Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. KAFLI

‚Farið og gerið fólk að lærisveinum‘

‚Farið og gerið fólk að lærisveinum‘

Yfirlit yfir Postulasöguna og tengsl hennar við okkar tíma

1–6. Nefndu dæmi um hvernig vottar boða trúna við ýmsar aðstæður.

 REBECCA, ungur vottur Jehóva í Gana, leit á skólann sem sitt eigið boðunarsvæði. Hún var alltaf með biblíutengd rit í skólatöskunni. Í frímínútum var hún vakandi fyrir tækifærum til að vitna fyrir skólafélögum. Hún aðstoðaði nokkra bekkjarfélaga við biblíunám.

2 Á eynni Madagaskar undan strönd Austur-Afríku voru tveir brautryðjendur vanir að ganga um 25 kílómetra leið í steikjandi hita til að aðstoða áhugasama í fjarlægu þorpi við biblíunám.

3 Vottar í Paragvæ smíðuðu fljótabát ásamt sjálfboðaliðum frá 15 löndum til að ná til fólks meðfram Paragvæ- og Paranafljótinu. Báturinn er 40 tonn og tekur 12 manns. Kappsamir boðberar nota þetta fljótandi heimili til að boða fagnaðarboðskapinn á svæðum sem annars væri ekki hægt að ná til.

4 Vottar í Alaska á norðurhjara veraldar gripu einstakt tækifæri til að boða trúna yfir ferðamannatímann að sumri. Þegar hlýnaði í veðri komu skemmtiferðaskip með hópa ferðamanna af mörgum þjóðernum. Þar tóku vottar á hafnarsvæðunum á móti þeim með biblíutengd rit á fjölda tungumála. Á sama svæði hefur flugvél komið að góðum notum til að ná til einangraðra þorpa og koma fagnaðarboðskapnum á framfæri við samfélög aleúta, atapaska, tsimshia og tlingíta.

5 Larry sem býr í Texas í Bandaríkjunum átti sérstakt starfssvæði – hjúkrunarheimilið þar sem hann bjó. Hann lét ekki deigan síga þótt hann hefði orðið fyrir slysi og væri bundinn við hjólastól. Hann sagði öðrum frá boðskapnum um Guðsríki, þar á meðal voninni um að hann geti gengið á nýjan leik þegar það tekur völd. – Jes. 35:5, 6.

6 Hópur votta lagði upp í þriggja daga ferðalag með ferju frá Mandalay til norðurhluta Mjanmar til að sækja svæðismót. Þeim var mikið í mun að boða fagnaðarboðskapinn og voru með biblíutengd rit til að bjóða samferðafólkinu. Þegar ferjan hafði viðdvöl í bæjum eða þorpum fóru þeir í land og flýttu sér um byggðarlagið til að bjóða fólki rit. Nýir farþegar komu um borð svo að „nýtt boðunarsvæði“ beið vottanna þegar þeir stigu aftur á skipsfjöl.

7. Á hvaða hátt vitna þjónar Jehóva um ríki Guðs og hvert er markmið þeirra?

7 Ötulir þjónar Jehóva um allan heim ‚vitna ítarlega um ríki Guðs‘ eins og bræðurnir og systurnar sem nefnd eru í þessum dæmum. (Post. 28:23) Þeir ganga hús úr húsi, taka fólk tali á götum úti, skrifa bréf og nota símann. Þeir eru vakandi fyrir tækifærum til að segja frá ríki Guðs þegar þeir ferðast með strætó, ganga um almenningsgarða eða taka sér hlé í vinnunni. Aðferðirnar geta verið breytilegar en markmiðið er hið sama – að boða fagnaðarboðskapinn alls staðar þar sem fólk er að finna. – Matt. 10:11.

8, 9. (a) Af hverju er það hreint kraftaverk að boðunin skuli ná um allan heim? (b) Hvaða spurning vaknar og hvað þurfum við að gera til að fá svar við henni?

8 Tilheyrir þú, kæri lesandi, þeim fjölmenna hópi sem boðar fagnaðarboðskapinn í meira en 235 löndum? Þá áttu þátt í því ánægjulega verkefni að færa fólki um allan heim fagnaðarboðskapinn. Það sem hefur verið áorkað í boðuninni um allan heim er ekkert annað en kraftaverk. Þrátt fyrir gríðarlegar hindranir og áskoranir – jafnvel bönn og beinar ofsóknir – vitna vottar Jehóva ítarlega um ríki Guðs fyrir fólki af öllum þjóðum.

9 Það er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna ekkert hefur getað hindrað framgang boðunarinnar, ekki einu sinni tilraunir Satans til að stöðva hana. Til að fá svar við því þurfum við að hverfa aftur til fyrstu aldar. Sannleikurinn er sá að starf votta Jehóva nú á tímum er framhald af starfinu sem hófst á fyrstu öld.

