Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

20. KAFLI

‚Orð Jehóva breiddist út og efldist‘ þrátt fyrir andstöðu

‚Orð Jehóva breiddist út og efldist‘ þrátt fyrir andstöðu

Apollós og Páll stuðla að því að fagnaðarboðskapurinn heldur áfram að breiðast út

Byggt á Postulasögunni 18:23–19:41

1, 2. (a) Hvaða hætta steðjar að Páli og félögum hans í Efesus? (b) Um hvað er rætt í þessum kafla?

 HRÓP og köll óma um götur Efesus og mannfjöldinn æðir áfram. Múgurinn er æstur og uppþot er við það að brjótast út. Menn hafa gripið tvo af ferðafélögum Páls postula og draga þá með sér. Breið gatan með verslunum og súlnagöngum til beggja handa er fljót að tæmast þegar æstur múgurinn streymir í leikhús borgarinnar sem rúmar hvorki meira né minna en 25.000 manns. Fæstir vita hvað er á seyði en fólk hefur þó óljósa hugmynd um að hætta steðji að musteri þeirra og gyðjunni Artemis sem er þeim svo kær. Það hrópar því fullum hálsi: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ – Post. 19:34.

2 Enn og aftur sjáum við hvernig Satan reynir að nota múgæsing til að koma í veg fyrir að boðskapurinn um ríki Guðs breiðist út. Ofbeldishótanir eru auðvitað ekki eina aðferðin sem Satan notar. Í þessum kafla ræðum við um ýmsar leiðir sem Satan fór til að reyna að grafa undan starfi og einingu kristinna manna á fyrstu öld. En við sjáum líka að allar tilraunir hans misheppnuðust því að „orð Jehóva var máttugt þannig að það breiddist út og efldist“. (Post. 19:20) Hvers vegna reyndust kristnir menn Satan yfirsterkari? Það var ekki sjálfum þeim að þakka heldur Jehóva. Hið sama á við um okkur. Við þurfum samt að leggja okkar af mörkum eins og kristnir menn á fyrstu öld. Með hjálp anda Jehóva getum við þroskað með okkur eiginleika sem stuðla að velgengni í boðuninni. Byrjum á því að kanna hvað við lærum af Apollósi.

„Hann var … vel að sér í Ritningunum“ (Post. 18:24–28)

3, 4. Hvað uppgötvuðu Akvílas og Priskilla að Apollós skorti og hvað gerðu þau?

3 Þegar Páll var á leiðinni til Efesus í þriðju trúboðsferð sinni kom Gyðingur að nafni Apollós til borgarinnar. Hann var frá Alexandríu, frægri borg í Egyptalandi. Apollós hafði margt til brunns að bera. Hann var vel máli farinn og auk þess var hann „vel að sér í Ritningunum“. Hann var líka „brennandi í andanum“. Apollós talaði af eldmóði til Gyðinga í samkunduhúsinu. – Post. 18:24, 25.

4 Akvílas og Priskilla hlustuðu á Apollós kenna. Þau hafa eflaust verið mjög ánægð að heyra hann ‚fræða fólk ítarlega um Jesú‘. Það sem hann sagði um Jesú var satt og rétt. En hjónin áttuðu sig fljótlega á að það vantaði eitthvað upp á þekkinguna hjá Apollósi. Hann ‚þekkti aðeins skírn Jóhannesar‘. Þessi auðmjúku hjón sem unnu við tjaldgerð létu það ekki á sig fá þótt Apollós væri svona vel máli farinn og menntaður. Þau tóku hann öllu heldur að sér og „útskýrðu veg Guðs nánar fyrir honum“. (Post. 18:25, 26) Og hvernig brást þessi málsnjalli og menntaði maður við? Hann sýndi greinilega auðmýkt – einn mikilvægasta eiginleikann sem kristnir menn geta þroskað með sér.

5, 6. Hvað varð til þess að Apollós kom að enn meira gagni í þjónustunni við Jehóva og hvað getum við lært af honum?

