Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bréf frá stjórnandi ráði

Bréf frá stjórnandi ráði

Kæri boðberi Guðsríkis:

Ímyndaðu þér að þú sért einn af postulunum. Þið standið á Olíufjallinu og Jesús birtist ykkur. Rétt áður en hann stígur upp til himna segir hann: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Hvernig myndirðu bregðast við?

Þér finnst kannski yfirþyrmandi að takast á við þetta gríðarlega verkefni. Þú hugsar með þér: Er nokkur einasti möguleiki á að við – þessi fámenni lærisveinahópur – getum flutt boðskapinn allt til „endimarka jarðar“? Þú manst ef til vill hvað Jesús sagði kvöldið áður en hann dó: „Þjónn er ekki æðri húsbónda sínum. Ef menn hafa ofsótt mig munu þeir líka ofsækja ykkur og ef þeir hafa haldið orð mín munu þeir líka halda orð ykkar. Þeir munu gera ykkur allt þetta vegna nafns míns því að þeir þekkja ekki þann sem sendi mig.“ (Jóh. 15:20, 21) Með þessi orð í huga er þér kannski spurn hvernig þú getir vitnað ítarlega þrátt fyrir slíka andstöðu og ofsóknir.

Við stöndum í svipuðum sporum. Við sem erum vottar Jehóva þurfum líka að vitna ítarlega „til endimarka jarðar“ fyrir fólki „af öllum þjóðum“. (Matt. 28:19, 20) Hvernig getum við gert þessu verki góð skil, sérstaklega í ljósi andstöðunnar sem Jesús spáði?

Postulasagan hefur að geyma hrífandi frásögu af því hvernig postularnir og aðrir kristnir menn á fyrstu öld gátu sinnt verkefni sínu með hjálp Jehóva. Bókin sem þú ert að lesa er samin til að hjálpa þér að kafa ofan í frásöguna og upplifa þá hröðu og spennandi atburðarás sem sagt er frá. Það kemur þér örugglega á óvart að sjá hve margt er líkt með þjónum Guðs á fyrstu öld og fólki hans nú á dögum. Hliðstæðurnar lúta ekki aðeins að starfinu sjálfu heldur líka að því hvernig við erum skipulögð til að vinna verkið. Með því að hugleiða þessar hliðstæður styrkirðu vafalaust þá trú þína að Jehóva Guð stjórni jarðneskum hluta safnaðar síns enn þann dag í dag.

Við vonum og biðjum að þessi bók eigi eftir að byggja upp trú þína á að Jehóva hjálpi þér og að heilagur andi hans gefi þér kraft til að halda út. Megi það vera þér hvatning til að halda áfram að ‚vitna ítarlega‘ um ríki Guðs og hjálpa öðrum að komast inn á veginn til lífsins. – Post. 28:23; 1. Tím. 4:16.

Bræður ykkar,

stjórnandi ráð Votta Jehóva