5. KAFLI
„Okkur ber að hlýða Guði“
Postularnir taka afstöðu sem er öllum sannkristnum mönnum fyrirmynd
Byggt á Postulasögunni 5:12–6:7
1–3. (a) Af hverju eru postularnir leiddir fyrir Æðstaráðið og um hvað snýst málið í raun? (b) Af hverju höfum við brennandi áhuga á afstöðu postulanna?
REIÐIN sýður í dómurum Æðstaráðsins. Postular Jesú hafa verið dregnir fyrir hæstarétt Gyðinga. Af hvaða ástæðu? Jósef Kaífas, æðstiprestur og forseti Æðstaráðsins, er þungorður þegar hann ávarpar þá: „Við harðbönnuðum ykkur að halda áfram að kenna í þessu nafni.“ Kaífas vill ekki einu sinni nefna Jesú á nafn. Hann heldur áfram: „Samt hafið þið fyllt Jerúsalem með boðskap ykkar og ætlist til að við tökum á okkur sökina á dauða þessa manns.“ (Post. 5:28) Skilaboðin eru skýr: Hættið þessari boðun, annars fáið þið að kenna á því!
2 Hvernig ætli postularnir bregðist við? Þeir höfðu fengið umboðið til að boða fagnaðarboðskapinn frá Jesú og hann hafði vald sitt frá Guði. (Matt. 28:18–20) Láta postularnir ótta við menn ná tökum á sér? Láta þeir þagga niður í sér? Eða hafa þeir hugrekki til að standa gegn þessum mönnum og halda boðuninni áfram? Í hnotskurn er málið þetta: Ætla þeir að hlýða Guði eða mönnum? Pétur postuli talar hiklaust fyrir munn postulanna allra. Orð hans eru ótvíræð og lýsa hugrekki.
3 Við sem erum sannkristin höfum brennandi áhuga á því hvernig postularnir brugðust við hótunum Æðstaráðsins. Fyrirmælin um að boða trúna ná líka til okkar. Við megum líka búast við andstöðu þegar við sinnum þessu verkefni sem Guð hefur falið okkur. (Matt. 10:22) Andstæðingar reyna ef til vill að takmarka eða banna starf okkar. Hvað gerum við þá? Við getum lært af afstöðu postulanna og þeim aðstæðum sem leiddu til þess að þeir voru dregnir fyrir Æðstaráðið. a
‚Engill Jehóva opnaði fangelsisdyrnar‘ (Post. 5:12–21a)
4, 5. Af hverju voru Kaífas og saddúkearnir „fullir öfundar“?
4 Við munum að Pétri og Jóhannesi hafði áður verið skipað að hætta að boða trúna og þeir höfðu svarað: „Við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ (Post. 4:20) Pétur, Jóhannes og hinir postularnir héldu áfram að boða trúna í musterinu eftir þessi átök við Æðstaráðið. Postularnir unnu mikil kraftaverk svo sem að lækna veika og reka út illa anda. Þeir gerðu það „í súlnagöngum Salómons“ sem voru austan megin við musterið en þar söfnuðust Gyðingar oft saman. Sumir virðast jafnvel hafa læknast við það að skugginn af Pétri féll á þá. Margir sem læknuðust líkamlega tóku líka við boðskapnum sem veitti annars konar lækningu. Það varð til þess að „enn fleiri fóru að trúa á Drottin, mikill fjöldi bæði karla og kvenna“. – Post. 5:12–15.
5 Kaífas og saddúkearnir, sértrúarflokkurinn sem hann tilheyrði, voru „fullir öfundar“ og létu varpa postulunum í fangelsi. (Post. 5:17, 18) Hvers vegna voru saddúkearnir svona reiðir? Postularnir kenndu að Jesús væri risinn upp en saddúkear trúðu ekki á upprisu. Postularnir sögðu að menn björguðust ekki nema þeir tryðu á Jesú en saddúkear óttuðust harkaleg viðbrögð frá Róm ef fólk myndi líta á Jesú sem leiðtoga sinn. (Jóh. 11:48) Það er engin furða að saddúkearnir voru staðráðnir í að þagga niður í postulunum.
