Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

24. KAFLI

„Hertu upp hugann!“

„Hertu upp hugann!“

Samsæri gegn Páli mistekst og hann ver sig frammi fyrir Felix

Byggt á Postulasögunni 23:11–24:27

1, 2. Af hverju kemur það Páli ekki á óvart að verða fyrir ofsóknum í Jerúsalem?

 PÁLI var bjargað á síðustu stundu undan æstum múgi í Jerúsalem og er enn og aftur kominn í varðhald. Ofsóknirnar koma þessum kappsama postula ekki á óvart. Honum hafði verið sagt að „fangavist og þjáningar“ biðu hans í þessari borg. (Post. 20:22, 23) Hann veit ekki með vissu hvað er fram undan en hann veit að hann á eftir að þjást vegna nafns Jesú. – Post. 9:16.

2 Kristnir spámenn höfðu varað Pál við að hann yrði bundinn og framseldur „mönnum af þjóðunum“. (Post. 21:4, 10, 11) Nýverið reyndu Gyðingar að drepa hann og skömmu síðar leit út fyrir að hann ‚yrði slitinn í sundur‘ þegar Æðstaráðið deildi um það sem hann hafði sagt. Nú er hann í haldi rómverskra hermanna og fleiri ákærur og réttarhöld bíða hans. (Post. 21:31; 23:10) Páll þarf sannarlega á uppörvun að halda!

3. Hvar fáum við hvatningu til að halda boðuninni áfram?

3 Við vitum að „allir sem vilja lifa guðrækilegu lífi sem lærisveinar Krists Jesú verða ofsóttir“ núna á endalokatímanum. (2. Tím. 3:12) Af og til þurfum við líka hvatningu til að halda áfram í boðuninni. Við erum þakklát fyrir þá hlýlegu og tímabæru uppörvun sem við fáum í ritunum okkar og á samkomum sem „hinn trúi og skynsami þjónn“ skipuleggur. (Matt. 24:45) Jehóva hefur fullvissað okkur um að engum muni takast að útrýma þjónum hans sem heild eða stöðva boðunina. (Jes. 54:17; Jer. 1:19) En hvað um Pál postula? Fékk hann þá hvatningu sem hann þurfti til að halda boðuninni áfram þrátt fyrir andstöðu? Ef svo er, hvers konar uppörvun fékk hann þá og hvernig brást hann við?

‚Menn sóru eið og tóku þátt í samsæri‘ (Post. 23:11–34)

4, 5. Hvaða hvatningu fékk Páll og hvers vegna má segja að hún hafi komið á réttum tíma?

4 Nóttina eftir að Páli var bjargað frá Æðstaráðinu fékk hann þá hvatningu sem hann þurfti. Í frásögunni segir: „Drottinn [stóð] hjá honum og sagði: ‚Hertu upp hugann! Þú átt eftir að vitna um mig í Róm, rétt eins og þú hefur vitnað rækilega um mig í Jerúsalem.‘“ (Post. 23:11) Með þessum orðum fullvissaði Jesús Pál um að honum yrði bjargað. Hann vissi að hann myndi halda lífi og komast til Rómar og að þar fengi hann að vitna um Jesú.

„Meira en 40 menn úr þeirra hópi ætla að sitja fyrir honum.“ – Postulasagan 23:21.

5 Hvatningin sem Páll fékk kom á réttum tíma. Daginn eftir gerðu rúmlega 40 Gyðingar „samsæri og sóru þess eið að borða hvorki né drekka fyrr en þeir hefðu drepið Pál“. Þessi eiður sýndi hversu ákveðnir Gyðingarnir voru að ráða Pál af dögum. Þeir trúðu því að þeir myndu kalla yfir sig bölvun ef samsærið mistækist. (Post. 23:12–15, neðanmáls.) Þeir voru með áform sem æðstuprestarnir og öldungarnir höfðu lagt blessun sína yfir. Þeir ætluðu að láta kalla Pál aftur fyrir Æðstaráðið undir því yfirskini að yfirheyra hann betur. En á leiðinni þangað ætluðu þeir að sitja fyrir honum, ráðast á hann og myrða hann.

6. Hvernig komst upp um samsærið um að myrða Pál og hvað getur ungt fólk lært af systursyni hans?

6 Systursonur Páls frétti hins vegar af samsærinu og sagði Páli frá því. Páll bað hann þá um að fara til Kládíusar Lýsíasar, rómverska hersveitarforingjans, og segja honum frá því. (Post. 23:16–22) Jehóva elskar hugrökk ungmenni, eins og þennan ónafngreinda systurson Páls, sem taka velferð þjóna Guðs fram yfir eigin hag og leggja sig fram um að vera trúföst og styðja ríki hans með ráðum og dáð.

