3. KAFLI
Jehóva opinberar fyrirætlun sína
1, 2. Hvernig hefur Jehóva opinberað fyrirætlun sína með mannkynið?
UMHYGGJUSAMIR foreldrar ræða við börnin um margt sem varðar fjölskylduna. En þeir gæta þess að gefa börnunum hæfilega miklar upplýsingar. Þeir segja ekki meira en þeir telja börnin hafa þroska til að meðtaka.
2 Jehóva hefur sömuleiðis opinberað fyrirætlun sína með mannkynið smám saman. En hann hefur aðeins upplýst það sem var tímabært hverju sinni. Við skulum nú skoða í stuttu máli hvernig Jehóva hefur opinberað sannindi varðandi ríki sitt í aldanna rás.
Hvers vegna þurfti ríki Guðs að koma til skjalanna?
3, 4. Ákvað Jehóva fyrir fram hvaða stefnu mannkynssagan ætti að taka? Skýrðu svarið.
3 Í upphafi var ríki Messíasar ekki þáttur í fyrirætlun Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva ákvað ekki fyrir fram hvaða stefnu mannkynssagan tæki heldur gaf hann mönnunum frjálsan vilja þegar hann skapaði þá. Hann sagði Adam og Evu hvað hann ætlaðist fyrir með mannkynið: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mós. 1:28) Jehóva ætlaðist einnig til að þau virtu mælikvarða hans á gott og illt. (1. Mós. 2:16, 17) Adam og Eva hefðu getað valið að vera honum trú. Ef þau og afkomendur þeirra hefðu gert það hefði ríkið í höndum Krists ekki þurft að koma til skjalanna til að vilji Guðs næði fram að ganga. Jörðin væri þá búin að fyllast fullkomnu fólki sem tilbæði Jehóva.
4 Uppreisn Satans, Adams og Evu varð ekki til þess að Jehóva hætti við að fylla jörðina fullkomnu fólki. Hann lagaði einfaldlega aðferðir sínar að breyttum aðstæðum. Fyrirætlun hans er ekki eins og járnbrautarlest sem verður að aka eftir ákveðnum teinum til að komast á áfangastað og getur farið út af sporinu vegna ytri áhrifa. Eftir að Jehóva hefur lýst yfir vilja sínum getur ekkert afl í alheiminum komið í veg fyrir að hann nái fram að ganga. (Lestu Jesaja 55:11.) Ef hætta er á að ein leið lokist notar Jehóva aðra. a (2. Mós. 3:14, 15) Þegar það er tímabært upplýsir hann dygga þjóna sína um nýju aðferðina sem hann ætlar að nota til að hrinda vilja sínum í framkvæmd.
5. Hvernig brást Jehóva við uppreisninni í Eden?
5 Jehóva brást við uppreisninni í Eden með því að ákveða að koma ríki sínu á laggirnar. (Matt. 25:34) Á þessari myrku stund í sögu mannkyns tók Jehóva að varpa ljósi á leiðina sem hann ætlaði að fara til að reisa mannkynið við og gera að engu það tjón sem Satan olli þegar hann reyndi að hrifsa völdin. (1. Mós. 3:14-19) En Jehóva lýsti ekki ríki sínu í smáatriðum á þeim tíma.
Jehóva byrjar að opinbera sannleikann um ríki sitt
6. Hverju lofaði Jehóva en hvað upplýsti hann ekki?
6 Í fyrsta spádómi Biblíunnar lofaði Jehóva að ,niðji‘ nokkur myndi gera út af við höggorminn. (Lestu 1. Mósebók 3:15.) Hins vegar var ekki upplýst á þeim tíma hver þessi niðji væri né hverjir væru niðjar höggormsins. Jehóva varpaði ekki frekara ljósi á það í næstum 2.000 ár. b
7. Hvers vegna varð Abraham fyrir valinu og hvaða lærdóm drögum við af því?
7 Þegar þar að kom ákvað Jehóva að Abraham skyldi verða forfaðir hins fyrirheitna niðja. Abraham varð fyrir valinu vegna þess að hann „hlýðnaðist raust“ Jehóva. (1. Mós. 22:18) Við drögum mikilvægan lærdóm af þessu. Hann er sá að Jehóva opinberar þeim einum fyrirætlun sína sem virða hann og óttast. – Lestu Sálm 25:14.
8, 9. Hvað opinberaði Jehóva þeim Abraham og Jakobi varðandi niðjann?
