Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

7. KAFLI

Boðum „fagnaðarboðskapinn um Jesú“

Boðum „fagnaðarboðskapinn um Jesú“

Við getum lært af Filippusi trúboða

Byggt á Postulasögunni 8:4–40

1, 2. Hvernig höfðu tilraunir manna til að stöðva boðunina öfug áhrif á fyrstu öld?

 GRIMMILEGAR ofsóknir eru skollnar á. Sál ‚ræðst af hörku gegn söfnuðinum‘. (Post. 8:3) Lærisveinarnir flýja og sumir ímynda sér kannski að Sál takist að ná markmiði sínu að berja niður kristnina. Það hefur hins vegar óvæntar afleiðingar að kristnir menn skuli dreifast víða. Hvað gerist?

2 Þeir sem yfirgefa Jerúsalem ‚boða fagnaðarboðskap Guðs‘ í þeim löndum sem þeir flýja til. (Post. 8:4) Hugsaðu þér! Ofsóknirnar hafa sannarlega ekki þaggað niður í boðuninni. Þær hafa beinlínis stuðlað að því að útbreiða boðskapinn! Með því að tvístra lærisveinunum hafa andstæðingarnir óafvitandi valdið því að boðunin breiðist út til fjarlægra svæða. Eins og við munum sjá hefur eitthvað svipað gerst á okkar tímum.

„Þeir sem höfðu dreifst“ (Post. 8:4–8)

3. (a) Hver var Filippus? (b) Af hverju höfðu fáir í Samaríu heyrt fagnaðarboðskapinn en hvað hafði Jesús sagt að myndi gerast þar?

3 Filippus a var í hópi þeirra sem „höfðu dreifst“. (Post. 8:4; sjá rammann „ Filippus ‚trúboði‘“.) Hann fór til Samaríu, borgar þar sem mjög fáir höfðu heyrt fagnaðarboðskapinn. Jesús hafði einu sinni sagt postulunum: „Farið ekki inn í nokkra samverska borg heldur aðeins til týndra sauða af ætt Ísraels.“ (Matt. 10:5, 6) Jesús vissi hins vegar að vitnað yrði ítarlega í Samaríu þegar fram liðu stundir því að áður en hann steig upp til himna sagði hann: „Þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ – Post. 1:8.

4. Hvernig brugðust Samverjar við boðun Filippusar og hvað kann að hafa stuðlað að því?

4 Filippus komst að raun um að Samaría var ‚hvít og tilbúin til uppskeru‘. (Jóh. 4:35) Boðskapur hans var eins og ferskur andblær fyrir þá sem bjuggu þar og það er engin furða. Gyðingar áttu engin samskipti við Samverja og margir fyrirlitu þá jafnvel. Samverjar uppgötvuðu að fagnaðarboðskapurinn var ætlaður öllum og var því gerólíkur hugmyndum hinna þröngsýnu farísea. Filippus boðaði trúna af ákafa og án manngreinarálits og sýndi þannig að hann var ekki smitaður af fordómum þeirra sem litu niður á Samverja. Það kemur því ekki á óvart að fjöldinn allur af Samverjum skuli hafa hlustað á Filippus og ‚fylgst með honum af athygli‘. – Post. 8:6.

5–7. Nefndu dæmi um hvernig fagnaðarboðskapurinn hefur breiðst út þegar vottar hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.

5 Ofsóknir á hendur þjónum Guðs hafa ekki heldur þaggað niður í boðuninni á okkar tímum. Þeir hafa verið hnepptir í fangelsi eða þvingaðir til að flytja til annarra landa en æ ofan í æ hefur það leitt til þess að boðskapurinn um ríkið hefur náð til fólks á nýja staðnum. Í síðari heimsstyrjöldinni gátu vottar Jehóva til dæmis boðað trúna með góðum árangri í fangabúðum nasista. Gyðingur sem hitti votta þar segir: „Hugrekki fanga sem voru vottar Jehóva sannfærði mig um að trú þeirra byggðist á Biblíunni – og ég varð sjálfur vottur.“

6 Það kom jafnvel fyrir að þeir sem ofsóttu vottana fengu að heyra boðskapinn og tóku við honum. Sem dæmi má nefna að vottur sem hét Franz Desch var fluttur í Gusen-fangabúðirnar í Austurríki og þar fékk hann tækifæri til að leiðbeina SS-foringja við biblíunám. Við getum rétt ímyndað okkur gleðina þegar þeir hittust á ný á móti Votta Jehóva mörgum árum síðar og voru þá báðir boðberar fagnaðarboðskaparins.

