Hver var fyrri til?
Vísindamenn og verkfræðingar hafa á síðustu árum látið jurtir og dýr jarðar kenna sér í mjög bókstaflegum skilningi. (Jobsbók 12:7, 8) Þeir rannsaka hönnunarlausnir lífríkisins og herma síðan eftir þeim til að þróa nýjar vörur og betrumbæta þær sem fyrir eru. Þessi fræðigrein hefur verið kölluð lífhermitækni. Þegar þú skoðar dæmin hér á eftir skaltu spyrja þig hver eigi í raun og veru heiðurinn af þeim hönnunarlausnum sem er að finna í ríki náttúrunnar.
Bægsli hnúfubaksins
Flugvélahönnuðir virðast geta lært sitthvað af hnúfubaknum. Fullorðinn hnúfubakur vegur um 30 tonn eða á við stóran, fullhlaðinn flutningabíl. Hvalurinn er um 12 metra langur, með fremur stífan bol og tvö stór bægsli sem eru ekki ósvipuð vængjum. En þrátt fyrir þyngdina og stærðina er dýrið ótrúlega lipurt í sjónum.
Vísindamönnum lék sérstök forvitni á að vita hvernig hvalurinn getur synt í hringi sem virðast allt of litlir fyrir þetta stóra og stífa flikki. Þeir uppgötvuðu að leyndardómurinn var fólginn í lögun bægslanna. Fremri kantar bægslanna eru ekki sléttir eins og flugvélarvængir heldur ójafnir af því að þeir eru alsettir svonefndum hnúfum.
Þegar hvalurinn smýgur gegnum sjóinn virðast hnúfurnar auka lyftikraftinn og draga úr viðnámi. Hvernig? Í tímaritinu Natural History kemur fram að hnúfurnar valdi því að sjórinn renni með mjúkum snúningi með fram efra borði bægslanna, jafnvel þegar hvalurinn klifrar mjög hratt.10
Hver á einkaleyfið á hönnunarlausnum náttúrunnar?
Hvaða hagnýtt gildi hefur þessi uppgötvun? Ef flugvélarvængir væru hannaðir með hliðsjón af henni væri trúlega hægt að komast af með færri vængbörð eða annan vélrænan búnað til að breyta loftflæðinu. Slíkir vængir ættu að vera öruggari og auðveldara að halda þeim við. John Long, sem er sérfróður um aflfræði lífs, telur að einn góðan veðurdag sé „meira en hugsanlegt að hver einasta þota verði með hnúfur eins og á bægslum hnúfubaksins“.11
Vængir mávsins
Flugvélarvængir eru auðvitað eftirlíking fuglsvængja. En verkfræðingar hafa ekki alls fyrir löngu náð nýjum áfanga í því að líkja eftir vængjum fuglanna. Í tímaritinu New Scientist er greint frá því að „vísindamenn við Flórídaháskóla hafi smíðað frumgerð að mannlausri, fjarstýrðri flugvél sem geti svifið, tekið dýfur og klifrað hratt eins og mávur“.12
Mávar eiga einstaka flugfimi sína því að þakka að þeir geta beygt vængina um axlarlið og olnboga. Í fjarstýrðu flugvélinni, sem er 60 sentímetrar á lengd, er hermt eftir þessari hreyfigetu vængsins og „lítill hreyfill notaður til að stýra málmstöngum sem hreyfa vængina“, að sögn tímaritsins. Þessi snjalla hönnun vængjanna gerir að verkum að smágerð flugvélin getur svifið og steypt sér niður á milli hárra bygginga. Sumum hernaðarsérfræðingum er mikið í mun að smíða liprar flugvélar af þessu tagi til að auðvelda leit að efna- og sýklavopnum í stórborgum.
Fótur mávsins
Mávur frýs ekki þó að hann standi á ís. Hvernig fer hann að því að halda eðlilegum líkamshita? Það byggist að hluta til á athyglisverðum eiginleika margra dýra sem búa á köldum slóðum. Hér er átt við svokölluð mótstreymisvarmaskipti.
Til að skilja hvernig varmaskipti af þessu tagi virka skulum við hugsa okkur tvö rör sem eru bundin saman hlið við hlið. Eftir öðru rörinu rennur heitt vatn en kalt eftir hinu. Ef bæði heita og kalda vatnið renna í sömu áttina flyst um helmingurinn af varmanum úr heita vatninu yfir í hið kalda. En ef kalda vatnið rennur í öfuga átt við heita vatnið flyst næstum allur varminn úr heita vatninu yfir í það kalda.
