Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

19. KAFLI

‚Haltu áfram að tala og þagnaðu ekki‘

‚Haltu áfram að tala og þagnaðu ekki‘

Páll vinnur fyrir sér en lætur samt boðunina ganga fyrir

Byggt á Postulasögunni 18:1–22

1–3. Af hverju er Páll postuli kominn til Korintu og úr hverju þarf hann að leysa?

 ÞETTA er síðla árs 50. Páll postuli er staddur í Korintu, auðugri verslunarborg þar sem margir Grikkir, Rómverjar og Gyðingar búa. a Páll er ekki hingað kominn til að stunda viðskipti eða leita að vinnu. Hann er kominn til Korintu af miklu mikilvægari ástæðu – að vitna um ríki Guðs. En Pál vantar húsnæði og hann er ákveðinn í að íþyngja ekki öðrum fjárhagslega. Hann vill ekki gefa neinum þá mynd af sér að aðrir eigi að sjá fyrir honum af því að hann boðar orð Guðs. Hvað gerir hann?

2 Páll hefur lært tjaldgerð. Þetta er ekki auðvelt starf en hann er fús til að vinna með höndunum til að sjá fyrir sér. Tekst honum að finna vinnu í þessari erilsömu borg? Finnur hann hentugt húsnæði? Þó að hann þurfi að huga að þessu missir hann ekki sjónar á aðalstarfi sínu sem er boðunin.

3 Svo fór að Páll dvaldist í Korintu um alllangt skeið og boðun hans þar bar mikinn árangur. Hvað getum við lært af starfi hans í Korintu sem hjálpar okkur að vitna ítarlega um ríki Guðs á okkar svæði?

„Þau voru tjaldgerðarmenn“ (Post. 18:1–4)

4, 5. (a) Hvar bjó Páll meðan hann var í Korintu og við hvað vann hann? (b) Hvernig kom það til að Páll var tjaldgerðarmaður?

4 Nokkru eftir að Páll kom til Korintu kynntist hann gestrisnum hjónum – Gyðingi sem hét Akvílas og konu hans Priskillu eða Prisku. Þau hjónin höfðu flust til Korintu eftir að Kládíus keisari hafði fyrirskipað að „allir Gyðingar skyldu yfirgefa Róm“. (Post. 18:1, 2) Páll fékk bæði að búa hjá Akvílasi og Priskillu og vinna með þeim. Við lesum: „Af því að þau stunduðu sömu iðn og hann bjó hann hjá þeim og vann með þeim en þau voru tjaldgerðarmenn.“ (Post. 18:3) Páll bjó hjá þessum hjartahlýju hjónum allan þann tíma sem hann starfaði í Korintu. Vera má að hann hafi skrifað einhver af bréfunum sem síðar urðu hluti af Biblíunni meðan hann bjó hjá Akvílasi og Priskillu. b

5 Hvernig stóð á því að Páll, sem var menntaður „við fætur Gamalíels“, var tjaldgerðarmaður að atvinnu? (Post. 22:3) Gyðingum á fyrstu öld fannst það greinilega ekki fyrir neðan sína virðingu að kenna börnunum ákveðna iðn þótt þau hlytu líka annars konar menntun. Páll hafði líklega lært iðnina í æsku því að hann var frá Tarsus í Kilíkíu en svæðið var þekkt fyrir vefnað sem kallaðist cilicium og var notaður í tjöld. Í hverju fólst tjaldgerð? Hún gat bæði falið í sér að vefa sjálfan tjalddúkinn og að klippa hann til og sauma tjöld úr stífu og grófgerðu efninu. Hvort tveggja var erfiðisvinna.

6, 7. (a) Hvernig leit Páll á tjaldgerðina og hvað gefur til kynna að Akvílas og Priskilla hafi hugsað eins? (b) Hvernig fylgjum við fordæmi Páls, Akvílasar og Priskillu?

6 Páll leit ekki á tjaldgerðina sem aðalstarf sitt. Hann vann við þetta til þess eins að geta séð fyrir sér og boðað fagnaðarboðskapinn „án endurgjalds“. (2. Kor. 11:7) Hvernig litu Akvílas og Priskilla á þessa vinnu? Þau hafa eflaust séð hana sömu augum og Páll. Þegar Páll fór frá Korintu árið 52 tóku þau sig upp og fóru með honum til Efesus. Heimili þeirra var síðan notað sem samkomustaður fyrir söfnuðinn þar. (1. Kor. 16:19) Síðar sneru þau aftur til Rómar og fluttu svo til baka til Efesus. Þessi kappsömu hjón einbeittu sér að því að boða trúna og hjálpa öðrum. „Allir söfnuðirnir meðal þjóðanna“ voru þeim innilega þakklátir fyrir það. – Rómv. 16:3–5; 2. Tím. 4:19.

