Vísindin og sköpunarsagan
Margir halda því fram að vísindin afsanni sköpunarsögu Biblíunnar. En í rauninni eru það skoðanir kristinna bókstafstrúarmanna, en ekki Biblían, sem ganga í berhögg við vísindin. Sumir þessara trúarhópa halda því ranglega fram að samkvæmt Biblíunni hafi allur efnisheimurinn verið skapaður á sex sólarhringum fyrir um það bil 10.000 árum.
Biblían styður ekki þessa ályktun. Ef svo væri myndu uppgötvanir vísindamanna síðustu hundrað árin vissulega draga úr trúverðugleika Biblíunnar. Ef texti Biblíunnar er skoðaður ofan í kjölinn er ljóst að hann stangast hvergi á við vísindalegar staðreyndir. Þar af leiðandi eru vottar Jehóva ósammála kristnum bókstafstrúarmönnum og mörgum sköpunarsinnum. Eftirfarandi sýnir hvað Biblían kennir í raun og veru.
Í sköpunarsögu Biblíunnar segir ekki að jörðin og alheimurinn hafi verið sköpuð á sex sólarhringum fyrir aðeins nokkur þúsund árum.
Hvenær var „upphafið“?
Frásaga 1. Mósebókar hefst með einföldum en áhrifamiklum orðum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Biblíufræðingar eru margir hverjir sammála um að hér sé verið að lýsa því sem gerðist áður en sjálfir sköpunardagarnir hófust en um þá má lesa frá 3. versi. Þetta skiptir verulegu máli. Samkvæmt upphafsorðum Biblíunnar hafði alheimurinn, þar á meðal jörðin, verið til um ótilgreindan tíma áður en sköpunardagarnir hófust.
Jarðfræðingar áætla að jörðin sé 4 milljarða ára gömul og stjarnfræðingar hafa reiknað út að alheimurinn geti verið allt að 15 milljarða ára gamall. Eru þessar uppgötvanir, og ef til vill aukin þekking í framtíðinni, í mótsögn við 1. Mósebók 1:1? Nei, Biblían tiltekur ekki aldur ,himins og jarðar‘. Vísindin eru ekki á öndverðum meiði við þetta vers.
Hve langir voru sköpunardagarnir?
Hvað um lengd sköpunardaganna? Var hver dagur bókstaflega einn sólarhringur eða 24 stundir? Móse, sem skrifaði 1. Mósebók, notaði daginn, sem kom í kjölfarið á fyrstu sex sköpunardögunum, sem fyrirmynd að vikulegum hvíldardegi. Þess vegna halda sumir því fram að hver sköpunardagur hljóti líka að hafa verið venjulegur sólarhringur. (2. Mósebók 20:11) Styður orðalagið í 1. Mósebók þessa ályktun?
1. Mósebók 2:4) Við það má bæta að á fyrsta sköpunardeginum „nefndi [Guð] ljósið dag en myrkrið nótt“. (1. Mósebók 1:5) Hér er aðeins hluti sólarhringsins skilgreindur sem „dagur“. Það eru þess vegna engin rök fyrir því í Biblíunni að halda því stíft fram að hver sköpunardagur hafi verið sólarhringur að lengd.
Nei, það gerir það ekki. Hebreska orðið, sem er þýtt „dagur“, er notað um mislöng tímabil en ekki bara um sólarhring. Þegar Móse dregur saman frásöguna af sköpunarverki Guðs talar hann um alla sköpunardagana sex sem einn dag. (Hve langir voru þá sköpunardagarnir? Það er ekki tekið fram í Biblíunni en orðalagið í fyrstu tveim köflum 1. Mósebókar gefur til kynna að hér sé um talsvert löng tímabil að ræða.
Sex sköpunartímabil
Móse skrifaði frásögu sína út frá sjónarhóli manns á jörðinni og hann skrifaði hana á hebresku. Þessar tvær staðreyndir og vitneskjan um að alheimurinn var til áður en sköpunartímabilin eða „dagarnir“ byrjuðu auðveldar okkur að útkljá að miklu leyti þann ágreining sem tengist sköpunarsögunni. Hvernig þá?