5 Apollós kom að enn meira gagni í þjónustunni við Jehóva af því að hann þáði aðstoð Akvílasar og Priskillu. Hann fór til Akkeu og þar var hann hinum trúuðu til mikillar hjálpar. Hann rökræddi á áhrifaríkan hátt við Gyðinga sem héldu því fram að Jesús væri ekki hinn fyrirheitni Messías. Lúkas segir: „Hann talaði af eldmóði … og sannaði að Gyðingar hefðu á röngu að standa með því að sýna þeim út frá Ritningunum að Jesús væri Kristur.“ (Post. 18:27, 28) Apollós vann sannarlega gott starf í söfnuðinum. Hann átti drjúgan þátt í því að orð Jehóva efldist. Hvað lærum við af Apollósi?

6 Kristnir menn verða að tileinka sér auðmýkt. Við höfum öll ýmislegt til að bera, hvort sem það tengist meðfæddum hæfileikum, reynslu eða þekkingu sem við höfum aflað okkur. En til að það gagnist í þjónustunni við Jehóva þurfum við að vera auðmjúk. Annars gætu styrkleikar okkar orðið að veikleikum. Við gætum gengið í þá gildru að verða stolt af hæfileikum okkar. (1. Kor. 4:7; Jak. 4:6) Ef við erum auðmjúk reynum við að líta á aðra sem okkur meiri. (Fil. 2:3) Þá tökum við því ekki illa þegar við erum leiðrétt og höfum ekkert á móti því að aðrir kenni okkur. Við höldum okkur ekki þrjóskulega við eigin hugmyndir þegar við uppgötvum að þær samræmast ekki leiðsögn heilags anda. Við komum Jehóva og syni hans að gagni ef við erum auðmjúk. – Lúk. 1:51, 52.

7. Hvernig sýndu Páll og Apollós auðmýkt?

7 Auðmýkt hjálpar okkur að forðast öfund og samkeppnisanda. Við getum rétt ímyndað okkur hvað Satan hefði verið ánægður ef hann hefði getað valdið sundrung meðal frumkristinna manna. Það hefði glatt hann mikið að sjá kraftmikla menn eins og Apollós og Pál postula öfunda hvor annan og keppa um áhrif í söfnuðunum. Það hefði auðveldlega getað gerst. Sumir í söfnuðinum í Korintu sögðu: „Ég fylgi Páli,“ en aðrir: „Ég fylgi Apollósi.“ Ýttu Páll og Apollós undir þetta? Alls ekki! Páll viðurkenndi auðmjúkur það sem Apollós lagði af mörkum í þjónustunni og fól honum fleiri verkefni. Apollós fylgdi líka leiðbeiningum Páls. (1. Kor. 1:10–12; 3:6, 9; Tít. 3:12, 13) Þeir eru okkur góð fyrirmynd með því að vera auðmjúkir og vinna vel saman.

Hann „rökræddi á sannfærandi hátt um ríki Guðs“ (Post. 18:23; 19:1–10)

8. Hvaða leið fór Páll þegar hann sneri aftur til Efesus og hvers vegna?

8 Páll hafði lofað að snúa aftur til Efesus og hann stóð við það. a (Post. 18:20, 21) En tökum eftir hvaða leið hann fór. Páll hóf ferðina í Antíokkíu í Sýrlandi. Hann hefði getað farið stutta leið til Selevkíu og síðan sjóleiðis beint til Efesus. En í staðinn ferðaðist hann „um innsveitirnar“. Giskað hefur verið á að vegalengdin hafi verið um 1.600 kílómetrar eins og henni er lýst í Postulasögunni 18:23 og 19:1. Af hverju valdi Páll þessa löngu og erfiðu leið? Vegna þess að markmið hans var ‚að styrkja alla lærisveinana‘. (Post. 18:23) Þriðja trúboðsferðin átti eftir að reyna mikið á eins og hinar tvær en hann taldi það vel þess virði. Farandhirðar nú á dögum og konur þeirra hugsa eins. Kunnum við ekki að meta fórnfýsi þeirra og kærleika?

