Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2. KAFLI

Áhyggjur – „á allar hliðar er ég aðþrengdur“

Áhyggjur – „á allar hliðar er ég aðþrengdur“

„Við hjónin skildum eftir 25 ára hjónaband. Börnin mín yfirgáfu sannleikann. Ég veiktist alvarlega og varð þunglynd í kjölfarið. Ég brotnaði algerlega niður og fannst ég ekki ráða við nokkurn skapaðan hlut lengur. Ég hætti að sækja samkomur og varð óvirk.“ – June.

ALLIR fá sinn skerf af áhyggjum og þjónar Guðs eru engin undantekning. „Áhyggjur þjaka mig,“ sagði sálmaskáldið. (Sálmur 94:19) Jesús sagði að „áhyggjur þessa lífs“ gætu gert okkur erfitt fyrir að þjóna Jehóva núna á síðustu dögum. (Lúkas 21:34) Hvað um þig? Áttu við veikindi að stríða eða finnst þér þú vera að kikna undan fjárhagserfiðleikum eða vandamálum í fjölskyldunni? Hvernig getur Jehóva hjálpað þér að standast álagið?

„Krafturinn mikli“ frá Guði

Við getum ekki ráðið við áhyggjur okkar hjálparlaust. „Á allar hliðar er ég aðþrengdur,“ skrifaði Páll postuli og bætti síðan við: „Ég er efablandinn ... felldur til jarðar.“ En hann sagði líka að hann ,léti ekki bugast, örvænti ekki og tortímdist ekki‘. Hvað getur hjálpað okkur að standast álagið? Það er „krafturinn mikli“ og sá kraftur kemur frá almáttugum Guði okkar, Jehóva. – 2. Korintubréf 4:7-9.

Rifjaðu upp hvernig þú hefur áður fengið ,kraftinn mikla‘. Manstu eftir uppörvandi ræðu sem gaf þér dýpri skilning á tryggum kærleika Jehóva? Varð ekki trú þín á loforð Jehóva sterkari þegar þú sagðir öðrum frá voninni um paradís? Samkomurnar og boðunarstarfið gefa okkur kraft til að takast á við áhyggjur lífsins og hafa hugarfrið þannig að við getum þjónað Jehóva með gleði.

„Finnið og sjáið að Drottinn er góður“

Það gæti verið að þér finnist togað í þig úr öllum áttum. Jehóva biður okkur til dæmis að leita fyrst ríkis síns og hafa góða andlega dagskrá. (Matteus 6:33; Lúkas 13:24) En hvað er til ráða ef þú ert úrvinda vegna mótstöðu, slæmrar heilsu eða erfiðleika í fjölskyldunni? Eða segjum að vinnan krefjist tíma og krafta sem þú myndir annars nota í þágu safnaðarins. Finnst þér þú vera að drukkna og hafa hvorki tíma né krafta til að gera allt sem ætlast er til af þér? Þú veltir kannski fyrir þér hvort Jehóva krefjist of mikils af þér.

Jehóva er skilningsríkur. Hann fer aldrei fram á að við gerum meira en við getum. Og hann veit að við þurfum tíma til að ná okkur aftur á strik eftir líkamlegt og tilfinningalegt álag. – Sálmur 103:13, 14.

Líttu til dæmis á hvernig Jehóva annaðist Elía spámann. Elía missti kjarkinn um tíma og flúði hræddur út í óbyggðir. Ávítaði Jehóva hann og skipaði honum að halda áfram að sinna verkefni sínu? Nei. Tvisvar sendi Jehóva engil til að vekja Elía blíðlega og gefa honum að borða. Þrátt fyrir það var Elía enn áhyggjufullur og hræddur 40 dögum seinna. Hvað annað gerði Jehóva til að hjálpa honum? Fyrst sýndi hann Elía að hann væri fær um að vernda hann. Síðan hughreysti hann Elía með mildri röddu. Að lokum sagði Jehóva honum að þúsundir manna þjónuðu sér enn af trúfesti. Áður en langt um leið var Elía farinn að þjóna Jehóva aftur sem kappsamur spámaður. (1. Konungabók 19:1-19) Hvað getum við lært af þessu? Jehóva var þolinmóður og skilningsríkur við Elía þegar áhyggjurnar voru að buga hann. Jehóva hefur ekki breyst. Hann annast okkur með svipuðum hætti og þjóna sína til forna.

Vertu raunsær þegar þú hugleiðir hvað þú getir gefið Jehóva. Berðu ekki saman það sem þú getur gert núna og það sem þú gast áður. Lýsum þessu með dæmi: Hlaupari, sem hættir að æfa í nokkra mánuði eða ár, getur ekki byrjað allt í einu að æfa af sama krafti og áður. Hann byrjar öllu heldur á því að setja sér smærri markmið til að byggja upp þrek og úthald. Þjónar Jehóva eru eins og hlauparar. Þeir æfa með skýrt markmið í huga. (1. Korintubréf 9:24-27) Væri ekki ráð að þú settir þér eitt markmið í þjónustu Guðs sem þér finnst þú geta náð núna? Þú gætir til dæmis haft það að markmiði að fara á samkomu í ríkissalnum. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að ná markmiði þínu. Því meir sem trú þín styrkist finnurðu betur hve góður Jehóva er. (Sálmur 34:9) Hafðu í huga að allt sem þú gerir til að sýna Jehóva að þú elskir hann – hversu smátt sem það kann að virðast – er dýrmætt í augum hans. – Lúkas 21:1-4.

Jehóva fer aldrei fram á að við gerum meira en við getum.

„Hvatningin sem ég hafði beðið eftir“

Hvernig gaf Jehóva June kraft til að snúa aftur til sín? Hún segir: „Ég bað Jehóva aftur og aftur að hjálpa mér. Einn daginn lét tengdadóttir mín mig vita af móti sem átti að halda í heimabæ mínum. Ég ákvað að vera einn dag á mótinu. Það var yndisleg tilfinning að vera aftur með fólki Jehóva. Þetta mót var hvatningin sem ég hafði beðið eftir. Núna þjóna ég Jehóva á nýjan leik og lífið er svo miklu innihaldsríkara og ánægjulegra en áður. Ég veit núna að ég má ekki einangra mig og að ég þarf á trúsystkinum mínum að halda. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa getað snúið aftur til safnaðarins áður en það var um seinan.“