2. KAFLI
„Þið verðið vottar mínir“
Jesús býr postulana undir að fara með forystu í boðuninni
Byggt á Postulasögunni 1:1–26
1–3. Hvernig skilur Jesús við postulana og hvaða spurningar vakna?
ÞEIR vildu ekki að þetta tæki enda. Undanfarnar vikur höfðu verið magnaðar! Postularnir höfðu sokkið niður í dýpstu örvæntingu en nú var Jesús upprisinn og þeir eru í skýjunum. Jesús hefur birst fylgjendum sínum oft síðustu 40 daga og kennt þeim og uppörvað þá. En nú birtist hann þeim í síðasta sinn.
2 Postularnir drekka í sig hvert orð Jesú þar sem þeir standa á Olíufjallinu. Nú lýkur hann máli sínu – allt of fljótt, finnst þeim – lyftir upp höndunum og blessar þá. Síðan lyftist hann upp af jörðinni! Fylgjendur hans horfa á eftir honum stíga upp til himins. Ský hylur hann að lokum. Hann er horfinn, en þeir halda áfram að stara til himins. – Lúk. 24:50; Post. 1:9, 10.
3 Með þessum atburði verða straumhvörf í lífi postulanna. Hvað gera þeir núna þegar meistari þeirra, Jesús Kristur, er farinn til himna? Hann var auðvitað búinn að búa þá undir að halda áfram verkinu sem hann hóf. Hvernig hafði hann undirbúið þá fyrir þetta mikilvæga verkefni og hvernig brugðust þeir við? Og hvaða áhrif hefur það á þjóna Guðs nú á tímum? Við fáum svör við því í fyrsta kafla Postulasögunnar.
‚Margar óyggjandi sannanir‘ (Post. 1:1–5)
4. Hvernig byrjar Lúkas Postulasöguna?
4 Lúkas byrjar frásöguna á því að ávarpa Þeófílus en hann hafði áður skrifað guðspjallið handa honum. a Ljóst er að Postulasagan er framhald af guðspjallinu því að Lúkas byrjar á því að draga saman þá atburði sem sagt er frá í lok guðspjallsins en með öðru orðalagi og hann bætir við upplýsingum.
5, 6. (a) Hvað hjálpar fylgjendum Jesú að hafa sterka trú? (b) Á hvaða hátt er trú okkar byggð á „mörgum óyggjandi sönnunum“?
5 Hvað hjálpar fylgjendum Jesú að hafa sterka trú? Í Postulasögunni 1:3 segir um Jesú: ‚Hann sýndi þeim með mörgum óyggjandi sönnunum að hann væri lifandi.‘ Lúkas „læknirinn kæri“ er sá eini sem notar orðið sem þýtt er ‚óyggjandi sannanir‘ í Biblíunni. (Kól. 4:14) Þetta orð var notað í læknisfræðiritum og lýsir greinilegum, óyggjandi og áreiðanlegum sönnunum. Jesús færði fylgjendum sínum slíkar sannanir. Hann birtist þeim oft, stundum einum eða tveimur, stundum öllum postulunum og við eitt tækifæri meira en 500 manns. (1. Kor. 15:3–6) Það hljóta að teljast skýlausar sannanir!
6 Trú sannkristinna manna nú á tímum byggist líka á „mörgum óyggjandi sönnunum“. Eru sannanir fyrir því að Jesús hafi verið á jörðinni, dáið fyrir syndir okkar og risið upp? Tvímælalaust! Áreiðanlegar frásögur sjónarvotta í innblásnu orði Guðs færa okkur allar þær sannanir sem við þurfum. Við getum styrkt trú okkar til muna með því að lesa þessar frásögur og biðja Jehóva um hjálp til að skilja þær. Óhagganlegar sannanir geta skilið á milli sannrar trúar og trúgirni. Til að hljóta eilíft líf þurfum við sanna trú. – Jóh. 3:16.
7. Hvaða fordæmi gaf Jesús fylgjendum sínum þegar hann kenndi og boðaði trúna?
7 Jesús ‚talaði líka um ríki Guðs‘. Hann skýrði spádóma sem sýndu að Messías þyrfti að þjást og deyja. (Lúk. 24:13–32, 46, 47) Þegar hann varpaði ljósi á hlutverk sitt sem Messías lagði hann áherslu á ríki Guðs því að hann var tilvonandi konungur þess. Ríki Guðs var alltaf inntakið í boðun Jesú. Og þannig er það líka hjá fylgjendum hans þegar þeir boða trúna. – Matt. 24:14; Lúk. 4:43.
