Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. KAFLI

Við verðum að standast freistingar

Við verðum að standast freistingar

HEFUR þér einhvern tíma verið sagt að gera eitthvað rangt? — Manaði einhver þig til þess? Eða var þér sagt að það yrði gaman og að það væri eiginlega ekkert rangt? — Þegar einhver segir slíkt er hann að reyna að freista okkar.

Hvað ættum við að gera þegar við verðum fyrir freistingu? Ættum við að láta undan og gera það sem er rangt? — Það myndi ekki gleðja Jehóva Guð. En veistu hver yrði ánægður? — Já, Satan djöfullinn.

Satan er óvinur Guðs og hann er líka óvinur okkar. Við getum ekki séð hann af því að hann er andavera. En hann getur séð okkur. Einu sinni talaði Satan við Jesú, kennarann mikla, og reyndi að freista hans. Við skulum athuga hvað Jesús gerði. Þá vitum við hvað við eigum að gera þegar okkar er freistað.

Eftir hverju ætli Jesús hafi munað þegar hann var skírður?

Jesús vildi alltaf gera vilja Guðs. Hann sýndi það þegar hann lét skírast í ánni Jórdan. Það var rétt eftir að Jesús var skírður sem Satan reyndi að freista hans. Biblían segir að ,himnarnir hafi opnast‘ Jesú. (Matteus 3:16) Þetta gæti þýtt að Jesús hafi þá munað eftir fyrra lífi sínu hjá Guði á himnum.

Eftir að Jesús lét skírast fór hann út í óbyggðina til að hugsa um allt sem hann var farinn að muna. Fjörutíu dagar og fjörutíu nætur liðu. Jesús borðaði ekki neitt allan þennan tíma og var þess vegna orðinn mjög svangur. Það var einmitt þá sem Satan reyndi að freista hans.

Hvernig notaði Satan steina til að freista Jesú?

Satan sagði: ,Ef þú ert sonur Guðs þá breyttu þessum steinum í brauð.‘ Það hefði nú verið gott að fá brauðbita. En gat Jesús breytt steinum í brauð? — Já, hann gat það. Af hverju? Af því að hann var sonur Guðs og hafði sérstakan kraft.

Hefðir þú breytt steini í brauð ef Satan hefði sagt þér að gera það? — Jesús var svangur. Hefði það þá ekki verið í lagi, svona einu sinni? — Jesús vissi að það var rangt að nota kraft sinn á þennan hátt. Jehóva hafði gefið honum þennan kraft og hann átti að nota hann til að laða fólk að Guði en ekki fyrir sjálfan sig.

Þess vegna sagði hann við Satan eins og stendur í Biblíunni: ,Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju því orði sem kemur frá munni Jehóva.‘ Jesús vissi að það er mikilvægara að hlýða Jehóva en að fá mat að borða.

En Satan reyndi aftur. Hann fór með Jesú inn í Jerúsalem og lét hann standa uppi á brún musterisins. Síðan sagði hann: ,Ef þú ert sonur Guðs þá kastaðu þér niður því að ritað er að englar Guðs muni sjá til þess að þú meiðist ekki.‘

Af hverju sagði Satan þetta? — Hann var að freista Jesú til að hegða sér heimskulega. En Jesús hlustaði ekki heldur á Satan í þetta skipti. Hann sagði við hann: ,Ritað er: „Þú skalt ekki freista Drottins Guðs þíns.“‘ Jesús vissi að það var rangt að freista Jehóva með því að stofna lífi sínu í hættu.

En Satan gafst ekki upp. Næst fór hann með Jesú upp á mjög hátt fjall. Þaðan sýndi hann honum öll ríki heims og dýrð þeirra. Síðan sagði hann við Jesú: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“

Hugsaðu þér hvað Satan var að bjóða Jesú. Getur verið að hann hafi átt öll þessi ríki? — Jesús neitaði því ekki að Satan ætti þau en það hefði hann gert ef Satan hefði ekki átt þau. Já, Satan stjórnar öllum þjóðum heims. Biblían kallar hann meira að segja „höfðingja þessa heims“. — Jóhannes 12:31.

Hvers vegna gat Satan boðið Jesú öll þessi ríki?

Hvað myndir þú gera ef Satan lofaði að launa þér fyrir að tilbiðja sig? — Jesús vissi að það var rangt að tilbiðja Satan, hvað sem hann fengi í staðinn. Þess vegna sagði hann: ,Farðu burt, Satan! Í Biblíunni segir að við eigum að tilbiðja Jehóva Guð og þjóna honum einum.‘ — Matteus 4:1-10; Lúkas 4:1-13.

Hvað ætlarðu að gera ef þú verður fyrir freistingu?

Við verðum líka fyrir freistingum. Getur þú nefnt einhverjar? — Hér er dæmi. Mamma þín bakar kannski girnilega köku til að hafa í eftirrétt. Hún segir þér að þú megir ekki borða hana fyrr en eftir matinn. En kannski finnst þér freistandi að borða hana af því að þú ert mjög svangur eða svöng. Myndirðu hlýða mömmu þinni? — Satan vill að þú óhlýðnist henni.

Mundu eftir Jesú. Hann var líka mjög svangur. En hann vissi að það var mikilvægara að hlýða Guði en að borða. Þú sýnir að þú líkir eftir Jesú ef þú gerir eins og mamma þín segir.

Kannski reyna aðrir krakkar að fá þig til að gleypa einhverjar pillur. Þau segja ef til vill að þér eigi eftir að líða vel af pillunum. En þetta eru kannski eiturlyf. Þú gætir orðið mjög lasinn ef þú tækir þær inn og jafnvel dáið! Einhver gæti líka boðið þér sígarettu og manað þig til að reykja hana, en í sígarettum eru líka eiturlyf. Hvað myndirðu gera? —

Mundu eftir Jesú. Satan sagði honum að stökkva fram af musterinu og reyndi þannig að fá hann til að stofna lífi sínu í hættu. En Jesús gerði það ekki. Hvað ætlar þú að gera ef einhver manar þig til að gera eitthvað hættulegt? — Jesús hlustaði ekki á Satan. Þú ættir ekki heldur að hlusta á þá sem reyna að fá þig til að gera það sem er rangt.

Af hverju er rangt að nota líkneski við tilbeiðslu?

Þér gæti verið sagt að tilbiðja ýmis tákn eða líkneski, en Biblían segir að það megi alls ekki gera. (2. Mósebók 20:4, 5) Þetta gæti verið liður í einhverri athöfn í skólanum. Kannski er þér sagt að þú megir ekki sækja skólann ef þú neitar að taka þátt í slíku. Hvað myndirðu þá gera? —

Það er auðvelt að gera það sem er rétt þegar allir aðrir gera það líka. En það getur verið frekar erfitt þegar aðrir reyna að fá okkur til að gera það sem er rangt. Þeir gætu sagt að það sem þeir gera sé í rauninni ekki svo slæmt. En spurningin er: Hvað finnst Guði um það? Hann veit hvað okkur er fyrir bestu.

Við ættum því aldrei að gera neitt sem Guð segir að sé rangt, hvað sem aðrir segja. Þannig gleðjum við alltaf Guð en aldrei Satan.

Við finnum meiri upplýsingar um það hvernig við getum staðist freistingar í Sálmi 1:1, 2; Orðskviðunum 1:10, 11; Matteusi 26:41; 2. Tímóteusarbréfi 2:22.