6. Hverjir eru helstu hvatamenn þess að þjónar Jehóva séu ofsóttir og af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart?
6 Nú á dögum eru það líka trúarlegir andstæðingar sem eru helstu hvatamenn þess að þjónar Jehóva séu ofsóttir. Oft reyna þeir að hafa áhrif á stjórnvöld og fjölmiðla í þeim tilgangi að þagga niður í okkur. Ætti það að koma okkur á óvart? Nei, boðskapur okkar afhjúpar falstrúarbrögðin. Þegar einlægt fólk tekur við sannleika Biblíunnar losnar það úr fjötrum óbiblíulegra kenninga og siða. (Jóh. 8:32) Er þá nokkur furða að boðskapur okkar verður oft til þess að trúarleiðtogar fyllast öfund og hatri?
7, 8. Hvaða áhrif hafa fyrirmæli engilsins eflaust haft á postulana og hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?
7 Meðan postularnir sátu í fangelsi og biðu réttarhaldanna veltu þeir kannski fyrir sér hvort þeir myndu deyja píslarvættisdauða af hendi óvina sinna. (Matt. 24:9) En um nóttina gerðist eitthvað mjög óvænt – ‚engill Jehóva opnaði fangelsisdyrnar‘. b (Post. 5:19) Engillinn gaf þeim síðan skýr fyrirmæli: „Farið í musterið og haldið áfram að flytja fólkinu boðskapinn.“ (Post. 5:20) Þessi fyrirmæli hafa eflaust fullvissað postulana um að þeir hefðu verið að gera hið rétta. Trúlega hafa orð engilsins líka styrkt þá til að vera staðfastir hvað sem á dyndi. Postularnir voru fullir trúar og hugrekkis og „fóru í musterið í dögun og tóku að kenna“. – Post. 5:21.
8 Við ættum öll að spyrja okkur: Hefði ég næga trú og hugrekki til að halda áfram að boða trúna við svipaðar aðstæður? Við vitum að englar styðja okkur og leiðbeina þegar við ‚vitnum ítarlega um ríki Guðs‘. Það veitir okkur mikinn styrk. – Post. 28:23; Opinb. 14:6, 7.
„Okkur ber að hlýða Guði frekar en mönnum“ (Post. 5:21b–33)
9–11. Hvernig brugðust postularnir við þegar Æðstaráðið krafðist þess að þeir hættu boðuninni og hvernig er það sannkristnum mönnum fyrirmynd?
9 Kaífas og hinir dómarar Æðstaráðsins voru nú tilbúnir til að taka á postulunum. Ráðið veit ekki af því sem hafði gerst í fangelsinu og sendir varðmenn til að sækja fangana. Við getum rétt ímyndað okkur undrun varðmannanna þegar þeir uppgötva að fangarnir eru horfnir þó að fangelsið sé lokað og læst og ‚verðirnir hafi staðið við dyrnar‘. (Post. 5:23) Varðforingi musterisins kemst fljótlega að raun um að postularnir eru komnir aftur í musterið og vitna um Jesú Krist – en það var einmitt þess vegna sem þeim hafði verið varpað í fangelsi! Varðforinginn og menn hans flýta sér til musterisins til að sækja fangana og leiða þá fyrir Æðstaráðið.
10 Eins og lýst er í byrjun kaflans höfðu fokvondir trúarleiðtogarnir skipað postulunum að hætta að boða trúna. Hvernig brugðust postularnir við? Pétur talaði hugrakkur fyrir munn þeirra allra og sagði: „Okkur ber að hlýða Guði sem stjórnanda frekar en mönnum.“ (Post. 5:29, neðanmáls) Með þessu gáfu postularnir sannkristnum mönnum um ókomnar aldir gott fordæmi. Jarðneskir stjórnendur eiga rétt á því að þeim sé hlýtt en fyrirgera þeim rétti sínum þegar þeir banna það sem Guð krefst eða krefjast þess sem Guð bannar. Þó að yfirvöld banni boðunina getum við ekki hætt að sinna verkefninu sem Guð fól okkur, að boða fagnaðarboðskapinn. (Rómv. 13:1) Við reynum þá frekar að vitna ítarlega um ríki Guðs svo minna beri á.
