Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

26. KAFLI

„Enginn ykkar mun týna lífi“

„Enginn ykkar mun týna lífi“

Páll bíður skipbrot en sýnir sterka trú og kærleika

Byggt á Postulasögunni 27:1–28:10

1, 2. Hvaða ferðalag bíður Páls og af hverju gæti hann hafa haft áhyggjur?

 ORÐ Festusar óma í huga Páls. Þau eiga eftir að hafa mikil áhrif á framtíð hans. „Til keisarans skaltu fara,“ hafði landstjórinn sagt. Páll hafði verið innilokaður í fangelsi í tvö ár þannig að langferðin til Rómar færir honum að minnsta kosti nýtt útsýni. (Post. 25:12) En minningar Páls um sjóferðir eru ekki bara ferskt sjávarloft og sjóndeildarhringur í fjarska. Hann hefur eflaust kviðið bæði fyrir ferðinni og því að ganga fyrir keisarann.

2 Páll hefur oft verið „í hættu á sjó“. Hann hefur þrisvar beðið skipbrot og jafnvel verið sólahring í opnu hafi. (2. Kor. 11:25, 26) En þessi ferð verður mjög ólík trúboðsferðunum sem hann fór sem frjáls maður. Í þetta sinn er Páll fangi og vegalengdin frá Sesareu til Rómar er gríðarleg – yfir 3.000 kílómetrar. Kemst hann alla leið heill á húfi? Og jafnvel þótt það takist, hvað bíður hans þá í Róm? Verður það dauðadómur? Þegar allt kemur til alls er það voldugasti valdhafi í heimi Satans sem á að dæma hann.

3. Hvað ætlar Páll að gera og hvað er rætt í þessum kafla?

3 Heldurðu, miðað við allt sem þú hefur lesið um Pál, að hann hafi látið vonleysi og örvæntingu ná tökum á sér vegna þess sem var fram undan? Varla. Hann vissi að margar raunir biðu hans en hann vissi ekki hvers eðlis þær yrðu. Hvers vegna ætti hann að láta áhyggjur af hlutum sem hann hafði enga stjórn á ræna sig gleðinni af þjónustu sinni? (Matt. 6:27, 34) Páll vissi að vilji Jehóva væri að hann notaði hvert tækifæri til að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið þannig að jafnvel valdhafar fengju að heyra hann. (Post. 9:15) Hann var ákveðinn í að gera þessu verkefni sem best skil, hvað sem drifi á daga hans. Ert þú sama sinnis? Við skulum fylgja Páli á þessari sögulegu ferð og velta fyrir okkur hvað við getum lært af honum.

„Við höfðum mótvind“ (Post. 27:1–7a)

4. Með hvers konar skipi hófst ferðalag Páls og hverjir voru með honum í för?

4 Rómverskum liðsforingja sem hét Júlíus var falið að gæta Páls og nokkurra fanga í viðbót. Hann ákvað að fá far með kaupskipi sem lá í höfn í Sesareu. Skipið hafði komið frá Adramýttíum, hafnarborg á vesturströnd Litlu-Asíu gegnt borginni Mitýlene á eynni Lesbos. Skipið átti að sigla í norður og síðan vestur með viðkomu á ýmsum stöðum til að ferma og afferma. Þessi skip voru ekki búin þægindum fyrir farþega, allra síst fyrir fanga. (Sjá rammann „ Ferðir á sjó“.) Sem betur fer var Páll ekki eini kristni maðurinn sem ferðaðist með hópi afbrotamanna. Að minnsta kosti tveir trúbræður hans voru með í för – þeir Aristarkus og Lúkas. Það var auðvitað Lúkas sem skrifaði frásöguna. Við vitum ekki hvort þessir trúföstu félagar hans greiddu fyrir farið eða fengu að koma með sem þjónar Páls. – Post. 27:1, 2.

