Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

13. KAFLI

‚Eftir að hafa deilt og rökrætt töluvert‘

‚Eftir að hafa deilt og rökrætt töluvert‘

Deilan um umskurð er lögð fyrir hið stjórnandi ráð

Byggt á Postulasögunni 15:1–12

1–3. (a) Hvað verður til þess að einingu kristna safnaðarins er stofnað í voða? (b) Hvaða gagn höfum við af því að kynna okkur þessa frásögu Postulasögunnar?

 PÁLL og Barnabas snúa alsælir aftur til Antíokkíu í Sýrlandi eftir fyrstu trúboðsferðina. Þeir eru himinlifandi yfir að Jehóva skuli hafa „opnað þjóðunum dyr trúarinnar“. (Post. 14:26, 27) Fagnaðarboðskapurinn vekur líka mikla athygli í Antíokkíu og mikill fjöldi fólks af þjóðunum hefur bæst við söfnuðinn þar. – Post. 11:20–26.

2 Fréttirnar af þessari aukningu berast fljótlega til Júdeu. En það gleðjast ekki allir yfir þessari framvindu heldur sprettur umræðan um umskurðinn upp á nýjan leik. Hvernig áttu samskipti kristinna manna af hópi Gyðinga og af öðrum þjóðum að vera og hvernig áttu hinir síðarnefndu að líta á Móselögin? Ágreiningurinn verður svo mikill að hætta er á að söfnuðurinn klofni. Hvernig á að leysa málið?

3 Við lærum margt verðmætt þegar við kynnum okkur þessa frásögu í Postulasögunni. Það getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir ef mál sem geta valdið sundrung koma upp.

„Nema þið látið umskerast“ (Post. 15:1)

4. Hvaða röngu skoðunum héldu sumir í söfnuðinum á lofti og hvaða spurningu vekur það?

4 Lærisveinninn Lúkas skrifar: „Nú komu nokkrir menn ofan frá Júdeu [til Antíokkíu] og fóru að kenna bræðrunum: ‚Þið getið ekki bjargast nema þið látið umskerast eins og Móselögin kveða á um.‘“ (Post. 15:1) Hvort þessir ‚menn frá Júdeu‘ höfðu verið farísear áður en þeir gerðust kristnir er látið ósagt. Þeir virðast að minnsta kosti hafa verið undir áhrifum þessa sértrúarflokks Gyðinga sem vildi að Móselögunum væri fylgt út í ystu æsar. Einnig má vera að þeir hafi þóst vera talsmenn postulanna og öldunganna í Jerúsalem. (Post. 15:23, 24) En af hverju voru kristnir Gyðingar enn að hvetja til umskurðar? Það voru liðin um 13 ár síðan Guð hafði sýnt Pétri postula fram á að óumskorið fólk af þjóðunum væri velkomið í kristna söfnuðinn. aPost. 10:24–29, 44–48.

5, 6. (a) Hvers vegna vildu sumir kristnir Gyðingar ríghalda í umskurðinn? (b) Var umskurðarsáttmálinn hluti af Abrahamssáttmálanum? Skýrðu svarið. (Sjá neðanmálsgrein.)

5 Ástæðurnar gætu hafa verið margar. Sem dæmi má nefna að það var Jehóva sjálfur sem hafði komið því á að karlar skyldu umskornir og það var tákn um sérstakt samband við hann. Abraham og heimilismenn hans höfðu verið umskornir löngu áður en lagasáttmálinn var gerður með ákvæðum sínum um umskurð. b (3. Mós. 12:2, 3) Samkvæmt Móselögunum urðu jafnvel útlendingar að umskerast áður en þeir máttu taka þátt í ákveðnum athöfnum eins og að borða páskamáltíðina. (2. Mós. 12:43, 44, 48, 49) Í hugum Gyðinga var óumskorinn maður óhreinn og óhæfur til að þjóna Guði. – Jes. 52:1.