11 Það kemur ekki á óvart að dómararnir skyldu missa þolinmæðina og verða öskureiðir þegar þeir heyrðu svar postulanna. Nú voru þeir ákveðnir í að ‚ryðja postulunum úr vegi‘. (Post. 5:33) Píslarvættisdauði virtist blasa við þessum hugrökku og kappsömu vottum. En þá barst þeim hjálp úr óvæntri átt.
Post. 5:34–42)
‚Þið getið ekki stöðvað þá‘ (12, 13. (a) Hvað ráðlagði Gamalíel félögum sínum og hvað gerðu þeir? (b) Hvernig getur Jehóva skorist í leikinn í þágu fólks síns og hvað getum við verið viss um ef hann leyfir að við ‚þjáumst fyrir að gera rétt‘?
12 Gamalíel, ‚lagakennari sem allir virtu mikils,‘ tók nú til máls. c Þessi lögfróði maður hlýtur að hafa verið hátt skrifaður meðal félaga sinna því að hann tók frumkvæðið og ‚skipaði jafnvel að farið yrði með postulana út um stund‘. (Post. 5:34) Hann nefndi dæmi um uppreisnir sem höfðu fljótlega farið út um þúfur eftir að forsprakkarnir dóu og hvatti réttinn til að vera þolinmóður og umburðarlyndur við postulana því að leiðtogi þeirra, Jesús, væri einmitt nýdáinn. Rök Gamalíels voru sannfærandi: „Látið þessa menn í friði og skiptið ykkur ekki af þeim. Ef hugmyndir þeirra eða verk eru frá mönnum verður þetta að engu en ef það er frá Guði getið þið ekki stöðvað þá. Gætið ykkar, annars getur svo farið að þið berjist gegn Guði sjálfum.“ (Post. 5:38, 39) Dómararnir fóru að ráðum hans en létu samt hýða postulana og „bönnuðu þeim að tala í nafni Jesú“. – Post. 5:40.
13 Jehóva getur látið hátt setta menn eins og Gamalíel tala máli þjóna sinna nú á dögum, rétt eins og hann gerði þá. (Orðskv. 21:1) Hann getur beitt anda sínum til að knýja valdhafa, dómara eða löggjafa til að fara að vilja sínum. (Neh. 2:4–8) En ef hann leyfir að við ‚þjáumst fyrir að gera rétt‘ getum við samt verið viss um tvennt. (1. Pét. 3:14) Í fyrsta lagi getur Guð gefið okkur kraft til að halda út. (1. Kor. 10:13) Í öðru lagi geta andstæðingar „ekki stöðvað“ verk hans. – Jes. 54:17.
14, 15. (a) Hvernig brugðust postularnir við þegar þeir voru hýddir og hvers vegna? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að þjónar Jehóva halda út með gleði.
14 Misstu postularnir kjarkinn eða dró úr ákafanum hjá þeim þegar þeir voru hýddir? Engan veginn! ‚Þeir fóru glaðir burt frá Æðstaráðinu.‘ (Post. 5:41) Hvers vegna voru þeir glaðir? Varla yfir sársaukanum sem fylgdi hýðingunni. Þeir glöddust vegna þess að þeir vissu að þeir höfðu verið ofsóttir fyrir að vera ráðvandir Jehóva og fyrir að feta í fótspor Jesú, fyrirmyndar sinnar. – Matt. 5:11, 12.