5. Hverja fékk Páll að hitta í Sídon og hvað getum við lært af því?

5 Eftir eins dags siglingu, um 110 kílómetra í norðurátt, kom skipið til hafnar í Sídon í Sýrlandi. Júlíus kom greinilega ekki fram við Pál eins og venjulegan afbrotamann, kannski vegna þess að Páll var rómverskur ríkisborgari og sekt hans hafði ekki verið sönnuð. (Post. 22:27, 28; 26:31, 32) Hann leyfði Páli að fara í land til að hitta trúsystkini sín. Bræður og systur hafa eflaust verið ánægð að fá að hugsa um Pál eftir alla þessa fangavist. Dettur þér í hug hvenær þú gætir sýnt svipaða gestrisni og fengið uppörvun af því? – Post. 27:3.

6–8. (a) Lýstu ferðinni frá Sídon til Knídus. (b) Hvaða tækifæri fékk Páll líklega til að boða trúna?

6 Skipið lagði úr höfn frá Sídon, sigldi norður með ströndinni og síðan fram hjá Kilikíu, ekki langt frá Tarsus, heimabæ Páls. Lúkas nefnir ekki fleiri viðkomustaði en hann minnist á að ‚þeir hafi haft mótvind‘. Það vissi ekki á gott. (Post. 27:4, 5) Við sjáum samt fyrir okkur að Páll hafi gripið hvert tækifæri til að segja frá fagnaðarboðskapnum. Hann vitnaði vafalaust fyrir samföngum sínum og öðrum á skipinu, bæði áhöfn og hermönnum og sömuleiðis fyrir fólki í hafnarbæjum þar sem skipið kom við. Notum við líka þau tækifæri sem við fáum til að boða trúna?

7 Skipið kom að lokum til hafnar í Mýru á suðurströnd Litlu-Asíu. Þar þurftu Páll og hinir að taka sér far með öðru skipi sem gat farið með þá alla leið til Rómar. (Post. 27:6) Á þeim tíma var korn flutt í stórum stíl frá Egyptalandi til Rómar og egypsku kornskipin komu við í Mýru. Júlíus fann slíkt skip og lét hermennina og fangana ganga um borð. Þetta hlýtur að hafa verið mun stærra skip en þeir höfðu siglt með þangað. Skipið flutti verðmætan hveitifarm og auk þess rúmaði það 276 manns – áhöfnina, hermennina, fangana og líklega fleiri sem voru á leið til Rómar. Með nýju skipi stækkaði boðunarsvæði Páls og hann hefur eflaust notfært sér það.

8 Næsti viðkomustaður var Knídus á suðvesturhorni Litlu-Asíu. Í góðum byr var hægt að sigla þangað á einum degi. En Lúkas segir að eftir að hafa ‚miðað hægt dögum saman hafi þeir náð með herkjum til Knídus‘. (Post. 27:7a) Veður hafði versnað til muna. (Sjá rammann „ Mótvindar á Miðjarðarhafi“.) Við getum ímyndað okkur hvernig áhöfn og farþegum hefur liðið þegar skipið barðist gegn hvössum vindi og ölduganginum.

‚Skipið veltist um í illviðrinu‘ (Post. 27:7b–26)

9, 10. Hvaða erfiðleikar komu upp nálægt Krít?

9 Skipstjórinn ætlaði að sigla til vesturs frá Knídus en sjónarvotturinn Lúkas segir að ‚vindur hafi tálmað för þeirra‘. (Post. 27:7b) Þegar skipið fjarlægðist meginlandið missti það strauminn við ströndina. Síðan hrakti það til suðurs fyrir hvassri norðvestanátt, kannski á töluverðum hraða. Rétt eins og Kýpur hafði veitt fyrra skipinu skjól fyrir mótvindi átti Krít eftir að veita skjól í þetta sinn. Um leið og skipið var komið fram hjá Salmónehöfða á austurenda Krítar bötnuðu aðstæður aðeins. Skipið var þá komið í var sunnan megin við eyjuna fyrir hvössum vindinum. Mönnum hlýtur að hafa verið létt – til að byrja með. En áhöfnin gat ekki litið fram hjá því að veturinn var að nálgast og skipið var enn á sjó. Menn höfðu ástæðu til að vera áhyggjufullir.

