Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

37. KAFLI

Gleymum ekki Jehóva og syni hans

Gleymum ekki Jehóva og syni hans

HVERNIG myndi þér líða ef einhver gæfi þér dýrmæta gjöf? — Myndirðu bara þakka fyrir þig og gleyma síðan þeim sem gaf þér gjöfina? Eða myndirðu muna eftir honum og því sem hann gerði fyrir þig? —

Jehóva Guð gaf okkur mjög dýrmæta gjöf. Hann sendi son sinn til jarðar til að deyja fyrir okkur. Veistu af hverju Jesús þurfti að deyja fyrir okkur? — Það er mjög mikilvægt að við skiljum það vel.

Eins og við ræddum um í 23. kafla syndgaði Adam þegar hann braut fullkomin lög Guðs. Við fengum síðan syndina frá Adam sem er faðir okkar allra. En hvað vantar okkur þá? — Það mætti segja að okkur vanti nýjan, fullkominn föður sem hefur aldrei gert neitt rangt. Hver heldurðu að geti verið þess konar faðir? — Enginn annar en Jesús.

Jehóva sendi Jesú til jarðar svo að hann gæti verið okkur eins og faðir í stað Adams. Biblían segir: „,Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,‘ hinn síðari Adam að lífgandi anda.“ Hver var hinn fyrri Adam? — Já, það var maðurinn sem Guð skapaði af leiri jarðar. En hver er hinn síðari Adam? — Það er Jesús. Biblían bendir okkur á þetta þegar hún segir: „Hinn fyrsti maður [Adam] er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður [Jesús] er frá himni.“ — 1. Korintubréf 15:45, 47; 1. Mósebók 2:7.

Jesús erfði enga synd frá Adam því að Guð flutti líf hans frá himnum í móðurkvið Maríu. Þess vegna var Jesús fullkominn maður. (Lúkas 1:30-35) Og þess vegna sagði engill við fjárhirðana þegar Jesús fæddist: ,Í dag fæddist ykkur frelsari.‘ (Lúkas 2:11) En hvað þurfti að gerast fyrst til þess að Jesús, sem var ungbarn á þeim tíma, gæti orðið frelsari okkar? — Hann varð að þroskast og verða fullorðinn maður eins og Adam. Þá gat Jesús orðið ,hinn síðari Adam‘.

Í Biblíunni er líka sagt að frelsari okkar, Jesús, verði „Eilífðarfaðir“ okkar. (Jesaja 9:6, 7) Já, Jesús var fullkominn og hann getur orðið faðir okkar í stað Adams sem varð ófullkominn þegar hann syndgaði. Þess vegna getum við valið ,hinn síðari Adam‘ sem föður okkar. En Jesús á auðvitað líka föður, Jehóva Guð.

Að hvaða leyti voru Adam og Jesús líkir og hvers vegna er það svona mikilvægt?

Jesús getur orðið frelsari okkar ef við fræðumst um hann. Manstu undan hverju hann þarf að frelsa okkur? — Já, undan synd og dauða sem við fengum í arf frá Adam. Fullkomið líf Jesú, sem hann fórnaði fyrir okkur þegar hann var fullorðinn, kallast lausnargjald. Jehóva útvegaði okkur lausnargjaldið svo að hægt væri að fjarlægja syndir okkar. — Matteus 20:28; Rómverjabréfið 5:8; 6:23.

Við viljum auðvitað ekki gleyma því sem Guð og sonur hans hafa gert fyrir okkur, er það nokkuð? — Jesús sýndi fylgjendum sínum hvernig þeir gætu á sérstakan hátt munað eftir því sem hann gerði. Við skulum ræða aðeins nánar um það.

Ímyndaðu þér að þú sért í herbergi uppi á efstu hæð í húsi í Jerúsalem. Það er kvöld. Jesús og postularnir eru við matarborðið. Á borðinu er steikt lamb, eins konar flatbrauð og rauðvín. Þeir eru að borða sérstaka máltíð. Veistu af hverju? —

Þessi máltíð á að minna þá á það sem Jehóva gerði mörg hundruð árum áður þegar Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi. Þá sagði Jehóva við fólkið: ,Slátrið einu lambi fyrir hverja fjölskyldu og smyrjið blóði lambsins á dyrastafi hússins.‘ Síðan sagði hann: ,Farið inn í húsið og borðið lambið.‘

Hvernig verndaði blóð lambsins Ísraelsmenn?