7, 8. Hvað gerði Kládíus Lýsías til að tryggja öryggi Páls?

7 Kládíus Lýsías réð yfir 1.000 manna herliði. Um leið og hann fékk að vita af samsærinu gegn Páli skipaði hann 470 mönnum – hermönnum, spjótberum og riddurum – að vera tilbúnir til að halda frá Jerúsalem um kvöldið og fara með Pál til Sesareu. Þar áttu þeir að afhenda hann Felix landstjóra. a Sesarea var stjórnsetur Rómverja í Júdeu. Þó að margir Gyðingar hafi búið þar var borgin aðallega byggð fólki af þjóðunum. Þar ríkti kyrrð og ró ólíkt því sem var í Jerúsalem en þar var mikill trúarhiti og fordómar og uppþot voru algeng. Í Sesareu voru líka aðalstöðvar rómverska herliðsins í Júdeu.

8 Í samræmi við rómversk lög sendi Lýsías Felix bréf til að útskýra málavexti. Lýsías nefnir að þegar hann komst að því að Páll væri rómverskur ríkisborgari hafi hann bjargað honum frá Gyðingum sem voru „í þann mund að drepa hann“. Lýsías sagði að Páll virtist ekki vera sekur um neitt sem kallaði á „dauðarefsingu eða fangavist“. Gyðingar hefðu hins vegar gert samsæri gegn Páli og hann sendi hann því til Felix þannig að hann gæti heyrt hvað hann væri sakaður um og dæmt í málinu. – Post. 23:25–30.

9. (a) Hvernig var brotið á réttindum Páls sem var rómverskur ríkisborgari? (b) Hvers vegna gætum við þurft að notfæra okkur borgaraleg réttindi okkar?

9 Sagði Lýsías satt og rétt frá í bréfinu? Ekki að öllu leyti. Hann virðist hafa reynt að gefa sem besta mynd af sjálfum sér. Hann hafði í rauninni ekki bjargað Páli af því að hann var rómverskur ríkisborgari. Auk þess nefnir Lýsías ekki að hann hafi látið ‚binda Pál tvennum hlekkjum‘ og eftir það skipað að það skyldi „yfirheyra hann og húðstrýkja“. (Post. 21:30–34; 22:24–29) Lýsías hafði þar með brotið á réttindum Páls sem rómverskum ríkisborgurum voru tryggð. Satan notar trúarofstæki andstæðinga til að kynda undir ofsóknum nú á dögum og stundum er brotið á borgaralegum réttindum okkar. En rétt eins og Páll geta þjónar Guðs oft notfært sér réttindi sem þeir njóta vegna ríkisfangs í ákveðnu landi og leitað verndar sem tryggð er með lögum.

„Ég skal … fúslega verja mál mitt“ (Post. 23:35–24:21)

10. Hvaða alvarlegu sakir voru bornar á Pál?

10 Páll var „hafður í gæslu í höll Heródesar“ í Sesareu á meðan beðið var eftir að ákærendurnir kæmu frá Jerúsalem. (Post. 23:35) Fimm dögum síðar mættu þeir á staðinn – Ananías æðstiprestur, málflytjandi sem hét Tertúllus og hópur öldunga. Tertúllus byrjaði á því að lofa Felix fyrir það sem hann gerði fyrir Gyðinga, augljóslega til að smjaðra fyrir honum. b Síðan sneri hann sér að efninu. Hann kallar Pál plágu og bætir við: „Hann æsir til uppreisnar meðal allra Gyðinga um alla heimsbyggðina og er forsprakki sértrúarflokks nasarea. Hann reyndi einnig að vanhelga musterið og þess vegna tókum við hann höndum.“ Hinir Gyðingarnir ‚tóku undir ákæruna og fullyrtu að þetta væri rétt‘. (Post. 24:5, 6, 9) Að æsa til uppreisnar, vera forsprakki hættulegs sértrúarflokks og vanhelga musterið – þetta voru alvarlegar ákærur sem gátu kallað á dauðadóm.

11, 12. Hvernig hrakti Páll ákærurnar á hendur sér?