6 Gyðingar sem gerðust kristnir þurftu því að sýna trú og auðmýkt til að laga sig að nýju fyrirkomulagi. Lagasáttmálinn hafði vikið fyrir nýja sáttmálanum svo að það var ekki nóg að fæðast sem Gyðingur til að teljast þjónn Guðs. Það kostaði hugrekki af hálfu kristinna Gyðinga sem bjuggu í samfélögum Gyðinga – eins og í Júdeu – að játa trú á Krist og viðurkenna óumskorna menn af þjóðunum sem trúbræður. – Jer. 31:31–33; Lúk. 22:20.

7. Hvað höfðu ‚mennirnir frá Júdeu‘ ekki skilið?

7 Meginreglur Guðs höfðu auðvitað ekki breyst. Andi Móselaganna endurspeglaðist í nýja sáttmálanum. (Matt. 22:36–40) Páll skrifaði til dæmis síðar um umskurðinn: „Sá er Gyðingur sem er það hið innra og það er hjartað sem er umskorið með hjálp andans en ekki lagasafns.“ (Rómv. 2:29; 5. Mós. 10:16) ‚Mennirnir frá Júdeu‘ höfðu ekki skilið þetta heldur fullyrtu að Guð hefði aldrei fellt umskurðarlögin úr gildi. Myndu þeir vera tilbúnir til að taka rökum?

„Deilt og rökrætt“ (Post. 15:2)

8. Af hverju var deilan um umskurð lögð fyrir hið stjórnandi ráð í Jerúsalem?

8 Lúkas heldur áfram: „Eftir að Páll og Barnabas höfðu deilt og rökrætt töluvert við þá [mennina sem komu ofan frá Júdeu] var ákveðið að Páll, Barnabas og nokkrir hinna færu upp til Jerúsalem á fund postulanna og öldunganna vegna þessa máls.“ c (Post. 15:2) ‚Deilurnar og rökræðurnar‘ gáfu til kynna heitar tilfinningar og sterka sannfæringu af beggja hálfu, og söfnuðinum í Antíokkíu tókst ekki að útkljá málið. Til að varðveita frið og einingu tók söfnuðurinn þá skynsamlegu ákvörðun að leggja spurninguna fyrir ‚postulana og öldungana í Jerúsalem‘ en þeir mynduðu hið stjórnandi ráð. Hvað getum við lært af öldungunum í Antíokkíu?

Sumir sögðu ákveðnir í bragði: „Það er nauðsynlegt að … fyrirskipa [fólki af þjóðunum] að halda lög Móse.“

9, 10. Hvernig eru bræðurnir í Antíokkíu og þeir Páll og Barnabas okkur góð fyrirmynd?

9 Eitt mikilvægt sem við lærum er að við þurfum að treysta á forystu safnaðar Guðs. Hafðu þetta í huga: Bræðurnir í Antíokkíu vissu að allir sem sátu í hinu stjórnandi ráði voru Gyðingar að ætt og uppruna. Samt treystu þeir ráðinu til að útkljá deiluna um umskurð í samræmi við Ritningarnar. Af hverju? Söfnuðurinn treysti að Jehóva myndi beita heilögum anda sínum og nota höfuð kristna safnaðarins, Jesú Krist, til að beina málinu í réttan farveg. (Matt. 28:18, 20; Ef. 1:22, 23) Þegar alvarleg ágreiningsmál koma upp skulum við líkja eftir góðu fordæmi kristinna manna í Antíokkíu með því að treysta söfnuði Guðs og stjórnandi ráði hans.

10 Við erum líka minnt á hve mikilvægt er að vera auðmjúk og þolinmóð. Heilagur andi hafði valið Pál og Barnabas sérstaklega til að fara til þjóðanna en þegar þeir voru í Antíokkíu beittu þeir samt ekki valdi sínu til að útkljá umskurðardeiluna þar. (Post. 13:2, 3) Páll skrifaði líka síðar: „Ég fór þangað [til Jerúsalem] eftir að hafa fengið opinberun.“ Þar með gefur hann til kynna að hann hafi fengið guðlega leiðsögn í málinu. (Gal. 2:2) Öldungar nú á dögum reyna líka að vera auðmjúkir og þolinmóðir þegar mál koma upp sem gætu valdið sundrung. Þeir eru ekki þrætugjarnir heldur vilja sjá málin sömu augum og Jehóva. Þess vegna leita þeir leiðsagnar í Biblíunni og fylgja leiðbeiningum hins trúa þjóns. – Fil. 2:2, 3.

