Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

17. KAFLI

‚Hann rökræddi við þá út frá Ritningunum‘

‚Hann rökræddi við þá út frá Ritningunum‘

Grundvöllur góðrar kennslu; gott fordæmi Berojumanna

Byggt á Postulasögunni 17:1–15

1, 2. Hverjir eru á ferð frá Filippí til Þessaloníku og um hvað eru þeir kannski að hugsa?

 UM STÓRSKORIÐ fjalllendið liggur fjölfarinn vegur hannaður af rómverskum verkfræðingum. Af og til heyrist í ösnum hrína, skröltandi vagnhjólum á steinlögðum veginum og samræðum alls konar ferðamanna, meðal annars hermanna, kaupmanna og iðnaðarmanna. Þrír félagar – þeir Páll, Sílas og Tímóteus – eru á leið eftir þessum vegi frá Filippí til Þessaloníku, en það er rúmlega 130 kílómetra vegalengd. Ferðalagið er ekki auðvelt, sérstaklega ekki fyrir Pál og Sílas. Þeir eru enn í sárum eftir hýðinguna sem þeir fengu í Filippí. – Post. 16:22, 23.

2 Hvernig létta mennirnir sér þessa löngu leið sem er fram undan? Það er alltaf gott að ræða saman. Þeim er ofarlega í huga hve ánægjulegt það var að fangavörðurinn í Filippí og fjölskylda hans skyldu taka trú. Þessi upplifun hefur gert þá enn ákveðnari í að halda áfram að boða orð Guðs. En þegar þeir nálgast hafnarborgina Þessaloníku velta þeir kannski fyrir sér hvernig Gyðingar í borginni eigi eftir að taka þeim. Verður ráðist á þá og verður þeim jafnvel misþyrmt eins og í Filippí?

3. Hvaða gagn getum við haft af fordæmi Páls?

3 Páll lýsti síðar hvernig honum var innanbrjósts þegar hann skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Okkur var misþyrmt og við þjáðumst í Filippí eins og þið vitið, en við tókum í okkur kjark með hjálp Guðs til að flytja ykkur fagnaðarboðskap hans þótt andstaðan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2) Orð Páls gefa til kynna að hann hafi kviðið svolítið fyrir að koma til Þessaloníku, sérstaklega eftir það sem gerðist í Filippí. Geturðu sett þig í spor hans? Finnst þér stundum erfitt að boða fagnaðarboðskapinn? Páll treysti að hann fengi styrk hjá Jehóva til að byggja upp þann kjark sem hann þurfti. Fordæmi Páls getur hjálpað þér að gera slíkt hið sama. – 1. Kor. 4:16.

‚Hann rökræddi út frá Ritningunum‘ (Post. 17:1–3)

4. Hvers vegna er líklegt að Páll hafi dvalið lengur en í þrjár vikur í Þessaloníku?

4 Frásagan segir að Páll hafi boðað trúna í samkunduhúsinu þrjá hvíldardaga meðan hann var í Þessaloníku. Þýðir það að hann hafi aðeins verið þar í þrjár vikur? Ekki endilega. Við vitum ekki hve langur tími leið þar til Páll fór í samkunduhúsið í fyrsta skipti. Af bréfum hans má líka sjá að hann og félagar hans unnu fyrir sér meðan þeir voru í Þessaloníku. (1. Þess. 2:9; 2. Þess. 3:7, 8) Einnig kemur fram að meðan Páll var þar hafi hann tvisvar fengið nauðsynjar frá trúsystkinum í Filippí. (Fil. 4:16) Það er því líklegt að hann hafi dvalið lengur en í þrjár vikur í Þessaloníku.

5. Hvernig reyndi Páll að höfða til fólks?

5 Eftir að hafa tekið í sig kjark til að boða trúna talaði Páll við þá sem voru samankomnir í samkunduhúsinu. Eins og hann var vanur „rökræddi hann við þá út frá Ritningunum. Hann skýrði þær og vísaði í þær til að sanna að Kristur þurfti að þjást og rísa upp frá dauðum og sagði: ‚Þessi Jesús, sem ég boða ykkur, hann er Kristur.‘“ (Post. 17:2, 3) Við tökum eftir að Páll reyndi ekki að spila á tilfinningar áheyrenda heldur höfðaði hann til skynseminnar. Hann vissi að þeir sem sóttu samkunduna þekktu Ritningarnar og virtu þær. En þeir þurftu hjálp til að skilja þær. Páll bar því fram rök og útskýrði og sannaði út frá Ritningunum að Jesús frá Nasaret væri hinn fyrirheitni Messías eða Kristur.

