Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

22. KAFLI

„Verði vilji Jehóva“

„Verði vilji Jehóva“

Páll er ákveðinn í að gera vilja Guðs og fer til Jerúsalem

Byggt á Postulasögunni 21:1–17

1–4. Hvers vegna er Páll á leið til Jerúsalem og hvað bíður hans þar?

 KVEÐJUSTUNDIN í Míletus er tilfinningaþrungin. Páll og Lúkas eiga erfitt með að slíta sig frá öldungunum í Efesus sem þeim þykir svo vænt um. Trúboðarnir tveir standa á þilfarinu. Þeir eru með nauðsynjar til ferðarinnar en í farangrinum eru þeir líka með framlögin til nauðstaddra trúsystkina í Júdeu og þeim er mikið í mun að koma gjöfinni til skila.

2 Hægur vindur fyllir seglin og skipið mjakast frá hávaðasömum hafnarbakkanum. Tvímenningarnir ásamt ferðafélögum þeirra sjö horfa á sorgbitna bræður sína sem standa á ströndinni. (Post. 20:4, 14, 15) Ferðalangarnir veifa vinum sínum þangað til þeir hverfa úr augsýn.

3 Páll hefur starfað náið með öldungunum í Efesus í um það bil þrjú ár. En nú er hann á leið til Jerúsalem samkvæmt leiðsögn heilags anda. Hann veit að einhverju leyti hvað bíður hans þar. Hann hafði áður sagt öldungunum í Efesus: „Nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum, en ég veit ekki hvað mætir mér þar nema það sem heilagur andi segir mér ítrekað í hverri borg, að fangavist og þjáningar bíði mín.“ (Post. 20:22, 23) Þrátt fyrir að setja sig í hættu finnst Páli hann vera „knúinn af andanum“ – honum finnst hann verða að fylgja leiðsögn andans og fara til Jerúsalem. Honum er lífið mikils virði en honum finnst þó mikilvægast af öllu að gera vilja Guðs.

4 Hugsar þú þannig? Þegar við vígjum okkur Jehóva lofum við að láta vilja hans ganga fyrir öllu öðru í lífinu. Það er okkur til góðs að kynna okkur hversu trúfastur Páll var.

„Við sáum til Kýpur“ (Post. 21:1–3)

5. Hvaða leið fóru Páll og félagar hans til Týrusar?

5 Skipið sem Páll og félagar hans tóku sér far með sigldi „beinustu leið til Kós“. Orðalagið gefur til kynna að þeir hafi haft góðan meðvind og ekki þurft að krussa á leiðinni til Kós, en þangað náðu þeir samdægurs. (Post. 21:1) Svo virðist sem skipið hafi varpað þar akkerum og haldið svo áfram næsta dag til Ródos og Patara. Í Patara á suðurströnd Litlu-Asíu fengu bræðurnir sér far með stóru flutningaskipi sem fór með þá rakleiðis til Týrusar í Fönikíu. Á leiðinni sigldu þeir ‚fram hjá Kýpur á bakborða‘. (Post. 21:3) Hvers vegna nefnir Lúkas þetta atriði í Postulasögunni?

6. (a) Hvers vegna getur það hafa verið uppörvandi fyrir Pál að sjá til Kýpur? (b) Af hverju er gagnlegt að rifja upp hvernig Jehóva hefur blessað okkur og hjálpað?

6 Páll hefur kannski bent á eyjuna og sagt frá ýmsu sem gerðist þegar hann var þar. Í fyrstu trúboðsferðinni, um níu árum áður, höfðu Páll, Barnabas og Jóhannes Markús hitt galdramanninn Elýmas sem beitti sér gegn boðuninni. (Post. 13:4–12) Það hefur eflaust verið uppörvandi fyrir Pál og styrkt hann fyrir það sem var fram undan að sjá eyjuna og hugsa til baka. Það getur líka verið til góðs fyrir okkur að rifja upp hvernig Guð hefur blessað okkur og hjálpað að halda út í prófraunum. Þá viljum við eflaust taka undir orð Davíðs sem skrifaði: „Hinn réttláti lendir í mörgum raunum en Jehóva frelsar hann úr þeim öllum.“ – Sálm. 34:19.

