Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

18. KAFLI

‚Leitið Guðs og finnið hann‘

‚Leitið Guðs og finnið hann‘

Páll finnur sameiginlegan grundvöll og lagar sig að áheyrendum

Byggt á Postulasögunni 17:16–34

1–3. (a) Af hverju er Páli postula ofboðið í Aþenu? (b) Hvað getum við lært af ræðu Páls?

 PÁLI er ofboðið. Hann er staddur í Aþenu í Grikklandi, menntasetri þar sem Sókrates, Platón og Aristóteles höfðu kennt áður fyrr. Aþeningar eru mjög trúaðir. Páll sér aragrúa af skurðgoðum allt í kringum sig – í musterum, á torgum og á götum úti. Borgarbúar tilbiðja ótal guði. Páll veit mætavel hvernig Jehóva, hinn sanni Guð, lítur á skurðgoðadýrkun. (2. Mós. 20:4, 5) Hann er sama sinnis og Jehóva – hann hefur viðbjóð á skurðgoðum.

2 Það sem Páll sér þegar hann kemur inn á torgið gengur algerlega fram af honum. Fjöldinn allur af klámkenndum styttum af guðinum Hermesi standa í röð í norðvesturhorni torgsins þar sem flestir ganga inn á það. Torgið er fullt af helgidómum. Hvernig á þessi ákafi postuli að geta boðað trúna í þessu umhverfi þar sem skurðgoðadýrkun er allsráðandi? Heldur hann ró sinni og finnur sameiginlegan grundvöll til að geta rætt málin? Tekst honum að hjálpa nokkrum að leita hins sanna Guðs og finna hann?

3 Ræða Páls frammi fyrir menntamönnum Aþenu, sem skráð er í Postulasögunni 17:22–31, er prýðisdæmi um málsnilld, nærgætni og góða dómgreind. Við getum lært margt af Páli um það að finna sameiginlegan grundvöll og hjálpa áheyrendum okkar að draga réttar ályktanir.

Páll kennir „á torginu“ (Post. 17:16–21)

4, 5. Hvar í Aþenu boðaði Páll trúna og hvaða krefjandi áheyrendahóp ræddi hann við?

4 Páll kom til Aþenu í annarri trúboðsferð sinni um árið 50. a Meðan hann beið eftir að Sílas og Tímóteus kæmu frá Beroju ‚fór hann að rökræða við Gyðinga í samkunduhúsinu‘ eins og hann var vanur. Hann fór líka á torgið en þar gat hann rætt við Aþeninga sem ekki voru Gyðingar. (Post. 17:17) Torgið í Aþenu var norðvestur af Akrópólishæð og var um fimm hektarar að stærð. Þetta var ekki aðeins markaðstorg heldur einn helsti samkomustaður borgarinnar. Í heimildarriti segir að torgið hafi verið „miðpunktur viðskipta, stjórnmála og menningar í borginni“. Aþeningar höfðu gaman af því að koma saman þar og eiga heimspekilegar umræður.

5 Páll hitti fyrir krefjandi áheyrendur á torginu. Meðal þeirra voru epíkúringar og stóumenn en þeir voru andstæðir pólar í heimspeki. b Epíkúringar trúðu því að lífið hefði orðið til af tilviljun. Lífsviðhorf þeirra var efnislega þetta: „Það er engin ástæða til að óttast Guð. Það er enginn sársauki í dauðanum. Hægt er að njóta hins góða og hægt er að þola hið illa.“ Stóumenn lögðu áherslu á skynsemi og rökhugsun. Þeir trúðu ekki á persónulegan Guð. Hvorki epíkúringar né stóumenn trúðu á upprisuna sem lærisveinar Krists kenndu. Ljóst er að heimspekihugmyndir þessara tveggja hópa samræmdust engan veginn háleitum sannindum kristninnar sem Páll boðaði.

6, 7. Hvernig brugðust sumir grísku spekinganna við því sem Páll kenndi og hvaða viðbrögð fáum við oft nú á dögum?

6 Hvernig brugðust þessir grísku spekingar við því sem Páll kenndi? Sumir kölluðu hann ‚kjaftask‘ en gríska orðið merkir einnig ‚sá sem tínir korn‘. (Sjá skýringar við Postulasöguna 17:18 í námsútgáfu Biblíunnar á erlendum málum.) Fræðimaður segir um þetta gríska orð: „Orðið var upphaflega notað um smáfugl sem kroppaði í sig frækorn en með tímanum var farið að nota það um fólk sem tíndi upp matarleifar og ýmiss konar drasl á markaðstorginu. Síðar var farið að nota orðið í yfirfærðri merkingu um hvern þann sem tíndi saman þekkingarmola úti um hvippinn og hvappinn, einkum manneskju sem kunni svo ekki að raða þeim almennilega saman.“ Þessir lærðu menn sögðu efnislega að Páll væri fáfróður ritþjófur. En eins og við munum sjá lét hann það ekki á sig fá þótt hann væri uppnefndur með þessum hætti.