10 Lýsing Lúkasar er nákvæm: „Við sigldum með erfiðismunum meðfram [strönd Krítar] og komum til staðar sem kallast Góðhafnir“. Þó að skjól væri af eyjunni var erfitt að stjórna skipinu. Að lokum gátu þeir samt varpað akkerum á litlum flóa, líklega rétt áður en ströndin sveigir til norðurs. Lúkas segir að þeir hafi verið þar ‚dágóðan tíma‘. Þeir áttu þó í kapphlaupi við tímann því að siglingar urðu æ hættulegri því lengur sem leið á september og október. – Post. 27:8, 9.

11. Hvaða ráð gaf Páll varðandi ferðina en hvaða ákvörðun tóku menn?

11 Sumir farþeganna hafa kannski leitað ráða hjá Páli því að hann hafði mikla reynslu af ferðum um Miðjarðarhaf. Hann mælti með því að haldið yrði kyrru fyrir. Ef þeir héldu áfram myndu þeir verða fyrir ‚miklu tjóni‘, jafnvel manntjóni, en skipstjórinn og eigandi skipsins vildu halda ferðinni áfram. Kannski fannst þeim áríðandi að finna öruggari höfn. Þeir sannfærðu Júlíus um það og flestir voru sammála um að þeir ættu að reyna að ná til Fönix vestar á Krít. Kannski var stærri höfn þar sem hentaði betur til vetrarlegu. Þegar snerist í hæga sunnanátt héldu menn að óhætt væri að létta akkerum og þeir lögðu af stað. – Post. 27:10–13.

12. Hvaða háska lenti skipið í eftir að farið var frá Krít og hvernig reyndi áhöfnin að afstýra skipbroti?

12 En skömmu síðar skall á „norðaustan hvassviðri“. Um stund komust þeir í var við „litla eyju sem nefnist Káda“, um 65 kílómetra frá Góðhöfnum. Samt var hætta á að skipið hrekti til suðurs og myndi stranda á sandrifum út af strönd Afríku. Til að afstýra því hífðu sjómennirnir skipsbátinn sem þeir voru með í eftirdragi um borð. Þetta var erfiðisverk því að báturinn var líklega fullur af sjó. Síðan strituðu þeir við að styrkja skipið sjálft með því að reyra það með köðlum eða keðjum. Þeir felldu líka stórseglið og reiðann og gerðu allt hvað þeir gátu til að halda skipinu upp í vindinn og bíða eftir að veðrinu slotaði. Þetta hefur verið hræðileg lífsreynsla! En þessar aðgerðir dugðu ekki til þegar skipið „veltist um í illviðrinu“. Á þriðja degi köstuðu þeir búnaði skipsins fyrir borð, sennilega til að létta það. – Post. 27:14–19.

13. Hvernig ætli mönnum hafi liðið um borð í skipinu meðan óveðrið geisaði?

13 Flestir hljóta að hafa verið dauðskelfdir. Páll og félagar hans voru hins vegar bjartsýnir. Drottinn hafði áður sagt Páli að hann myndi vitna fyrir mönnum í Róm og engill hafði síðar staðfest það. (Post. 19:21; 23:11) En stormurinn geisaði dag og nótt í hálfan mánuð. Það var þungskýjað og rigndi linnulaust þannig að hvorki sást til sólar né stjarna. Skipstjórinn hafði því ekkert að miða við til að geta ákvarðað staðsetningu skipsins né stefnu. Að borða venjulega máltíð var út úr myndinni. Hvernig var hægt að hugsa um mat þegar menn voru sjóveikir og óttaslegnir í þessum kulda, slagviðri og sjógangi?

14, 15. (a) Hvers vegna nefnir Páll það sem hann hafði áður varað við? (b) Hvað lærum við af uppörvandi boðskap Páls?