7 Eitthvað svipað hefur gerst þegar vottar hafa neyðst til að flýja land vegna ofsókna. Á áttunda áratugnum komust margir í Mósambík í kynni við fagnaðarboðskapinn þegar vottar flúðu þangað frá Malaví. Þegar andstaða kom upp í Mósambík síðar meir hélt boðunin samt áfram. „Sum okkar voru vissulega handtekin margsinnis fyrir að boða trúna,“ segir Francisco Coana, „en þegar við sáum hve margir tóku við boðskapnum vorum við sannfærð um að Guð væri að hjálpa okkur eins og hann hjálpaði kristnum mönnum á fyrstu öld.“

8. Hvernig hafa pólitískar og efnahagslegar breytingar haft áhrif á boðunina?

8 Ofsóknir eru auðvitað ekki eina ástæðan fyrir því að fólk á nýjum svæðum tekur trú. Á undanförnum áratugum hafa pólitískar og efnahagslegar breytingar líka skapað tækifæri til að koma fagnaðarboðskapnum á framfæri við mörg þjóðarbrot og málhópa. Fólk hefur flúið stríð og efnahagsþrengingar og sest að í öruggara umhverfi og byrjað að kynna sér Biblíuna í þeim löndum sem það er flutt til. Þegar flóttamenn streyma milli landa skapast ný tækifæri til að boða trúna. Reynir þú að koma boðskapnum á framfæri við fólk „af öllum þjóðum, ættflokkum, kynþáttum og tungum“ á svæðinu þar sem þú býrð? – Opinb. 7:9.

„Gefið mér líka þetta vald“ (Post. 8:9–25)

„Símon sá að menn fengu andann þegar postularnir lögðu hendur yfir þá og bauð þeim þá peninga.“ – Postulasagan 8:18.

9. Hver var Símon og hvers vegna vakti það sem Filippus gerði áhuga hans?

9 Filippus gerði mörg tákn í Samaríu. Hann læknaði marga sem voru lamaðir og fatlaðir og rak jafnvel út illa anda. (Post. 8:6–8) Það var sérstaklega einn maður sem hreifst af kraftaverkunum sem Filippus gerði. Hann hét Símon og stundaði galdra. Hann var svo mikils metinn að fólk sagði um hann: „Þessi maður er kraftur Guðs.“ Símon sá nú raunverulegan kraft Guðs að verki eins og hann birtist í kraftaverkunum sem Filippus vann, og hann tók trú. (Post. 8:9–13) En síðar reyndi á það af hvaða hvötum hann gerðist kristinn.

10. (a) Hvað gerðu Pétur og Jóhannes í Samaríu? (b) Hvað gerði Símon þegar hann sá að nýir lærisveinar fengu heilagan anda við handayfirlagningu Péturs og Jóhannesar?

10 Þegar postularnir fréttu að margir í Samaríu hefðu tekið við fagnaðarboðskapnum sendu þeir Pétur og Jóhannes þangað. (Sjá rammann „ Pétur notar ‚lykla himnaríkis‘“.) Þegar postularnir komu lögðu þeir hendur yfir nýju lærisveinana og hver og einn þeirra fékk heilagan anda. b Símon var stórhrifinn þegar hann sá þetta. Hann bað postulana: „Gefið mér líka þetta vald svo að allir sem ég legg hendur yfir fái heilagan anda.“ Símon bauð þeim jafnvel peninga og vonaðist til að geta keypt þessa heilögu gjöf. – Post. 8:14–19.