11, 12. Af hverju er mikilvægt að bíða eftir Jehóva?

11 Stundum þurfum við að bíða eftir að Jehóva varpi ljósi á ákveðið mál. Munum að söfnuðirnir á tímum Páls urðu að bíða í heil 13 ár áður en Jehóva útkljáði málið um umskurð fólks af þjóðunum – eða frá árinu 36 þegar Kornelíus var andasmurður til ársins 49. Af hverju beið Jehóva svona lengi? Kannski vildi hann gefa einlægum Gyðingum nægan tíma til að laga sig að svona róttækri breytingu. Þegar allt kom til alls var það ekki lítið mál að fella úr gildi 1.900 ára gamlan sáttmála sem Guð hafði gert við elskaðan forföður þeirra, Abraham. – Jóh. 16:12.

12 Það er mikil blessun að eiga þolinmóðan og góðviljaðan föður á himnum sem leiðbeinir okkur og mótar. Útkoman er alltaf góð og okkur í hag. (Jes. 48:17, 18; 64:8) Við ættum því aldrei að halda okkar eigin skoðunum þrjóskulega á lofti eða vera gagnrýnin á breytingar í söfnuðinum eða á breyttan skilning á ákveðnum biblíuversum. (Préd. 7:8) Ef þú finnur fyrir tilhneigingu í þá átt ættirðu að hugleiða það sem læra má af 15. kafla Postulasögunnar og gera það að bænarefni. d

13. Hvernig getum við endurspeglað þolinmæði Jehóva þegar við kennum fólki?

13 Við gætum þurft að vera þolinmóð þegar við erum með biblíunemendur sem eiga erfitt með að sleppa falskenningum eða óbiblíulegum siðum og hefðum sem eru þeim kærar. Í slíkum tilfellum þurfum við kannski að gefa anda Guðs hæfilegan tíma til að hafa áhrif á hjarta nemandans. (1. Kor. 3:6, 7) Það er líka gott að biðja fyrir nemandanum. Með einum eða öðrum hætti á Guð eftir að benda okkur á réttu leiðina á réttum tíma til að hjálpa nemandanum. – 1. Jóh. 5:14.

Þeir sögðu hvetjandi frásögur (Post. 15:3–5)

14, 15. (a) Hvernig studdi söfnuðurinn í Antíokkíu Pál, Barnabas og hina ferðalangana? (b) Hvernig uppörvuðu Páll og ferðafélagar hans þá sem þeir hittu á leiðinni?

14 Frásögn Lúkasar heldur áfram: „Söfnuðurinn fylgdi mönnunum áleiðis og síðan héldu þeir áfram um Fönikíu og Samaríu og sögðu ítarlega frá hvernig fólk af þjóðunum hefði snúist til trúar. Bræðurnir og systurnar urðu öll mjög glöð að heyra það.“ (Post. 15:3) Söfnuðurinn sýndi Páli, Barnabasi og hinum virðingu og kærleika í verki með því að fylgja þeim áleiðis. Þannig sýndi söfnuðurinn þeim stuðning sinn og að hann óskaði þeim blessunar Guðs. Við sjáum aftur hve bræður og systur í Antíokkíu eru okkur góð fyrirmynd. Sýnir þú trúsystkinum þínum virðingu, „sérstaklega [öldungunum] sem leggja hart að sér við að fræða og kenna“? – 1. Tím. 5:17.

