Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. KAFLI

„Guð mismunar ekki fólki“

„Guð mismunar ekki fólki“

Boðunin hefst meðal hinna óumskornu af þjóðunum

Byggt á Postulasögunni 10:1–11:30

1–3. Hvaða sýn sér Pétur og af hverju þurfum við að skilja hvað hún þýðir?

 ÞETTA er haustið 36. Sólin yljar Pétri þar sem hann biðst fyrir á flötu húsþaki við sjóinn í hafnarborginni Joppe. Hann hefur verið gestur þar í nokkra daga. Að hann skuli gista þar lýsir ákveðnu fordómaleysi af hans hálfu. Húseigandinn heitir Símon og er sútari að atvinnu og það myndu ekki allir Gyðingar vilja gista hjá slíkum manni. a En Pétur er í þann mund að læra hve fordómalaus Jehóva er.

2 Pétur fékk vitrun meðan hann var að biðjast fyrir. Hann sér sýn sem hefði komið hvaða Gyðingi sem er úr jafnvægi. Hann sér eitthvað sem líkist líndúk koma niður af himni og á honum eru dýr sem eru óhrein samkvæmt Móselögunum. Honum er sagt að slátra dýrunum og borða en hann svarar: „Ég hef aldrei borðað neitt sem er vanheilagt og óhreint.“ Þrisvar sinnum er honum sagt: „Hættu að kalla það óhreint sem Guð hefur lýst hreint.“ (Post. 10:14–16) Pétur er ráðvilltur en það varir ekki lengi.

3 Hvað merkti sýnin sem Pétur sá? Það er mikilvægt að við skiljum það því að sýnin gefur okkur innsýn í hvernig Jehóva lítur á fólk. Við sem erum kristin getum ekki vitnað ítarlega um ríki Guðs nema við tileinkum okkur sjónarmið Jehóva. Til að skilja hvað sýnin merkir þurfum við að vita hvað gerðist rétt áður og hvað gerist í kjölfarið.

Hann „bað oft og innilega til Guðs“ (Post. 10:1–8)

4, 5. Hver var Kornelíus og hvað gerðist meðan hann baðst fyrir?

4 Pétur hafði ekki hugmynd um að daginn áður hafði maður að nafni Kornelíus líka fengið vitrun frá Guði. Hann bjó í Sesareu, um 50 kílómetra norður af Joppe. Kornelíus, sem var liðsforingi í rómverska hernum, var trúrækinn og góður fjölskyldufaðir. b Hann var „guðhræddur og allt heimilisfólk hans sömuleiðis“. Kornelíus hafði ekki tekið gyðingatrú heldur var hann óumskorinn maður af þjóðunum. Hann var samt gjafmildur við þurfandi Gyðinga og rétti þeim oft hjálparhönd. Þessi einlægi maður „bað oft og innilega til Guðs“. – Post. 10:2.

5 Kornelíus var að biðjast fyrir um þrjúleytið síðdegis og sá þá engil í sýn sem sagði við hann: „Guð hefur heyrt bænir þínar og man eftir gjöfum þínum til fátækra.“ (Post. 10:4) Engillinn sagði Kornelíusi að senda menn eftir Pétri postula og hann gerði það. Sem óumskorinn maður stóð Kornelíus nú við þröskuld sem hann hafði ekki getað stigið yfir fram að því. Hann var í þann mund að fá að heyra hvernig hann gæti bjargast.

6, 7. (a) Lýstu atviki sem sýnir að Guð svarar bænum einlægs fólks sem langar til að kynnast honum. (b) Hvaða ályktun getum við dregið af slíkum atvikum?

6 Svarar Guð bænum einlægs fólks nú á dögum sem langar til að kynnast honum? Lítum á dæmi. Kona í Albaníu þáði eintak af Varðturninum en í blaðinu var grein um barnauppeldi. c Hún sagði við systurina sem bankaði upp á hjá henni: „Trúirðu því að ég var að biðja til Guðs um hjálp við að ala upp dætur mínar. Hann sendi þig til mín. Þú ert að færa mér einmitt það sem ég þurfti á að halda.“ Konan og dætur hennar byrjuðu að kynna sér Biblíuna og maðurinn hennar slóst síðar í hópinn.

7 Er þetta einangrað dæmi? Alls ekki. Eitthvað svipað hefur endurtekið sig aftur og aftur um allan heim, miklu oftar en svo að það geti verið hrein tilviljun. Hver er þá niðurstaðan? Í fyrsta lagi að Jehóva svarar bænum einlægs fólks sem er að leita hans. (1. Kon. 8:41–43; Sálm. 65:2) Í öðru lagi sýnir þetta að englarnir styðja okkur í boðuninni. – Opinb. 14:6, 7.

„Pétur var … að reyna að átta sig á hvað sýnin merkti“ (Post. 10:9–23a)

8, 9. Hvað sagði andi Guðs Pétri að gera og hvernig brást hann við?

8 Pétur var enn uppi á þakinu og var að „reyna að átta sig á hvað sýnin merkti“ þegar sendiboðar Kornelíusar komu að húsinu. (Post. 10:17) Pétur hafði sagt þrívegis að hann vildi ekki borða mat sem var óhreinn samkvæmt lögunum. Yrði hann nú fús til að fara með þessum mönnum og ganga inn á heimili manns af þjóðunum? Jehóva beitti heilögum anda sínum til að benda Pétri á hvað hann ætti að gera. Andinn sagði: „Þrír menn eru að spyrja eftir þér. Drífðu þig niður og hikaðu ekki við að fara með þeim því að ég hef sent þá.“ (Post. 10:19, 20) Sýnin um dúkinn sem Pétur hafði séð hafði eflaust búið hann undir að fylgja leiðsögn heilags anda.

