Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

7. KAFLI

Hlýðni verndar þig

Hlýðni verndar þig

FYNDIST þér gaman að mega gera allt sem þú vildir? Hefurðu einhvern tíma óskað þess að enginn segði þér fyrir verkum? Segðu mér í hreinskilni hvað þér finnst. —

Hvers vegna ættirðu að hlusta á þá sem eru eldri en þú?

Heldurðu að það sé gott fyrir þig að gera allt sem þig langar til? Eða er betra að hlýða pabba þínum og mömmu? — Guð segir að þú eigir að hlýða foreldrum þínum. Það hlýtur þess vegna að vera viturlegt að hlýða. Við skulum athuga þetta betur.

Hvað ertu gamall eða gömul? — Veistu hvað pabbi þinn er gamall? — Hvað er mamma þín gömul eða afi þinn og amma? — Þau hafa lifað miklu lengur en þú. Og því lengur sem maður lifir, þeim mun meiri tíma hefur maður haft til að læra. Á hverju ári heyrir maður eitthvað nýtt, sér eitthvað nýtt og gerir eitthvað nýtt. Börn geta þess vegna lært af þeim sem eru eldri.

Þekkirðu einhvern sem er yngri en þú? — Heldurðu að þú vitir meira en hann? — Hvers vegna veistu meira? — Af því að þú hefur lifað lengur og haft meiri tíma til að læra.

Hver hefur lifað lengur en þú og ég og allir aðrir? — Það er Jehóva Guð. Hann veit meira en þú og hann veit líka meira en ég. Þegar Jehóva segir okkur að gera eitthvað getum við verið viss um að það er rétt að gera það þó að það geti verið erfitt. Vissirðu að einu sinni fannst kennaranum mikla meira að segja erfitt að hlýða? —

Einu sinni fékk Jesús mjög erfitt verkefni frá Guði. Jesús talaði um það við Guð eins og við getum séð á myndinni. Hann bað: „Ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ Jesús sýndi með þessari bæn að það er ekki alltaf auðvelt að gera vilja Guðs. En hvernig lauk hann bæninni? Veistu það? —

Hvað getum við lært af bæn Jesú?

Jesús endaði bænina með því að segja: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:41, 42) Já, hann langaði til að vilji Guðs næði fram að ganga. Þess vegna gerði Jesús það sem Guð vildi en ekki það sem hann sjálfur taldi best.

Hvað getum við lært af þessu? — Við lærum að það er alltaf rétt að gera það sem Guð segir, jafnvel þótt það sé erfitt. En við lærum líka annað. Veistu hvað það er? — Við lærum að Guð og Jesús eru ekki sama persónan eins og sumir segja. Jehóva Guð er eldri og veit meira en Jesús, sonur hans.

Þegar við hlýðum Guði sýnum við að við elskum hann. Biblían segir: ,Í þessu birtist elskan til Guðs að við höldum hans boðorð.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þú sérð að við þurfum öll að hlýða Guði. Langar þig ekki til að hlýða honum? —

Við skulum opna biblíurnar okkar og athuga hvað Guð segir að börn eigi að gera. Lesum Efesusbréfið 6. kafla, vers 1, 2 og 3. Þar segir: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ,Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ,til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘“

Eins og þú sérð er það Jehóva Guð sjálfur sem segir þér að hlýða pabba þínum og mömmu. Hvað merkir það að „heiðra“ þau? Það merkir að sýna þeim virðingu. Og Guð lofar því „að þér vegni vel“ ef þú hlýðir foreldrum þínum.

Ég skal segja þér sögu af fólki sem bjargaði lífi sínu með því að hlýða. Þetta fólk bjó í borginni Jerúsalem fyrir langa löngu. Flestir borgarbúar vildu ekki hlusta á Guð og Jesús varaði þess vegna við því að Guð myndi eyða borgina. Hann sagði þeim einnig hvernig þeir gætu flúið ef þeir elskuðu það sem rétt var. Hann sagði: ,Þegar þið sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið þið að eyðing hennar er í nánd. Þá er rétti tíminn til að fara út úr Jerúsalem og flýja til fjalla.‘ — Lúkas 21:20-22.

Hvernig bjargaðist þetta fólk með því að hlýða skipun Jesú?

Það fór eins og Jesús sagði. Rómverskur her kom til að ráðast á Jerúsalem og reisti herbúðir umhverfis borgina. En svo fóru hermennirnir burt af einhverri ástæðu. Flestir borgarbúar héldu að hættan væri liðin hjá og voru þess vegna um kyrrt í borginni. En hvað hafði Jesús sagt þeim að gera? — Hvað hefðir þú gert ef þú hefðir búið í Jerúsalem? — Þeir sem trúðu Jesú í raun og veru yfirgáfu heimili sín og flúðu upp í fjöllin langt frá Jerúsalem.

Ekkert kom fyrir Jerúsalem í heilt ár. Árið eftir gerðist ekkert. Og þriðja árið gerðist heldur ekkert. Sumum hefur kannski fundist að þeir sem yfirgáfu borgina hafi tekið heimskulega ákvörðun. En fjórða árið kom rómverski herinn aftur og setti upp herbúðir umhverfis Jerúsalem. Nú var of seint að flýja. Í þetta sinn eyddi herinn borgina og flestir þeirra sem voru inni í henni dóu en hinir voru teknir til fanga.

En hvernig fór fyrir þeim sem höfðu hlýtt Jesú? — Þeir voru heilir á húfi. Þeir voru langt í burtu frá Jerúsalem og þess vegna kom ekkert fyrir þá. Hlýðni verndaði þá.

Ætli hlýðni geti verndað þig líka? — Ef til vill segja foreldrar þínir að þú megir ekki leika þér úti á götu. Hvers vegna segja þeir það? — Vegna þess að þú gætir orðið fyrir bíl. En kannski hugsarðu einhvern tíma: ,Það eru engir bílar á götunni núna. Ég slasast ekkert. Aðrir krakkar leika sér á götunni og ég hef aldrei séð þá slasast.‘

Hvers vegna ættirðu að hlýða þó svo að þér finnist engin hætta vera á ferðum?

Þannig hugsuðu flestir í Jerúsalem. Hættan virtist vera liðin hjá þegar rómverski herinn fór. Og þeir sáu að aðrir héldu kyrru fyrir í borginni. Þeir ákváðu því að vera líka um kyrrt. Þeir höfðu verið varaðir við en hlustuðu ekki. Þess vegna dóu þeir.

Tökum annað dæmi. Hefurðu einhvern tíma leikið þér með eldspýtur? — Það gæti virst gaman að horfa á eldinn þegar þú kveikir á eldspýtu. En það getur verið hættulegt að leika sér með eldspýtur. Allt húsið gæti brunnið til kaldra kola og þú gætir dáið!

Mundu að það er ekki nóg að hlýða bara stundum. Það verndar þig að hlýða alltaf. Hver er það sem segir: ,Börn, hlýðið foreldrum ykkar‘? — Það er Guð. Og mundu að hann segir það vegna þess að honum þykir vænt um þig.

Lestu þessa ritningarstaði sem sýna hversu mikilvægt það er að hlýða: Orðskviðina 23:22; Prédikarann 12:13; Jesaja 48:17, 18 og Kólossubréfið 3:20.