Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

30. KAFLI

Hvernig getum við sigrast á ótta?

Hvernig getum við sigrast á ótta?

FINNST þér auðvelt að þjóna Jehóva? — Kennarinn mikli sagði að það yrði ekki auðvelt. Nóttina áður en hann var tekinn af lífi sagði hann við postulana: ,Ef heimurinn hatar ykkur þá vitið að hann hefur hatað mig fyrr en ykkur.‘ — Jóhannes 15:18.

Pétur gortaði af því að hann myndi aldrei yfirgefa Jesú en Jesús sagði að þessa sömu nótt myndi Pétur neita því þrisvar sinnum að hann þekkti hann. Það var einmitt það sem Pétur gerði! (Matteus 26:31-35, 69-75) En hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? — Það gerðist vegna þess að Pétur og hinir postularnir urðu hræddir.

Veistu af hverju postularnir urðu hræddir? — Þeir gleymdu einu sem var mjög mikilvægt. Ef við kynnum okkur það sem gerðist getur það hjálpað okkur að þjóna Jehóva sama hvað aðrir segja eða gera okkur. En fyrst þurfum við að skoða hvað gerðist síðustu nóttina sem Jesús var með postulunum.

Þeir byrja á því að halda páskana saman. Páskahátíðin var haldin árlega og þá var borðuð sérstök máltíð sem átti að minna þjóð Guðs á að hann frelsaði hana úr þrælkun í Egyptalandi. En síðan innleiðir Jesús nýja máltíð og býður postulunum að taka þátt í henni. Við ræðum nánar um þessa máltíð seinna í bókinni og skoðum hvernig hún hjálpar okkur að minnast Jesú. Eftir þessa nýju máltíð og eftir að hafa hughreyst postulana fer Jesús með þá í Getsemanegarðinn sem þeir þekkja vel og er einn af uppáhaldsstöðunum þeirra.

Í garðinum fer Jesús afsíðis til að biðjast fyrir. Hann segir Pétri, Jakobi og Jóhannesi að biðja líka en þeir sofna. Þrisvar sinnum fer Jesús afsíðis til að biðjast fyrir og þrisvar sinnum kemur hann til baka og finnur Pétur og hina sofandi. (Matteus 26:36-47) Veistu af hverju þeir hefðu átt að vaka og biðja? — Við skulum skoða það aðeins betur.

Hvers vegna hefðu Pétur, Jakob og Jóhannes átt að vaka?

Fyrr um kvöldið hafði Júdas Ískaríot borðað páskamáltíðina með Jesú og hinum postulunum. Þú manst kannski að Júdas var orðinn þjófur. En núna gerist hann svikari. Hann veit að Jesús og postularnir hafa oft hist á ákveðnum stað í Getsemanegarðinum og fer þangað með hermenn til að handtaka hann. Jesús spyr þegar þeir koma: ,Að hverjum leitið þið?‘

„Að Jesú,“ svara hermennirnir. En Jesús er ekki hræddur og segir því: „Ég er hann.“ Hermennirnir eru svo hissa á því hversu hugrakkur Jesús er að þeir hörfa og falla til jarðar. Þá segir Jesús: ,Ef þið eruð að leita að mér leyfið þá postulunum að fara.‘ — Jóhannes 18:1-9.

Þegar hermennirnir handtaka Jesú og binda hann verða postularnir hræddir og flýja. En Pétur og Jóhannes vilja vita hvað verður um Jesú og fara í humáttina á eftir þeim. Jesús er síðan fluttur heim til Kaífasar æðsta prests. Jóhannes þekkir æðsta prestinn og honum er því hleypt inn í hallargarðinn.

Prestarnir eru komnir heim til Kaífasar til þess að halda réttarhöld. Þeir vilja að Jesús verði dæmdur til dauða. Þess vegna kalla þeir fram vitni sem ljúga ýmsu upp á Jesú. Fólkið lemur hann og slær hann utan undir. En á meðan þetta gerist er Pétur ekki langt undan.