15 Á leið sinni til Jerúsalem uppörvuðu ferðalangarnir trúsystkini sem þeir hittu á leið sinni um Fönikíu og Samaríu með því að segja þeim frásögur af starfinu meðal fólks af þjóðunum. Í hópi þessara trúsystkina voru hugsanlega kristnir Gyðingar sem höfðu flúið þangað eftir að Stefán dó píslarvættisdauða. Það er líka uppörvandi fyrir bræður og systur nú á dögum að heyra frásögur af því hvernig Jehóva blessar boðunina, sérstaklega fyrir þau sem eru að ganga í gegnum prófraunir. Nýtur þú góðs af slíkum frásögum með því að sækja samkomur og mót og með því að lesa frásögur og ævisögur sem eru birtar í ritunum okkar, annaðhvort á prenti eða á jw.org?

16. Hvað sýnir að spurningin um umskurð var orðin að djúpstæðu deilumáli?

16 Eftir að hafa ferðast um 550 kílómetra í suðurátt náði sendinefndin frá Antíokkíu loks á áfangastað. Lúkas skrifar: „Þegar þeir komu til Jerúsalem tóku söfnuðurinn, postularnir og öldungarnir vel á móti þeim og þeir sögðu frá öllu sem Guð hafði látið þá gera.“ (Post. 15:4) En það brugðust ekki allir þannig við. „Sumir úr flokki farísea sem höfðu tekið trú stóðu á fætur og sögðu: ‚Það er nauðsynlegt að umskera þá og fyrirskipa þeim að halda lög Móse.‘“ (Post. 15:5) Ljóst er að spurningin um umskurð kristinna manna af þjóðunum var orðin að djúpstæðu deilumáli sem þurfti að útkljá.

„Postularnir og öldungarnir komu … saman“ (Post. 15:6–12)

17. Hverjir mynduðu hið stjórnandi ráð í Jerúsalem og hver gæti verið ástæðan fyrir því að öldungar sátu í því líka?

17 „Viska er hjá þeim sem leita ráða,“ segir í Orðskviðunum 13:10. Í samræmi við þessa góðu meginreglu ‚komu postularnir og öldungarnir saman til að líta á umskurðarmálið‘. (Post. 15:6) „Postularnir og öldungarnir“ komu fram sem fulltrúar alls safnaðarins, rétt eins og hið stjórnandi ráð nú á dögum. Af hverju sátu öldungarnir í ráðinu með postulunum? Munum að Jakob postuli hafði verið tekinn af lífi og Pétur postuli hafði setið í fangelsi að minnsta kosti um tíma. Gæti það orðið hlutskipti fleiri postula? Það var mikilvægt að aðrir hæfir andasmurðir menn sætu í ráðinu til að tryggja áframhaldandi umsjón.

18, 19. Hvað sagði Pétur og að hvaða niðurstöðu hefðu áheyrendur hans átt að komast?

18 Lúkas heldur áfram: „Eftir miklar og heitar umræður stóð Pétur upp og sagði …: ‚Menn, bræður, þið vitið vel að Guð valdi mig í upphafi úr ykkar hópi til að fólk af þjóðunum fengi að heyra fagnaðarboðskapinn og trúa. Guð, sem þekkir hjörtun, sýndi að hann viðurkenndi þetta fólk með því að gefa því heilagan anda, rétt eins og okkur. Og hann gerði alls engan greinarmun á því og okkur heldur hreinsaði hjörtu þess með trúnni.‘“ (Post. 15:7–9) Samkvæmt heimildarriti getur gríska orðið sem þýtt er „heitar umræður“ í 7. versi einfaldlega merkt að öldungarnir hafi spurt spurninga og rannsakað málið vandlega. Bræðurnir voru greinilega einlægir þótt þeir hefðu ólíkar skoðanir og létu þær opinskátt í ljós.

19 Kröftug orð Péturs minntu alla á að hann hefði sjálfur verið viðstaddur árið 36 þegar fyrstu einstaklingarnir af þjóðunum voru andasmurðir – Kornelíus og heimilisfólk hans – en enginn þeirra var umskorinn. Fyrst Jehóva var hættur að gera greinarmun á Gyðingum og fólki af öðrum þjóðum, hvaða vald höfðu þá menn til að gera það? Auk þess er fólk ekki lýst réttlátt fyrir að fylgja Móselögunum heldur fyrir að trúa á Krist. – Gal. 2:16.

