Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

28. KAFLI

„Til endimarka jarðar“

„Til endimarka jarðar“

Vottar Jehóva halda áfram verki sem fylgjendur Jesú Krists hófu á fyrstu öld

1. Hvað er líkt með kristnum mönnum á fyrstu öld og vottum Jehóva nú á dögum?

 ÞEIR vitnuðu af krafti. Hjartað knúði þá til að þiggja hjálp og leiðsögn heilags anda. Ofsóknir þögguðu ekki niður í þeim. Og Guð blessaði þá ríkulega. Þessi lýsing passar vel við kristna menn á fyrstu öld og sömuleiðis votta Jehóva nú á dögum.

2, 3. Hvað er sérstakt við Postulasöguna?

2 Það hefur áreiðanlega verið hvetjandi fyrir þig að lesa hina spennandi og trústyrkjandi frásögn Postulasögunnar. Þetta er einstök bók því að hún er eina innblásna frásagan af frumkristninni.

3 Postulasagan nafngreinir 95 einstaklinga frá 32 löndum, 54 borgum og 9 eyjum. Þetta er hrífandi saga af fólki – venjulegu fólki, hrokafullum falsguðadýrkendum, hégómafullum stjórnmálamönnum og óðum ofsækjendum. En fyrst og fremst fjallar hún um bræður okkar og systur á fyrstu öld sem þurftu að takast á við erfiðleika daglegs lífs en boðuðu líka fagnaðarboðskapinn af kappi.

4. Af hverju finnum við til sérstakra tengsla við fólk eins og Pál postula, Tabíþu og aðra votta á fyrstu öld?

4 Næstum 2.000 ár eru liðin frá því að þessir trúföstu vottar voru uppi. Meðal þeirra voru kappsömu postularnir Pétur og Páll og hinn elskaði læknir Lúkas. Við lesum líka um hinn örláta Barnabas, Stefán sem sýndi mikið hugrekki, hina góðviljuðu Tabíþu, Lýdíu sem var einstaklega gestrisin og marga aðra. Þó að svona langt sé um liðið finnst okkur við eiga sérstök tengsl við þau. Af hverju? Af því að við höfum fengið sama verkefni og þau, að gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Það er mikill heiður að fá að taka þátt í því.

„ … til endimarka jarðar.“ – Postulasagan 1:8.

5. Hvar byrjuðu fylgjendur Jesú að boða trúna?

5 Rifjum upp verkefnið sem Jesús fól fylgjendum sínum. „Þið fáið kraft,“ sagði hann, „þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Fyrst gaf heilagur andi lærisveinunum kraft til að vera vottar „í Jerúsalem“. (Post. 1:1–8:3) Eftir það vitnuðu þeir undir leiðsögn andans „í allri Júdeu og Samaríu“. (Post. 8:4–13:3) Síðan fóru þeir að boða fagnaðarboðskapinn um öll lönd, „til endimarka jarðar“.Post. 13:4–28:31.

6, 7. Hvað höfum við fram yfir trúsystkini okkar á fyrstu öld þegar við boðum trúna?

6 Trúsystkini okkar á fyrstu öld höfðu ekki alla Biblíuna til afnota þegar þeir boðuðu trúna. Matteusarguðspjall var ekki til fyrr en í fyrsta lagi árið 41. Sum af bréfum Páls voru skrifuð áður en Postulasagan var fullgerð um árið 61. En frumkristnir menn höfðu hvorki sitt eigið eintak af Heilagri ritningu í heild né úrval rita til að gefa áhugasömum. Kristnir Gyðingar höfðu heyrt Hebresku ritningarnar lesnar í samkunduhúsinu áður en þeir urðu lærisveinar Jesú. (2. Kor. 3:14–16) En þeir þurftu líka að vera duglegir biblíunemendur þar sem þeir þurftu sennilega að vitna í biblíutexta eftir minni.

7 Við sem þjónum Jehóva nú á dögum eigum flest okkar eigið eintak af Biblíunni og höfum aðgang að miklu úrvali biblíutengdra rita. Við gerum fólk að lærisveinum þegar við boðum trúna í 240 löndum og á fjölda tungumála.