6. Hvernig rökræddi Jesús út frá Ritningunum og hvaða áhrif hafði það?

6 Páll fylgdi fyrirmynd Jesú sem notaði Ritningarnar sem grundvöll að kennslu sinni. Meðan Jesús starfaði á jörð sagði hann fylgjendum sínum til dæmis að samkvæmt Ritningunum ætti Mannssonurinn að þjást, deyja og rísa upp frá dauðum. (Matt. 16:21) Eftir að Jesús reis upp birtist hann lærisveinum sínum. Það eitt var í sjálfu sér sönnun fyrir því að hann hafði sagt sannleikann. En Jesús lét ekki þar við sitja. Sagt er frá dæmi þar sem hann talaði við tvo lærisveina: „Hann byrjaði … á Móse og öllum spámönnunum og skýrði fyrir þeim það sem segir um hann í öllum Ritningunum.“ Hvaða áhrif hafði það? Lærisveinarnir sögðu: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og skýrði Ritningarnar vandlega fyrir okkur?“ – Lúk. 24:13, 27, 32.

7. Af hverju er mikilvægt að byggja það sem við kennum á Biblíunni?

7 Boðskapurinn í orði Guðs er kraftmikill. (Hebr. 4:12) Við byggjum því kennslu okkar á Biblíunni rétt eins og Jesús, Páll og hinir postularnir. Við rökræðum líka við fólk, útskýrum hvað biblíuvers merkja og bendum á sannanir fyrir því sem við kennum með því að opna Biblíuna og sýna fólki hvað hún segir. Boðskapurinn sem við boðum er ekki frá okkur sjálfum. Ef við notum Biblíuna ríkulega auðveldum við fólki að átta sig á að við erum ekki að boða okkar eigin hugmyndir heldur það sem Guð vill kenna okkur. Það er líka gott fyrir sjálf okkur að minna okkur á að boðskapurinn sem við boðum byggist að öllu leyti á orði Guðs. Hann er fullkomlega áreiðanlegur. Þessi vitneskja hjálpar okkur eflaust að vera hugrökk eins og Páll þegar við boðum trúna.

„Sumir … tóku þá trú“ (Post. 17:4–9)

8–10. (a) Hvernig brugðust Þessaloníkumenn við fagnaðarboðskapnum? (b) Hvers vegna öfunduðu sumir Gyðingar Pál? (c) Hvað gerðu Gyðingarnir?

8 Páll hafði þegar upplifað að Jesús fór með rétt mál þegar hann sagði: „Þjónn er ekki æðri húsbónda sínum. Ef menn hafa ofsótt mig munu þeir líka ofsækja ykkur og ef þeir hafa haldið orð mín munu þeir líka halda orð ykkar.“ (Jóh. 15:20) Viðbrögðin voru einmitt á báða vegu í Þessaloníku – sumir tóku fúslega við orðinu en aðrir höfnuðu því. Lúkas segir um þá sem brugðust vel við: „Sumir þeirra [Gyðinganna] tóku þá trú og gengu til liðs við Pál og Sílas og sömuleiðis allmargar áhrifakonur og mikill fjöldi Grikkja sem tilbað Guð.“ (Post. 17:4) Þessir nýju lærisveinar fögnuðu því eflaust að fá hjálp til að skilja Ritningarnar.

9 Þótt sumir kynnu að meta það sem Páll kenndi reiddust aðrir heiftarlega. Sumir Gyðinganna í Þessaloníku öfunduðu Pál af því að honum skyldi takast að sannfæra ‚mikinn fjölda Grikkja‘. Þessum Gyðingum var mikið í mun að snúa fólki til Gyðingatrúar. Þeir höfðu frætt marga heiðna Grikki um Hebresku ritningarnar og fannst þeir tilheyra sér. En nú virtist Páll vera að stela þessum Grikkjum, meira að segja í samkunduhúsinu! Gyðingarnir voru öskureiðir.

„Þeir … vildu færa Pál og Sílas fyrir æstan múginn.“ – Postulasagan 17:5.

10 Lúkas greinir frá því sem gerðist þessu næst: „Gyðingar fylltust öfund og hóuðu saman illmennum sem slæptust á torginu, fengu í lið með sér múg manna og ollu uppþoti í borginni. Þeir réðust inn í hús Jasonar og vildu færa Pál og Sílas fyrir æstan múginn. En þegar þeir fundu þá ekki drógu þeir Jason og nokkra aðra bræður fyrir stjórnendur borgarinnar og hrópuðu: ‚Þessir menn, sem hafa umturnað heimsbyggðinni, eru líka komnir hingað og Jason hefur boðið þeim inn á heimili sitt. Allir þessir menn brjóta gegn tilskipunum keisarans og segja að annar sé konungur og það sé Jesús.‘“ (Post. 17:5–7) Hvaða áhrif hafði þessi skrílsárás á Pál og félaga hans?