„Við leituðum lærisveinana uppi“ (Post. 21:4–9)

7. Hvað gerðu Páll og ferðafélagar hans þegar þeir komu til Týrusar?

7 Páll vissi hversu mikilvægt það var að umgangast trúsystkini sín og var spenntur að hitta þau. Lúkas skrifar að þeir félagarnir ‚hafi leitað lærisveinana uppi‘ þegar þeir komu til Týrusar. (Post. 21:4) Þeir vissu að þeir áttu trúsystkini í Týrus, leituðu þau uppi og sennilega gistu þeir hjá þeim. Eitt það besta við að þekkja sannleikann er að hvert sem við förum getum við fundið bræður og systur sem taka okkur opnum örmum. Þeir sem elska Guð og tilbiðja hann eiga vini um allan heim.

8. Hvernig eigum við að skilja það sem fram kemur í Postulasögunni 21:4?

8 Lúkas segir að þeir hafi dvalið í sjö daga í Týrus en nefnir síðan nokkuð sem gæti við fyrstu sýn virst undarlegt: „Í ljósi þess sem andinn birti [lærisveinunum í Týrus] báðu þeir Pál margsinnis að stíga ekki fæti inn í Jerúsalem.“ (Post. 21:4) Hafði Jehóva skipt um skoðun? Var hann núna að segja Páli að fara ekki til Jerúsalem? Nei, andinn hafði gefið til kynna að farið yrði illa með Pál í Jerúsalem en ekki að hann ætti að forðast borgina. Bræðurnir í Týrus virðast réttilega hafa ályktað með hjálp heilags anda að erfiðleikar biðu Páls í Jerúsalem. Þeir báru umhyggju fyrir honum og hvöttu hann því til að fara ekki þangað. Það er skiljanlegt að þeir vildu hlífa Páli við því sem beið hans þar. En Páll var ákveðinn í að gera vilja Jehóva og hélt ferð sinni áfram til Jerúsalem. – Post. 21:12.

9, 10. (a) Hvað hefur Páll kannski hugsað um þegar hann heyrði bræðurna í Týrus tjá áhyggjur sínar? (b) Hvaða hugmynd er útbreidd nú á dögum en hvernig stangast hún á við orð Jesú?

9 Þegar Páll heyrir bræðurna tjá áhyggjur sínar verður honum kannski hugsað til þess hvernig lærisveinarnir brugðust við þegar Jesús sagði þeim að hann myndi fara til Jerúsalem til að þjást og deyja. Pétur lét tilfinningarnar ráða ferðinni og sagði við Jesú: „Hlífðu þér, Drottinn. Þetta mun aldrei koma fyrir þig.“ Jesús svaraði honum: „Farðu burt frá mér, Satan! Þú leggur stein í götu mína því að þú hugsar ekki eins og Guð heldur eins og menn.“ (Matt. 16:21–23) Jesús var ákveðinn í að ljúka verkefninu sem Guð hafði falið honum. Páll var fórnfús eins og hann. Bræðrunum í Týrus gekk eflaust gott eitt til eins og Pétri postula en þeir áttuðu sig ekki á vilja Guðs í þessu máli.

Við þurfum að vera fórnfús til að fylgja Jesú.

10 Sú hugmynd að hlífa sér eða fara auðveldustu leiðina höfðar til margra nú á dögum. Fólk almennt velur sér gjarnan trú sem þeim finnst þægileg og gerir litlar kröfur til þeirra. En Jesús hvatti okkur til að hafa allt annað hugarfar. Hann sagði við lærisveina sína: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur sinn og fylgi mér.“ (Matt. 16:24) Það er bæði skynsamlegt og rétt að fylgja Jesú en það er ekki alltaf auðvelt.

11. Hvernig sýndu lærisveinarnir í Týrus að þeim þótti vænt um Pál og studdu hann?

11 Það leið ekki á löngu áður en Páll, Lúkas og hinir sem voru með þeim þurftu að halda ferð sinni áfram. Lýsingin á brottför þeirra er hjartnæm. Bræðrum og systrum í Týrus þótti greinilega mjög vænt um Pál og studdu boðun hans af heilum hug. Karlar, konur og börn fylgdu Páli og félögum hans að ströndinni. Hópurinn kraup á kné, baðst fyrir og menn kvöddu Pál og félaga. Síðan stigu ferðalangarnir á skip og héldu áfram til Ptólemais. Þar hittu þeir trúsystkini sín og voru hjá þeim einn dag. – Post. 21:5–7.