„Til endimarka jarðar“ (Post. 1:6–12)
8, 9. (a) Hvaða tvær ranghugmyndir höfðu postular Jesú? (b) Hvernig leiðrétti Jesús postulana og hvað lærum við af því?
8 Síðasta skiptið sem postularnir hittu Jesú á jörð var þegar þeir voru samankomnir á Olíufjallinu. Þeir spurðu hann spenntir: „Drottinn, ætlarðu að endurreisa Ísraelsríki núna?“ (Post. 1:6) Með þessari einu spurningu afhjúpa postularnir tvær ranghugmyndir sem þeir höfðu. Í fyrsta lagi bjuggust þeir við að ríki Guðs yrði endurreist hjá Ísraelsþjóðinni. Í öðru lagi héldu þeir að ríki Guðs tæki völd strax á þeim tíma. Hvernig hjálpaði Jesús þeim að átta sig á þessum misskilningi?
9 Jesús vissi líklega að fyrri hugmyndin yrði fljótlega leiðrétt. Aðeins tíu dögum síðar myndu fylgjendur hans verða vitni að fæðingu nýrrar þjóðar, hins andlega Ísraels. Sá tími var brátt á enda að Guð ætti sérstakt samband við hina bókstaflegu Ísraelsþjóð. Hvað varðar síðari hugmyndina sagði Jesús þeim vingjarnlega: „Þið þurfið ekki að vita tíma eða tíðir sem faðirinn einn hefur vald til að ákveða.“ (Post. 1:7) Það er Jehóva sem ákveður tímasetningarnar. Áður en Jesús dó sagði hann að jafnvel sonurinn vissi ekki á þeim tíma ‚daginn og stundina‘ sem endirinn kæmi. Aðeins faðirinn vissi tímann. (Matt. 24:36) Ef þjónar Guðs á okkar tímum verða of uppteknir af því hvenær endir þessa heims verði eru þeir í raun að gera sér áhyggjur af hlutum sem þeir þurfa ekki að vita.
10. Hvaða hugarfar postulanna ættum við að tileinka okkur og hvers vegna?
10 Við ættum samt að passa okkur að vera ekki gagnrýnin á postula Jesú. Þeir höfðu sterka trú. Þeir voru auðmjúkir þegar Jesús leiðrétti þá og þó að spurning þeirra hafi byggst á misskilningi vitnar hún samt um rétt hugarfar. Jesús hafði oftar en einu sinni hvatt fylgjendur sína til að halda vöku sinni. (Matt. 24:42; 25:13; 26:41) Þeir gerðu það og fylgdust spenntir með hvort Jehóva væri í þann mund að láta til sín taka. Við þurfum að tileinka okkur sama hugarfar og þeir. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr núna á „síðustu dögum“. – 2. Tím. 3:1–5.
11, 12. (a) Hvaða verkefni fól Jesús fylgjendum sínum? (b) Af hverju var eðlilegt að Jesús skyldi nefna heilagan anda þegar hann talaði um boðunarverkefnið?
11 Jesús minnti postulana á hvað ætti að vera þeim efst í huga. Hann sagði: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Jesús var líflátinn í Jerúsalem og postularnir áttu að byrja á að flytja fréttirnar af upprisu hans þar. Þaðan myndi boðskapurinn breiðast út um alla Júdeu, síðan til Samaríu og svo til fjarlægra staða.
12 Það var eðlilegt að Jesús skyldi ekki minnast á boðunarverkefnið fyrr en eftir að hann var búinn að ítreka loforðið um að senda þeim heilagan anda. Þetta er eitt af rúmlega 40 skiptum sem heilagur andi er nefndur í Postulasögunni. Aftur og aftur leggur þessi hrífandi biblíubók áherslu á að við getum ekki gert vilja Jehóva án hjálpar heilags anda. Það er því mikilvægt að við biðjum Jehóva oft að gefa okkur andann. (Lúk. 11:13) Við þurfum meira en nokkru sinni fyrr á honum að halda.
13. Hversu víðtækt er boðunarverkefnið sem Guð hefur falið þjónum sínum og hvers vegna ættum við að sinna því af áhuga?
13 Við skiljum ‚endimörk jarðar‘ öðruvísi en menn gerðu á fyrstu öld. En eins og fram kom í kaflanum á undan hafa vottar Jehóva tekið fúslega að sér það verkefni að boða trúna því að þeir vita að Guð vill að fólk alls staðar fái að heyra fagnaðarboðskapinn um ríkið. (1. Tím. 2:3, 4) Leggurðu þig fram við þetta björgunarstarf? Ekkert starf er jafn ánægjulegt og gefandi. Jehóva veitir þér þann kraft sem þú þarft til að gera því góð skil. Postulasagan segir okkur margt um réttu aðferðirnar og það hugarfar sem þarf til að ná árangri.