9. Hvers vegna þurfti hópur lærisveina að skírast öðru sinni og hvað lærum við af þeim?

9 Þegar Páll kom til Efesus hitti hann þar 12 manna hóp en mennirnir voru lærisveinar Jóhannesar skírara. Þeir höfðu verið skírðir skírn sem var ekki lengur í gildi og virtust vita lítið eða ekkert um heilagan anda. Páll sagði þeim frá skírn í nafni Jesú og þeir reyndust vera auðmjúkir og fúsir til að bæta við þekkingu sína eins og Apollós. Eftir að hafa látið skírast í nafni Jesú fengu þeir heilagan anda og hæfileika sem andinn gaf þeim. Það er greinilega til blessunar að vera samstíga framsæknum söfnuði Jehóva. – Post. 19:1–7.

10. Hvers vegna flutti Páll sig frá samkunduhúsinu yfir í skóla nokkurn og hvað getum við lært af því?

10 Skömmu síðar gerðist annað sem stuðlaði að jákvæðri framvindu. Páll boðaði trúna hugrakkur í samkunduhúsinu í þrjá mánuði. Þótt hann hafi ‚rökrætt á sannfærandi hátt um ríki Guðs‘ forhertust sumir og snerust gegn honum. Páll sóaði ekki tíma í þá sem „töluðu niðrandi um Veginn“ heldur fékk afnot af sal í skóla nokkrum. (Post. 19:8, 9) Þeir sem vildu taka framförum þurftu að færa sig úr samkunduhúsinu í skólann. Við getum líkt eftir Páli og ákveðið að ljúka samtali ef ljóst er að húsráðandinn vill ekki hlusta eða vill bara þrasa. Það er enn þá nóg til af einlægu fólki sem þarf að fá að heyra uppörvandi boðskap okkar.

11, 12. (a) Hvernig sýndi Páll að hann var atorkusamur og sveigjanlegur? (b) Hvernig hafa vottar Jehóva lagt sig fram um að vera atorkusamir og sveigjanlegir í boðuninni?

11 Páll hefur kannski kennt í þessum skóla daglega frá klukkan ellefu til fjögur. (Sjá skýringu við Postulasöguna 19:9 í námsútgáfu Biblíunnar á erlendum málum.) Þetta var líklega rólegasti en heitasti tími dagsins þegar margir tóku sér hlé frá vinnu til að borða og hvíla sig. Ef Páll fylgdi þessari stífu dagskrá í heil tvö ár hefur hann notað rúmlega 3.000 klukkustundir til að kenna. b Þetta stuðlaði líka að því að orð Jehóva breiddist út og efldist. Páll var atorkusamur og sveigjanlegur. Hann boðaði trúna á tíma sem hentaði fólki í samfélaginu. Hver var árangurinn? „Allir sem bjuggu í skattlandinu Asíu heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.“ (Post. 19:10) Það er óhætt að segja að hann hafi vitnað ítarlega fyrir fólki!

Við reynum að ná til fólks hvar sem það er að finna.

12 Vottar Jehóva nú á dögum eru líka atorkusamir og sveigjanlegir. Við reynum að nota öll tækifæri til að tala við fólk, hvar sem það er að finna. Við boðum trúna á götum úti, torgum og bílastæðum. Við hringjum í fólk og skrifum bréf. Og við reynum að fara hús úr húsi þegar mestar líkur eru á að fólk sé heima.

Orðið „breiddist út og efldist“ þrátt fyrir áhrif illra anda (Post. 19:11–22)

13, 14. (a) Hvað gat Páll gert með hjálp Jehóva? (b) Hvaða mistök gerðu synir Skeva og hvaða áþekku mistök gera margir í kristna heiminum?

13 Lúkas segir frá því að í framhaldinu hafi Jehóva gert Páli kleift að „vinna einstök máttarverk“. Það var jafnvel farið með klúta og svuntur sem Páll hafði notað til sjúklinga og þeir læknuðust. Illir andar voru líka reknir út með sama hætti. c (Post. 19:11, 12) Það vakti mikla athygli að illir andar skyldu láta í minni pokann en viðbrögðin voru ekki öll jákvæð.