Þegar mávur stendur á ís verða varmaskipti í fótunum og við það hitnar blóðið sem streymir frá köldum fótunum. Varmaskiptin sjá til þess að viðhalda líkamshita fuglsins og draga úr varmatapi frá fótunum. Arthur P. Fraas er véla- og flugvélaverkfræðingur. Hann kallar þessa hönnun „einhvern öflugasta varmaskipti í heimi“.13 Svo snjöll er hönnunin að verkfræðingar hafa tekið hana sér til fyrirmyndar.
Hver á skilið að fá heiðurinn?
Bandaríska geimvísindastofnunin er að þróa vélmenni með átta fætur sem gengur eins og sporðdreki. Finnskir verkfræðingar eru búnir að hanna dráttarvél sem gengur á sex fótum og getur klifrað yfir hindranir rétt eins og risavaxið skordýr. Vísindamenn hafa fundið upp fataefni með smágerðum spjöldum sem herma eftir því hvernig furuköngull opnast og lokast. Fataefnið lagar sig að líkamshita þess sem gengur í flíkinni. Bílaframleiðandi er að hanna faratæki sem líkir eftir töskufiskum en þeir hafa einstaklega lítið viðnám í vatni. Og þá er að nefna vísindamenn sem eru að rannsaka skel sæeyrans en hún býr yfir einstæðum höggdeyfandi eiginleikum. Markmiðið er að hanna skotheld hlífðarföt sem eru léttari og sterkari en fyrri gerðir.
Náttúran hefur verið kveikja svo margra góðra hugmynda að vísindamenn hafa búið til gagnagrunn þar sem skráðar eru þúsundir ólíkra líffræðilegra kerfa. Að sögn tímaritsins The Economist geta vísindamenn leitað í gagnagrunninum að „lausnum náttúrunnar á hönnunarvandamálum sínum“. Hin náttúrlegu kerfi, sem skráð eru í gagnagrunninum, eru kölluð „einkaleyfi náttúrunnar“. Hver sá maður eða fyrirtæki, sem fær skráð einkaleyfi fyrir nýrri hugmynd eða vél, telst eiga leyfið. The Economist segir um áðurnefndan gagnagrunn: „Með því að kalla brellur lífríkisins ,einkaleyfi náttúrunnar‘ eru vísindamenn einungis að leggja áherslu á að einkaleyfið tilheyri eiginlega náttúrunni.“14
Hvernig fékk náttúran allar þessar snjöllu hugmyndir? Margir vísindamenn myndu svara því til að hinar hugvitssamlegu hönnunarlausnir hafi orðið til á þann hátt að náttúran hafi prófað sig áfram á margra milljóna ára þróunarferli. En ýmsir vísindamenn eru á annarri skoðun. Lífefnafræðingurinn Michael J. Behe segir í The New York Times 7. febrúar 2005: „Hin sterku einkenni hönnunar [í náttúrunni] 15
gera okkur kleift að setja fram einfalda og afar sannfærandi röksemd: Ef það gengur, kvakar og lítur út eins og önd getum við dregið þá ályktun að það sé önd, nema við höfum sterk rök fyrir hinu gagnstæða.“ Og hvaða ályktun dregur hann? „Við ættum ekki að vísa hönnun á bug einfaldlega vegna þess að hún er svo augljós.“Verkfræðingur, sem hannar öruggari og betri flugvélarvængi, ætti auðvitað að fá heiðurinn af verki sínu. Sömuleiðis á uppfinningamaður, sem hannar þægilegra fataefni eða hagkvæmara ökutæki, skilið að fá viðurkenningu fyrir verk sitt. Það getur meira að segja varðað við lög að apa eftir hönnun annars manns án þess að viðurkenna höfundarrétt hans eða gefa honum heiðurinn.
Finnst þér þá rökrétt hjá færum vísindamönnum að eigna tilviljunarkenndri þróun heiðurinn af þeim snilldarlausnum í ríki náttúrunnar sem þeir herma eftir á ófullkominn hátt til að leysa erfið verkfræðileg viðfangsefni? Ef það þarf vitiborinn hönnuð til að búa til eftirlíkingu, hvað þá um frumgerðina? Hvor á meiri heiður skilinn, meistarinn eða lærlingur- inn sem líkir eftir aðferðum hans?
Rökrétt ályktun
Margir sem virða fyrir sér hönnunina í ríki náttúrunnar taka undir með biblíuritaranum Páli sem sagði: „Ósýnilega veru hans [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ — Rómverjabréfið 1:19, 20.