14 Páll steig nú fram. Hann minnti á hverju hann hefði varað við en tónninn var ekki: ‚Hvað sagði ég ykkur?‘ Atburðir undanfarinna daga höfðu einfaldlega sýnt að það var ástæða til að taka mark á orðum hans. Síðan sagði hann: „Nú hvet ég ykkur til að herða upp hugann því að enginn ykkar mun týna lífi, aðeins skipið mun farast.“ (Post. 27:21, 22) Þetta hlýtur að hafa verið hughreystandi fyrir þá sem til heyrðu. Páll hlýtur líka að hafa verið ákaflega glaður að Jehóva skyldi hafa gefið honum þennan uppörvandi boðskap til að flytja öðrum. Það er mikilvægt að hafa hugfast að Jehóva er annt um alla. Hver einasta manneskja skiptir hann máli. Pétur postuli skrifaði: „Jehóva … vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast.“ (2. Pét. 3:9) Það er því áríðandi að við reynum eins og við getum að koma vonarboðskap Jehóva á framfæri við eins marga og hægt er. Dýrmæt mannslíf eru í húfi.

15 Páll hafði líklega vitnað fyrir mörgum á skipinu um ‚vonina um að Guð myndi uppfylla loforðið sem hann gaf‘. (Post. 26:6; Kól. 1:5) Núna, þegar búast mátti við skipbroti, gat Páll borið fram sterk rök fyrir því að þeir myndu bjargast. Hann sagði: „Í nótt stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég tilheyri … Hann sagði: ‚Óttastu ekki, Páll. Þú átt að koma fyrir keisarann og þín vegna mun Guð bjarga öllum sem eru þér samferða.‘“ Síðan bætti hann við: „Herðið því upp hugann, góðir menn. Ég trúi að Guð geri alveg eins og mér var sagt. Okkur hlýtur að bera að landi á einhverri eyju.“ – Post. 27:23–26.

‚Allir komust heilu og höldnu í land‘ (Post. 27:27–44)

„Hann … þakkaði Guði í allra augsýn.“ – Postulasagan 27:35.

16, 17. (a) Hvaða tækifæri notaði Páll til að fara með bæn og hver voru áhrifin? (b) Hvernig rættist viðvörun Páls?

16 Á tveim hræðilegum vikum hefur skipið hrakið um 870 kílómetra. Sjómennina grunar að þeir nálgist nú land. Kannski heyra þeir öldurnar brotna við strönd. Þeir varpa akkerum úr skutnum til að hrekjast ekki lengra og beina stefninu að landi ef ske kynni að þeim takist að sigla skipinu upp í fjöru. Sjómennirnir reyndu nú að yfirgefa skipið en hermennirnir komu í veg fyrir það. Páll sagði við liðsforingjann og menn hans: „Þið getið ekki bjargast nema þessir menn séu kyrrir um borð.“ Þar sem skipið var aðeins stöðugra núna hvatti Páll alla til að fá sér að borða og fullvissaði þá aftur um að þeir myndu bjargast. Síðan ,þakkaði hann Guði í allra augsýn‘. (Post. 27:31, 35) Með þakkarbæn sinni gaf hann Lúkasi, Aristarkusi og kristnum mönnum nú á dögum gott fordæmi. Eru bænir sem þú ferð með opinberlega hvetjandi og hughreystandi?

17 Eftir að Páll hafði farið með bæn ,urðu allir vongóðir og fengu sér að borða‘. (Post. 27:36) Þeir léttu síðan skipið með því að kasta hveitifarminum fyrir borð svo að skipið risti grynnra þegar það nálgaðist land. Þegar birti af degi hjuggu skipverjar á akkerisfestarnar, losuðu böndin af stýrisárunum við skutinn og drógu upp lítið framsegl til að hafa einhverja stjórn á skipinu þegar því yrði siglt í strand. Stefnið festist nú, ef til vill á sandrifi eða í leðju, og skuturinn fór að liðast í sundur í hafrótinu. Sumir hermannanna vildu drepa fangana svo að enginn kæmist undan en Júlíus kom í veg fyrir það. Hann hvatti alla til að synda eða fleyta sér í land á braki úr skipinu. Það fór eins og Páll hafði sagt – allir 276 um borð björguðust. Já, ‚allir komust heilu og höldnu í land‘. En hvar voru þeir staddir? – Post. 27:44.