11 Páll fékk nú að taka til máls. „Ég skal … fúslega verja mál mitt,“ segir hann. Hann lýsti sig algerlega saklausan af ákærunum. Páll hafði hvorki vanhelgað musterið né reynt að æsa til uppreisnar. Hann benti á að hann hefði ekki komið til Jerúsalem í mörg ár en nú hefði hann komið til að ‚færa löndum sínum fátækrahjálp‘ – framlög til kristinna manna sem voru hugsanlega bágstaddir vegna hungursneyðar og ofsókna. Páll sagðist líka hafa verið „hreinn samkvæmt helgisiðunum“ þegar hann fór í musterið og alltaf hafa reynt að „varðveita hreina samvisku frammi fyrir Guði og mönnum“. – Post. 24:10–13, 16–18.

12 Páll viðurkenndi þó að hann veitti Guði forfeðra sinna heilaga þjónustu „á þann hátt sem þeir kalla sértrú“. En hann lagði áherslu á að hann tryði „öllu sem fram kemur í lögunum og stendur skrifað í spámönnunum“. Og eins og ákærendur hans hafði hann þá von ‚að bæði réttlátir og ranglátir myndu rísa upp‘. Páll krefur síðan ákærendur sína um sannanir og segir við Felix: „Láttu … mennina sem eru hér sjálfa segja hvað þeir fundu saknæmt þegar ég stóð fyrir Æðstaráðinu, annað en þetta eina sem ég hrópaði meðan ég stóð meðal þeirra: ‚Ég er fyrir rétti í dag vegna þess að ég trúi á upprisu dauðra.‘“ – Post. 24:14, 15, 20, 21.

13–15. Hvernig er Páll góð fyrirmynd um að vitna fyrir yfirvöldum?

13 Ef við skyldum vera leidd fyrir yfirvöld vegna tilbeiðslu okkar og yrðum sökuð um að stofna til múgæsings, um áróður gegn yfirvöldum eða að tilheyra „hættulegum sértrúarsöfnuði“ getum við reynt að líkja eftir Páli. Hann smjaðraði ekki fyrir landstjóranum eins og Tertúllus hafði gert. Hann hélt ró sinni og sýndi virðingu. Hann var kurteis, hreinskilinn og skýrmæltur. Páll nefnir að „Gyðingar frá skattlandinu Asíu“ sem höfðu sakað hann um að vanhelga musterið væru ekki á staðnum en lögum samkvæmt ætti hann rétt á því að tala við þá augliti til auglitis og heyra ásakanir þeirra. – Post. 24:18, 19.

14 Síðast en ekki síst var Páll algerlega ófeiminn að tala um trú sína. Hann ítrekar hugrakkur að hann trúi á upprisu en það var málið sem hafði hleypt öllu í bál og brand þegar hann var frammi fyrir Æðstaráðinu. (Post. 23:6–10) Í vörn sinni leggur Páll áherslu á upprisuvonina. Af hverju? Af því að hann var að vitna um Jesú og að hann væri risinn upp frá dauðum – en það viðurkenndu andstæðingar hans ekki. (Post. 26:6–8, 22, 23) Deilan snerist sem sagt um upprisuna, sérstaklega um trúna á Jesú og upprisu hans.

15 Eins og Páll getum við vitnað af hugrekki og sótt styrk í það sem Jesús sagði við lærisveina sína: „Allir munu hata ykkur vegna nafns míns. En sá sem er þolgóður allt til enda mun bjargast.“ Þurfum við að hafa áhyggjur af því hvað við ætlum að segja? Nei, því að Jesús lofaði þessu: „Þegar þeir taka ykkur og draga fyrir rétt hafið þá ekki áhyggjur af því hvað þið eigið að segja. Segið það sem ykkur verður gefið á þeirri stundu því að það eruð ekki þið sem talið heldur heilagur andi.“ – Mark. 13:9–13.

‚Felix varð hræddur‘ (Post. 24:22–27)

16, 17. (a) Hvernig afgreiddi Felix málið gegn Páli? (b) Hvað hefur hugsanlega hrætt Felix en af hverju hélt hann áfram að kalla Pál fyrir sig?

16 Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Felix landstjóri heyrði um kristna trú. Í frásögunni segir: „Felix, sem þekkti nokkuð vel til Vegarins [sem kristin trú var kölluð í byrjun], frestaði nú málinu og sagði: ‚Ég skal skera úr máli ykkar þegar Lýsías hersveitarforingi kemur hingað.‘ Hann skipaði liðsforingjanum að hafa manninn áfram í varðhaldi en veita honum visst frjálsræði og leyfa vinum hans að sjá fyrir þörfum hans.“ – Post. 24:22, 23.