7 Hið sama er uppi á teningnum nú á dögum. Vottar Jehóva hafa verið kallaðir ýmsum nöfnum vegna trúarskoðana sinna sem þeir byggja á Biblíunni. Margir kennarar halda því til dæmis fram að það sé staðreynd að lífið hafi þróast og að allt skynsamt fólk viðurkenni það. Þeir halda því eiginlega fram að þeir sem trúa því ekki séu fáfróðir. Þeir vilja telja fólki trú um að við séum auðtrúa þegar við boðum það sem Biblían segir og bendum á rök fyrir hönnun í náttúrunni. En við látum það ekki draga úr okkur kjark. Við tölum af sannfæringu þegar við verjum þá trú okkar að lífið eigi sér vitiborinn hönnuð, Jehóva Guð. – Opinb. 4:11.

8. (a) Hvernig brugðust sumir við sem hlustuðu á boðun Páls? (b) Hvað gæti verið átt við með heitinu Areopagus? (Sjá neðanmálsgrein.)

8 Aðrir sem hlustuðu á Pál boða trúna á torginu brugðust öðruvísi við. „Hann virðist boða framandi guði,“ sögðu þeir. (Post. 17:18) Var Páll virkilega að boða Aþeningum nýja guði? Það var alvarlegt mál. Sókrates hafði verið sakaður um eitthvað svipað öldum áður. Hann var dreginn fyrir rétt og dæmdur til dauða. Það kemur ekki á óvart að farið var með Pál á Areopagushæð þar sem hann var beðinn um að skýra kenningarnar sem hljómuðu undarlega í eyrum Aþeninga. c Hvernig gat Páll varið boðskapinn frammi fyrir mönnum sem þekktu ekkert til Ritninganna?

„Aþeningar, mér sýnist …“ (Post. 17:22, 23)

9–11. (a) Hvernig reyndi Páll að finna sameiginlegan grundvöll með áheyrendum sínum? (b) Hvernig getum við líkt eftir Páli í boðuninni?

9 Eins og komið hefur fram ofbauð Páli öll skurðgoðadýrkunin sem blasti við honum. En hann réðst ekki með offorsi á skurðgoðadýrkunina heldur hélt ró sinni. Páll var einstaklega nærgætinn og reyndi að vinna áheyrendur á sitt band með því að finna sameiginlegan grundvöll. Hann hóf mál sitt með þessum orðum: „Aþeningar, mér sýnist að þið séuð á allan hátt trúhneigðari en aðrir.“ (Post. 17:22) Páll hrósaði þeim fyrir að vera trúhneigðir. Hann gerði sér grein fyrir að fólk getur verið móttækilegt þótt það sé blindað af falstrúarhugmyndum. Páll vissi auðvitað að á sínum tíma hafði hann sjálfur gert ýmislegt ‚vegna þess að hann vissi ekki betur og trúði ekki‘. – 1. Tím. 1:13.

10 Til að byggja á sameiginlegum grundvelli nefnir Páll að hann hafi fundið áþreifanlegar sannanir fyrir því að Aþeningar væru trúaðir – altari sem var helgað „ókunnum guði“. Samkvæmt heimildarriti „var algengt að Grikkir og fleiri helguðu ‚ókunnum guðum‘ ölturu. Þeir óttuðust að annars hefði þeim kannski yfirsést einhver guð sem myndi þá móðgast.“ Slíkt altari vitnaði um að Aþeningar viðurkenndu að til væri Guð sem þeir þekktu ekki. Páll notaði þetta altari sem brú til að geta komið inn á fagnaðarboðskapinn sem hann boðaði. Hann hélt áfram: „Ég boða ykkur einmitt þann Guð sem þið tilbiðjið en þekkið ekki.“ (Post. 17:23) Þetta var sniðug leið hjá Páli og mjög áhrifarík. Hann var ekki að boða nýjan eða framandi guð eins og sumir höfðu sakað hann um. Hann var að segja þeim frá þeim Guði sem þeir þekktu ekki – hinum sanna Guði.