Heilagur andi veitir kraft

8, 9. (a) Hvað gátu lærisveinar Jesú gert með hjálp heilags anda? (b) Hvað gefur trúi þjónninn út með hjálp anda Guðs?

8 Þegar Jesús fól lærisveinunum að vera vottar sínir sagði hann: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur.“ Undir leiðsögn anda Guðs eða kraftar hans myndu fylgjendur Jesú að lokum verða vottar hans um alla jörðina. Heilagur andi gerði Pétri og Páli kleift að lækna veika, reka út illa anda og jafnvel reisa fólk upp frá dauðum. En krafturinn sem heilagur andi veitti þjónaði líka öðrum og mikilvægari tilgangi. Hann gerði postulunum og öðrum lærisveinum kleift að miðla nákvæmri þekkingu sem gat veitt fólki eilíft líf. – Jóh. 17:3.

9 Á hvítasunnudegi árið 33 töluðu lærisveinar Jesú ‚önnur tungumál eins og andinn gerði þeim kleift að tala‘. Þannig gátu þeir vitnað um „stórfengleg verk Guðs“. (Post. 2:1–4, 11) Við tölum ekki erlend tungumál fyrir kraftaverk nú á dögum. Trúi þjónninn gefur hins vegar út biblíutengd rit á fjölda tungumála með hjálp anda Guðs. Til dæmis eru milljónir eintaka af Varðturninum og Vaknið! prentaðar í hverjum mánuði, og á vefnum okkar, jw.org, er að finna biblíutengd rit og myndbönd á meira en 1.000 tungumálum. Þetta gerir okkur kleift að boða fólki af öllum þjóðum, ættflokkum og tungum „stórfengleg verk Guðs“. – Opinb. 7:9.

10. Hvað hefur gerst varðandi útgáfu Biblíunnar frá 1989?

10 Frá 1989 hefur trúi þjónninn lagt áherslu á að gefa Nýheimsþýðingu Biblíunnar út á sem flestum tungumálum. Hún hefur nú þegar verið þýdd á meira en 200 tungumál og yfir 240 milljónir eintaka hafa verið prentaðar – og tölurnar fara hækkandi. Þetta hefði aldrei getað orðið án hjálpar Guðs og anda hans.

11. Hvernig er staðið að þýðingum á ritum Votta Jehóva?

11 Þúsundir sjálfboðaliða vinna við þýðingar í meira en 150 löndum. Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að engin önnur samtök í heimi fá leiðsögn heilags anda til að ‚vitna ítarlega‘ út um allan heim um Jehóva Guð, konunginn Messías og stofnsett ríki hans á himnum. – Post. 28:23.

12. Hvernig gátu Páll og aðrir kristnir menn boðað trúna?

12 Þegar Páll vitnaði fyrir Gyðingum og heiðingjum í Antíokkíu í Pisidíu ‚tóku allir trú sem höfðu það hugarfar sem þurfti til að hljóta eilíft líf‘. (Post. 13:48) Í lok Postulasögunnar segir Lúkas að Páll hafi ‚boðað ríki Guðs djarfmannlega án nokkurrar hindrunar‘. (Post. 28:31) Hvar boðaði hann trúna? Í Róm – höfuðborg heils heimsveldis! Allt boðunarstarf fylgjenda Jesú á fyrstu öld fór fram með hjálp og leiðsögn heilags anda, hvort sem þeir héldu ræður eða boðuðu trúna með öðrum hætti.

Þolgóð þrátt fyrir ofsóknir

13. Hvers vegna þurfum við að biðja þegar við erum ofsótt?

13 Þegar lærisveinar Jesú á fyrstu öld voru ofsóttir báðu þeir Jehóva að gefa sér hugrekki. Þeir voru bænheyrðir, fylltust heilögum anda og fengu kraft til að boða orð Guðs óttalaust. (Post. 4:18–31) Við biðjum líka um visku og styrk til að halda boðuninni áfram þrátt fyrir ofsóknir. (Jak. 1:2–8) Guð blessar okkur og hjálpar með anda sínum og þess vegna tekst okkur það. Ekkert getur stöðvað boðunina – hvorki hörð andstaða né grimmilegar ofsóknir. Þegar við erum ofsótt þurfum við að biðja um heilagan anda og um visku og hugrekki til að boða fagnaðarboðskapinn. – Lúk. 11:13.