Ef sköpunarsagan er lesin gaumgæfilega kemur í ljós að atburðir, sem hófust einn „daginn“, gátu haldið áfram næsta „dag“ eða „daga“. Sem dæmi má nefna að áður en fyrsti „sköpunardagurinn“ hófst kom eitthvað í veg fyrir að sólarljósið næði til jarðar, hugsanlega skýjaþykkni, en sólin var þá þegar til. (Jobsbók 38:9) Á fyrsta „deginum“ tók þessi hula að þynnast og dreifð birta gat því komist í gegnum andrúmsloftið. a
Ljóst er að á öðrum „degi“ varð andrúmsloftið sífellt tærara og það myndaðist rými milli þykkra skýjanna og sjávarins. Á fjórða „degi“ varð andrúmsloftið smám saman nógu tært til að hægt væri að greina sólina og tunglið „á festingu himins“. (1. Mósebók 1:14-16) Með öðrum orðum urðu sólin og tunglið sýnileg frá jörðinni. Þetta gerðist stig af stigi.
Í frásögn 1. Mósebókar er líka greint frá því að Guð hafi byrjað að skapa „fugla“ þegar komið var fram á fimmta „dag“ og andrúmsloftið var orðið tærara. Þess má geta að á frummálinu, hebresku, getur orðið ,fuglar‘ líka merkt fleyg skordýr og dýr með flughúð.
Frásögn Biblíunnar býður greinilega upp á þann möguleika að nokkrir stórir viðburðir, sem gerðust á hverjum degi eða sköpunartímabili, hafi gerst smám saman en ekki á augabragði, og sumir hafi hugsanlega staðið fram á næstu sköpunardaga. b
Eftir sinni tegund
Má ætla að Guð hafi notað þróun til að mynda hið fjölbreytta lífríki fyrst jurtir og dýr komu fram stig af stigi? Nei, frásagan segir greinilega að Guð hafi skapað allar grunntegundir jurta og dýra. (1. Mósebók 1:11, 12, 20-25) Voru þessar upprunalegu „tegundir“ jurta og dýra þannig úr garði gerðar að þær gætu aðlagað sig breytilegu umhverfi? Hvar liggja mörkin milli „tegunda“? Biblían segir ekkert um það. En hún segir að lifandi skepnur hafi birst „eftir þeirra tegundum“. (1. Mósebók 1:21) Af þessum orðum má ráða að því séu takmörk sett hve fjölbreytileikinn geti verið mikill innan hverrar „tegundar“. Bæði steingervingar og nútímarannsóknir styðja þá hugmynd að grunntegundir jurta og dýra hafi lítið breyst á óralöngum tíma.
Gagnstætt því sem sumir bókstafstrúarmenn staðhæfa kennir Biblían ekki að alheimurinn, jörðin og allar lifandi verur á henni hafi verið skapaðar á tiltölulega stuttum tíma ekki alls fyrir löngu. Hins vegar er lýsingin í 1. Mósebók á því hvernig alheimurinn var skapaður og hvernig lífið birtist á jörðinni alveg í samræmi við nýlegar vísindauppgötvanir.
Vegna heimspekilegra skoðana sinna hafna margir vísindamenn yfirlýsingu Biblíunnar um að Guð hafi skapað allt. Það er athyglisvert að í jafn gamalli bók og 1. Mósebók Biblíunnar skuli Móse hafa skráð að alheimurinn eigi sér upphaf og að lífið hafi birst stig af stigi á alllöngu tímabili. Hvernig gat Móse, sem var uppi fyrir 3500 árum, búið yfir þekkingu sem er svona vísindalega nákvæm? Það er ein rökrétt skýring á því. Sá sem hafði máttinn og viskuna til að skapa himin og jörð gat örugglega miðlað svona nútímalegum upplýsingum. Þetta gefur aukið vægi þeirri staðhæfingu Biblíunnar að hún sé „innblásin af Guði“. c — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
En skiptir það einhverju máli hvort maður trúir sköpunarsögu Biblíunnar? Við skulum líta á nokkur sterk rök fyrir því að það skipti máli.
a Í lýsingunni á því sem gerðist á fyrsta „degi“ er notað hebreska orðið ’ohr sem merkir ljós í almennum skilningi. En í lýsingunni á fjórða „degi“ er notað orðið ma’ohrʹ sem vísar til ljósgjafans.
b Svo dæmi sé nefnt segir að Guð hafi tiltekið á sjötta sköpunardeginum að mennirnir ættu að ,fjölga sér og fylla jörðina‘. (1. Mósebók 1:28, 31) Það byrjaði þó ekki fyrr en á næsta sköpunardegi. — 1. Mósebók 2:2.
c Nánari upplýsingar er að finna í myndskeiðinu Hvernig getum við verið viss um að Biblían sé áreiðanleg? á jw.org.