8 Þegar Jehóva talaði við Abraham, vin sinn, fyrir milligöngu engils opinberaði hann í fyrsta sinn þá mikilvægu staðreynd að fyrirheitni niðjinn yrði maður. (1. Mós. 22:15-17; Jak. 2:23) En hvernig átti þessi maður að útrýma höggorminum? Hver var höggormurinn? Það yrði opinberað síðar.
9 Jehóva ákvað að hinn fyrirheitni niðji skyldi koma af Jakobi, sonarsyni Abrahams, en hann trúði og treysti Guði í hvívetna. (1. Mós. 28:13-22) Jehóva upplýsti fyrir milligöngu Jakobs að niðjinn myndi koma af Júda, syni Jakobs. Jakob spáði að þessi afkomandi Júda myndi fá ,veldissprotann‘ en hann var tákn um konungsvald, og að ,þjóðirnar myndu ganga honum á hönd‘. (1. Mós. 49:1, 10) Með þessari yfirlýsingu gaf Jehóva til kynna að hinn fyrirheitni niðji yrði konungur, það er að segja valdhafi.
10, 11. Hvers vegna opinberaði Jehóva þeim Davíð og Daníel fyrirætlun sína?
10 Um 650 árum eftir daga Júda veitti Jehóva Davíð konungi nánari upplýsingar um fyrirætlun sína en Davíð var afkomandi Júda. Jehóva kallaði Davíð ,mann eftir sínu hjarta‘. (1. Sam. 13:14; 17:12; Post. 13:22) Davíð var guðhræddur maður og þess vegna ákvað Jehóva að gera sáttmála við hann. Hann hét honum því að einn af afkomendum hans skyldi ríkja að eilífu. – 2. Sam. 7:8, 12-16.
11 Um 500 árum síðar lét Jehóva Daníel spámann upplýsa nákvæmlega hvaða ár hinn smurði, það er að segja Messías, skyldi koma fram á jörð. (Dan. 9:25) Jehóva hafði mætur á Daníel vegna þess að Daníel bar djúpa virðingu fyrir honum og þjónaði honum staðfastlega. – Dan. 6:17; 9:22, 23.
12. Hvað var Daníel sagt að gera og hvers vegna?
12 Jehóva fékk trúum spámönnum eins og Daníel það verkefni að opinbera fjöldamargt um fyrirheitna niðjann, Messías. Enn var þó ekki tímabært að þjónar hans skildu til hlítar það sem hann innblés þeim að skrifa. Eftir að Daníel sá sýn um stofnsetningu Guðsríkis var honum sagt að innsigla spádóminn þar til tíminn rynni upp að Jehóva varpaði ljósi á hann. Þegar þar að kæmi myndi ,skilningur manna aukast‘. – Dan. 12:4.
Jesús varpar ljósi á fyrirætlun Guðs
13. (a) Hver var fyrirheitni niðjinn? (b) Hvernig varpaði Jesús ljósi á spádóminn í 1. Mósebók 3:15?
13 Jehóva tók af allan vafa um að Jesús væri fyrirheitni niðjinn, afkomandi Davíðs sem átti að verða konungur. (Lúk. 1:30-33; 3:21, 22) Þegar Jesús hóf þjónustu sína var eins og sólin væri komin á loft og upplýsti manninn um fyrirætlun Guðs. (Matt. 4:13-17) Það var til dæmis dagljóst hver ,höggormurinn‘ í 1. Mósebók 3:14, 15 væri. Jesús sagði að djöfullinn væri „manndrápari“ og „lyginnar faðir“. (Jóh. 8:44) Í opinberuninni, sem hann gaf Jóhannesi, kom fram að ,hinn gamli höggormur héti djöfull og Satan‘. c (Lestu Opinberunarbókina 1:1; 12:9.) Í þessari sömu opinberun sýndi Jesús fram á hvernig hann – fyrirheitni niðjinn – myndi uppfylla endanlega spádóminn í Eden og útrýma Satan. – Opinb. 20:7-10.
14-16. Skildu lærisveinar Jesú á fyrstu öld til hlítar allt sem hann opinberaði þeim? Skýrðu svarið.
14 Eins og fram kom í 1. kafla þessarar bókar talaði Jesús oft og mikið um ríki Guðs. Hann sagði þó ekki alltaf frá öllu sem lærisveinana langaði til að vita. Og jafnvel þegar hann gaf ítarlegar upplýsingar leið oft nokkur tími, stundum margar aldir, áður en fylgjendur hans skildu til fulls þau sannindi sem hann hafði sagt þeim. Lítum á fáein dæmi.