15 Við höldum út með gleði þegar við þjáumst vegna fagnaðarboðskaparins, rétt eins og trúsystkini okkar á fyrstu öld. (1. Pét. 4:12–14) Við höfum auðvitað enga ánægju af hótunum, ofsóknum eða fangavist. En það veitir okkur djúpstæða gleði að vera trúföst. Tökum Henryk Dornik sem dæmi. Um árabil mátti hann þola illa meðferð af hendi alræðisstjórna. Í ágúst 1944 ákváðu yfirvöld að senda hann og bróður hans í fangabúðir. Andstæðingarnir sögðu: „Það er ekki hægt að þvinga þá til nokkurs. Það veitir þeim gleði að vera píslarvottar.“ Henryk útskýrði: „Þó að ég hefði enga löngun til að vera píslarvottur veitti það mér gleði að þjást með reisn og hugrekki af hollustu við Jehóva.“ – Jak. 1:2–4.
16. Hvernig sýndu postularnir að þeir voru ákveðnir í að vitna ítarlega og hvernig líkjum við eftir boðunaraðferð þeirra?
16 Postularnir sóuðu ekki tímanum heldur tóku strax að boða trúna á ný. „Þeir fóru daglega í musterið og hús úr húsi“ og héldu ótrauðir áfram að „boða fagnaðarboðskapinn um Krist“. d (Post. 5:42) Þessir kappsömu boðberar voru staðráðnir í að vitna ítarlega. Tökum eftir að þeir fóru heim til fólks til að boða því trúna, rétt eins og Jesús hafði sagt þeim að gera. (Matt. 10:7, 11–14) Það var eflaust þannig sem þeim tókst að fylla Jerúsalem með boðskap sínum. Vottar Jehóva nú á dögum eru þekktir fyrir að fylgja boðunaraðferð postulanna. Með því að banka upp á hjá öllum á starfssvæði okkar sýnum við að við erum vandvirk í starfi okkar og gefum öllum tækifæri til að heyra fagnaðarboðskapinn. Hefur Jehóva blessað boðunina hús úr húsi? Svo sannarlega! Milljónir manna hafa tekið við boðskapnum um ríkið núna á endalokatímanum og margir heyrðu hann fyrst þegar vottur bankaði upp á hjá þeim.
Hæfir menn til að annast ‚mikilvægt verkefni‘ (Post. 6:1–6)
17–19. Hvaða mál kom upp og hvað gerðu postularnir til að leysa það?
17 Þessi nýmyndaði söfnuður stóð nú frammi fyrir lúmskri hættu sem kom innan frá. Hver var hún? Margir af lærisveinunum sem létu skírast voru gestkomandi í Jerúsalem og vildu læra meira áður en þeir sneru heim. Lærisveinarnir sem bjuggu í Jerúsalem gáfu fúslega fé til að sjá þeim fyrir mat og öðru sem þeir þurftu. (Post. 2:44–46; 4:34–37) En nú kom upp viðkvæm staða. Grískumælandi ekkjur ‚voru hafðar út undan við daglega úthlutun‘ matar. (Post. 6:1) Hebreskumælandi ekkjur voru hins vegar ekki skildar út undan. Hér var greinilega um mismunun að ræða. Fátt getur valdið eins mikilli sundrung og það.
18 Postularnir mynduðu stjórnandi ráð hins vaxandi safnaðar. Þeim var ljóst að það væri ekki skynsamlegt af þeim „að hætta að kenna orð Guðs til að þjóna til borðs“. (Post. 6:2) Til að leysa málið báðu þeir lærisveinana að finna sjö menn sem væru „fullir anda og visku“. Postularnir gætu síðan sett þá yfir þetta „mikilvæga verkefni“. (Post. 6:3) Það þurfti hæfa menn til því að verkefnið fólst ekki aðeins í því að úthluta mat heldur líka að fara með peninga, kaupa vistir og halda nákvæmt bókhald. Mennirnir sem voru valdir hétu allir grískum nöfnum en það fór kannski betur í ekkjurnar sem fannst þær sniðgengnar. Postularnir leituðu leiðsagnar Jehóva í þessu máli og fólu síðan mönnunum sjö að annast þetta „mikilvæga verkefni“. e
19 Voru mennirnir sjö sem voru valdir til að úthluta mat undanþegnir því verkefni að boða fagnaðarboðskapinn? Síður en svo. Einn þeirra var Stefán sem átti eftir að reynast hugrakkur og öflugur vottur. (Post. 6:8–10) Filippus var líka einn þeirra sjö og hann er kallaður ‚trúboði‘. (Post. 21:8) Ljóst er því að mennirnir sjö héldu áfram að boða trúna af ákafa.