14, 15. (a) Hvað sögðu englarnir um endurkomu Krists og hvað áttu þeir við? (Sjá einnig neðanmálsgrein.) (b) Hvernig kom Kristur aftur „á sama hátt“ og hann fór?
14 Eins og fram kemur í byrjun þessa kafla lyftist Jesús upp af jörðinni og hvarf sjónum postulanna 11. Þeir stóðu samt kyrrir og horfðu til himins. Að lokum birtust tveir englar sem sögðu vingjarnlega við þá: „Galíleumenn, hvers vegna standið þið og horfið til himins? Þessi Jesús, sem var hrifinn frá ykkur til himins, mun koma á sama hátt og þið sáuð hann fara til himins.“ (Post. 1:11) Áttu englarnir við að Jesús myndi snúa aftur í sama líkama eins og sum trúfélög kenna? Nei. Hvernig vitum við það?
15 Englarnir sögðu ekki að Jesús myndi koma aftur í sömu mynd heldur „á sama hátt“. b Á hvaða hátt fór hann? Hann var horfinn þegar englarnir sögðu þetta. Það voru aðeins fáeinir menn, postularnir, sem sáu og skildu að Jesús væri farinn frá jörðinni og væri á leið til föður síns á himnum. Kristur átti að snúa aftur með svipuðum hætti. Sú er líka raunin. Það er aðeins andlega sinnað fólk sem skilur að Jesús er nærverandi sem konungur. (Lúk. 17:20) Við þurfum að átta okkur á rökunum fyrir því að hann sé nærverandi og segja öðrum frá því svo að þeir skilji líka hve sérstökum tímum við lifum á.
Post. 1:13–26)
„Sýndu hvorn … þú hefur valið“ (16–18. (a) Hvað lærum við af Postulasögunni 1:13, 14 um samkomur kristinna manna? (b) Hvað getum við lært af Maríu móður Jesú? (c) Af hverju eru safnaðarsamkomur nauðsynlegar fyrir okkur?
16 Það er engin furða að postularnir „sneru aftur til Jerúsalem ákaflega glaðir“. (Lúk. 24:52) En hvernig myndu þeir bregðast við leiðbeiningunum sem Kristur hafði gefið þeim? Í Postulasögunni 1:13, 14 eru þeir samankomnir í ‚herbergi á efri hæð‘ og við lærum ýmislegt um slíkar samkomur. Hús í Palestínu voru oft með herbergi á efri hæð og að þeim lágu tröppur utan á húsunum. Ætli þetta herbergi hafi tilheyrt húsinu sem er nefnt í Postulasögunni 12:12 þar sem móðir Markúsar bjó? Hvað sem því líður var það líklega einfaldur og hentugur staður þar sem fylgjendur Krists gátu hist. En hverjir komu saman og hvað gerðu þeir?
17 Tökum eftir að það voru ekki bara postularnir og ekki bara karlmenn sem söfnuðust saman. Þarna voru líka ‚nokkrar konur‘, þeirra á meðal María móðir Jesú. Þetta er í síðasta sinn sem hún er nefnd í Biblíunni. Það er viðeigandi mynd sem við fáum af henni hér. Þetta er ekki kona sem sækist eftir upphefð heldur hógvær kona sem tilbiður Guð ásamt trúsystkinum sínum. Það hefur eflaust verið hughreystandi fyrir hana að fjórir eftirlifandi synir hennar voru með henni þarna þó að þeir hefðu ekki trúað á Jesú meðan hann lifði. (Matt. 13:55; Jóh. 7:5) Afstaða þeirra hafði breyst eftir að hálfbróðir þeirra dó og reis upp. – 1. Kor. 15:7.
18 Við sjáum líka hvers vegna lærisveinarnir komu saman. Þeir „báðu allir stöðugt og með einum huga“. (Post. 1:14) Samkomur hafa alltaf verið mikilvægur þáttur í tilbeiðslu kristinna manna. Við söfnumst saman til að hvetja hvert annað, fá fræðslu og ráð og síðast en ekki síst til að tilbiðja himneskan föður okkar, Jehóva. Bænir okkar og lofsöngur á samkomum gleðja hann mjög og eru okkur nauðsyn. Við skulum aldrei vanrækja þessar heilögu og hvetjandi samkomur. – Hebr. 10:24, 25.