11. Hvernig ávítaði Pétur Símon og hvernig brást Símon við?

11 Pétur svaraði Símoni mjög ákveðið: „Megi silfur þitt farast með þér fyrst þú hélst að þú gætir fengið gjöf Guðs fyrir peninga. Þú átt enga hlutdeild í þessu því að Guð sér að hjarta þitt er ekki einlægt.“ Pétur hvatti hann síðan til að iðrast og biðjast fyrirgefningar. Hann sagði: „Þú skalt … biðja Jehóva að fyrirgefa þér, ef mögulegt er, það illa sem þú hafðir í huga.“ Símon var greinilega ekki vondur maður. Hann vildi gera það sem var rétt en langanir hans beindust um stund í ranga átt. Hann bað því postulana: „Biðjið Jehóva að láta ekkert af því sem þið hafið sagt koma yfir mig.“ – Post. 8:20–24.

12. Hvað er „símonska“ og hvernig hefur hún verið stunduð innan kristna heimsins?

12 Ávíturnar sem Símon fékk frá Pétri eru kristnum mönnum til viðvörunar. Íslenska orðið „símonska“ er sótt í þetta atvik og er notað um það að kaupa eða selja trúarleg embætti. Saga fráhvarfskristninnar er morandi í dæmum um þessa iðju. Í níundu útgáfu Encyclopædia Britannica (1878) segir: „Þeir sem kynna sér sögu páfakjörs velkjast ekki í vafa um að páfi hafi aldrei verið kjörinn án þess að símonska kæmi við sögu og í mörgum tilfellum hafi símonskan verið af grófasta tagi, blygðunarlaus og ódulin með öllu.“

13. Hvernig getum við forðast símonsku?

13 Við verðum að forðast símonsku. Við ausum ekki gjöfum yfir þá sem eru í ábyrgðarstöðum eða hrósum þeim í hástert í von um að fá verkefni í söfnuðinum. Og þeir sem eru í ábyrgðarstöðum þurfa að gæta þess að hygla ekki þeim sem eru efnaðir. Hvort tveggja væri símonska. Allir í söfnuðinum ættu að hegða sér eins og þeir séu ‚minnstir‘ og bíða eftir að andi Jehóva útnefni fólk til ábyrgðarstarfa. (Lúk. 9:48) Enginn í söfnuði Guðs ætti að „leita eigin heiðurs“. – Orðskv. 25:27.

„Skilurðu það sem þú ert að lesa?“ (Post. 8:26–40)

14, 15. (a) Hver var eþíópíski hirðmaðurinn og hvernig hitti Filippus hann? (b) Hvernig brást Eþíópíumaðurinn við boðskap Filippusar og hvers vegna var það ekki fljótfærni af honum að skírast? (Sjá neðanmálsgrein.)

14 Engill Jehóva segir nú Filippusi að halda suður á veginn sem liggur frá Jerúsalem til Gasa. Ef Filippus velti fyrir sér hvers vegna hann átti að fara þangað fékk hann svar við því þegar hann hitti eþíópískan hirðmann (orðrétt „gelding“) sem var að ‚lesa upphátt úr Jesaja spámanni‘. (Sjá rammann „ Í hvaða skilningi var hann ‚geldingur‘?“) Heilagur andi Jehóva sagði Filippusi að ganga að vagni Eþíópíumannsins. „Skilurðu það sem þú ert að lesa?“ spurði hann þar sem hann hljóp með vagninum. „Hvernig ætti ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ svaraði maðurinn. – Post. 8:26–31.

15 Eþíópíumaðurinn bauð Filippusi að stíga upp í vagninn. Við getum rétt ímyndað okkur umræðurnar. Það hafði lengi verið leyndardómur hver væri ‚sauðurinn‘ eða ‚þjónninn‘ í spádómi Jesaja. (Jes. 53:1–12) En á ferðinni útskýrði Filippus fyrir hirðmanninum að þessi spádómur hefði ræst á Jesú Kristi. Eþíópíumaðurinn, sem hafði þegar tekið gyðingatrú, vissi strax hvað hann átti að gera, rétt eins og þeir sem létu skírast á hvítasunnu árið 33. „Sjáðu, hér er vatn!“ sagði hann við Filippus. „Hvað hindrar mig í að skírast?“ Filippus skírði hann þá um leið. c (Sjá rammann „ Þeir stigu báðir út í vatnið“.) Filippus fékk síðan nýtt verkefni. Hann var sendur til Asdód til að boða fagnaðarboðskapinn þar. – Post. 8:32–40.

