli okkar og föðurins á himnum. Þá getum við verið örugg um að hann sé hæli okkar. En hvernig getum við myndað slík kærleiksbönd?

KÆRLEIKUR GUÐS OG VIÐBRÖGÐ ÞÍN

4, 5. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva hefur sýnt okkur kærleika.

4 Til að varðveita okkur í kærleika Guðs þurfum við að gera okkur grein fyrir hvernig hann hefur sýnt okkur kærleika sinn. Rifjaðu upp sumar af kenningum Biblíunnar sem þú hefur kynnst með hjálp þessarar bókar. Jehóva, skaparinn, hefur gefið okkur unaðslegt heimili, jörðina. Hann hefur búið hana ríkulega matvælum og vatni, miklum náttúruauðlindum, hrífandi dýralífi og fögru landslagi. Hann gaf okkur Biblíuna þar sem hann opinberar nafn sitt og eiginleika. Þar segir einnig frá því að hann hafi sent ástkæran son sinn til jarðar til að þjást og deyja fyrir okkur. (Jóhannes 3:16) Og hvað þýðir þessi gjöf fyrir okkur? Hún veitir von um unaðslega framtíð.

5 Framtíðarvonin er einnig komin undir öðru sem Jehóva Guð hefur gert. Hann hefur sett á fót stjórn á himnum, Messíasarríkið, en það mun bráðlega binda enda á allar þjáningar og breyta jörðinni í paradís. Hugsaðu þér! Við getum lifað þar að eilífu í friði og hamingju. (Sálmur 37:29) Og Guð hefur gefið okkur leiðsögn um það hvernig best sé að lifa lífinu þangað til sá tími rennur upp. Hann hefur einnig veitt okkur ótakmarkaðan aðgang að sér með bæninni. Þetta eru aðeins örfá dæmi um það hvernig Jehóva hefur sýnt kærleika sinn til mannskynsins í heild og til þín sem einstaklings.

6. Hvernig gætir þú brugðist við kærleika Jehóva?

6 Það er samt mikilvægt fyrir þig að íhuga eitt: Hvernig bregst þú við kærleika Jehóva? Margir myndu eflaust svara sem svo að þeir þurfi að elska Jehóva á móti. Hugsar þú þannig? Jesús sagði að mesta boðorðið væri þetta: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Við höfum vissulega margar ástæður til að elska Jehóva Guð. En er nóg að þér finnist þú elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og huga til að gera það í raun og veru?

7. Felur kærleikur til Guðs í sér meira en aðeins tilfinningu? Skýrðu svarið.

7 Eins og fram kemur í Biblíunni er það að elska Guð miklu meira en tilfinningin. Vissulega þurfum við að finna að við elskum hann en það er aðeins byrjunin á því að elska hann í raun og veru. Eplafræ er nauðsynlegt til að hægt sé að rækta eplatré. En ekki myndirðu gera þig ánægðan með að fá afhent fræ ef þú bæðir um epli. Að finna fyrir kærleika til Jehóva er aðeins byrjunin líkt og eplafræið. Biblían kennir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Kærleikurinn til Guðs þarf að bera góðan ávöxt til að vera sannur. Hann þarf að birtast í verkum. — Lestu Matteus 7:16-20.

8, 9. Hvernig getum við sýnt Guði kærleika okkar og þakklæti?

8 Við sýnum að við elskum Guð þegar við höldum boðorð hans og meginreglur. Það er ekki svo erfitt. Lög Jehóva eru ekki íþyngjandi heldur eru þau gerð til að hjálpa okkur að vera ánægð, hamingjusöm og farsæl í lífinu. (Jesaja 48:17, 18) Með því að lifa í samræmi við leiðsögn Jehóva sýnum við honum að við kunnum að meta allt sem hann hefur gert fyrir okkur. Því miður er sjaldgæft að menn geri það nú á tímum. Við viljum ekki vera vanþakklát eins og sumir samtíðarmenn Jesú. Einu sinni læknaði hann tíu holdsveika menn en aðeins einn sneri aftur til að þakka honum. (Lúkas 17:12-17) Við viljum auðvitað vera eins og þakkláti maðurinn en ekki eins og hinir níu vanþakklátu.

9 Hver eru þá boðorð Jehóva sem við þurfum að halda? Við erum búin að ræða um allmörg af þeim í þessari bók en við skulum rifja upp fáein atriði. Að halda boðorð Guðs hjálpar okkur að varðveita okkur í kærleika hans.

HALTU ÁFRAM AÐ STYRKJA SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

10. Hvers vegna er mikilvægt að halda áfram að fræðast um Jehóva Guð?

10 Við styrkjum tengslin við Jehóva með því að læra um hann og við ættum að halda því áfram endalaust. Ef þú værir að orna þér við eld úti undir berum himni á ískaldri nóttu myndirðu varla láta eldinn kulna og slokkna. Nei, þú myndir bæta á eldinn jafnt og þétt til að halda honum skíðlogandi. Líf þitt gæti verið í húfi. „Þekking á Guði“ viðheldur kærleika okkar til hans, rétt eins og eldiviðurinn viðheldur logunum. — Orðskviðirnir 2:1-5.

