Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. KAFLI

Snúðu aftur til hirðisins mikla

Snúðu aftur til hirðisins mikla

Í þessum bæklingi hefur verið rætt um ýmislegt sem getur gert manni erfitt fyrir að snúa aftur til Jehóva. Kannastu við eitthvað af því af eigin raun? Þú ert alls ekki einn um það. Margir trúir þjónar Guðs, bæði á biblíutímanum og nú á dögum, hafa glímt við svipaðar áskoranir. Jehóva hjálpaði þeim að sigrast á þeim og hann er líka fús til að hjálpa þér.

Jehóva styður við bakið á þér þegar þú snýrð aftur til hans.

ÞÚ MÁTT treysta að Jehóva styður við bakið á þér þegar þú snýrð aftur til hans. Hann hjálpar þér að takast á við áhyggjur, vinna úr særðum tilfinningum og öðlast þann innri frið sem fylgir hreinni samvisku. Þá vaknar eflaust með þér löngun til að þjóna Jehóva aftur með trúsystkinum þínum. Þú stendur þá í svipuðum sporum og sumir þjónar Guðs á fyrstu öld. Pétur postuli skrifaði þeim: „Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.“ – 1. Pétursbréf 2:25.

Að snúa aftur til Jehóva er það allra besta sem þú getur gert. Af hverju? Af því að þá gleður þú hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Eins og þú veist hefur Jehóva tilfinningar og við höfum áhrif á hann með því sem við gerum. Jehóva neyðir okkur auðvitað ekki til að elska sig og þjóna sér. (5. Mósebók 30:19, 20) Biblíufræðingur segir: „Það er enginn hurðarhúnn utan á hjarta mannsins. Það þarf að opna það innan frá.“ Við getum valið að opna þessar dyr með því að elska Jehóva og tilbiðja hann af öllu hjarta. Þegar við gerum það gefum við honum verðmæta gjöf – ráðvendni okkar – og þannig gleðjum við hann meira en orð fá lýst. Ekkert jafnast á við gleðina sem fylgir því að tilbiðja Jehóva eins og hann verðskuldar. – Postulasagan 20:35; Opinberunarbókin 4:11.

Andlegri þörf þinni verður líka fullnægt þegar þú byrjar að þjóna Jehóva aftur. (Matteus 4:4) Hvernig þá? Fólk um allan heim veltir fyrir sér tilgangi lífsins. Það þyrstir í svör við spurningum um lífið og tilvist mannsins. Jehóva áskapaði manninum þessa andlegu þörf. Hann skapaði okkur þannig að það veitir okkur lífsfyllingu að þjóna honum. Ekkert veitir meiri gleði en að tilbiðja Jehóva af því að við elskum hann. – Sálmur 63:2-6.

Jehóva vill að þú snúir aftur til sín. En hvernig geturðu verið viss um það? Hugleiddu þetta: Mikil vinna var lögð í að semja þennan bækling og við báðum Jehóva oft um leiðsögn. Einhver lét þig fá bæklinginn, kannski safnaðaröldungur eða annað trúsystkini. Þú last hann og efnið hreyfði við þér. Þetta sýnir að Jehóva hefur ekki gleymt þér. Hann er að draga þig blíðlega til sín. – Jóhannes 6:44.

Það er hughreystandi að vita að Jehóva gleymir aldrei þjónum sínum sem hafa villst af leið. Systir, sem heitir Donna, áttaði sig á því. Hún segir: „Ég hafði smám saman fjarlægst sannleikann en ég hugsaði oft um Sálm 139:23, 24 þar sem segir: ,Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.‘ Ég vissi að ég átti enga samleið með heiminum – ég fann að ég átti ekki heima þar – og ég vissi að ég þyrfti að snúa aftur til safnaðar Jehóva. Það rann upp fyrir mér að Jehóva hafði aldrei yfirgefið mig, ég þurfti bara að rata aftur til hans. Ég er svo ánægð að ég skyldi gera það!“

„Það rann upp fyrir mér að Jehóva hafði aldrei yfirgefið mig, ég þurfti bara að rata aftur til hans.“

Það er einlæg bæn okkar að þú fáir líka að njóta gleðinnar sem Jehóva gefur. (Nehemíabók 8:10) Þú sérð aldrei eftir því að snúa aftur til hans.