14, 15. (a) Hvað gerðist í framhaldi af ‚ofsóknunum sem urðu út af Stefáni‘? (b) Hvernig kynntust margir í Síberíu sannleikanum?

14 Stefán vitnaði af hugrekki áður en óvinir hans drápu hann. (Post. 6:5; 7:54–60) Í kjölfarið „hófust miklar ofsóknir“ og allir lærisveinarnir nema postularnir dreifðust um alla Júdeu og Samaríu. En boðunin stöðvaðist ekki. Filippus fór til Samaríu til að „boða Krist þar“ og árangurinn lét ekki á sér standa. (Post. 8:1–8, 14, 15, 25) Auk þess segir í frásögunni: „Þeir sem höfðu dreifst vegna ofsóknanna sem urðu út af Stefáni fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu en þeir boðuðu aðeins Gyðingum orðið. En nokkrir menn frá Kýpur og Kýrene komu til Antíokkíu og tóku að boða grískumælandi fólki fagnaðarboðskapinn um Drottin Jesú.“ (Post. 11:19, 20) Ofsóknirnar urðu sem sagt til þess að boðskapurinn um ríkið dreifðist víða.

15 Eitthvað svipað gerðist í Sovétríkjunum fyrrverandi. Þúsundir votta Jehóva voru sendar í útlegð til Síberíu, sérstaklega á sjötta áratugnum. Þeim var dreift um ýmis byggðarlög og þar af leiðandi barst fagnaðarboðskapurinn út um þetta víðáttumikla land. Svona margir vottar hefðu engan veginn haft efni á að ferðast allt að 10.000 kílómetra til að boða fagnaðarboðskapinn. En nú sendi ríkisstjórnin sjálf þá um landið þvert og endilangt. Bróðir einn sagði: „Útkoman var sú að stjórnvöld gerðu þúsundum einlægra manna í Síberíu kleift að kynnast sannleikanum.“

Jehóva blessar okkur ríkulega

16, 17. Hvernig sjáum við af Postulasögunni að Jehóva blessar boðunina?

16 Það leikur enginn vafi á að Jehóva blessaði kristna menn á fyrstu öld. Páll og fleiri gróðursettu og vökvuðu „en Guð gaf vöxtinn“. (1. Kor. 3:5, 6) Þegar við lesum Postulasöguna sjáum við greinilega að Jehóva blessaði boðunina og vöxturinn var eftir því. Til dæmis segir: ‚Orð Guðs hélt áfram að breiðast út og lærisveinunum fjölgaði mjög í Jerúsalem.‘ (Post. 6:7) Boðunin breiddist út og „söfnuðurinn bjó nú við frið um tíma um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu og byggðist upp. Hann lifði í lotningu fyrir Jehóva og sótti styrk til heilags anda, og lærisveinunum fjölgaði stöðugt.“ – Post. 9:31.

17 Bæði Gyðingar og grískumælandi fólk heyrði sannleikann af munni hugrakkra votta í Antíokkíu í Sýrlandi. Í frásögunni segir: „Hönd Jehóva var með þeim og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.“ (Post. 11:21) Og vöxturinn hélt áfram í borginni. Við lesum: „Orð Jehóva hélt áfram að eflast og breiðast út.“ (Post. 12:24) Boðun Páls og annarra var líka í fullum gangi meðal fólks af þjóðunum en einnig meðal þeirra var ‚orð Jehóva máttugt þannig að það breiddist út og efldist‘. – Post. 19:20.

18, 19. (a) Hvernig vitum við að „hönd Jehóva“ er með okkur? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að Jehóva styður þjóna sína.