19–21. (a) Hvað lærum við af því að Pétur skyldi gegna mikilvægu hlutverki í söfnuðinum? (b) Hvers vegna þurfti að velja nýjan mann í stað Júdasar og hvað má læra af aðferðinni sem var notuð til þess?
19 Þessir fylgjendur Krists þurftu nú að leysa mikilvægt skipulagsmál og Pétur postuli tók frumkvæðið að því. (Vers 15–26) Það er hughreystandi að sjá hvernig Pétur hafði tekið sig á á þeim vikum sem liðnar voru síðan hann afneitaði Drottni sínum þrisvar. (Mark. 14:72) Okkur hættir öllum til að syndga og þurfum að minna okkur á að Jehóva er „góður og fús til að fyrirgefa“ þeim sem iðrast einlæglega. – Sálm. 86:5.
20 Pétur áttaði sig á að velja þurfti annan postula í stað Júdasar sem hafði svikið Jesú. En hvern? Nýi postulinn þurfti að vera maður sem hafði fylgt Jesú á þjónustutíma hans og orðið vitni að upprisu hans. (Post. 1:21, 22) Það var í samræmi við loforð Jesú: ‚Þið sem hafið fylgt mér munuð sitja í 12 hásætum og dæma 12 ættkvíslir Ísraels.‘ (Matt. 19:28) Jehóva ætlaði greinilega að láta 12 postula sem fylgdu Jesú meðan hann þjónaði á jörð mynda ‚12 undirstöðusteina‘ hinnar nýju Jerúsalem þegar þar að kæmi. (Opinb. 21:2, 14) Guð leiddi því Pétri fyrir sjónir að spádómurinn „annar taki við umsjónarstarfi hans“ átti við Júdas. – Sálm. 109:8.
21 Hvernig var postulinn valinn? Menn vörpuðu hlutkesti sem var algeng aðferð á biblíutímanum. (Orðskv. 16:33) Þetta er þó í síðasta sinn sem Biblían segir frá að hlutkesti hafi verið varpaði í þessum tilgangi. Eftir að heilögum anda var úthellt var ekki lengur þörf á að nota þessa aðferð. Hvers vegna vörpuðu menn þá hlutkesti? Postularnir báðu: „Jehóva, þú sem þekkir hjörtu allra, sýndu hvorn þessara manna þú hefur valið.“ (Post. 1:23, 24) Þeir vildu að Jehóva veldi nýja postulann. Matthías varð fyrir valinu en hann var líklega í hópi lærisveinanna 70 sem Jesús sendi út til að boða trúna. Þar með varð Matthías einn af ‚þeim tólf‘. c – Post. 6:2.
22, 23. Af hverju ættum við að vera undirgefin og hlýðin þeim sem fara með forystu í söfnuðinum?
22 Þetta atvik minnir á að kristni söfnuðurinn þarf að starfa með skipulegum hætti. Enn þann dag í dag eru ábyrgir menn valdir til að vera umsjónarmenn í söfnuðinum. Öldungar skoða vandlega hverjir uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar og þeir biðja um leiðsögn heilags anda til að velja umsjónarmenn. Í söfnuðinum er því litið svo á að heilagur andi hafi valið þessa menn. Við erum þeim undirgefin og fylgjum forystu þeirra og stuðlum þar með að góðu samstarfi í söfnuðinum. – Hebr. 13:17.
23 Jesús hafði birst lærisveinunum upprisinn og skipulagslegar framfarir höfðu orðið í söfnuðinum. Hvort tveggja hafði styrkt lærisveinana og þeir voru nú vel í stakk búnir fyrir stórviðburð sem var fram undan. Fjallað er um hann í næsta kafla.
a Í guðspjallinu ávarpar Lúkas hann „göfugi Þeófílus“. (Lúk. 1:3) Sumir telja því að Þeófílus hafi verið framámaður sem hafði enn ekki tekið trú. Í Postulasögunni ávarpar Lúkas hann hins vegar aðeins með nafni. Sumir fræðimenn telja því að Þeófílus hafi tekið trú eftir að hann las guðspjallið. Þess vegna sleppi Lúkas ávarpsorðinu og skrifi til hans sem trúbróður.
b Hér notar Biblían gríska orðið tropos sem merkir ‚háttur‘ en ekki morfeʹ sem merkir ‚mynd‘.
c Páll var síðar skipaður „postuli meðal þjóðanna“ en hann var aldrei talinn vera í hópi postulanna tólf. (Rómv. 11:13; 1. Kor. 15:4–8) Hann var ekki hæfur til að gegna því hlutverki því að hann hafði ekki fylgt Jesú meðan hann var á jörð.