Þú þarft að viðhalda kærleikanum til Jehóva rétt eins og þú bætir á eldinn til að hann kulni ekki.

11. Hvaða áhrif hafði kennsla Jesú á fylgjendur hans?

11 Jesús vildi að fylgjendur sínir héldu áfram að elska Jehóva og sannleiksorð hans heitt og innilega. Eftir að hann var risinn upp frá dauðum skýrði hann fyrir tveim af lærisveinunum hvernig vissir spádómar í Hebresku ritningunum hefðu ræst á sér. Hvaða áhrif hafði það á þá? Þeir sögðu eftir á: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ — Lúkas 24:32.

12, 13. (a) Hvað er orðið um kærleikann til Guðs og Biblíunnar meðal þorra manna? (b) Hvað getum við gert til að láta ekki kærleika okkar kólna?

12 Brann ekki hjartað í þér af gleði, áhuga og ást til Guðs þegar þú uppgötvaðir hvað Biblían kennir? Eflaust. Mörgum hefur verið þannig innanbrjósts. Vandinn er sá að halda þessum sterka kærleika lifandi og láta hann vaxa. Við viljum ekki fylgja þróuninni sem Jesús spáði þegar hann sagði að kærleikur flestra myndi kólna í heimi nútímans. (Matteus 24:12) Hvað geturðu gert til að kærleikurinn til Jehóva og sannleikans í Biblíunni kólni ekki?

13 Haltu áfram að viða að þér þekkingu á Jehóva Guði og Jesú Kristi. (Jóhannes 17:3) Hugleiddu síðan það sem þú lærir í orði Guðs og spyrðu þig: Hvað kennir þetta mér um Jehóva Guð? Hvaða frekari ástæður sé ég til að elska hann af öllu hjarta, huga og sálu? (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:15.) Slíkar hugleiðingar hjálpa þér að viðhalda brennandi kærleika til Jehóva.

14. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að viðhalda kærleikanum til Jehóva?

14 Reglulegar bænir eru önnur leið til að halda kærleikanum til Jehóva lifandi og sterkum. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Í 17. kafla bókarinnar ræddum við um bænina sem er ein af dýrmætum gjöfum Guðs. Við höldum sterku og lifandi sambandi við Jehóva með því að biðja reglulega til hans, ekki ósvipað og mannleg sambönd dafna við opinskáar samræður og skoðanaskipti. Bænirnar mega ekki verða vélrænar — þær mega ekki breytast í orðaþulur sem við endurtökum aftur og aftur án eiginlegrar merkingar og tilfinningar. Við þurfum að tala við Jehóva rétt eins og barn talar við pabba sinn. Auðvitað viljum við tala við hann með virðingu en við skulum vera opinská, hreinskilin og segja það sem okkur býr í brjósti. (Sálmur 62:9) Já, sjálfsnám í Biblíunni og innilegar bænir eru mikilvægir þættir í tilbeiðslunni og eru hjálp til að varðveita okkur í kærleika Guðs.

HAFÐU YNDI AF ÞVÍ AÐ TILBIÐJA GUÐ

15, 16. Af hverju getum við litið á það sem heiður og fjársjóð að fá að boða fagnaðarerindið?

15 Við stundum sjálfsnám í Biblíunni út af fyrir okkur og hið sama gildir um bænasambandið. En annar þáttur tilbeiðslunnar — að segja öðrum frá trúnni — fer fram meðal almennings. Ertu byrjaður að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar? Það er mikill heiður að fá að gera það. Þegar við segjum öðrum frá því sem við höfum lært erum við að vinna mjög þýðingarmikið starf sem öllum kristnum mönnum hefur verið falið — að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. — Lestu Matteus 24:14; 28:19, 20.

16 Páli postula þótti ákaflega vænt um þetta starf og kallaði það fjársjóð. (2. Korintubréf 4:7) Þú getur ekki unnið betra starf en að segja öðrum frá Jehóva Guði og fyrirætlunum hans. Þá ertu að þjóna besta húsbónda sem til er og þú hlýtur bestu laun sem völ er á. Með því að taka þátt í þessu starfi ertu að hjálpa hjartahreinu fólki að tengjast föðurnum á himnum og komast inn á veginn til eilífa lífsins. Hvað getur verið meira gefandi en það? Og með því að vitna um Jehóva og orð hans styrkirðu trú þína og kærleika til hans. Jehóva kann að meta viðleitni þína. (Hebreabréfið 6:10) Með því að vera upptekinn af slíku starfi hjálparðu sjálfum þér að varðveita þig í kærleika Guðs. — Lestu 1. Korintubréf 15:58.