18 Það er augljóst að „hönd Jehóva“ er líka með okkur nú á dögum. Það er þess vegna sem svo margir taka trú og skírast til tákns um að þeir hafi vígst Guði. Auk þess er það aðeins með hjálp Guðs og blessun sem við getum haldið út gegn harðri andstöðu – sem stundum birtist í grimmilegum ofsóknum. Það er hjálp hans að þakka að við getum boðað trúna með góðum árangri eins og Páll og aðrir frumkristnir menn gerðu. (Post. 14:19–21) Jehóva Guð er alltaf með okkur. „Eilífir armar hans“ styðja okkur í öllum prófraunum okkar. (5. Mós. 33:27) Munum líka að vegna síns mikla nafns yfirgefur Jehóva aldrei þjóna sína. – 1. Sam. 12:22; Sálm. 94:14.

19 Lýsum þessu með dæmi: Nasistar handtóku bróður Harald Abt og sendu hann í fangabúðirnar í Sachsenhausen í síðari heimsstyrjöldinni vegna þess að hann boðaði trúna. Í maí 1942 birtust Gestapó-menn heima hjá Elsu konunni hans, tóku litlu dóttur þeirra og handtóku síðan Elsu. Hún var send í fangabúðir á ýmsum stöðum. „Ég lærði eitt mjög mikilvægt þau ár sem ég var í fangabúðunum í Þýskalandi,“ segir Elsa. „Það er hvað andi Jehóva getur veitt manni mikinn styrk þegar maður verður fyrir erfiðustu prófraunum. Áður en ég var handtekin hafði ég lesið bréf frá systur sem sagði að í erfiðum prófraunum geti andi Jehóva veitt okkur einstaka ró og stillingu. Ég hugsaði að hún hlyti að vera að ýkja. En þegar ég upplifði prófraunir sjálf uppgötvaði ég að það var satt sem hún sagði. Svona virkar þetta. Það er erfitt að ímynda sér það ef maður hefur ekki upplifað það. En ég hef kynnst því af eigin raun.“

Höldum áfram að vitna ítarlega

20. Hvað gerði Páll meðan hann sat í stofufangelsi og hvernig getur það verið hvetjandi fyrir sum af trúsystkinum okkar?

20 Postulasögunni lýkur þar sem Páll er önnum kafinn ‚að boða ríki Guðs‘. (Post. 28:31) Hann var í stofufangelsi og gat því ekki boðað trúna hús úr húsi í Róm. Hann hélt samt áfram að vitna fyrir öllum sem komu til hans. Sum trúsystkina okkar eiga ekki heimangengt. Þau eru kannski rúmföst eða búa á hjúkrunarheimilum vegna aldurs eða heilsubrests. Þau elska samt Guð og langar virkilega til að segja frá honum. Við höfum þau í huga í bænum okkar og getum beðið föður okkar á himnum um að koma þeim í samband við þá sem þrá að kynnast honum og stórkostlegri fyrirætlun hans.

21. Af hverju liggur mikið á núna að boða trúna?

21 Flest getum við boðað trúna hús úr húsi og tekið þátt í að gera fólk að lærisveinum með öðrum hætti. Við ættum því öll að leggja okkur fram um að vera duglegir boðberar og eiga þátt í að vitna allt til „endimarka jarðar“. Það liggur á að vinna þetta verk því að ‚táknið‘ um nærveru Krists blasir við. (Matt. 24:3–14) Við megum engan tíma missa. Við þurfum að vera „önnum kafin í verki Drottins“. – 1. Kor. 15:58.

22. Hvað ættum við að gera meðan við bíðum eftir degi Jehóva?

22 Meðan við bíðum eftir að „hinn mikli og magnþrungni dagur Jehóva“ renni upp skulum við vera staðráðin í að vera trúföst og boða fagnaðarboðskapinn af hugrekki. (Jóel 2:31) Við getum enn fundið fólk eins og Berojumenn sem „tóku við orðinu af mesta áhuga“. (Post. 17:10, 11) Höldum því áfram að bera vitni þangað til sagt er við okkur: „Vel gert, góði og trúi þjónn.“ (Matt. 25:23) Við skulum vera ötul, gera allt sem við getum í boðuninni núna og vera Jehóva trú allt til enda. Þá getum við glaðst um alla eilífð yfir því að hafa átt góðan þátt í ‚að vitna ítarlega um ríki Guðs‘.