Umfangsmikið verkefni

10. Hvaða starfi helgaði Jesús krafta sína en hvað vissi hann?

10 Stofnandi kristna safnaðarins, Jesús Kristur, helgaði sig því að boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. Það var aðalstarf hans. Hann sagði einu sinni: „Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Jesús vissi að hann gæti ekki sjálfur lokið því starfi sem hann hleypti af stokkunum. Skömmu áður en hann dó sagði hann að boðskapurinn um ríkið yrði boðaður „öllum þjóðum“. (Mark. 13:10) En hvernig yrði það gert og hverjir myndu gera það?

‚Farið og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum.‘ – Matteus 28:19.

11. Hvaða mikilvæga verkefni fól Jesús lærisveinum sínum og hvaða stuðning fengu þeir til þess?

11 Eftir dauða sinn og upprisu birtist Jesús lærisveinum sínum og fól þeim þetta mikilvæga verkefni: „Farið … og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum, skírið það í nafni föðurins, sonarins og heilags anda og kennið því að halda öll fyrirmæli mín. Og munið að ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ (Matt. 28:19, 20) Orðin „ég er með ykkur“ gefa til kynna að hann myndi styðja lærisveinana í boðuninni og kennslunni. Þeir myndu þurfa á þessum stuðningi að halda því að Jesús hafði sagt að ‚allar þjóðir myndu hata þá‘. (Matt. 24:9) Lærisveinarnir gátu líka reitt sig á stuðning úr annarri átt. Rétt áður en Jesús fór til himna sagði hann að heilagur andi myndi veita þeim kraft til að vera vottar hans „til endimarka jarðar“. – Post. 1:8.

12. Hvaða mikilvægu spurningar vakna og af hverju er áríðandi að vita svörin?

12 Nú vakna mikilvægar spurningar: Tóku postular Jesú og aðrir lærisveinar á fyrstu öld þetta verkefni alvarlega? Vitnaði þessi tiltölulega fámenni hópur karla og kvenna ítarlega um ríki Guðs þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir? Fengu þau stuðning Jehóva og heilags anda í því starfi sínu að gera fólk að lærisveinum? Þessum spurningum og öðrum er svarað í Postulasögunni. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að vita svörin? Vegna þess að Jesús lofaði að verkinu sem hann fól fylgjendum sínum yrði haldið áfram ‚þar til þessi heimsskipan endaði‘. Allir sannkristnir menn hafa því fengið þetta verkefni, þar á meðal við sem lifum á endalokatímanum. Við höfum því brennandi áhuga á þeirri frásögu sem Postulasagan geymir.

Yfirlit yfir Postulasöguna

13, 14. (a) Hver skrifaði Postulasöguna og á hvaða heimildum byggði hann hana? (b) Frá hverju er sagt í Postulasögunni?

13 Hver skrifaði Postulasöguna? Hann er hvergi nafngreindur í bókinni en af inngangsorðunum má sjá að það var sá hinn sami og skrifaði Lúkasarguðspjall. (Lúk. 1:1–4; Post. 1:1, 2) Frá fornu fari hefur því verið talið að Lúkas, „læknirinn kæri“ sem var jafnframt nákvæmur sagnaritari, hafi skrifað Postulasöguna. (Kól. 4:14) Bókin spannar um 28 ár, frá því að Jesús steig upp til himna árið 33 þar til Páll postuli sat í fangelsi í Róm um árið 61. Sú staðreynd að Lúkas talar ýmist um „þá“ eða „okkur“ í frásögn sinni bendir til þess að hann hafi verið viðstaddur marga af þeim atburðum sem hann lýsir. (Post. 16:8–10; 20:5; 27:1) Lúkas var vandvirkur sagnaritari og hefur því eflaust fengið upplýsingar beint frá Páli, Barnabasi, Filippusi og öðrum sem nefndir eru í frásögunni.

14 Frá hverju er sagt í Postulasögunni? Í guðspjallinu hafði Lúkas skrifað um það sem Jesús sagði og gerði. En í Postulasögunni greinir hann frá því sem fylgjendur Jesú sögðu og gerðu. Postulasagan fjallar um karla og konur sem unnu stórkostleg afrek þó svo að mörg þeirra væru „ómenntaðir almúgamenn“ að mati þeirra sem stóðu fyrir utan. (Post. 4:13) Í stuttu máli segir þessi innblásna frásaga okkur hvernig kristni söfnuðurinn var stofnaður og hvernig hann óx. Postulasagan lýsir því hvernig kristnir menn á fyrstu öld boðuðu trúna. Hún segir frá aðferðum þeirra og hugarfari. (Post. 4:31; 5:42) Hún dregur fram hvaða hlutverki heilagur andi gegndi við að breiða út fagnaðarboðskapinn. (Post. 8:29, 39, 40; 13:1–3; 16:6; 18:24, 25) Bókin undirstrikar megininntak Biblíunnar sem er að ríki Guðs í höndum Krists helgi nafn Guðs. Hún lýsir einnig ótrúlegri útbreiðslu fagnaðarboðskaparins þrátt fyrir harða andstöðu. – Post. 8:12; 19:8; 28:30, 31.

