2. KAFLI
Bréf frá kærleiksríkum Guði
SEGÐU mér, hver er uppáhaldsbókin þín? — Sum börn myndu velja dýrabækur. Önnur myndu velja myndabækur. Það getur verið gaman að þess konar bókum.
En bestu bækurnar í öllum heiminum eru þær sem segja okkur sannleikann um Guð. Ein þeirra er dýrmætari en allar hinar. Veistu hvaða bók það er? — Það er Biblían.
Af hverju er Biblían svona dýrmæt? — Af því að hún er frá Guði. Hún segir okkur frá honum og frá því góða sem hann ætlar að gera fyrir okkur. Hún segir okkur líka hvað við ættum að gera til að gleðja hann. Hún er eins og bréf frá Guði.
Guð hefði getað skrifað alla Biblíuna á himnum og síðan gefið mönnunum hana, en hann gerði það ekki. Það sem stendur í Biblíunni kemur frá Guði en hann notaði þjóna sína á jörðinni til að skrifa hana að mestu leyti.
Hvernig fór hann að því? — Til að skilja það skulum við taka dæmi. Þegar við heyrum rödd í útvarpi getur hún komið frá einhverjum sem er langt í burtu. Þegar við horfum á sjónvarp getum við jafnvel séð myndir af fólki í öðrum löndum og við getum heyrt hvað það er að segja.
Mennirnir geta meira að segja farið alla leiðina til tunglsins í geimförum og sent skilaboð þaðan til jarðarinnar. Vissirðu það? — Fyrst mennirnir geta það, ætli Guð geti þá ekki sent skilaboð frá himnum? — Auðvitað getur hann það. Hann gerði það löngu áður en mennirnir fengu útvarp og sjónvarp.
Móse skrifaði fyrstu fimm bækur Biblíunnar. En hann var ekki sá eini sem skrifaði Biblíuna. Guð notaði um 40 menn til að skrifa hana. Þessir menn voru uppi fyrir langa löngu og það tók fjölda
mörg ár að ljúka við Biblíuna. Það tók um 1600 ár! Það ótrúlega er að jafnvel þótt sumir þeirra hafi aldrei hist er fullkomið samræmi í öllu sem þeir skrifuðu.Sumir sem Guð notaði til að skrifa Biblíuna voru vel þekktir. Móse var einn þeirra. Hann hafði verið fjárhirðir en varð síðar leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar. Salómon var konungur og var bæði vitrasti og ríkasti maður í heimi. En aðrir ritarar voru ekki eins þekktir, til dæmis Amos sem ræktaði fíkjur.
Einn biblíuritarinn var læknir. Veistu hvað hann hét? — Hann hét Lúkas. Annar ritari hafði verið skattheimtumaður. Hann hét Matteus. Og einn hafði verið lögfræðingur, það er að segja sérfræðingur í trúarlögum Gyðinga. Hann skrifaði fleiri biblíubækur en nokkur annar. Veistu hvað hann hét? — Hann hét Páll. Pétur og Jóhannes, lærisveinar Jesú, voru líka biblíuritarar en þeir höfðu verið fiskimenn.
Margir þessara biblíuritara skrifuðu um það sem Guð ætlaði að gera í framtíðinni. Hvernig vissu þeir það jafnvel áður en það gerðist? — Guð hafði gefið þeim upplýsingarnar. Hann hafði sagt þeim hvað myndi gerast.
Þegar Jesús, kennarinn mikli, var á jörðinni var búið að skrifa stóran hluta Biblíunnar. En mundu að kennarinn mikli hafði áður verið á himnum. Hann vissi hvað Guð hafði gert. Trúði hann því að Biblían væri frá Guði? — Já, hann trúði því.
Þegar Jesús sagði öðrum frá verkum Guðs las hann stundum úr Biblíunni en stundum sagði hann eftir minni frá því sem stóð í henni. Jesús gaf okkur líka fleiri upplýsingar um Guð. Hann sagði: „Það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“ (Jóhannes 8:26) Jesús hafði heyrt margt hjá Guði því að hann hafði verið hjá honum. Hvar getum við lesið það sem Jesús sagði? — Í Biblíunni. Það var allt skrifað niður til þess að við gætum lesið það.
Þar sem Guð notaði menn til að skrifa, þá skrifuðu þeir auðvitað á því tungumáli sem þeir notuðu dagsdaglega. Þess vegna var mestöll Biblían skrifuð á hebresku, sumt á arameísku og talsvert á grísku. Fæstir kunna að lesa þessi tungumál nú á tímum. Þess vegna hefur Biblían verið þýdd á önnur tungumál. Núna er hægt að lesa hluta Biblíunnar á meira en 2260 tungumálum. Hugsaðu þér, Biblían er bréf frá Guði til allra manna hvar sem þeir búa. En það skiptir engu hversu oft hún hefur verið afrituð, boðskapurinn er samt frá Guði.
Það sem stendur í Biblíunni er mikilvægt fyrir okkur. Hún var skrifuð fyrir löngu en
segir frá því sem er að gerast núna. Hún segir líka frá því sem Guð ætlar að gera í náinni framtíð. Það sem hún segir er mjög spennandi. Hún gefur okkur yndislega von.Biblían útskýrir hvernig Guð vill að við lifum. Hún segir okkur hvað sé rétt og hvað rangt. Þú þarft að vita það og ég líka. Biblían segir frá fólki sem gerði það sem rangt var og hvernig fór fyrir því. Þannig getum við forðast að lenda í sömu vandræðum. Biblían segir líka frá fólki sem gerði það sem rétt var og hvernig það varð því til góðs. Allt þetta var skrifað okkur til gagns.
En við verðum að geta svarað ákveðinni spurningu til að Biblían gagnist okkur sem best. Spurningin er: Hver gaf okkur Biblíuna? Hverju myndir þú svara? — Já, öll Biblían er frá Guði. Hvernig getum við þá sýnt að við séum vitur í raun og veru? — Með því að hlusta á Guð og gera það sem hann segir.
Við verðum þess vegna að taka okkur tíma til að lesa saman í Biblíunni. Þegar við fáum bréf frá einhverjum sem okkur þykir mjög vænt um lesum við það aftur og aftur. Okkur finnst það dýrmætt. Okkur ætti að finnast Biblían jafndýrmæt því að hún er bréf frá þeim sem elskar okkur mest af öllum. Hún er bréf frá kærleiksríkum Guði.
Gefðu þér smátíma í viðbót til að lesa ritningarstaðina hér á eftir sem sýna að Biblían er raunverulega orð Guðs, skrifuð okkur til gagns: Rómverjabréfið 15:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17 og 2. Pétursbréf 1:20, 21.