Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bréf frá stjórnandi ráði

Bréf frá stjórnandi ráði

Kæra trúsystkini.

Eins og þú veist fjallar Biblían að mestu leyti um fólk. Margt þeirra þjónaði Guði í tryggð og trúfesti en glímdi þó við svipaða erfiðleika og við. Þetta var venjulegt fólk með sams konar tilfinningar og við. (Jakobsbréfið 5:17) Sumir voru að bugast undan áhyggjum og erfiðleikum. Aðrir voru sárir út í ættingja eða trúsystkini sem höfðu komið illa fram við þá. Og margir voru þjakaðir af sektarkennd vegna mistaka sinna.

Sumt af þessu fólki fjarlægðist Jehóva. En hafði það snúið baki við honum fyrir fullt og allt? Nei. Margir voru eins og sálmaskáldið sem bað til Guðs: „Ég villist eins og týndur sauður, leita þú þjóns þíns því að ég hef ekki gleymt boðum þínum.“ (Sálmur 119:176) Líður þér líka þannig?

Jehóva gleymir aldrei þjónum sínum sem hafa villst frá hjörðinni. Hann reynir öllu heldur að ná til þeirra, oft fyrir milligöngu trúsystkina þeirra. Veltu til dæmis fyrir þér hvernig Jehóva hjálpaði þjóni sínum Job. Hann varð fyrir margs konar áföllum, meðal annars fjárhagserfiðleikum, ástvinamissi og alvarlegum veikindum. Job mátti einnig þola meiðandi orð af munni þeirra sem hefðu átt að styðja hann og styrkja. En aldrei sneri hann bakinu við Jehóva þótt hann hefði ekki hugsað rétt um tíma. (Jobsbók 1:22; 2:10) Hvernig hjálpaði Jehóva Job að ná jafnvægi á ný?

Jehóva hjálpaði Job meðal annars fyrir milligöngu trúbróður hans sem hét Elíhú. Þegar Job tjáði áhyggjur sínar hlustaði Elíhú á hann og fann sig síðan knúinn til að tala. Og hvað sagði hann? Gagnrýndi hann Job eða reyndi að fá hann til að bæta ráð sitt með því að ýta undir sektarkennd og skömm? Taldi Elíhú sig vera eitthvað betri en Job? Alls ekki. Hann sagði undir handleiðslu anda Guðs: „Frammi fyrir Guði er ég eins og þú, ég var líka mótaður úr leir.“ Síðan hughreysti hann Job og sagði: „Ótti við mig þarf ekki að skelfa þig og þvingun frá mér ekki að þjaka þig.“ (Jobsbók 33:6, 7) Elíhú vildi alls ekki íþyngja Job heldur veitti honum þá uppörvun og leiðsögn sem hann þurfti.

Það var með sama hugarfari sem þessi bæklingur var saminn. Fyrst hlustuðum við og hugleiddum vandlega ummæli og aðstæður margra sem höfðu fjarlægst söfnuðinn. (Orðskviðirnir 18:13) Síðan leituðum við til Biblíunnar og skoðuðum í bænarhug frásögur af því hvernig Jehóva hjálpaði þjónum sínum til forna sem stóðu í svipuðum sporum. Að lokum heimfærðum við þessar frásögur Biblíunnar upp á aðstæður bræðra og systra nú á dögum. Þessi bæklingur er afrakstur þeirrar vinnu. Það er einlæg ósk okkar að þú lesir þetta efni. Við viljum að þú vitir að okkur þykir ákaflega vænt um þig.

Stjórnandi ráð Votta Jehóva