11 Hvernig getum við líkt eftir Páli í boðuninni? Ef við höfum augun opin tökum við kannski eftir einhverju sem sýnir að viðmælandinn sé trúaður. Það gæti verið eitthvað eins og trúartákn sem hann annaðhvort ber eða er með á heimilinu eða í garðinum. Við gætum sagt: Þú virðist vera trúaður. Ég var einmitt að vonast til að hitta einhvern sem hefur áhuga á trúmálum. Með því að sýna að við virðum trúarskoðanir viðmælandans getum við kannski fundið sameiginlegan grundvöll til að byggja á. Við viljum ekki dæma fólk út frá trúarskoðunum þess. Mörg trúsystkini okkar aðhylltust einu sinni rangar trúarkenningar og voru einlæg í trú sinni.

Reynum að finna sameiginlegan grundvöll til að byggja á.

Guð er „ekki langt frá neinum okkar“ (Post. 17:24–28)

12. Hvernig lagaði Páll sig að áheyrendum sínum?

12 Páll hafði lagt sameiginlegan grundvöll en gat hann byggt á honum þegar hann boðaði trúna? Hann vissi að áheyrendurnir voru menntaðir í grískri heimspeki og þekktu ekki Ritningarnar en hann lagaði sig að þeim á ýmsa vegu. Í fyrsta lagi kynnti hann kenningar Biblíunnar án þess að vitna beint í Ritningarnar. Í öðru lagi talaði hann við áheyrendur sína sem jafningja og notaði stundum fornafnið „við“. Í þriðja lagi vitnaði hann í grískar bókmenntir til að sýna fram á að sumt sem hann kenndi kæmi fram í þeirra eigin ritum. Lítum nú nánar á áhrifaríka ræðu Páls. Hvaða mikilvægu sannindi benti hann á um þann Guð sem Aþeningar þekktu ekki?

13. Hvað útskýrði Páll um uppruna alheimsins og hvert var inntakið í orðum hans?

13 Guð skapaði alheiminn. Páll sagði: „Sá Guð sem gerði heiminn og allt sem í honum er, hann sem er Drottinn himins og jarðar, hann býr ekki í musterum sem menn hafa gert.“ d (Post. 17:24) Alheimurinn varð ekki til fyrir tilviljun. Hinn sanni Guð skapaði allt. (Sálm. 146:6) Dýrð Aþenu og annarra guða og gyðja var háð musterum, helgidómum og ölturum en alvaldur Drottinn himins og jarðar rúmast ekki í musterum sem menn hafa byggt. (1. Kon. 8:27) Inntakið í orðum Páls var greinilegt: Hinn sanni Guð er hafinn yfir öll skurðgoð sem menn hafa gert og öll musteri sem þeir hafa reist. – Jes. 40:18–26.

14. Hvernig sýndi Páll fram á að Guð er ekki háður mönnunum?

14 Guð er ekki háður mönnum. Skurðgoðadýrkendur voru vanir að klæða skurðgoð sín í fínustu föt og ausa yfir þau dýrum gjöfum eða færa þeim mat og drykk – rétt eins og skurðgoðin þyrftu á því að halda! Sumir grísku heimspekinganna sem Páll talaði við hafa þó kannski hugsað sem svo að guð ætti ekki að þurfa neitt frá mönnum. Ef svo var hafa þeir eflaust verið sammála Páli þegar hann sagði að Guð ‚þyrfti ekki á þjónustu manna að halda, eins og hann þarfnaðist einhvers‘. Menn geta reyndar ekki gefið skaparanum neinar efnislegar gjafir. Hann gefur mönnunum öllu heldur það sem þeir þurfa – „líf og andardrátt og alla hluti“, þar á meðal sól, regn og frjósaman jarðveg. (Post. 17:25; 1. Mós. 2:7) Guð, sem gefur okkur allt, er því ekki háður okkur mönnunum.

15. Hvernig nálgaðist Páll viðkvæmt málefni hjá Aþeningum og hvað lærum við af fordæmi hans?

15 Guð skapaði manninn. Aþeningar töldu sig vera æðri fólki sem var ekki af grískum uppruna. En þjóðernis- eða kynþáttahroki samræmist ekki Biblíunni. (5. Mós. 10:17) Páll nálgaðist þetta viðkvæma mál snilldarlega og af nærgætni. Hann hefur eflaust vakið áheyrendur sína til umhugsunar þegar hann sagði: „[Guð] gerði af einum manni allar þjóðir.“ (Post. 17:26) Hér vísar hann í frásögu 1. Mósebókar af Adam, forföður alls mannkyns. (1. Mós. 1:26–28) Þar sem allir menn eiga sér sameiginlegan forföður er enginn kynþáttur eða þjóð annarri æðri. Áheyrendur Páls gátu ekki misskilið þetta. Við getum dregið mikilvægan lærdóm af honum. Við viljum auðvitað vera nærgætin og sanngjörn þegar við boðum trúna en við viljum ekki útvatna sannleika Biblíunnar til að láta hann hljóma betur í eyrum fólks.