17 Nokkrum dögum síðar lét Felix sækja Pál. Hann og Drúsilla eiginkona hans, sem var Gyðingur, ‚hlustuðu á hann tala um trúna á Krist Jesú‘. (Post. 24:24) En þegar Páll fór að tala um „réttlæti, sjálfstjórn og komandi dóm varð Felix hræddur“. Hugsanlega fékk hann samviskubit vegna þeirra illskuverka sem hann hafði framið. Hann sendi því Pál burt og sagði: „Farðu nú, ég læt kalla á þig aftur við tækifæri.“ Felix kallaði Pál fyrir sig margsinnis eftir þetta, ekki af því að hann vildi kynnast sannleikanum heldur vonaðist hann til að Páll myndi greiða honum mútur. – Post. 24:25, 26.

18. Hvers vegna ræddi Páll við Felix og konuna hans um „réttlæti, sjálfstjórn og komandi dóm“?

18 Hvers vegna ræddi Páll við Felix og konuna hans um „réttlæti, sjálfstjórn og komandi dóm“? Þau vildu vita hvað væri fólgið í ‚trúnni á Krist Jesú‘. Páll vissi að þau hjónin voru siðlaus, grimm og óréttlát og tók því skýrt fram hvers var krafist af öllum sem vildu verða fylgjendur Jesú. Orð Páls báru með sér að mikil gjá væri milli réttlátra meginreglna Guðs og lífernis þeirra hjónanna. Þau hefðu átt að átta sig á að allir menn bæru ábyrgð á hugsunum sínum, orðum og verkum frammi fyrir Guði og að dómurinn sem þau myndu fá frá Guði væri miklu mikilvægari en sá dómur sem Páll hlyti hjá Felix. Það er engin furða að Felix skyldi verða hræddur!

19, 20. (a) Hvað eigum við að gera þegar fólk virðist vera áhugasamt en langar í rauninni ekki til að hlýða Guði? (b) Hvernig vitum við að Felix var alls enginn vinur Páls?

19 Við gætum hitt fólk í boðuninni sem er eins og Felix. Það virðist kannski hafa áhuga á sannleikanum til að byrja með en í rauninni langar það ekkert til að hlýða Guði og breyta sér. Það er skynsamlegt að vera varkár gagnvart slíkum einstaklingum en eins og Páll getum við samt sagt þeim frá meginreglum Guðs af nærgætni. Kannski nær sannleikurinn til þeirra. En ef það kemur í ljós að þeir hafa engan áhuga á að breyta um lífsstefnu látum við gott heita og höldum áfram að leita að þeim sem vilja í einlægni kynnast sannleikanum.

20 Með tímanum varð ljóst hverjar hvatir Felix voru: „Að tveim árum liðnum tók Porkíus Festus við af Felix og þar sem Felix vildi afla sér velvildar Gyðinga lét hann Pál eftir í haldi.“ (Post. 24:27) Felix var alls enginn vinur Páls. Hann vissi að þeir sem fylgdu „Veginum“ voru hvorki með áróður gegn yfirvöldum né hvöttu til uppreisnar. (Post. 19:23) Hann vissi líka að Páll hafði ekki brotið nein lög Rómverja. Felix hélt honum samt í varðhaldi til að „afla sér velvildar Gyðinga“.

21. Hvað gerðist hjá Páli eftir að Porkíus Festus varð landstjóri og hvað hefur eflaust styrkt hann?

21 Eins og fram kemur í síðasta versi 24. kafla Postulasögunnar var Páll enn í varðhaldi þegar Porkíus Festus tók við af Felix sem landstjóri. Nú hófust yfirheyrslur á ný og Páll var leiddur fyrir ýmsa ráðamenn. Þessi hugrakki postuli var sannarlega ‚leiddur fyrir konunga og landstjóra‘. (Lúk. 21:12) Eins og við munum sjá átti hann eftir að bera vitni fyrir æðsta valdhafa þess tíma. Gegnum allt þetta var Páll staðfastur í trúnni. Hann hefur eflaust sótt styrk í orð Jesú: „Hertu upp hugann!“

b Tertúllus þakkaði Felix fyrir að veita þjóðinni ‚mikinn frið‘. Sannleikurinn var þó sá að það var meiri ófriður í Júdeu meðan Felix var landstjóri en á nokkru öðru tímabili þar til Gyðingar gerðu uppreisn gegn Róm. Það var líka fjarri sanni að Gyðingar væru „fullir þakklætis“ fyrir umbætur hans. Í rauninni fyrirlitu flestir Gyðingar Felix því að hann hafði gert þeim lífið leitt og barið niður uppreisnir þeirra af mikilli grimmd. – Post. 24:2, 3.