11. Um hvað voru Páll og samstarfsmenn hans sakaðir og hvaða tilskipun gætu andstæðingarnir hafa haft í huga? (Sjá neðanmálsgrein.)

11 Æstur múgur er stórhættulegur. Hann æðir stjórnlaust fram eins og bólgin á. Þetta var vopnið sem Gyðingar beittu til að reyna að losa sig við Pál og Sílas. Eftir að hafa valdið uppþoti í borginni reyndu þeir að sannfæra stjórnendur hennar um að þeir hefðu gerst sekir um alvarlegt brot. Önnur ákæran var sú að Páll og hinir sem boðuðu fagnaðarboðskapinn hefðu „umturnað heimsbyggðinni“ þó að það væru ekki þeir sem höfðu valdið uppþotinu í Þessaloníku. Hin ákæran var mun alvarlegri. Gyðingar héldu því fram að trúboðarnir boðuðu annan konung, Jesú, og brytu þar með gegn tilskipunum keisarans. a

12. Hvað sýnir að ásakanirnar á hendur kristnum mönnum í Þessaloníku hefðu getað haft alvarlegar afleiðingar?

12 Við munum að trúarleiðtogarnir báru svipaðar sakir á Jesú. Þeir sögðu við Pílatus: „Við höfum komist að raun um að þessi maður snýr þjóð okkar gegn yfirvöldum … og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“ (Lúk. 23:2) Pílatus dæmdi Jesú til dauða. Kannski óttaðist hann að annars myndi keisarinn álykta sem svo að hann léti það viðgangast að menn gerðust sekir um landráð. Ásakanirnar á hendur kristnum mönnum í Þessaloníku hefðu sömuleiðis getað haft alvarlegar afleiðingar. Í heimildarriti segir: „Þetta var háalvarleg ásökun. ‚Ef minnstu grunsemdir vöknuðu um að einhver sæti á svikráðum við keisarann átti hann að öllum líkindum dauðadóm yfir höfði sér.‘“ Áttu þessi illu áform eftir að bera árangur?

13, 14. (a) Af hverju tókst múginum ekki að stöðva boðunina? (b) Hvernig fylgdi Páll leiðbeiningum Jesú um varkárni og hvernig getum við líkt eftir honum?

13 Múginum tókst ekki að stöðva boðunina í Þessaloníku. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að Páll og Sílas fundust ekki. Stjórnendur borgarinnar virðast ekki heldur hafa verið sannfærðir um að ákærurnar ættu við rök að styðjast. Eftir að hafa krafist ‚fullnægjandi tryggingar‘ slepptu þeir Jasoni og hinum bræðrunum sem höfðu verið leiddir fyrir þá. (Post. 17:8, 9) Páll fylgdi ráðum Jesú um að ‚vera varkár eins og höggormur en saklaus eins og dúfa‘. (Matt. 10:16) Þannig forðaðist hann óþarfa hættur svo að hann gæti haldið boðuninni áfram annars staðar. Páll var greinilega ekki óvarkár þó að hann væri hugrakkur. Hvernig getum við líkt eftir honum?

14 Á okkar dögum hafa prestar kristna heimsins oft stofnað til skrílsárása á votta Jehóva. Þeir hafa sakað vottana um undirróður og landráð og snúið yfirvöldum gegn þeim. Ofsóknirnar eru oft sprottnar af öfund, rétt eins og á fyrstu öld. Hvað sem því líður setja sannkristnir menn sig ekki í óþarfa hættu. Ef hægt er forðumst við átök við reitt fólk sem tekur ekki rökum. Við reynum frekar að halda starfi okkar áfram með friði og snúa kannski aftur á staðinn þegar ástandið hefur róast.

Þeir voru „göfuglyndari“ (Post. 17:10–15)

15. Hvernig brugðust Berojumenn við fagnaðarboðskapnum?

15 Í varúðarskyni voru Páll og Sílas sendir til Beroju en leiðin var um 65 kílómetrar. Þegar þangað kom fór Páll í samkunduna og talaði við þá sem voru samankomnir þar. Það hlýtur að hafa glatt hann að finna fólk sem vildi hlusta. Lúkas skrifar að Gyðingar í Beroju hafi verið „göfuglyndari en þeir sem bjuggu í Þessaloníku því að þeir tóku við orðinu af mesta áhuga og rannsökuðu Ritningarnar daglega til að kanna hvort það sem þeir heyrðu væri rétt“. (Post. 17:10, 11) Er Páll að gagnrýna þá sem höfðu tekið við sannleikanum í Þessaloníku? Alls ekki. Hann skrifaði þeim síðar: „Þess vegna þökkum við Guði stöðugt því að þegar þið tókuð við orði Guðs sem þið heyrðuð frá okkur tókuð þið ekki við því sem orði manna heldur sem orði Guðs, eins og það sannarlega er, og það sýnir áhrifamátt sinn í ykkur sem trúið.“ (1. Þess. 2:13) Hvers vegna er þá sagt að Gyðingar í Beroju hafi verið sérstaklega göfuglyndir?