20. Hvernig voru þeir sem aðhylltust umskurð að ‚reyna Guð‘?

20 Í ljósi þess sem Guð sagði í orði sínu og því hvernig hann beitti anda sínum var niðurstaðan ótvíræð. Pétur sagði: „Hvers vegna reynið þið þá Guð með því að leggja ok á herðar lærisveinunum sem hvorki forfeður okkar né við gátum borið? Við trúum hins vegar að við björgumst vegna einstakrar góðvildar Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“ (Post. 15:10, 11) Í reynd voru þeir sem aðhylltust umskurð að ‚reyna Guð‘ eða ‚reyna á þolinmæði hans‘ eins og það er orðað í annarri biblíuþýðingu. Þeir reyndu að þvinga fólk af þjóðunum til að fylgja Móselögunum. Hins vegar höfðu þeir ekki sjálfir getað fylgt þeim að fullu og voru þess vegna dauðadæmdir. (Gal. 3:10) Gyðingarnir sem hlustuðu á Pétur hefðu því átt að vera þakklátir fyrir einstaka góðvild Guðs sem birtist fyrir milligöngu Jesú.

21. Hvað lögðu Barnabas og Páll til málanna?

21 Orð Péturs hittu greinilega í mark því að ‚allur hópurinn þagnaði‘. Barnabas og Páll sögðu síðan frá „þeim mörgu táknum og undrum sem Guð hafði látið þá gera meðal þjóðanna“. (Post. 15:12) Nú voru postularnir og öldungarnir loksins í aðstöðu til að skoða alla málavexti og taka ákvörðun sem endurspeglaði vilja Guðs í umskurðarmálinu.

22–24. (a) Hvernig fylgir hið stjórnandi ráð okkar daga fordæmi ráðsins á fyrstu öld? (b) Hvernig geta allir öldungar virt fyrirkomulag Guðs?

22 Þegar hið stjórnandi ráð fundar nú á dögum leitar það líka leiðsagnar í orði Guðs og biður innilega um heilagan anda. (Sálm. 119:105; Matt. 7:7–11) Til að ákvarðanir ráðsins endurspegli vilja Guðs sem best fá allir í ráðinu senda dagskrá fyrir fundinn svo að þeir geti hugleitt málin og beðið til Jehóva. (Orðskv. 15:28) Þessir andasmurðu bræður tjá sig opinskátt og með virðingu á fundinum. Þeir nota Biblíuna ríkulega þegar þeir ræða málin.

23 Safnaðaröldungar ættu að líkja eftir þeim. Ef öldungaráði tekst ekki að komast að niðurstöðu í alvarlegu máli getur það ráðfært sig við deildarskrifstofuna eða fulltrúa hennar, eins og farandhirði. Deildarskrifstofan getur síðan skrifað hinu stjórnandi ráði ef þörf krefur.

24 Já, Jehóva blessar þá sem virða fyrirkomulag hans og sýna auðmýkt, trúfesti og þolinmæði. Eins og við munum sjá í næsta kafla launar Guð þeim með því að veita þeim sannan frið, einingu og velgengni í söfnuðinum.

a Sjá rammann „ Málsvarar gyðingdómsins“.

b Sáttmálinn um umskurð var ekki hluti af Abrahamssáttmálanum sem enn er í gildi. Abrahamssáttmálinn tók gildi árið 1943 f.Kr. þegar Abraham (þá nefndur Abram) fór yfir Efrat á leið sinni til Kanaanslands. Hann var þá 75 ára. Umskurðarsáttmálinn var gerður síðar, árið 1919 f.Kr., þegar Abraham var 99 ára. – 1. Mós. 12:1–8; 17:1, 9–14; Gal. 3:17.

c Grískur maður, Títus að nafni, sem hafði tekið kristna trú virðist hafa verið í þessum hópi. Hann varð síðar traustur félagi og sendimaður Páls. (Gal. 2:1; Tít. 1:4) Hann var gott dæmi um óumskorinn mann af þjóðunum sem hafði verið smurður heilögum anda. – Gal. 2:3.