15 Árið 33 sagði Jesús berum orðum að meðstjórnendur sínir í ríki Guðs yrðu teknir frá jörð og reistir upp sem andaverur á himni. En lærisveinarnir skildu ekki þessa opinberun þegar í stað. (Dan. 7:18; Jóh. 14:2-5) Sama ár lýsti Jesús í dæmisögum að ríki Guðs yrði ekki stofnsett fyrr en löngu eftir að hann væri farinn til himna. (Matt. 25:14, 19; Lúk. 19:11, 12) Lærisveinarnir áttuðu sig ekki á þessu mikilvæga atriði og spurðu Jesú eftir að hann var risinn upp: „Ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ En Jesús kaus að upplýsa þá ekki frekar um málið á þeim tíma. (Post. 1:6, 7) Jesús sagðist einnig myndu eiga sér „aðra sauði“ sem tilheyrðu ekki ,litlu hjörðinni‘ sem átti að ríkja með honum. (Jóh. 10:16; Lúk. 12:32) Fylgjendur Krists skildu ekki til fulls hverjir skipuðu þessa tvo hópa fyrr en töluvert eftir að ríki Guðs var stofnsett árið 1914.
16 Jesús hefði getað sagt lærisveinunum fjöldamargt meðan hann var með þeim á jörð en hann vissi að það væri þeim ofviða á þeim tíma. (Jóh. 16:12) Það er ljóst að margt var opinberað varðandi ríki Guðs á fyrstu öld. En skilningur manna á þessu máli átti ekki að aukast til muna fyrr en síðar.
Skilningurinn eykst þegar „dregur að endalokum“
17. Hvað þurfum við að gera til að skilja sannleikann um ríki Guðs en hvað þarf líka til?
17 Jehóva lofaði Daníel að þegar ,drægi að endalokum‘ myndu menn „leita víða og skilningur þeirra ... aukast“ á fyrirætlun hans. (Dan. 12:4) Þeir sem langar til að öðlast þennan skilning þurfa að leggja vinnu í það. Í biblíuhandbók segir að ein mynd hebresku sagnarinnar, sem er þýdd „leita víða“, lýsi þeirri hugmynd að rannsaka bók vel og rækilega. Við getum hins vegar ekki skilið sannleikann um ríkið til fulls nema með hjálp Jehóva sama hve rækilega við rannsökum Biblíuna. – Lestu Matteus 13:11.
18. Hvernig hafa þeir sem óttast Jehóva sýnt trú og auðmýkt?
18 Jehóva heldur áfram að opinbera jafnt og þétt sannindi um ríki sitt á tíma endalokanna, rétt eins og hann gerði á áratugunum fyrir 1914. Eins og fram kemur í 4. og 5. kafla þessarar bókar hafa þjónar Guðs oftsinnis á síðastliðnum 100 árum þurft að leiðrétta þær skýringar sem þeir hafa gefið á ýmsum atriðum. Ber að skilja það svo að þeir njóti ekki stuðnings Jehóva? Alls ekki. Hann styður þá sem óttast hann vegna þess að þeir hafa til að bera tvennt sem hann hefur mætur á. Þeir trúa og eru auðmjúkir. (Hebr. 11:6; Jak. 4:6) Þjónar Jehóva trúa að öll fyrirheit Biblíunnar rætist. Þeir eru nógu auðmjúkir til að viðurkenna að þeir hafi stundum misskilið hvernig spádómarnir myndu uppfyllast. Varðturninn endurómaði þetta auðmjúka hugarfar í grein sem birtist 1. mars 1925. Þar stóð: „Við vitum að Drottinn skýrir mál sitt sjálfur. Hann skýrir orð sitt fyrir þjónum sínum á sinn hátt þegar það er tímabært.“
„Drottinn ... skýrir orð sitt fyrir þjónum sínum á sinn hátt þegar það er tímabært.“
19. Hvað hefur Jehóva veitt okkur og hvers vegna?
19 Þegar ríki Guðs var stofnsett árið 1914 skildu þjónar hans aðeins að hluta til hvernig spádómarnir, sem fjölluðu um það, myndu rætast. (1. Kor. 13:9, 10, 12) Í ákafa okkar að sjá loforð Guðs uppfyllast höfum við stundum dregið rangar ályktanir. Í Varðturninum, sem vitnað er í hér í greininni á undan, var bent á annað. Þar sagði: „Það virðist góð þumalfingursregla að við getum ekki skilið spádóm fyrr en hann hefur ræst eða er að rætast.“ Þessi viturlegu orð hafa sannað gildi sitt. Nú er langt liðið á tíma endalokanna og margir spádómar um ríki Guðs hafa ræst eða eru að rætast. Þar sem þjónar Jehóva eru auðmjúkir og þiggja fúslega leiðréttingu hefur hann veitt þeim æ betri innsýn í fyrirætlun sína. Skilningurinn hefur sannarlega aukist.