14 „Nokkrir Gyðingar sem fóru um og ráku út illa anda“ reyndu að herma eftir kraftaverkum Páls. Einhverjir þeirra freistuðu þess að reka út illa anda í nafni Jesú og Páls. Lúkas nefnir að sjö synir Skeva hafi reynt þetta en þeir voru af prestaætt. Illi andinn sagði við þá: „Ég þekki Jesú og kannast við Pál en hverjir eruð þið?“ Síðan stökk andsetni maðurinn eins og villidýr á þessa svikahrappa og þeir lögðu á flótta, særðir og naktir. (Post. 19:13–16) Enn á ný sigraði „orð Jehóva“. Menn sáu greinilega muninn á kraftinum sem Jehóva gaf Páli og vanmætti þessara prestssona. Milljónir manna nú á dögum telja ranglega að það sé nóg að ákalla nafn Jesú eða segjast vera „kristinn“. En eins og Jesús benti á eru það aðeins þeir sem gera vilja föður hans sem eiga sér sanna framtíðarvon. – Matt. 7:21–23.

15. Hvernig getum við fylgt fordæmi Efesusmanna varðandi dulspeki?

15 Margir tóku kristna trú og sneru baki við dulspekiiðkunum eftir að synir Skeva höfðu verið niðurlægðir. Menning Efesusbúa var gegnsýrð af galdratrú. Verndargripir voru algengir og menn trúðu á galdraþulur sem margar voru til í rituðu formi. Efesusbúar sem tekið höfðu trú söfnuðu nú saman galdrabókum sínum og brenndu þær fyrir opnum tjöldum – þó að þær væru greinilega gríðarlega verðmætar. d Lúkas segir: „Orð Jehóva var máttugt þannig að það breiddist út og efldist.“ (Post. 19:17–20) Hvílíkur sigur yfir falstrú og dulspeki! Efesusbúar eru okkur góð fyrirmynd. Við búum líka í heimi sem er gegnsýrður dulspeki. Ef við uppgötvum að við eigum eitthvað sem er tengt dulspeki þurfum við að gera eins og Efesusmenn – losa okkur við það strax. Við skulum halda okkur langt frá kukli af öllu tagi, hvað sem það kostar.

‚Talsverðar óeirðir urðu‘ (Post. 19:23–41)

„Góðir menn, þið vitið vel að velmegun okkar byggist á þessari starfsemi.“ – Postulasagan 19:25.

16, 17. (a) Hvernig kom Demetríus af stað uppþoti í Efesus? (b) Hvernig birtist ofstæki Efesusmanna?

16 Lúkas segir nú frá að ‚talsverðar óeirðir hafi orðið út af Veginum‘ og lýsir því hvernig Satan æsir til þeirra. Þetta voru engar ýkjur. e (Post. 19:23) Silfursmiðurinn Demetríus kom óeirðunum af stað. Hann byrjar á að minna handverksmennina á að þeir hafi hagnast vel á því að selja skurðgoð. Hann bendir síðan á að boðskapur Páls gæti haft slæm áhrif á viðskipti þeirra þar sem kristnir menn tilbiðja ekki skurðgoð. Hann höfðar til þess hve stoltir þeir eru af borg sinni og þjóð og varar við því að gyðjan þeirra, Artemis, og heimsfrægt musterið „verði einskis metið“ ef heldur fram sem horfir. – Post. 19:24–27.

17 Ræða Demetríusar hafði tilætluð áhrif. Silfursmiðirnir fóru að kyrja: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ Öll borgin komst í uppnám þannig að það stefndi í uppþot eins og lýst var í byrjun kaflans. f Páll, sem var fórnfús eins og alltaf, vildi fara inn í leikhúsið til að ávarpa mannfjöldann en lærisveinarnir leyfðu honum ekki að setja sig í hættu. Alexander nokkur gekk fram fyrir mannfjöldann og ætlaði að taka til máls. Hann var Gyðingur og vildi því kannski útskýra hvaða munur væri á Gyðingum og þessum kristnu mönnum. En það var ekki hlustað á hann. Þegar menn áttuðu sig á að hann væri Gyðingur yfirgnæfðu þeir hann og héldu áfram að hrópa: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ í hér um bil tvo tíma. Trúarofstæki hefur ekki breyst. Það rænir fólk skynseminni rétt eins og á fyrstu öld. – Post. 19:28–34.

18, 19. (a) Hvernig tókst borgarritaranum að róa æstan múginn? (b) Hvernig hafa yfirvöld stundum komið þjónum Jehóva til varnar og hvaða þátt getum við átt í því?