7 Við reynum að fylgja fordæmi Páls, Akvílasar og Priskillu. Ötulir boðberar vinna hörðum höndum til að ‚íþyngja ekki öðrum fjárhagslega‘. (1. Þess. 2:9) Það er hrósvert að margir sem boða trúna í fullu starfi vinna hlutastörf eða árstíðabundin störf til að sjá fyrir sér í þjónustunni. Margir þjónar Jehóva líkja eftir Akvílasi og Priskillu og opna heimili sín fyrir farandhirðum. Þeir sem temja sér slíka gestrisni vita hversu hvetjandi og uppbyggjandi það getur verið. – Rómv. 12:13.

,Margir Korintumenn tóku trú‘ (Post. 18:5–8)

8, 9. Hvernig brást Páll við þegar Gyðingar snerust gegn honum og hvar boðaði hann trúna eftir það?

8 Það er greinilegt að Páll leit einungis á vinnuna sem leið til að sjá fyrir sér. Það sýndi sig vel þegar Sílas og Tímóteus komu með rausnarlegar gjafir til hans frá Makedóníu. (2. Kor. 11:9) Páll gaf sig þá „allan að því að boða orðið“. (Post. 18:5) En þessi öfluga boðun hans meðal Gyðinga mætti töluverðri andstöðu og margir höfnuðu boðskapnum um Krist sem gat bjargað lífi þeirra. Páll dustaði þá rykið af fötum sínum til að sýna að hann afsalaði sér allri ábyrgð á viðbrögðum þeirra. Hann sagði við þá: „Þið getið sjálfum ykkur um kennt ef þið farist. Ég á enga sök á því. Héðan í frá fer ég til fólks af þjóðunum.“ – Post. 18:6; Esek. 3:18, 19.

9 Hvar átti Páll nú að boða trúna? Maður að nafni Títus Jústus opnaði heimili sitt fyrir honum. Hann hafði líklega tekið Gyðingatrú og hús hans lá að samkunduhúsinu. Páll færði sig því frá samkunduhúsinu í hús Jústusar. (Post. 18:7) Páll bjó áfram hjá Akvílasi og Priskillu meðan hann var í Korintu en hús Jústusar var miðstöð boðunar hans.

10. Hvað sýnir að Páll einskorðaði sig ekki við að boða fólki af þjóðunum trúna?

10 Nú hafði Páll sagt að hann myndi fara til fólks af þjóðunum. Þýddi það að hann myndi hætta alveg að sinna Gyðingum og trúskiptingum, jafnvel þótt þeir sýndu áhuga? Það getur varla verið. „Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin ásamt öllu heimilisfólki sínu,“ svo dæmi sé tekið. Margir sem sóttu samkunduna virðast hafa fylgt Krispusi því að Biblían segir: „Margir Korintumenn sem heyrðu boðskapinn tóku einnig trú og létu skírast.“ (Post. 18:8) Hús Títusar Jústusar varð því samkomustaður hins nýmyndaða safnaðar í Korintu. Ef þessi frásaga er skrifuð í dæmigerðum stíl Lúkasar – það er í tímaröð – hafa þessir Gyðingar eða trúskiptingar tekið trú eftir að Páll hristi föt sín. Þetta segir þá heilmikið um hversu sveigjanlegur hann var.

11. Hvernig líkja vottar Jehóva eftir Páli þegar þeir boða fólki í kristna heiminum trúna?

11 Kirkjur kristna heimsins eiga sér langa sögu víða um lönd og hafa sterk áhrif á sóknarbörnin. Sums staðar hefur trúboðum kirkjufélaganna orðið vel ágengt að fá fólk til fylgis við sig. Þeir sem kalla sig kristna eru oft uppteknir af siðum og hefðum, rétt eins og Gyðingar í Korintu á fyrstu öld. Við sem erum vottar Jehóva leggjum okkur samt fram eins og Páll við að ná til þessa fólks og byggjum á þeirri biblíuþekkingu sem það kann að hafa. Jafnvel þegar fólk er okkur andsnúið eða trúarleiðtogarnir ofsækja okkur missum við ekki vonina. Meðal þeirra sem ‚eru kappsamir vegna Guðs en skortir nákvæma þekkingu‘ getur verið margt auðmjúkt fólk sem vill kynnast sannleikanum um Guð. Við þurfum að leita að þessu fólki. – Rómv. 10:2.