15. Hvaða gagn höfum við af því að skoða Postulasöguna?

15 Það er bæði spennandi og trústyrkjandi að rannsaka Postulasöguna. Það snertir okkur djúpt að hugleiða hve hugrakkir og ákafir fylgjendur Krists á fyrstu öld voru. Það er okkur hvatning til að líkja eftir trú þeirra. Þá erum við betur í stakk búin að sinna verkefni okkar að ‚fara og gera fólk að lærisveinum‘. Bókin sem þú ert að lesa er samin til að hjálpa þér að kafa ofan í Postulasöguna.

Hjálpargagn við biblíunám

16. Hvert er markmiðið með útgáfu þessarar bókar?

16 Hvert er markmiðið með útgáfu þessarar bókar? Það er þríþætt: (1) að styrkja þá sannfæringu okkar að Jehóva styðji boðun fagnaðarboðskaparins og kennsluna með heilögum anda sínum, (2) að örva áhugann á boðuninni með því að skoða fordæmi fylgjenda Krists á fyrstu öld og (3) að auka virðingu okkar fyrir söfnuði Jehóva og þeim sem fara með forystuna í boðuninni og hafa umsjón með söfnuðunum.

17, 18. Hvernig er þessi bók byggð upp og hvað getur reynst gagnlegt við biblíunám?

17 Hvernig er bókin byggð upp? Henni er skipt í átta hluta og hver og einn tekur fyrir ákveðinn part af Postulasögunni. Markmiðið er ekki að fara yfir Postulasöguna vers fyrir vers heldur að draga lærdóm af þeim atburðum sem hún segir frá og sýna okkur fram á hvernig við getum tekið til okkar það sem við lærum. Í upphafi hvers kafla er bent á hver sé kjarni kaflans og vísað er í þau vers Postulasögunnar sem um er rætt í kaflanum.

18 Það er fleira í þessari bók sem getur hjálpað okkur við sjálfsnám í Biblíunni. Fallegar myndir lýsa spennandi atburðum í Postulasögunni. Þær auðvelda þér að sjá atburðina fyrir þér. Í mörgum af köflunum eru rammagreinar með gagnlegu ítarefni. Í sumum þeirra er lýst biblíupersónu sem er verðug eftirbreytni. Í öðrum eru upplýsingar um annað fólk eða um staði, atburði og siði sem nefndir eru í Postulasögunni.

Boðaðu trúna af ákafa á starfssvæði þínu.

19. Hvaða sjálfsrannsókn ættum við að gera af og til?

19 Þessi bók getur hjálpað þér að líta í eigin barm. Óháð því hve lengi þú hefur boðað fagnaðarboðskapinn er gott að staldra við af og til og velta fyrir þér hvernig þú forgangsraðar og hvernig þú lítur á boðunina. (2. Kor. 13:5) Spyrðu þig hvort þú sért jafn ákafur í boðuninni og þú varst áður. (1. Kor. 7:29–31) Boðarðu fagnaðarboðskapinn af sannfæringu og eldmóði? (1. Þess. 1:5, 6) Tekurðu eins mikinn þátt og þú getur í boðuninni og kennslunni? – Kól. 3:23.

20, 21. Hvers vegna er verkefni okkar áríðandi og hvað ættum við að gera?

20 Gleymum aldrei að við höfum fengið mikilvægt verkefni – að boða fagnaðarboðskapinn og gera fólk að lærisveinum. Það liggur meira á með hverjum deginum sem líður. Endir þessa heims nálgast óðfluga. Aldrei fyrr hafa jafn mörg mannslíf verið í húfi. Við vitum ekki hve margir hafa rétt hugarfar og eiga eftir að taka við boðskapnum. (Post. 13:48) En það er ábyrgð okkar að hjálpa þeim áður en það er of seint. – 1. Tím. 4:16.

21 Þess vegna er mikilvægt að líkja eftir áköfum boðberum fyrstu aldar. Láttu þessa bók hvetja þig til að boða fagnaðarboðskapinn af enn meira kappi og hugrekki. Og megi hún vera þér sterk hvatning til að halda áfram að ‚vitna ítarlega um ríki Guðs‘. – Post. 28:23.