16, 17. Hvernig taka englar þátt í boðuninni nú á tímum?

16 Vottar Jehóva nú á tímum hafa þann heiður að taka þátt í svipuðu starfi og Filippus. Við fáum oft tækifæri til að segja frá ríki Guðs þegar við hittum fólk við óformlegar aðstæður, til dæmis á ferðalögum. Oft er nokkuð ljóst að það er engin tilviljun að við hittum fólk sem sýnir einlægan áhuga. Það kemur ekki á óvart því að Biblían gefur til kynna að englar stjórni boðuninni þannig að boðskapurinn nái til fólks af „hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. (Opinb. 14:6) Jesús sagði einmitt fyrir að englar myndu leiðbeina okkur í boðuninni. Í dæmisögunni um hveitið og illgresið sagði Jesús að þeir væru „kornskurðarmennirnir“ á uppskerutímanum – lokaskeiði þessarar heimsskipanar. Hann bætti við að englarnir myndu „fjarlægja úr ríki hans allt sem verður öðrum að falli og fólk sem gerir illt“. (Matt. 13:37–41) Englarnir myndu á sama tíma safna saman tilvonandi erfingjum himnaríkis og síðar ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum‘ sem Jehóva vildi draga til safnaðar síns. – Opinb. 7:9; Jóh. 6:44, 65; 10:16.

17 Til marks um að þetta eigi sér stað segja sumir sem við hittum í boðunni að þeir hafi einmitt verið að biðja til Guðs um leiðsögn. Lítum á dæmi. Tveir boðberar voru að ganga í hús og voru með lítinn strák með sér. Um hádegið ætluðu vottarnir að hætta í boðuninni en sá stutti var óvenju ákafur að fara í næsta hús og fór reyndar þangað einn síns liðs og bankaði upp á. Ung kona kom til dyra og vottarnir tveir fóru þá og töluðu við hana. Þeim til undrunar sagðist konan hafa verið að biðja til Guðs um að einhver bankaði hjá henni sem gæti hjálpað henni að skilja Biblíuna. Vottarnir buðu henni biblíunámskeið sem hún þáði.

„Guð, viltu hjálpa mér, hver sem þú ert.“

18. Af hverju ættum við aldrei að líta á það sem sjálfsagðan hlut að fá að taka þátt í boðuninni?

18 Þú sem ert boðberi ert þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa með englunum að boðuninni sem hefur aldrei verið jafn umfangsmikil. Líttu aldrei á það sem sjálfsagðan hlut. Þú uppskerð mikla gleði ef þú heldur ótrauður áfram að boða „fagnaðarboðskapinn um Jesú“. – Post. 8:35.

a Þetta er ekki Filippus postuli heldur Filippus sá sem rætt var um í 5. kafla þessarar bókar. Hann var einn þeirra ‚sjö manna sem voru í góðu áliti‘ og var falið að skipuleggja daglega úthlutun matar meðal grískumælandi og hebreskumælandi ekkna í söfnuðinum í Jerúsalem. – Post. 6:1–6.

b Nýir lærisveinar á þessum tíma fengu yfirleitt andasmurningu, það er að segja heilagan anda, þegar þeir skírðust. Þar með eignuðust þeir von um að ríkja sem konungar og prestar með Jesú á himnum í framtíðinni. (2. Kor. 1:21, 22; Opinb. 5:9, 10; 20:6) En í þessu tilfelli fengu nýju lærisveinarnir ekki andasmurningu um leið og þeir skírðust. Þessir nýskírðu lærisveinar fengu ekki heilagan anda – og þá undraverðu hæfileika sem fylgdi því – fyrr en Pétur og Jóhannes lögðu hendur yfir þá.

c Þetta var ekki gert í hita augnabliksins. Eþíópíumaðurinn hafði tekið gyðingatrú og þekkti því Ritningarnar, þar á meðal spádómana um Messías. Nú hafði hann fengið upplýsingar um hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs og gat því látið skírast án tafar.