„Ég á margt fólk í þessari borg“ (Post. 18:9–17)

12. Um hvað fullvissar Drottinn Pál í sýn?

12 Ef Páll var efins um að hann ætti að halda áfram að boða trúna í Korintu hlýtur efinn að hafa gufað upp nóttina sem Drottinn Jesús birtist honum í sýn og sagði: „Vertu óhræddur og haltu áfram að tala. Þagnaðu ekki því að ég er með þér. Enginn mun ráðast á þig og gera þér mein því að ég á margt fólk í þessari borg.“ (Post. 18:9, 10) Þetta var hvetjandi sýn! Drottinn sjálfur fullvissaði Pál um að enginn myndi gera honum mein og að enn væru margir móttækilegir í borginni. Hvernig brást Páll við sýninni? Við lesum: ‚Hann dvaldist þar í eitt og hálft ár og kenndi fólki orð Guðs.‘ – Post. 18:11.

13. (a) Hvaða atburður hefur kannski komið upp í huga Páls þegar hann nálgaðist dómarasætið? (b) Hvaða ástæðu hafði Páll til að búast við öðrum örlögum en Stefán?

13 Eftir að hafa verið í Korintu í um það bil ár fékk Páll staðfestingu á því að Drottinn væri enn með honum. ‚Gyðingar tóku sig saman, gerðu atlögu að Páli og leiddu hann fyrir dómarasætið‘ sem kallað var bema. (Post. 18:12) Sumir telja að þessi bema hafi verið pallur úr bláum og hvítum marmara með skrautlegum útskurði. Hún stóð líklega nálægt miðju markaðstorgi borgarinnar. Svæðið fyrir framan þetta dómarasæti var nógu stórt til að allstór hópur gæti safnast þar saman. Fornleifarannsóknir benda til þess að dómarasætið hafi verið rétt hjá samkunduhúsinu og þar með stutt frá húsi Jústusar. Þegar Páll nálgaðist dómarasætið má vera að honum hafi verið hugsað til þess þegar Stefán var grýttur en hann er stundum kallaður fyrsti kristni píslarvotturinn. Páll, sem þá var kallaður Sál, ‚hafði lagt blessun sína yfir morðið‘. (Post. 8:1) Átti Páll eftir að hljóta sömu örlög? Nei, því að hann hafði fengið þetta loforð: „Enginn mun … gera þér mein.“ – Post. 18:10.

„Síðan rak hann þá burt frá dómarasætinu.“ – Postulasagan 18:16.

14, 15. (a) Um hvað ásökuðu Gyðingar Pál og af hverju vísaði Gallíón málinu frá? (b) Í hverju lenti Sósþenes og hvað gerðist hugsanlega í kjölfarið?

14 Hvað gerðist þegar komið var með Pál að dómarasætinu? Dómarinn hét Gallíón og var landstjóri í Akkeu en hann var eldri bróðir rómverska heimspekingsins Seneca. Gyðingar báru eftirfarandi sakir á Pál: „Þessi maður telur fólk á að tilbiðja Guð á þann hátt sem stríðir gegn lögunum.“ (Post. 18:13) Þeir gáfu í skyn að Páll stundaði ólöglegt trúboð. En Gallíón sá að Páll hafði ekki framið neitt brot og var ekki sekur um neinn „alvarlegan glæp“. (Post. 18:14) Hann vildi ekki láta draga sig inn í deilumál Gyðinga. Páll náði ekki einu sinni að opna munninn sér til varnar áður en Gallíón vísaði málinu frá. Ákærendurnir voru viti sínu fjær af reiði. Þeir létu hana bitna á Sósþenesi sem hafði líklega tekið við af Krispusi sem samkundustjóri. Þeir gripu Sósþenes „og fóru að berja hann fyrir framan dómarasætið“. – Post. 18:17.

15 Af hverju kom Gallíón ekki í veg fyrir að mannfjöldinn misþyrmdi Sósþenesi? Kannski hélt hann að Sósþenes stæði á bak við skrílsárásina á Pál og fengi þarna makleg málagjöld. Hvað sem því líður er hugsanlegt að málalokin hafi verið góð. Í fyrra bréfinu sem Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu nokkrum árum síðar nefnir hann bróður sem hét Sósþenes. (1. Kor. 1:1, 2) Var þetta sami Sósþenes og var misþyrmt í Korintu? Ef svo er hefur þessi óþægilega lífsreynsla kannski leitt til þess að hann gerðist kristinn.