18 Að lokum tókst borgarritaranum að þagga niður í mannfjöldanum. Þessi skynsami embættismaður var fljótur að hugsa og fullvissaði æstan múginn um að musterinu og gyðjunni stafaði engin hætta af þessum kristnu mönnum, að Páll og félagar hans hefðu ekki brotið á neinn hátt gegn musteri Artemisar og að ef menn vildu höfða mál ætti að gera það eftir réttum boðleiðum. En það sem kannski vó þyngst var að hann minnti borgarbúa á að þeir gætu kallað yfir sig reiði Rómar með þessu ólöglega upphlaupi. Eftir það lét hann mannfjöldann fara. Skynsamleg orð borgarritarans urðu til þess að menn róuðust jafn fljótt og reiði þeirra hafði blossað upp. – Post. 19:35–41.

19 Þetta var ekki í fyrsta sinn sem yfirvegaður maður í valdastöðu kom fylgjendum Jesú til varnar og ekki heldur það síðasta. Jóhannes postuli sá í sýn sem fjallar um síðustu daga hvernig jörðin, það er ýmsar traustar stofnanir í þessum heimi, myndi svelgja í sig ofsóknir Satans sem er líkt við fljót. (Opinb. 12:15, 16) Sú hefur orðið raunin. Sanngjarnir dómarar hafa í mörgum tilfellum varið rétt Votta Jehóva til að halda trúarsamkomur og boða fagnaðarboðskapinn. Hegðun okkar getur auðvitað átt sinn þátt í því. Páll hafði greinilega áunnið sér vinsemd og virðingu sumra ráðamanna í Efesus og þess vegna vildu þeir vernda hann. (Post. 19:31) Við vonum líka að við höfum jákvæð áhrif á aðra með heiðarleika okkar og framkomu. Það er aldrei að vita hvað það getur haft í för með sér.

20. (a) Hvað finnst þér um þann árangur sem orð Jehóva náði á fyrstu öld og sömuleiðis núna? (b) Hvernig getur þú stuðlað að því að orð Jehóva breiðist út og eflist?

20 Það er gaman að skoða hvernig ‚orð Jehóva breiddist út og efldist‘ á fyrstu öld. Það er líka spennandi að sjá hvernig Jehóva hefur staðið á bak við slíka velgengni nú á dögum. Myndir þú vilja leggja eitthvað af mörkum til þessarar velgengni? Hugleiddu þá hvað þú getur lært af fordæmi þeirra sem við höfum lesið um. Vertu auðmjúkur og samstíga framsæknum söfnuði Jehóva, vertu ötull, forðastu dulspeki og gerðu þitt ýtrasta til að vera Jehóva til lofs með því að vera heiðarlegur og sýna öðrum virðingu.

a Sjá rammann „ Efesus – höfuðborg Asíu“.

b Páll skrifaði líka 1. Korintubréf meðan hann var í Efesus.

c Hugsanlegt er að Páll hafi bundið þessa klúta um höfuðið til að svitinn rynni ekki niður í augun. Að Páll skuli hafa notað svuntur bendir til þess að hann hafi stundað tjaldgerð meðfram boðuninni, kannski snemma á morgnana. – Post. 20:34, 35.

d Lúkas nefnir að bækurnar hafi verið 50.000 silfurpeninga virði. Ef hann átti við denara hefði það tekið verkamann 50.000 daga – 137 ár – að vinna sér inn þá upphæð miðað við sjö daga vinnuviku.

e Sumir segja að Páll hafi átt við þennan atburð þegar hann sagði við Korintumenn: „Við óttuðumst jafnvel um líf okkar.“ (2. Kor. 1:8) Ef til vill hafði hann þó í huga aðrar og hættulegri aðstæður. Þegar Páll skrifaði að hann hefði ‚barist við villidýr í Efesus‘ gæti hann annaðhvort hafa átt við bókstafleg villidýr á leikvanginum eða andstöðu manna. (1. Kor. 15:32) Bæði bókstafleg og táknræn merking koma til greina.

f Samtök handverksmanna gátu verið mjög voldug. Um það bil öld síðar stóðu samtök bakara fyrir svipuðu uppþoti í Efesus, svo dæmi sé tekið.