12, 13. (a) Hvernig vitum við að Filippus starfaði trúfastur árum saman? (b) Hvernig er Filippus foreldrum nú á dögum góð fyrirmynd?

12 Lúkas segir nú frá því að Páll og félagar hafi haldið áfram til Sesareu. Þar komu þeir „í hús Filippusar trúboða“. a (Post. 21:8) Þeir hafa eflaust verið ánægðir að hitta hann. Um 20 árum áður höfðu postularnir útnefnt hann til að aðstoða við að dreifa matvælum til safnaðarmanna í hinum nýstofnaða söfnuði í Jerúsalem. Filippus hafði boðað trúna af krafti árum saman. Við munum að þegar lærisveinarnir dreifðust vegna ofsókna fór Filippus til Samaríu og boðaði trúna þar. Síðar boðaði hann eþíópíska hirðmanninum trúna og skírði hann. (Post. 6:2–6; 8:4–13, 26–38) Hann var sannarlega tryggur boðberi!

13 Filippus hafði ekki glatað eldmóðinum. Hann bjó nú í Sesareu en var enn þá ötull í boðuninni eins og sjá má af því að Lúkas kallar hann „trúboða“. Við fáum líka að vita að nú átti hann fjórar dætur sem voru gæddar spádómsgáfu en það bendir til þess að þær hafi fetað í fótspor föður síns. b (Post. 21:9) Filippus hlýtur að hafa lagt sig fram um að byggja fjölskylduna upp í trúnni. Foreldrar nú á dögum ættu að líkja eftir honum og vera fjölskyldunni góð fyrirmynd í boðuninni. Þannig læra börnin að hafa ánægju af því að boða trúna.

14. Hvað gerðist þegar Páll heimsótti trúsystkini sín og hvaða tækifæri höfum við?

14 Hvar sem Páll kom við leitaði hann uppi trúsystkini sín og átti góðar stundir með þeim. Bræður og systur í söfnuðinum voru gestrisin og höfðu ánægju af að taka á móti Páli og vinum hans. Heimsóknir af þessu tagi voru uppörvandi fyrir alla. (Rómv. 1:11, 12) Við höfum líka tækifæri til að uppörva hvert annað. Jafnvel þótt heimili okkar sé fábrotið getur það verið mikil blessun fyrir okkur að vera gestrisin við farandhirðinn og konuna hans. – Rómv. 12:13.

‚Ég er tilbúinn til að deyja‘ (Post. 21:10–14)

15, 16. Hvaða boðskap flutti Agabus og hvaða áhrif hafði það á viðstadda?

15 Meðan Páll var hjá Filippusi kom annar virtur gestur í heimsókn – Agabus. Þeir sem komnir voru saman á heimili Filippusar vissu að Agabus var spámaður. Hann hafði spáð fyrir um mikla hungursneyð sem varð í stjórnartíð Kládíusar. (Post. 11:27, 28) Kannski veltu þeir fyrir sér hvers vegna Agabus væri kominn. Hvaða boðskap skyldi hann hafa fram að færa? Þeir horfðu á þegar hann tók belti Páls – langan taurenning sem bundinn var um mittið og oft notaður til að geyma peninga og ýmislegt annað. Agabus batt hendur sínar og fætur með beltinu. Síðan flutti hann alvarlegan boðskap: „Heilagur andi segir: ‚Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda manninn sem á þetta belti og framselja hann mönnum af þjóðunum.‘“ – Post. 21:11.

16 Spádómurinn staðfesti að Páll myndi fara til Jerúsalem. Hann gaf líka til kynna að samskipti hans við Gyðinga þar yrðu til þess að hann yrði framseldur „mönnum af þjóðunum“. Spádómurinn hafði sterk áhrif á viðstadda. Lúkas skrifar: „Þegar við heyrðum þetta sárbændum við Pál um að fara ekki til Jerúsalem og eins gerðu hinir sem voru þar. Þá sagði Páll: ‚Hvers vegna eruð þið að gráta og reyna að draga úr mér kjark? Ég fullvissa ykkur um að ég er bæði tilbúinn til að láta binda mig og til að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú.‘“ – Post. 21:12, 13.

17, 18. Hvernig sýndi Páll að honum yrði ekki haggað og hvernig brugðust vinir hans við?

