Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

44. KAFLI

Veljum okkur vini sem elska Guð

Veljum okkur vini sem elska Guð

VINIR okkar eru þeir sem okkur finnst gaman að vera með og tala við. En það er mikilvægt að velja sér rétta vini. Hver heldurðu að sé besti vinur sem við getum átt? — Já, það er Jehóva Guð.

Getum við virkilega verið vinir Guðs? — Biblían segir að Abraham, sem var uppi fyrir langa löngu, hafi verið ,vinur Guðs‘. (Jakobsbréfið 2:23) Veistu af hverju hann var vinur Guðs? — Biblían segir að Abraham hafi hlýtt Guði. Hann hlýddi meira að segja þegar hann var beðinn um að gera það sem var erfitt. Til að vera vinir Jehóva verðum við að gera það sem gleður hann, alveg eins og Abraham gerði og kennarinn mikli hefur alltaf gert. — 1. Mósebók 22:1-14; Jóhannes 8:28, 29; Hebreabréfið 11:8, 17-19.

Hvers vegna var Abraham ,vinur Guðs‘?

Jesús sagði við postulana: ,Þið eruð vinir mínir ef þið gerið það sem ég bið ykkur um.‘ (Jóhannes 15:14) Allt sem Jesús sagði var komið frá Jehóva. Jesús átti því við að vinir sínir gerðu það sem Guð segði þeim að gera. Já, allir vinir hans elskuðu Guð.

Postularnir voru meðal nánustu vina kennarans mikla. Þú getur séð mynd af þeim á blaðsíðu 75. Þeir ferðuðust með honum og prédikuðu með honum. Jesús var mikið með þeim. Þeir borðuðu saman, töluðu um Guð og gerðu ýmislegt annað saman. En Jesús átti marga aðra vini sem hann heimsótti og átti góðar stundir með.

Jesú þótti gaman að heimsækja fjölskyldu sem bjó í smábænum Betaníu, nálægt Jerúsalem. Manstu eftir þessari fjölskyldu? — Þetta voru systkinin María, Marta og Lasarus. Jesús kallaði Lasarus vin sinn. (Jóhannes 11:1, 5, 11) Jesú þótti vænt um þessi systkini og naut þess að vera með þeim vegna þess að þau elskuðu Jehóva og þjónuðu honum.

Hvers vegna heimsótti Jesús oft þessa fjölskyldu þegar hann var í Jerúsalem? Veistu hvað þau heita?

Jesús var líka góður við fólk sem þjónaði ekki Guði. Hann heimsótti það meira að segja og borðaði með því. Þess vegna sögðu sumir að Jesús væri „vinur tollheimtumanna og bersyndugra“. (Matteus 11:19) En Jesús heimsótti þetta fólk ekki af því að hann væri ánægður með líferni þess heldur til að segja því frá Jehóva. Hann reyndi að hjálpa því að breyta líferni sínu og þjóna Guði.

Af hverju klifraði Sakkeus upp í tréð?

Dag nokkurn var Jesús á leið til Jerúsalem og kom við í Jeríkó. Þar var fjöldi fólks og í mannfjöldanum var maður sem hét Sakkeus. Hann langaði til að sjá Jesú. En Sakkeus var lágvaxinn og sá ekki Jesú vegna mannfjöldans. Hann hljóp því á undan og klifraði upp í tré til að geta séð hann þegar hann færi fram hjá.

Þegar Jesús kom að trénu leit hann upp og sagði: ,Flýttu þér niður því að í dag verð ég í húsi þínu.‘ En Sakkeus var ríkur maður sem hafði gert margt slæmt. Af hverju vildi Jesús fara heim til slíks manns? —

Það var ekki af því að Jesús væri ánægður með líferni þessa manns. Hann fór þangað til að segja honum frá Guði. Hann sá að Sakkeus hafði lagt mikið á sig til að geta séð hann. Þess vegna vissi hann að Sakkeus myndi hlusta. Þetta var hentugur tími til að segja honum hvernig Guð vill að fólk lifi lífinu.

Hvers vegna heimsækir Jesús Sakkeus og hvað lofar Sakkeus að gera?

Hvað sjáum við hérna á myndinni? — Sakkeus kann greinilega vel að meta það sem Jesús hefur kennt honum. Hann iðrast þess að hafa svindlað á fólki og hann lofar að skila peningunum sem hann hafði ekki leyfi til að taka. Síðan gerist hann lærisveinn Jesú. Það er ekki fyrr en þá sem Jesús og Sakkeus verða vinir. — Lúkas 19:1-10.

Ef við fylgjum fordæmi kennarans mikla förum við þá til þeirra sem eru ekki vinir okkar? — Já, við förum til þeirra, en ekki af því að við séum ánægð með líferni þeirra. Við tökum ekki heldur þátt í að gera neitt rangt með þeim. Við förum til þeirra til þess að segja þeim frá Guði.

En nánir vinir okkar eru þeir sem okkur finnst sérstaklega gaman að vera með. Þeir eru samt ekki heppilegir vinir nema Guð sé ánægður með þá. Sumir vita kannski ekki einu sinni hver Jehóva er. En við getum hjálpað þeim ef þeir vilja læra um hann. Og þegar sú stund kemur að þeir elska Jehóva eins og við, þá geta þeir orðið nánir vinir okkar.

Það er önnur leið til að komast að því hvort einhver yrði góður vinur. Fylgstu með því sem hann gerir. Er hann vondur við aðra og fer síðan bara að hlæja? Heldurðu að það sé rétt að gera slíkt? — Er hann alltaf að koma sér í klandur? Ekki myndum við vilja lenda í vandræðum með honum? — Eða gerir hann viljandi það sem er rangt og heldur síðan að hann sé klár af því að hann kemst upp með það? Sér Guð samt ekki til hans? — Fyndist þér gott að eiga vin sem gerir slíkt? —

Við skulum opna Biblíuna og athuga hvað hún segir okkur um þau áhrif sem vinir hafa á okkur. Lesum saman 1. Korintubréf, kafla 15, vers 33. Ertu búinn að finna versið? — Þar stendur: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Þetta þýðir að ef við erum með fólki, sem gerir rangt, gætum við sjálf farið að gera rangt. En góðir vinir geta líka hjálpað okkur að temja okkur góða siði.

Við megum aldrei gleyma að Jehóva er mikilvægasta persónan í lífi okkar. Myndum við vilja skaða vináttusamband okkar við hann? — Þess vegna verðum við að gæta þess að vingast aðeins við þá sem elska Guð.