Nákvæmari skilningur reynir á þjóna Guðs
20, 21. Hvernig reyndi það á kristna menn á fyrstu öld að fá nákvæmari skilning?
20 Það reynir á hjartalag okkar þegar Jehóva gefur okkur nákvæmari skilning á sannleikanum. Höfum við nógu sterka trú til að meðtaka breytingarnar? Erum við nógu auðmjúk? Það reyndi á kristna menn að þessu leyti um miðbik fyrstu aldar. Hugsaðu þér að þú sért kristinn Gyðingur á þeim tíma. Þú berð djúpa virðingu fyrir lögmáli Móse og ert stoltur af þjóðararfinum. En þá berast innblásin bréf frá Páli postula þar sem segir að lögmálið sé ekki lengur bindandi. Jehóva hafi hafnað Ísraelsþjóðinni og sé nú að safna saman bæði Gyðingum og fólki af þjóðunum í andlega Ísraelsþjóð. (Rómv. 10:12; 11:17-24; Gal. 6:15, 16; Kól. 2:13, 14) Hvernig hefðir þú brugðist við?
21 Auðmjúkir kristnir menn meðtóku innblásnar skýringar Páls og Jehóva blessaði þá fyrir. (Post. 13:48) En sumir brugðust ókvæða við og vildu ríghalda í sínar eigin hugmyndir. (Gal. 5:7-12) Ef þeir skiptu ekki um skoðun myndu þeir glata tækifærinu til að vera meðstjórnendur Krists. – 2. Pét. 2:1.
22. Hvernig líturðu á nákvæmari skýringar sem við fáum á fyrirætlun Guðs?
22 Jehóva hefur gefið okkur nákvæmari skilning á ríki sínu á síðustu áratugum. Hann hefur til dæmis varpað skýrara ljósi á það hvenær tilvonandi þegnar ríkis hans eru aðgreindir frá þeim sem taka ekki við fagnaðarerindinu, rétt eins og sauðir eru skildir frá höfrum. Hann hefur einnig kennt okkur hvenær lokið verður við að safna saman hinum 144.000, hvað dæmisögur Jesú um ríkið merkja og hvenær þeir síðustu af hinum andasmurðu fara til himna. d Hvernig bregst þú við nákvæmari skýringum af þessu tagi? Styrkja þær trú þína? Líturðu á þær sem merki þess að Jehóva sé að mennta auðmjúka þjóna sína? Þessi bók á eftir að veita þér bjargfasta sannfæringu fyrir því að Jehóva opinberi fyrirætlun sína jafnt og þétt þeim sem óttast hann.
a Nafn Guðs er ákveðin mynd hebreskrar sagnar sem merkir „að verða“. Nafnið Jehóva gefur til kynna að hann standi við það sem hann lofar. Sjá greinina „Hvað merkir nafn Guðs?“ á bls. 43.
b Þó að þetta geti virst óralangur tími er rétt að hafa hugfast að mannsævin var miklu lengri á þeim tíma. Ekki voru nema fjórir mannsaldrar frá Adam til Abrahams. Ævi Adams og Lameks skaraðist en hann var faðir Nóa. Ævi Lameks og Sems, sonar Nóa, skaraðist. Ævi Sems og Abrahams skaraðist. – 1. Mós. 5:5, 31; 9:29; 11:10, 11; 25:7.
c Orðið „Satan“ er notað 18 sinnum í Hebresku ritningunum um einstakling. Í Grísku ritningunum kemur það fyrir meira en 30 sinnum. Eins og við er að búast var lögð megináhersla á það í Hebresku ritningunum hver Messías væri en minna talað um Satan. Þegar Messías kom afhjúpaði hann Satan eins og sjá má af Grísku ritningunum.
d Sumar af þessum skýringum eru ræddar í eftirfarandi tölublöðum Varðturnsins: 1. febrúar 1996, bls. 13-18, 15. janúar 2008, bls. 20-24, 15. júlí 2008, bls. 17-21, 15. júlí 2013, bls. 9-14.