17 Sjáum þetta fyrir okkur. Bræður og systur, þar á meðal Lúkas, sárbæna Pál um að halda ekki ferðinni áfram. Sumir eru jafnvel grátandi. Páll er snortinn af umhyggju þeirra en segir mildilega að þau séu að „reyna að draga úr [honum] kjark“. Hann er samt ákveðinn og ætlar ekki að láta tár né tilfinningar annarra hafa áhrif á ákvörðun sína, ekki frekar en hann gerði í Týrus. Hann útskýrir öllu heldur fyrir þeim hvers vegna hann verði að halda ferð sinni áfram. Hann er hugrakkur og einbeittur. Páll var ákveðinn í að fara til Jerúsalem alveg eins og Jesús hafði verið. (Hebr. 12:2) Hann sóttist ekki eftir að vera píslarvottur en ef svo færi myndi hann telja það vera heiður að deyja sem fylgjandi Jesú Krists.

18 Hvernig brugðust vinir Páls við? Þeir virtu ákvörðun hans. Við lesum: „Þegar ekki tókst að telja honum hughvarf gáfumst við upp og sögðum: ‚Verði vilji Jehóva.‘“ (Post. 21:14) Þeir sem reyndu að sannfæra Pál um að hann ætti ekki að fara til Jerúsalem kröfðust þess ekki að fá sitt fram. Þeir hlustuðu á Pál og gáfu eftir. Þeir skildu að þetta var vilji Jehóva þó að þeir hefðu haft aðrar hugmyndir. Páll hafði lagt upp í ferðalag sem myndi á endanum kosta hann lífið. Það yrði auðveldara fyrir hann ef þeir sem elskuðu hann reyndu ekki að telja honum hughvarf.

19. Hvaða dýrmæta lærdóm getum við dregið af því sem Páll upplifði?

19 Við getum dregið dýrmætan lærdóm af því sem Páll upplifði: Við ættum aldrei að letja trúsystkini til þess að færa fórnir í þjónustu Guðs. Þetta á við um margar aðstæður, ekki bara þegar um líf eða dauða er að tefla. Margir kristnir foreldrar hafa til dæmis átt erfitt með að sjá börnin sín flytja til fjarlægra staða til að þjóna Jehóva. En þeir vilja samt ekki letja þau. Phyllis, sem býr á Englandi, minnist þess hvernig henni leið þegar einkadóttir hennar gerðist trúboði í Afríku. „Þetta var erfiður tími,“ segir Phyllis. „Það var erfitt að vita af henni svona langt í burtu. Ég var bæði sorgmædd og stolt. Ég ræddi þetta oft við Jehóva í bænum mínum. En þetta var ákvörðun hennar og ég reyndi aldrei að hafa áhrif á hana. Ég hafði alltaf kennt henni að láta vilja Jehóva ganga fyrir. Hún hefur þjónað Jehóva erlendis síðastliðin 30 ár og ég þakka Jehóva á hverjum degi fyrir trúfesti hennar.“ Það er gott að hvetja og uppörva fórnfús trúsystkini.

Það er gott að vera uppörvandi við fórnfús trúsystkini.

‚Bræðurnir tóku okkur fagnandi‘ (Post. 21:15–17)

20, 21. Hvað sýnir að Páll þráði að vera með trúsystkinum sínum og hvers vegna vildi hann vera með þeim?

20 Þegar Páll var ferðbúinn lagði hann af stað og bræður sem vildu sýna honum stuðning sinn fylgdu honum. Alls staðar þar sem Páll og félagar komu við á leiðinni til Jerúsalem leituðu þeir uppi bræður sína og systur. Í Týrus höfðu þeir leitað uppi lærisveinana og dvalist hjá þeim í viku. Í Ptólemais höfðu þeir heilsað upp á trúsystkini sín og verið með þeim heilan dag. Í Sesareu höfðu þeir staldrað við hjá Filippusi í nokkra daga. Núna fylgja nokkrir lærisveinanna í Sesareu Páli og félögum hans til Jerúsalem en þar fengu þeir að gista hjá Mnasoni, einum af fyrstu lærisveinunum. Lúkas segir að bræðurnir í borginni ‚hafi tekið þeim fagnandi‘. – Post. 21:17.

21 Páll vildi greinilega vera með trúsystkinum sínum. Honum fannst mjög uppörvandi að vera með bræðrum og systrum og okkur þykir það líka. Þessi uppörvun hefur eflaust búið Pál undir að mæta reiðum andstæðingum sem vildu verða honum að bana.