17. Hvers vegna er hið kristna boðunarstarf áríðandi núna?

17 Það er mikilvægt að hafa hugfast að boðunarstarfið er áríðandi. „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma,“ segir Biblían. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Af hverju er þetta svona áríðandi núna? Orð Guðs segir: „Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ (Sefanía 1:14) Þess er skammt að bíða að Jehóva bindi enda á núverandi ástand í heiminum. Við verðum að vara fólk við þannig að það viti að það þarf að velja Jehóva sem Drottin sinn núna. Endinum seinkar ekki. — Habakkuk 2:3.

18. Af hverju ættum við að tilbiðja Jehóva ásamt öðrum sem stunda sanna kristni?

18 Jehóva vill að við tilbiðjum sig ásamt öðrum sem stunda sanna kristni. Þess vegna segir í orði hans: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Þegar við hittum trúsystkini á safnaðarsamkomum höfum við ágætis tækifæri til að lofa og tilbiðja Jehóva. Við uppbyggjumst saman og hvetjum hvert annað.

19. Hvernig getum við styrkt kærleiksböndin í kristna söfnuðinum?

19 Við styrkjum vináttuböndin í söfnuðinum þegar við umgöngumst aðra sem tilbiðja Jehóva. Það er mikilvægt að hafa augun opin fyrir því góða í fari annarra, rétt eins og Jehóva leitar eftir því góða í fari okkar. Þú skalt ekki ætlast til þess að trúsystkini þín séu fullkomin. Mundu að við höfum öll tekið út mismikinn þroska í trúnni og að okkur verður öllum á mistök. (Lestu Kólossubréfið 3:13.) Gerðu þér far um að mynda náin vináttutengsl við þá sem elska Jehóva af öllu hjarta. Það stuðlar að því að þú takir framförum í trúnni. Að tilbiðja Jehóva ásamt trúsystkinum sínum er hjálp til að varðveita sig í kærleika Guðs. Hvernig launar Jehóva þeim sem tilbiðja hann í trúfesti og varðveita sig þannig í kærleika hans?

HÖNDLAÐU „HIÐ SANNA LÍF“

20, 21. Hvað er „hið sanna líf“ og hvers vegna er vonin um það stórfengleg?

20 Jehóva launar trúföstum þjónum sínum með því að gefa þeim líf. Hvers konar líf er það? Lítum nánar á málið. Ertu fullkomlega lifandi núna? Flestir myndu segja að svarið sé augljóst. Við öndum, borðum og drekkum þannig að við hljótum að vera lifandi. Og þegar okkur líður sérstaklega vel segjum við jafnvel: „Svona á lífið að vera!“ Biblían gefur hins vegar í skyn að enginn maður sé lifandi í fyllsta skilningi orðsins.

Jehóva vill að þú hljótir „hið sanna líf“. Þiggurðu boð hans?

21 Í orði Guðs er fólk hvatt til að ‚höndla hið sanna líf‘. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Þessi orð bera með sér að við vonumst eftir ‚hinu sanna lífi‘ í framtíðinni. Þegar við verðum fullkomin verðum við lifandi í fyllsta skilningi orðsins því að þá verður lífið eins og Guð ætlaði sér í upphafi. Þegar jörðin er orðin að paradís og við búum við fullkomna heilsu, frið og hamingju, þá höfum við eignast „hið sanna líf“ — eilífa lífið. (1. Tímóteusarbréf 6:12) Er það ekki stórfengleg von?

22. Hvernig geturðu „höndlað hið sanna líf“?

22 Hvernig getum við „höndlað hið sanna líf“? Jafnhliða og Páll nefnir það hvetur hann kristna menn til að „gjöra gott“ og „vera ríkir af góðum verkum“. (1. Tímóteusarbréf 6:18) Það er því ljóst að það skiptir miklu máli hvernig við förum eftir sannleikanum sem við höfum lært í Biblíunni. En er Páll að gefa í skyn að við ávinnum okkur „hið sanna líf“ með góðum verkum? Nei, vonin um að hljóta það er byggð á „náð Guðs“, á óverðskuldaðri gæsku hans. (Rómverjabréfið 5:15) Hann hefur hins vegar yndi af því að umbuna þeim sem þjóna honum af trúfesti. Hann vill að þú hljótir „hið sanna líf“. Þeir sem varðveita sig í kærleika Guðs eiga í vændum eilíft líf, frið og hamingju.

23. Af hverju þurfum við að varðveita okkur í kærleika Guðs?

23 Við ættum öll að spyrja okkur: Tilbið ég Guð eins og útlistað í er Biblíunni? Ef við gætum þess að gera það dag hvern, þá erum við á réttri braut. Þá getum við treyst að Jehóva sé okkur skjól og hæli. Hann varðveitir trúa þjóna sína óhulta í ólgu og umbrotum hinna síðustu daga þessa heims. Innan skamms leiðir hann okkur heilu og höldnu inn í nýjan heim. Það verður ólýsanleg lífsreynsla! Þá munum við fagna því að hafa tekið réttar ákvarðanir núna á síðustu dögum. Ef þú velur rétt núna, þá muntu hljóta „hið sanna líf“, eilífa lífið sem Jehóva Guð ætlaði mönnum frá öndverðu!