20. Hvernig fara þjónar Guðs nú á dögum að dæmi postulanna?
20 Þjónar Jehóva nú á dögum fara að dæmi postulanna. Menn sem mælt er með til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum þurfa að búa yfir visku frá Guði og sýna þess merki að heilagur andi starfi með þeim. Þeir sem uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar eru útnefndir öldungar eða safnaðarþjónar í söfnuðunum undir handleiðslu stjórnandi ráðs. f (1. Tím. 3:1–9, 12, 13) Þess vegna má segja að þeir sem uppfylla hæfniskröfurnar séu útnefndir af heilögum anda. Þessir duglegu menn sinna mörgum mikilvægum málum. Þeir geta til dæmis séð til þess að öldruð trúsystkini sem eru hjálparþurfi fái nauðsynlega aðstoð. (Jak. 1:27) Sumir öldungar eru uppteknir við að byggja ríkissali, skipuleggja mót eða starfa í spítalasamskiptanefndum. Safnaðarþjónar sinna mörgum verkefnum sem snúa ekki beint að hirðastarfi eða kennslu. Allir þessir menn þurfa að finna rétta jafnvægið milli starfa sinna á vegum safnaðarins og þeirrar skyldu að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið eins og Guð hefur falið þeim. – 1. Kor. 9:16.
‚Orð Guðs hélt áfram að breiðast út‘ (Post. 6:7)
21, 22. Hvað sýnir að Jehóva blessaði hinn nýstofnaða söfnuð?
21 Með stuðningi Jehóva stóðst þessi ungi söfnuður ofsóknir utan frá og sömuleiðis vanda innan frá sem hefði getað valdið sundrung. Augljóst er að Jehóva blessaði söfnuðinn því að við lesum: „Orð Guðs hélt því áfram að breiðast út, lærisveinunum fjölgaði mjög í Jerúsalem og mikill fjöldi presta snerist til trúar.“ (Post. 6:7) Þetta er aðeins ein af mörgum greinargerðum í Postulasögunni um framgang starfsins. (Post. 9:31; 12:24; 16:5; 19:20; 28:31) Finnst okkur ekki hvetjandi að heyra af framgangi boðunarinnar annars staðar í heiminum?
22 Trúarleiðtogarnir á fyrstu öld, sem voru æfir af reiði, voru ekki á því að gefast upp. Ofsóknaralda var við það að skella á. Bráðlega varð Stefán fyrir heiftarlegri andstöðu eins og við sjáum í næsta kafla.
a Sjá rammann „ Æðstaráðið – hæstiréttur Gyðinga“.
b Þetta er fyrsta dæmið af um það bil 20 þar sem talað er beint um engla í Postulasögunni. Áður, í Postulasögunni 1:10, er talað óbeint um engla sem „menn í hvítum fötum“.
c Sjá rammann „ Gamalíel – virtur meðal rabbína“.
d Sjá rammann „ Boðun ‚hús úr húsi‘“.
e Mennirnir sjö uppfylltu líklega hæfniskröfurnar fyrir öldunga því að það var töluverð ábyrgð að sinna þessu „mikilvæga verkefni“. Það kemur þó ekki fram í Biblíunni nákvæmlega hvenær byrjað var að skipa öldunga til að fara með umsjón í kristna söfnuðinum.
f Á fyrstu öld fengu hæfir menn umboð til að útnefna öldunga. (Post. 14:23; 1. Tím. 5:22; Tít. 1:5) Nú á dögum skipar hið stjórnandi ráð farandhirða og þeir hafa það verkefni að útnefna öldunga og safnaðarþjóna.