Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Höfuðfat — hvenær og hvers vegna?

Höfuðfat — hvenær og hvers vegna?

Hvenær og hvers vegna ætti kristin kona að bera höfuðfat í tengslum við tilbeiðslu sína? Við skulum líta á innblásna umfjöllun Páls postula um þetta mál. Hann gaf þær leiðbeiningar sem þarf til að taka réttar ákvarðanir og vera Guði til heiðurs. (1. Korintubréf 11:3-16) Páll bendir á þrennt sem hafa ber í huga: (1) hvaða athafnir útheimta að kona sé með höfuðfat, (2) við hvaða aðstæður hún þarf að gera það og (3) af hvaða tilefni hún gerir það.

Athafnirnar. Páll nefnir tvær: að biðja og að flytja spádóma. (4. og 5. vers) Bæn er fólgin í því að ávarpa Guð með lotningu. Að flytja spádóma felur nú á dögum í sér alla biblíutengda kennslu sem kristinn maður annast. Ber þá að skilja orð Páls þannig að kona eigi alltaf að vera með höfuðfat þegar hún biðst fyrir eða kennir sannleika Biblíunnar? Nei, það skiptir öllu máli við hvaða aðstæður hún gerir þetta.

Aðstæðurnar. Af orðum Páls má ráða að leiðbeiningar hans eigi við á tveim sviðum — í fjölskyldunni og söfnuðinum. Hann segir: „Karlmaðurinn er höfuð konunnar . . . sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt.“ (3. og 5. vers) Samkvæmt fyrirkomulagi Jehóva er eiginmaður höfuð konu sinnar. Ef hún fer með hlutverk sem Jehóva hefur falið eiginmanninum er hún að óvirða hann nema hún sýni með viðeigandi hætti að hún virði forræði hans. Ef hún þyrfti til dæmis að halda biblíunámskeið að eiginmanni sínum viðstöddum myndi hún viðurkenna yfirráð hans með því að bera höfuðfat. Gildir þá einu hvort hann er skírður eða ekki því að hann er eftir sem áður höfuð fjölskyldunnar. * Hún ætti einnig að vera með höfuðfat ef hún færi með bæn eða kenndi að viðstöddum skírðum syni undir lögaldri, ekki vegna þess að hann sé höfuð fjölskyldunnar heldur vegna þess forystuhlutverks sem skírðum karlmönnum er falið í söfnuðinum.

Hitt sviðið, sem Páll nefnir, er söfnuðurinn. Hann segir: „Ætli nú einhver sér að gera þetta að kappsmáli, þá er slíkt ekki venja okkar eða safnaða Guðs.“ (16. vers) Skírðum karlmönnum er falin forystan í kristna söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 2:11-14; Hebreabréfið 13:17) Aðeins karlmenn eru skipaðir öldungar og safnaðarþjónar og falin sú ábyrgð að gæta hjarðar Guðs. (Postulasagan 20:28) En stundum gætu aðstæður verið þannig að kristin kona sé beðin að annast verkefni sem skírður karlmaður myndi sjá um að öllu jöfnu. Kannski þarf hún að sjá um samansöfnun fyrir boðunarstarfið vegna þess að enginn hæfur, skírður karlmaður er fáanlegur eða er á staðnum. Eins gæti komið til að hún annaðist fyrir fram ákveðið biblíunámskeið að viðstöddum skírðum karlmanni. Þar sem slíkt verkefni er í rauninni þáttur í starfi kristna safnaðarins ætti hún að vera með höfuðfat til tákns um að hún sé að annast verkefni sem karlar hafa að jafnaði með höndum.

Margir þættir tilbeiðslunnar eru þó þess eðlis að systir í söfnuðinum þarf ekki að bera höfuðfat. Hún þarf til dæmis ekki að gera það þegar hún svarar á safnaðarsamkomum, boðar fagnaðarerindið hús úr húsi með eiginmanni sínum eða öðrum skírðum karlmanni eða þegar hún kennir óskírðum börnum sínum eða biður með þeim. Spurningar geta auðvitað vaknað varðandi fleiri aðstæður og ef systir er óviss getur hún kannað málið nánar. * Ef hún er enn í óvissu og samviskan segir henni að vera með höfuðfat, eins og sýnt er á myndinni, er ekkert rangt við það.

Tilefnið. Í 10. versinu eru nefndar tvær ástæður fyrir því að kristin kona ætti að fylgja þeim fyrirmælum að vera með höfuðfat: „Konan [á] að bera á höfði sér tákn um valdsvið sitt vegna englanna.“ Tökum fyrst eftir orðunum „tákn um valdsvið sitt“. Með því að bera höfuðfat getur kona sýnt að hún viðurkennir það vald sem Jehóva hefur falið skírðum karlmönnum í söfnuðinum. Þannig sýnir hún Jehóva Guði kærleika sinn og hollustu. Hin ástæðan kemur fram í orðunum „vegna englanna“. Hvernig getur kona haft áhrif á þessar voldugu andaverur með því að bera höfuðfat?

Englunum er annt um að vald Jehóva sé virt alls staðar í alheimssöfnuði hans, bæði á himni og jörð. Og þar njóta þeir einnig góðs af fordæmi ófullkominna manna. Þeir þurfa líka að vera undirgefnir fyrirkomulagi Jehóva, en þar brugðust margir englar forðum daga. (Júdasarbréfið 6) Englarnir sjá kannski kristna konu sem er reyndari, fróðari og greindari en skírður karlmaður í söfnuðinum en hún sýnir engu að síður að hún sé undirgefin yfirráðum hans. Í sumum tilfellum er um að ræða andasmurða konu sem á eftir að verða samerfingi Krists. Þegar þar að kemur mun hún gegna enn hærri stöðu en englarnir og ríkja með Kristi á himnum. Hún er englunum góð fyrirmynd. Það er heiður fyrir allar systur í söfnuðinum að sýna hógværð, hlýðni, hollustu og undirgefni í augsýn milljóna trúfastra engla.

^ gr. 3 Að jafnaði fer kristin eiginkona ekki upphátt með bæn ef eiginmaður hennar er skírður og hann er viðstaddur, nema aðstæður séu óvenjulegar, til dæmis ef hann hefur misst málið vegna sjúkdóms.

^ gr. 1 Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum 15. febrúar 2015, bls. 30; 1. ágúst 2002, bls. 30-31, og 1. nóvember 1977, bls. 260-263.