Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

Hjálp frá englum Guðs

Hjálp frá englum Guðs

SUMIR segjast aðeins trúa því sem þeir sjá. En það er ekki skynsamlegt að hugsa þannig. Það er margt sem við höfum aldrei séð með berum augum en er samt til. Geturðu nefnt eitthvað? —

Hvað um loftið sem við öndum að okkur? Finnum við fyrir því? — Lyftu upp hendinni og blástu á hana. Fannstu fyrir einhverju? — Já, en þú getur samt ekki séð loftið, er það nokkuð? —

Við höfum áður rætt um andaverur sem við getum ekki séð. Við lærðum að sumar eru góðar en aðrar vondar. Teldu upp nokkrar góðar andaverur sem við getum ekki séð. — Já, Jehóva Guð, Jesús og góðir englar. Eru líka til vondir englar? — Biblían segir að þeir séu til. Segðu mér hvað þú hefur lært um þá. —

Við vitum að minnsta kosti að góðir og vondir englar eru sterkari en við. Kennarinn mikli vissi mjög mikið um engla vegna þess að hann var engill áður en hann fæddist sem barn á jörðinni. Hann var á himnum ásamt öðrum englum. Hann þekkti milljónir engla. En heita allir þessir englar eitthvað? —

Við höfum lært að Guð gaf stjörnunum nöfn. Þess vegna getum við verið viss um að allir englarnir heita líka eitthvað. Og við vitum að þeir geta talað hver við annan vegna þess að Biblían talar um ,tungumál engla‘. (1. Korintubréf 13:1) Um hvað heldurðu að englarnir tali? Tala þeir um okkur hér á jörðinni? —

Við vitum að englar Satans, illu andarnir, reyna að fá okkur til að óhlýðnast Jehóva. Þess vegna hljóta þeir að tala saman um hvernig þeir geti gert það. Þeir vilja að við verðum eins og þeir svo að Jehóva líki ekki heldur við okkur. En hvað um trúfasta engla Guðs? Heldurðu að þeir tali líka um okkur? — Já, þeir vilja hjálpa okkur. Ég skal segja þér hvernig nokkrir englar Jehóva hjálpuðu fólki sem elskaði hann og þjónaði honum.

Tökum Daníel sem dæmi en hann bjó í Babýlon. Fáir íbúanna elskuðu Jehóva. Það voru meira að segja sett þau lög að öllum sem bæðu til Jehóva Guðs yrði refsað. En Daníel hætti ekki að biðja til Jehóva. Veistu hvað var gert við Daníel? —

Já, vondir menn létu kasta Daníel í ljónagryfju. Þar var hann aleinn innan um hungruð ljón. Veistu hvað gerðist svo? — Daníel sagði: „Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna.“ Það kom ekkert fyrir hann! Já, englar geta svo sannarlega hjálpað þeim sem elska Jehóva. — Daníel 6:19-23.

Hvernig bjargaði Guð Daníel?

Einu sinni var Pétur settur í fangelsi. Þú manst kannski að Pétur var vinur kennarans mikla, Jesú Krists. Sumir voru ekki hrifnir af því að Pétur skyldi kalla Jesú son Guðs. Þess vegna settu þeir Pétur í fangelsi. Hermenn voru látnir gæta hans svo að það væri öruggt að hann gæti ekki flúið. Gat einhver hjálpað Pétri? —

Pétur svaf milli tveggja varðmanna og var hlekkjaður á höndum. En Biblían segir: ,Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Hann vakti Pétur með því að snerta hann og sagði: „Farðu fljótt á fætur!“‘

Hvernig hjálpaði engill Pétri að losna úr fangelsi?

Um leið losnuðu hlekkirnir af höndum Péturs. Engillinn sagði við hann: ,Klæddu þig, farðu í skóna og fylgdu mér.‘ Verðirnir gátu ekki stöðvað þá vegna þess að engillinn hjálpaði Pétri. Nú komu þeir að járnhliði og þá gerðist nokkuð sérstakt. Hliðið opnaðist af sjálfu sér! Engillinn frelsaði Pétur svo að hann gæti haldið áfram að prédika. — Postulasagan 12:3-11.

Geta englar Guðs hjálpað okkur líka? — Já, svo sannarlega. En þýðir það að þeir komi í veg fyrir að eitthvað slæmt hendi okkur? — Nei, englar koma ekki í veg fyrir að við meiðum okkur ef við gerum eitthvað heimskulegt. En við getum líka meitt okkur þó að við gerum ekki neitt óviturlegt. Englunum er ekki sagt að verja okkur fyrir slíku. Guð hefur hins vegar fengið þeim ákveðið verkefni.

Biblían talar um engil sem segir fólki alls staðar á jörðinni að tilbiðja Guð. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Hvernig fer engillinn að því? Kallar hann frá himnum þannig að allir heyri? — Nei, fylgjendur Jesú á jörðinni segja öðrum frá Guði og englarnir leiðbeina þeim. Englarnir sjá til þess að allir fái tækifæri til að kynnast Guði ef þá langar til þess. Við getum tekið þátt í þessu boðunarstarfi og englarnir munu hjálpa okkur.

En hvað nú ef fólk, sem elskar ekki Guð, gerir okkur erfitt fyrir? Segjum að það setji okkur í fangelsi. Ætli englarnir frelsi okkur? — Þeir gætu gert það. En þeir gera það ekki alltaf.

Hvað er engillinn að segja Páli?

Páll, fylgjandi Jesú, var einu sinni fangi á skipi sem lenti í sjávarháska í mjög vondu veðri. En englarnir frelsuðu hann ekki strax vegna þess að aðrir þurftu að heyra um Guð. Engill sagði við hann: ,Óttast þú ekki, Páll, þú átt að koma fyrir keisarann.‘ Já, Páll átti að hitta keisara heimsveldisins svo að hann gæti prédikað fyrir honum. Englarnir vissu alltaf hvar Páll var og hjálpuðu honum. Þeir hjálpa okkur líka ef við þjónum Guði. — Postulasagan 27:23-25.

Englarnir snúa sér mjög fljótlega að öðru mikilvægu verkefni. Guð hefur ákveðið að vondum mönnum verði eytt innan skamms. Öllum sem tilbiðja ekki hinn sanna Guð verður eytt. Þeir sem segjast ekki trúa að englar séu til vegna þess að þeir geta ekki séð þá munu komast að því að þeir hafa alrangt fyrir sér. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-8.

Hvað þýðir það fyrir okkur? — Englarnir hjálpa okkur ef við stöndum með þeim. En stöndum við með þeim? — Já, ef við þjónum Jehóva. Og ef við þjónum Jehóva segjum við öðrum að þjóna honum líka.

Til að læra meira um þau áhrif sem englarnir hafa á fólk skaltu lesa Sálm 34:8; Matteus 4:11; 18:10; Lúkas 22:43 og Postulasöguna 8:26-31.