Þjónustustúlkan, sem gætti dyranna og hleypti Pétri og Jóhannesi inn, tekur eftir Pétri. „Þú varst líka með Jesú,“ segir hún. En Pétur segist ekki einu sinni þekkja Jesú. Stuttu síðar kannast önnur stúlka við Pétur og segir við fólkið í kring: „Þessi var með Jesú.“ Aftur segist hann ekki þekkja Jesú. Nokkru seinna kemur hópur fólks auga á Pétur og segir við hann: „Víst ertu líka einn af þeim.“ Í þriðja skiptið neitar hann því og segist ,ekki þekkja manninn‘. Pétur sver jafnvel að hann sé að segja satt. Í sömu andrá snýr Jesús sér við og lítur á hann. — Matteus 26:57-75; Lúkas 22:54-62; Jóhannes 18:15-27.

Hvers vegna varð Pétur svo hræddur að hann sagðist ekki þekkja Jesú?

Veistu hvers vegna Pétur laug? — Já, það var vegna þess að hann var hræddur. En af hverju var hann hræddur? Hvað hafði hann gleymt að gera til að byggja upp hugrekki? Hugsaðu þig aðeins um. Hvað hafði Jesús gert til að fá hugrekki? — Hann hafði beðið til Guðs og Guð hjálpaði honum að vera hugrakkur. Og mundu að Jesús hafði sagt Pétri þrisvar sinnum að vaka og biðja. En hvað gerðist? —

Pétur sofnaði í öll skiptin. Hann bað hvorki til Guðs né hélt sér vakandi. Þess vegna kom það honum á óvart þegar Jesús var handtekinn. Og þegar fólkið lamdi Jesú við réttarhöldin og lagði á ráðin um að drepa hann varð Pétur hræddur. En við hverju hafði Jesús sagt postulunum aðeins nokkrum klukkustundum áður að þeir mættu búast? — Hann hafði sagt þeim að heimurinn myndi hata þá eins og heimurinn hafði hatað hann.

Hvernig gætirðu lent í svipaðri aðstöðu og Pétur?

Hugleiðum nú hvað gæti komið fyrir okkur svipað því sem kom fyrir Pétur. Segjum að þú sért í skólanum og krakkarnir í bekknum fara að tala illa um þá sem halda ekki jól og afmæli. Einhver þeirra snýr sér að þér og spyr: „Er það satt að þú haldir ekki jól?“ Og hinir spyrja kannski: „Heldurðu ekki einu sinni upp á afmæli?“ Myndirðu þora að segja þeim sannleikann? — Myndirðu kannski freistast til að segja ósatt eins og Pétur? —

Eftir á varð Pétur mjög leiður yfir því að hafa ekki viðurkennt að hann þekkti Jesú. Þegar hann áttaði sig á því hvað hann hafði gert fór hann út og grét. Já, hann iðraðist og hélt áfram að fylgja Jesú. (Lúkas 22:32) En hugsaðu aðeins um þetta. Hvað getur hjálpað okkur að vera óhrædd svo að við förum ekki að ljúga eins og Pétur? — Mundu að Pétur hélt sér hvorki vakandi né bað til Guðs. Hvað þurfum við þá að gera til að vera fylgjendur kennarans mikla? —

Við verðum auðvitað að biðja Jehóva um hjálp. Veistu hvað Guð gerði fyrir Jesú þegar hann bað til hans? — Hann sendi engil til að styrkja hann. (Lúkas 22:43) Geta englar Guðs hjálpað okkur? — Biblían segir: „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“ (Sálmur 34:8) En til að fá hjálp frá Guði verðum við að gera meira en aðeins að biðja um hana. Veistu hvað annað við þurfum að gera? — Jesús sagði postulunum að vaka. Hvernig heldurðu að við getum gert það? —

Við verðum að hlusta vandlega á það sem kemur fram á safnaðarsamkomunum og taka vel eftir því sem við lesum í Biblíunni. En við verðum líka að biðja reglulega til Jehóva og biðja hann um að hjálpa okkur að þjóna sér. Ef við gerum það fáum við hjálp til að sigrast á því sem við óttumst. Þá verðum við líka ánægð þegar við fáum tækifæri til að segja öðrum frá kennaranum mikla og föður hans.

Eftirfarandi ritningarstaðir geta hjálpað okkur að vera ekki svo hrædd við aðra að við þorum ekki að gera rétt: Orðskviðirnir 29:25; Jeremía 26:12-15, 20-24 og Jóhannes 12:42, 43.