Ísraelsmenn gerðu þetta og sömu nótt fór engill Guðs um allt Egyptaland. Í flestum húsum eyddi hann frumburðinum, það er að segja elsta barninu í fjölskyldunni. En engillinn fór fram hjá húsunum sem voru með blóði lambsins á dyrastöfunum. Í þeim húsum dóu engin börn. Þetta gerði faraó, konung Egyptalands, svo hræddan að hann sagði við Ísraelsmenn: ,Þið eruð frjálsir. Farið burt úr Egyptalandi.‘ Þegar þeir heyrðu þetta settu þeir eigur sínar upp á úlfalda sína og asna og héldu af stað.

Jehóva vildi ekki að fólkið gleymdi því hvernig hann frelsaði það. Þess vegna sagði hann: ,Einu sinni á ári skuluð þið borða máltíð eins og þessa sem þið borðuðuð í kvöld.‘ Þeir kölluðu þetta páskamáltíðina. Orðið „páskar“ kemur af orði sem merkir „framhjáganga“ en þetta kvöld gekk engill Guðs einmitt fram hjá þeim húsum sem voru merkt með blóði. — 2. Mósebók 12:1-13, 24-27, 31.

Jesús og postularnir eru að hugsa um þetta á meðan þeir borða páskamáltíðina. Það sem Jesús gerir eftir matinn er mjög mikilvægt. En fyrst sendir hann ótrúa postulann Júdas í burtu. Síðan tekur hann hluta af brauðinu sem var afgangs, fer með bæn, brýtur brauðið og lætur það ganga á milli lærisveinanna. ,Takið og borðið,‘ segir hann. ,Þetta brauð táknar líkama minn sem ég mun fórna þegar ég dey fyrir ykkur.‘

Næst tekur Jesús upp bikar af rauðvíni. Eftir að hann hefur farið með aðra þakkarbæn lætur hann bikarinn ganga á milli lærisveinanna og segir: „Drekkið allir hér af.“ Síðan segir hann þeim: ,Þetta vín táknar blóð mitt. Bráðum úthelli ég blóði mínu til að leysa ykkur undan syndum ykkar. Gerið þetta í mína minningu.‘ — Matteus 26:26-28; 1. Korintubréf 11:23-26.

Jesús líkti blóði sínu við vín. Hvað getur blóð hans gert fyrir okkur?

Tókstu eftir að Jesús sagði lærisveinunum að gera þetta í sína minningu? — Þeir áttu ekki lengur að halda páskahátíðina. Í staðinn áttu þeir að borða þessa sérstöku máltíð einu sinni á ári til að minnast Jesú og dauða hans. Þessi máltíð kallast kvöldmáltíð Drottins. Nú á dögum köllum við hana oft minningarhátíðina. Af hverju? — Af því að hún minnir okkur á það sem Jesús og faðir hans, Jehóva Guð, gerðu fyrir okkur.

Brauðið ætti að minna okkur á líkama Jesú. Hann var fús til að fórna líkama sínum svo að við gætum fengið eilíft líf. En hvað með rauðvínið? — Það ætti að minna okkur á hversu verðmætt blóð Jesú er. Það er verðmætara en blóð páskalambsins í Egyptalandi. Veistu af hverju? — Biblían segir að blóð Jesú geti veitt okkur fyrirgefningu synda. Og þegar búið er að fjarlægja allar syndir okkar verðum við aldrei framar veik og hrörnum ekki heldur né deyjum. Við ættum að hugsa um þetta þegar við förum á minningarhátíðina.

Eiga allir að borða brauðið og drekka vínið á minningarhátíðinni? — Nei, því að Jesús sagði að þeir sem gerðu það ,myndu eiga hlut í ríki hans og sitja með honum í hásætum á himnum‘. (Lúkas 22:19, 20, 30) Þetta þýðir að þeir fara til himna og verða konungar með Jesú. Þess vegna ættu aðeins þeir sem eiga von um að stjórna á himnum með Jesú að fá sér af brauðinu og víninu.

En þó að við tökum ekki af brauðinu og víninu ættum við samt að koma á minningarhátíðina. Veistu af hverju? — Af því að Jesús gaf líf sitt líka fyrir okkur. Með því að fara á minningarhátíðina sýnum við að við höfum ekki gleymt því. Við munum eftir dýrmætri gjöf Guðs.

Hér eru nokkrir ritningarstaðir sem sýna hversu mikilvæg lausnarfórn Jesú er: 1. Korintubréf 5:7; Efesusbréfið 1:7; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6 og 1. Pétursbréf 1:18, 19.