‚Einstök góðvild‘ (Post. 28:1–10)

18-20. Hvernig sýndu Maltverjar „einstaka góðvild“ og hvaða kraftaverk átti sér stað?

18 Í ljós kom að skipbrotsmenn voru á eyjunni Möltu, suður af Sikiley. (Sjá rammann „ Hvar var Malta?“) Heimamenn, sem töluðu erlent mál, sýndu þeim „einstaka góðvild“. (Post. 28:2) Þeir kveiktu eld handa þessum aðkomumönnum sem hafði skolað á land og voru skjálfandi af kulda. Þeim hlýnaði við eldinn þrátt fyrir kulda og rigningu. Eldurinn varð líka kveikjan að kraftaverki.

19 Páll vildi leggja sitt af mörkum. Hann tíndi saman sprek sem hann lagði á eldinn. En við það skreið fram eiturslanga sem beit sig fasta í hönd hans. Maltverjar ímynduðu sér að þetta væri einhvers konar guðleg refsing. a

20 Heimamenn sem sáu að Páll hafði orðið fyrir biti héldu að hann myndi ‚bólgna upp‘. Frummálsorðið er læknisfræðiheiti að sögn heimildarrits. Það kemur ekki á óvart að „Lúkas, læknirinn kæri,“ skyldi nota orð af því tagi. (Post. 28:6; Kól. 4:14) Hvað sem því líður hristi Páll af sér eiturslönguna og varð ekki meint af.

21. (a) Nefndu dæmi um nákvæmni Lúkasar í þessum hluta Postulasögunnar. (b) Hvaða kraftaverk vann Páll og hvaða áhrif hafði það á Maltverja?

21 Auðugur landeigandi sem hét Públíus bjó á svæðinu. Ef til vill var hann æðsti embættismaður Rómverja á Möltu. Lúkas kallar hann ‚æðsta mann eyjunnar‘ en sá titill hefur fundist í tveim áletrunum á Möltu. Hann tók vel á móti Páli og félögum hans og þeir voru hjá honum í þrjá daga. En faðir Públíusar var veikur. Lúkas gefur aftur nákvæma sjúkdómslýsingu. Hann segir að maðurinn hafi verið „rúmliggjandi með hita og blóðkreppusótt“ og lýsir því ástandi hans vel. Páll baðst fyrir, lagði hendur yfir manninn og hann læknaðist. Kraftaverkið hafði djúpstæð áhrif á heimamenn og þeir komu til hans með sjúklinga til að þeir gætu fengið lækningu. Síðan komu þeir með gjafir til Páls og félaga hans og færðu þeim allt sem þeir þurftu. – Post. 28:7–10.

22. (a) Hvers vegna hrósar prófessor nokkur Lúkasi fyrir frásöguna af ferðinni til Rómar? (b) Hvað verður rætt í næsta kafla?

22 Þeim hluta ferðar Páls sem við höfum skoðað hingað til er lýst af mikilli nákvæmni. Prófessor nokkur segir: „Frásaga Lúkasar … sker sig úr sem ein líflegasta frásögn Biblíunnar. Lýsingar hans á sjómennsku fyrstu aldar eru svo nákvæmar og myndin sem hann dregur upp af aðstæðum á austurhluta Miðjarðarhafs svo ítarleg“ að hann hlýtur að hafa stuðst við einhvers konar dagbók. Vel má vera að Lúkas hafi fært dagbók á ferðum sínum með postulanum. Ef svo er fékk hann líka margt að skrifa um á næsta legg ferðarinnar. Hvað bíður Páls þegar þeir komast að lokum til Rómar? Við sjáum það í næsta kafla.

a Slíkir höggormar voru fólkinu ekki framandi en það gefur til kynna að þeir hafi verið til á eyjunni á þeim tíma. Núna eru engir höggormar á Möltu. Það getur stafað af breytingum sem orðið hafa á umhverfinu í aldanna rás. Einnig getur verið að fólksfjölgun á eyjunni hafi orðið til þess að höggormarnir hurfu.