Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

17. KAFLI

Hvað gerir okkur hamingjusöm?

Hvað gerir okkur hamingjusöm?

Af hverju er Jehóva ,hinn sæli Guð‘?

VIÐ viljum öll vera hamingjusöm, er það ekki? — En fáir eru hamingjusamir í raun og veru. Veistu af hverju? — Það er af því að þeir vita ekki hvernig á að finna hamingjuna. Þeir halda að þeir verði hamingjusamir ef þeir eignast mikið af efnislegum hlutum. En hamingjan endist ekki þótt þeir eignist þessa hluti.

En hver er lykillinn að sannri hamingju? — Kennarinn mikli sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Hvað segir þetta okkur? — Já, það veitir okkur mikla ánægju að gefa öðrum gjafir og gera ýmislegt fyrir þá. Vissirðu það? —

Við skulum athuga þetta aðeins betur. Sagði Jesús að það væri leiðinlegt að fá gjafir? — Nei, hann sagði það ekki. Finnst þér ekki gaman að fá gjafir? — Öllum finnst það gaman. Við erum ánægð þegar við fáum fallegar gjafir.

En Jesús sagði að við yrðum enn ánægðari þegar við gæfum öðrum. Hver heldurðu að hafi gefið fleiri gjafir en nokkur annar? — Já, það er Jehóva Guð.

Biblían segir að Guð ,gefi öllum líf og anda og alla hluti‘. Hann gefur okkur regn af himni og líka sólskinið til þess að plönturnar vaxi og við getum fengið mat að borða. (Postulasagan 14:17; 17:25) Það er engin furða að Biblían skuli kalla Jehóva ,hinn sæla Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11; Biblían 1912) Eitt af því sem veitir Guði ánægju er að gefa öðrum gjafir. Við getum líka orðið glöð þegar við gefum gjafir.

Hvað getum við gert sem er enn skemmtilegra en að borða allar smákökurnar sjálf?

En hvað getum við gefið öðrum? Dettur þér eitthvað í hug? — Gjafir kosta stundum peninga. Ef gjöfin er keypt í búð þarftu að borga fyrir hana. Ef þig langar til að gefa þannig gjöf gætirðu þurft að safna peningum þangað til þú ættir fyrir henni.

En það þarf ekki að kaupa allar gjafir í búð. Á heitum sumardegi er til dæmis mjög gott að fá glas af köldu vatni. Það getur verið gaman fyrir þig að gefa einhverjum sem er þyrstur slíka gjöf.

Kannski ætlið þið mamma þín að baka smákökur einn daginn. Það gæti verið gaman. En hvað gætirðu gert sem væri enn skemmtilegra en að borða allar smákökurnar sjálfur? — Já, þú gætir gefið vini þínum eða vinkonu nokkrar með þér. Myndirðu ekki vilja gera það einhvern tíma? —

Kennarinn mikli og postularnir vissu að það er mjög ánægjulegt að gefa gjafir. Veistu hvað þeir gáfu fólki? — Þeir gáfu það besta sem til er! Þeir þekktu sannleikann um Guð og voru fúsir til að segja öðrum frá honum. Þeir gerðu þetta án þess að fá nokkuð borgað fyrir.

Vinirnir Páll postuli og lærisveinninn Lúkas hittu einu sinni konu sem langaði til að gefa öðrum gjafir. Þeir hittu hana niðri við á. Þeir höfðu farið þangað af því að þeir höfðu heyrt að þetta væri bænastaður. Þegar þeir komu þangað hittu þeir nokkrar konur sem voru að biðjast fyrir.

Páll fór að segja konunum frá fagnaðarerindinu um Jehóva Guð og ríki hans. Ein konan, sem hét Lýdía, hlustaði með athygli á hann. Eftir á vildi Lýdía sýna að hún kynni að meta fagnaðarerindið sem hún hafði heyrt. Þess vegna sagði hún við Pál og Lúkas: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin.“ Og hún lagði fast að þeim að koma heim til sín. — Postulasagan 16:13-15.

Hvað er Lýdía að segja við Pál og Lúkas?

Lýdía var mjög ánægð að hafa þessa þjóna Guðs á heimili sínu. Henni þótti vænt um þá af því að þeir hjálpuðu henni að kynnast Jehóva og Jesú og sögðu henni hvernig fólk gæti lifað að eilífu. Hún hafði mikla ánægju af því að geta gefið Páli og Lúkasi mat og húsaskjól. Lýdíu fannst það ánægjulegt af því að hana langaði innilega til að gera þeim gott. Við skulum muna eftir þessu. Einhver gæti ætlast til þess að við gefum gjöf en ef okkur langar ekki til þess þá finnst okkur það ekki gaman.

Af hverju var Lýdía ánægð að geta gefið Páli og Lúkasi mat og húsaskjól?

Tökum dæmi. Segjum sem svo að þú eigir sælgæti sem þig langar til að borða. Fyndist þér gaman ef ég segði þér að þú yrðir að gefa öðru barni með þér? — En ef þú hittir vin sem þér finnst mjög skemmtilegur og það væri þín hugmynd að gefa honum sælgæti? Fyndist þér það ekki gaman? —

Stundum þykir okkur svo vænt um einhvern að við viljum gefa honum allt sem við eigum og ekki halda neinu eftir handa sjálfum okkur. Þannig ættum við að elska Jehóva.

Af hverju hafði þessi fátæka kona mikla ánægju af því að gefa allt sem hún átti?

Kennarinn mikli vissi af fátækri konu sem hugsaði einmitt þannig. Hann sá hana í musterinu í Jerúsalem. Það eina sem hún átti voru tveir smápeningar. En hún vildi gefa musterinu báða peningana og setti þá í framlagabaukinn. Það sagði henni enginn að gera það. Flestir vissu ekki einu sinni hvað hún hafði gert. Hún gerði þetta af því að hana langaði til þess og af því að hún elskaði Jehóva af öllu hjarta. Hún hafði mikla ánægju af því að geta gefið þessa gjöf. — Lúkas 21:1-4.

Við höfum mörg tækifæri til að gefa gjafir. Dettur þér eitthvað í hug? — Ef við gefum gjafir af því að okkur langar innilega til þess þá verðum við hamingjusöm. Þess vegna hvatti kennarinn mikli okkur til að gefa. (Lúkas 6:38) Ef við gerum það gleðjum við aðra en sjálf verðum við ánægðust allra.

Lesum meira um gleðina sem fylgir því að gefa í Matteusi 6:1-4; Lúkasi 14:12-14 og 2. Korintubréfi 9:7.