16. Hver er tilgangur lífsins?

16 Guð vill að menn eigi náið samband við sig. Þó að heimspekingarnir sem hlustuðu á Pál hefðu lengi rökrætt hver væri tilgangur lífsins höfðu þeir aldrei komist að almennilegri niðurstöðu. En Páll benti þeim á hver tilgangur lífsins væri, það er að menn ‚leituðu Guðs, að þeir þreifuðu sig til hans og fyndu hann en reyndar er hann ekki langt frá neinum okkar‘. (Post. 17:27) Það er alls ekki ómögulegt að kynnast þeim Guði sem Aþeningar þekktu ekki. Í rauninni er hann ekki langt frá þeim sem vilja finna hann og kynnast honum. (Sálm. 145:18) Tökum eftir að Páll notar fornafnið „okkar“ og telur þá sjálfan sig með þeim sem þurfa að ‚leita Guðs‘ og ‚þreifa sig til hans‘.

17, 18. Hvers vegna ættu menn að vilja nálgast Guð og hvað getum við lært af því hvernig Páll höfðar til áheyrenda sinna?

17 Menn ætti að langa til að nálgast Guð. Páll sagði: „Það er honum að þakka að við lifum, hreyfum okkur og erum til.“ Sumir fræðimenn segja að Páll hafi verið að vísa í orð Epímenídesar en hann var krítverskt skáld á sjöttu öld f.Kr. og „gegndi stóru hlutverki í trúarhefðum Aþeninga“. Páll bar líka fram önnur rök fyrir því að menn ættu að vilja nálgast Guð: „Sum af skáldum ykkar hafa sagt: ‚Við erum líka börn hans.‘“ (Post. 17:28) Menn ættu að finna til skyldleika við Guð því að hann skapaði manninn sem allt mannkynið er komið af. Til að höfða til áheyrenda sinna vitnaði Páll beint í grískar bókmenntir sem áheyrendurnir báru eflaust virðingu fyrir. e Miðað við fordæmi Páls gætum við stundum vitnað í sagnfræðiheimildir, alfræðirit eða önnur viðurkennd heimildarrit. Viðeigandi tilvitnun í virta heimild gæti til dæmis hjálpað manneskju sem er ekki vottur að sjá hvaðan ákveðinn falstrúarsiður eða hefð er komin.

18 Páll hefur hingað til miðlað grundvallarsannindum um Guð og sérsniðið ræðu sína að áheyrendum. Hvað vill hann að Aþeningar geri með þessar mikilvægu upplýsingar? Hann segir þeim það berum orðum í framhaldinu.

‚Menn alls staðar skulu iðrast‘ (Post. 17:29–31)

19, 20. (a) Hvernig afhjúpaði Páll hve heimskulegt það væri að tilbiðja skurðgoð? (b) Hvað þurftu áheyrendur Páls að gera?

19 Nú er komið að því að Páll hvetji áheyrendur sína til verka. Hann vísar aftur í tilvitnun sína í grísku skáldin og segir: „Fyrst við erum börn Guðs megum við ekki halda að guðdómurinn sé líkur smíði úr gulli, silfri eða steini sem menn hafa upphugsað og búið til.“ (Post. 17:29) Fyrst Guð skapaði mennina, hvernig getur hann þá verið eins og skurðgoð sem menn hafa búið til? Skynsamleg rök Páls afhjúpa hve heimskulegt er að tilbiðja skurðgoð sem eru mannanna verk. (Sálm. 115:4–8; Jes. 44:9–20) Með því að segja ‚við megum ekki‘ auðveldar Páll áheyrendum sínum að taka við ávítunum.

20 Páll gerði mönnum ljóst að þeir þyrftu að gera eitthvað: „Guð hefur vissulega umborið vanþekkingu liðinna tíma [sem fólst í því að ímynda sér að menn gætu þóknast Guði með því að tilbiðja skurðgoð] en nú boðar hann mönnum alls staðar að allir skuli iðrast.“ (Post. 17:30) Sumir áheyrendur Páls hafa kannski fengið áfall þegar þeir heyrðu hann hvetja fólk til að iðrast. En af ræðu hans var augljóst að þeir áttu líf sitt Guði að þakka og voru því ábyrgir gagnvart honum. Þeir þurftu að leita Guðs, kynnast sannleikanum um hann og laga allt líferni sitt að því. Fyrir Aþeninga þýddi það að þeir þurftu að viðurkenna að skurðgoðadýrkun væri synd og snúa baki við henni.