16. Hvaða áhrif hefur það á boðun okkar að Jesús skyldi segja: „Haltu áfram að tala. Þagnaðu ekki því að ég er með þér“?

16 Munum að það var eftir að Gyðingar höfnuðu boðskap Páls að Drottinn Jesús sagði við hann: „Vertu óhræddur og haltu áfram að tala. Þagnaðu ekki því að ég er með þér.“ (Post. 18:9, 10) Það er gott að hafa þetta í huga, sérstaklega þegar fólk hafnar boðskap okkar. Gleymum aldrei að Jehóva sér hvað býr í hjörtum fólks og dregur einlægt fólk til sín. (1. Sam. 16:7; Jóh. 6:44) Er það ekki sterk hvatning til að vera önnum kafin í boðuninni? Hundruð þúsunda manna skírast á hverju ári – hundruð á hverjum degi. Jesús lofar öllum sem fylgja fyrirmælum hans um að ‚gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum‘: „Ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ – Matt. 28:19, 20.

„Ef Jehóva vill“ (Post. 18:18–22)

17, 18. Hvað gæti Páll hafa hugsað um á leiðinni til Efesus?

17 Við vitum ekki hvort afstaða Gallíóns varð til þess að ungi söfnuðurinn í Korintu bjó við frið um skeið. Páll dvaldist að minnsta kosti þar „um nokkurn tíma til viðbótar“ áður en hann kvaddi trúsystkini sín. Vorið 52 áformaði hann að sigla til Sýrlands frá hafnarborginni Kenkreu sem var um 11 kílómetra austur af Korintu. En áður en hann fór frá Kenkreu lét hann „klippa hárið stutt … því að hann hafði gefið Guði heit“. c (Post. 18:18) Síðan tók hann Akvílas og Priskillu með sér og sigldi yfir Eyjahaf til Efesus í Litlu-Asíu.

18 Þegar Páll sigldi frá Kenkreu hugsaði hann eflaust um tímann sem hann hafði verið í Korintu. Hann átti margar góðar minningar þaðan og margar góðar ástæður til að gleðjast. Hann hafði starfað þar í eitt og hálft ár og það hafði borið góðan árangur. Nú var kominn söfnuður í Korintu sem hélt samkomur heima hjá Jústusi. Meðal þeirra sem tóku trú voru Jústus, Krispus og heimilisfólk hans og margir aðrir. Páli þótti vænt um þessi nýju trúsystkini því að hann hafði hjálpað þeim að taka kristna trú. Hann skrifaði þeim síðar og kallaði þau meðmælabréf sem skrifað væri á hjarta hans. Við berum líka hlýjar tilfinningar til þeirra sem við höfum fengið að hjálpa að kynnast sannleikanum. Það gleður okkur að sjá þessi trúsystkini sem eru eins og lifandi „meðmælabréf“. – 2. Kor. 3:1–3.

19, 20. Hvað gerði Páll þegar hann kom til Efesus og hvað lærum við af honum um að vinna að markmiðum okkar?

19 Páll lét hendur standa fram úr ermum þegar hann kom til Efesus. Hann fór án tafar „í samkunduhúsið og rökræddi við Gyðinga“. (Post. 18:19) En hann staldraði stutt við í Efesus í þetta sinn. Hann var beðinn að dvelja þar lengur en „féllst ekki á það“. Þegar hann kvaddi Efesusmenn sagði hann: „Ég kem aftur til ykkar ef Jehóva vill.“ (Post. 18:20, 21) Páll gerði sér eflaust grein fyrir að það var margt ógert í boðuninni í Efesus. Hann ætlaði sér að koma þangað aftur en kaus að leggja málið í hendur Jehóva. Þar er hann okkur góð fyrirmynd. Við þurfum auðvitað að taka frumkvæðið þegar við vinnum að markmiðum okkar. Hins vegar þurfum við alltaf að reiða okkur á leiðsögn Jehóva og reyna að láta vilja hans ráða ferðinni. – Jak. 4:15.

20 Páll skildi Akvílas og Priskillu eftir í Efesus og sigldi til Sesareu. Síðan fór hann „upp eftir,“ greinilega til Jerúsalem, og heilsaði söfnuðinum þar. (Sjá skýringar við Postulasöguna 18:22 í námsútgáfu Biblíunnar á erlendum málum.) Eftir það sneri hann aftur til Antíokkíu í Sýrlandi sem var bækistöð hans. Annarri trúboðsferðinni var nú lokið en hún hafði borið góðan árangur. Hvað beið hans í síðustu trúboðsferðinni?

b Sjá rammann „ Uppörvandi bréf frá Páli“.

c Sjá rammann „ Heit Páls“.