16. Hvers vegna er réttilega sagt að Berojumenn hafi verið göfuglyndir?

16 Berojumenn voru hvorki tortryggnir né gagnrýnir um of þegar þeir heyrðu þessi nýju sannindi, en þeir voru ekki heldur trúgjarnir. Þeir hlustuðu vel á það sem Páll hafði fram að færa. Síðan sannreyndu þeir það sem þeir höfðu lært með því að rannsaka Ritningarnar sem Páll hafði veitt þeim skilning á. Þeir notuðu ekki aðeins hvíldardaginn heldur rannsökuðu orð Guðs daglega. Þeir gerðu það „af mesta áhuga“ og fullvissuðu sig um að það sem þeir voru að læra kæmi heim og saman við Ritningarnar. Þeir voru líka nógu auðmjúkir til að gera nauðsynlegar breytingar og ‚margir þeirra tóku trú‘. (Post. 17:12) Það er engin furða að Lúkas skuli hafa kallað þá göfuglynda.

17. Af hverju er fordæmi Berojumanna hrósvert og hvernig getum við fylgt því jafnvel löngu eftir að við höfum tekið trú?

17 Berojumönnum datt örugglega ekki í hug að sagt yrði frá viðbrögðum þeirra við fagnaðarboðskapnum í orði Guðs og að litið yrði á göfuglyndi þeirra sem fyrirmynd allt fram á okkar daga. Þeir gerðu einmitt það sem Páll hafði vonast til og Jehóva Guð vildi að þeir gerðu. Við hvetjum líka fólk til að gera þetta – að rannsaka Biblíuna vandlega og byggja trú sína tryggilega á henni. En þurfum við ekki lengur að vera námfús eftir að við höfum tekið trú? Jú, það verður sífellt mikilvægara að þiggja fræðslu frá Jehóva og vera fljót að fara eftir því sem við lærum. Þannig leyfum við Jehóva að móta okkur og þjálfa til að gera vilja sinn. (Jes. 64:8) Ef við gerum það komum við að góðu gagni í þjónustu hans og gleðjum hann.

18, 19. (a) Hvers vegna fór Páll frá Beroju en hvernig hélt hann ótrauður áfram? (b) Hverjum átti Páll að boða trúna í framhaldi af þessu og hvar?

18 Páll dvaldist ekki lengi í Beroju. Við lesum: „Þegar Gyðingar í Þessaloníku fréttu að Páll væri einnig að boða orð Guðs í Beroju komu þeir þangað til að æsa upp fólkið og valda ólgu. Bræðurnir sendu Pál samstundis af stað til sjávar en Sílas og Tímóteus urðu báðir eftir. Þeir sem fylgdu Páli fóru með honum alla leið til Aþenu en sneru svo til baka með boð frá honum um að Sílas og Tímóteus skyldu koma til hans eins fljótt og hægt væri.“ (Post. 17:13–15) Óvinir fagnaðarboðskaparins létu ekki deigan síga! Þeir létu sér ekki nægja að hrekja Pál frá Þessaloníku heldur fóru á eftir honum til Beroju og reyndu að valda sama usla þar – en án árangurs. Páll vissi að boðunarsvæðið var víðáttumikið og hélt einfaldlega áfram annars staðar. Við skulum líka vera staðráðin í að láta ekki andstæðinga koma í veg fyrir að við boðum trúna.

19 Eftir að hafa vitnað ítarlega fyrir Gyðingum í Þessaloníku og Beroju skildi Páll betur en nokkru sinni fyrr hversu mikilvægt væri að boða trúna af hugrekki og rökræða út frá Ritningunum. Við skiljum það líka. En nú átti Páll að boða gerólíkum hópi trúna – heiðnu fólki í Aþenu. Hvernig myndi honum ganga þar? Við skoðum það í næsta kafla.

a Að sögn fræðimanns var keisaraleg tilskipun í gildi á þeim tíma þess efnis að bannað væri að spá fyrir um „nýjan konung eða ríki, sérstaklega konung eða ríki sem tæki við eða dæmdi núverandi keisara“. Óvinir Páls hafa ef til vill rangfært boðskap hans þannig að hann bryti gegn þessari tilskipun. Sjá rammann „ Keisararnir og Postulasagan“.