21, 22. Hvernig lauk Páll ræðu sinni og hvaða þýðingu hefur það sem hann sagði fyrir okkur?

21 Páll lauk ræðu sinni á kröftugum nótum: „[Guð] hefur ákveðið dag þegar hann ætlar að láta mann, sem hann hefur valið, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Og hann hefur gefið öllum tryggingu fyrir því með því að reisa hann upp frá dauðum.“ (Post. 17:31) Dómsdagur – það var sterk ástæða til að leita hins sanna Guðs og finna hann! Páll nafngreinir ekki dómarann. Í staðinn segir hann eitthvað mjög merkilegt um hann: Hann hafði lifað sem maður, dáið og síðan hafði Guð reist hann upp frá dauðum.

22 Þessi niðurlagsorð eru mjög innihaldsrík og hvetjandi fyrir okkur. Við vitum að dómarinn sem Guð hefur valið er Jesús Kristur upprisinn. (Jóh. 5:22) Við vitum líka að dómsdagurinn mun standa í þúsund ár og hann nálgast óðfluga. (Opinb. 20:4, 6) Við óttumst ekki dómsdaginn því að við áttum okkur á að hann hefur óviðjafnanlega blessun í för með sér fyrir þá sem reynast trúfastir. Við höfum tryggingu fyrir því að vonin um dásamlega framtíð rætist. Hún er fólgin í mesta kraftaverki sögunnar – upprisu Jesú Krists.

„Nokkrir … tóku trú“ (Post. 17:32–34)

23. Hver voru viðbrögðin við ræðu Páls?

23 Viðbrögðin við ræðu Páls voru með ýmsu móti. ‚Sumir gerðu gys að‘ þegar þeir heyrðu minnst á upprisu. Aðrir voru kurteisir en tóku enga afstöðu heldur sögðu: „Við viljum heyra meira um þetta seinna.“ (Post. 17:32) En einhverjir brugðust jákvætt við: „Nokkrir fylgdu honum og tóku trú. Þeirra á meðal voru Díónýsíus, sem var dómari við Areopagusdóminn, kona að nafni Damaris og fleiri.“ (Post. 17:34) Viðbrögðin eru svipuð þegar við boðum trúna. Sumir hæðast að okkur og aðrir eru kurteisir en áhugalausir. En það gleður okkur innilega þegar einhver bregst vel við boðskapnum og tekur trú.

24. Hvað getum við lært af ræðu Páls?

24 Við getum lært margt af ræðu Páls um að útskýra málin á rökréttan og sannfærandi hátt og um að laga okkur að áheyrendum. Við lærum einnig að við þurfum að vera þolinmóð og nærgætin við fólk sem er blindað af falstrúarkenningum. En það er líka mikilvægt að útvatna aldrei sannleika Biblíunnar til að friða áheyrendur okkar. Með því að líkja eftir Páli postula getum við orðið færari kennarar þegar við boðum trúna og umsjónarmenn geta orðið betri kennarar í söfnuðinum. Þannig verðum við vel í stakk búin til að hjálpa öðrum ‚að leita Guðs og finna hann‘. – Post. 17:27.

b Sjá rammann „ Epíkúringar og stóumenn“.

c Areopagushæð var norðvestur af Akrópólis en þar kom æðsta ráð Aþenu yfirleitt saman. Heitið „Areopagus“ getur annaðhvort átt við ráðið eða sjálfa hæðina. Fræðimenn eru því ekki á einu máli um hvort farið var með Pál á eða að hæðinni eða hvort hann var leiddur fyrir ráðið annars staðar, ef til vill á torginu.

d Orðið ‚heimur‘ er þýðing gríska orðsins kosmos en Grikkir notuðu það um efnisheiminn. Hugsanlegt er að Páll noti orðið hér í þeirri merkingu til að reyna að halda áfram að ræða við áheyrendur sína á sameiginlegum grundvelli.

e Páll vitnar í ljóðið Fænomena eftir stóuskáldið Aratos. Svipað orðalag er að finna í öðrum grískum verkum, þar á meðal í „Sálmi til Seifs“ eftir stóurithöfundinn Kleanþes.