9 Þegar Pétur uppgötvaði að Guð hefði sagt Kornelíusi að senda eftir honum bauð hann sendiboðunum inn fyrir og „lét þá gista“. (Post. 10:23a) Pétur gerði sér grein fyrir hver væri vilji Guðs og var strax byrjaður að laga sig að þessum breytingum.

10. Hvernig leiðir Jehóva fólk sitt og hvaða spurninga getum við þurft að spyrja okkur?

10 Jehóva opinberar vilja sinn smám saman enn þann dag í dag. (Orðskv. 4:18) Hann leiðbeinir ‚hinum trúa og skynsama þjóni‘ með heilögum anda sínum. (Matt. 24:45) Stundum er um að ræða skýrari skilning á Biblíunni og stundum breyttar starfsaðferðir í söfnuðinum. Það er gott að spyrja sig: Hvernig bregst ég við slíkum nýjungum? Fylgi ég leiðsögn heilags anda fúslega?

Pétur ‚skipaði svo fyrir að þau skyldu skírast‘ (Post. 10:23b–48)

11, 12. Hvað gerði Pétur þegar hann kom til Sesareu og hverju hafði hann áttað sig á?

11 Daginn eftir að Pétur sá sýnina lagði hann af stað til Sesareu og níu aðrir voru með í för – mennirnir þrír sem Kornelíus sendi og „sex bræður“ frá Joppe en þeir voru Gyðingar. (Post. 11:12) Kornelíus átti von á Pétri og var búinn að kalla saman „ættingja sína og nána vini“ sem trúlega voru ekki Gyðingar. (Post. 10:24) Þegar Pétur kom þangað gerði hann nokkuð sem hefði aldrei hvarflað að honum áður: Hann fór inn á heimili óumskorins manns af þjóðunum. Hann sagði: „Þið vitið vel að Gyðingi er bannað að umgangast eða heimsækja mann af öðrum kynþætti. Guð hefur þó sýnt mér að ég á ekki að kalla nokkurn mann vanheilagan eða óhreinan.“ (Post. 10:28) Þegar hér var komið sögu vissi Pétur að sýnin sem hann sá snerist ekki aðeins um það hvað leyfilegt væri að borða. Hann átti ekki að „kalla nokkurn mann [ekki einu sinni af þjóðunum] vanheilagan“.

„Kornelíus átti að sjálfsögðu von á þeim og hafði kallað saman ættingja sína og nána vini.“ – Postulasagan 10:24.

12 Áheyrendur Péturs voru spenntir að heyra hvað hann hefði fram að færa. „Nú erum við öll samankomin frammi fyrir Guði til að heyra allt sem Jehóva hefur falið þér að segja,“ sagði Kornelíus. (Post. 10:33) Ímyndaðu þér hvernig þér væri innanbrjósts ef þú heyrðir áhugasama manneskju segja eitthvað þessu líkt. Pétur hóf mál sitt með áhrifaríkum hætti: „Núna skil ég að Guð mismunar ekki fólki heldur tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt, sama hverrar þjóðar hann er.“ (Post. 10:34, 35) Pétur hafði uppgötvað að kynþáttur, þjóðerni eða aðrir ytri þættir skipta engu máli í augum Guðs. Í framhaldinu sagði hann viðstöddum frá þjónustu Jesú, dauða og upprisu.

13, 14. (a) Hvað voru trúskipti Kornelíusar og hinna árið 36 til marks um? (b) Af hverju ættum við ekki að dæma fólk eftir ytra útliti?

13 Nú gerðist nokkuð sem hafði aldrei gerst áður. „Meðan Pétur var enn að tala“ var heilögum anda úthellt yfir þetta „fólk af þjóðunum“. (Post. 10:44, 45) Þetta er eina dæmið sem Biblían segir frá um að fólk hafi fengið heilagan anda áður en það skírðist. Pétur skildi að þetta var merki um velþóknun Guðs og ‚skipaði svo fyrir að þetta fólk af þjóðunum skyldi skírast‘. (Post. 10:48) Þegar þessi hópur tók trú árið 36 lauk þeim tíma sem Gyðingar höfðu notið sérstakrar velvildar Guðs. (Dan. 9:24–27) Pétur notar hér þriðja og síðasta ‚lykil himnaríkis‘. (Matt. 16:19) Með honum var opnað fyrir það að óumskorið fólk af þjóðunum gæti fengið andasmurningu.

14 Við sem boðum ríki Guðs vitum að „Guð fer ekki í manngreinarálit“. (Rómv. 2:11) „Hann vill að alls konar fólk bjargist.“ (1. Tím. 2:4) Við megum því aldrei dæma fólk eftir ytra útliti. Það er verkefni okkar að vitna ítarlega um ríki Guðs og þess vegna þurfum við að boða öllum fagnaðarboðskapinn, óháð kynþætti, þjóðerni, útliti eða trú.

‚Þeir hættu að mótmæla og lofuðu Guð‘ (Post. 11:1–18)

15, 16. Af hverju deildu sumir lærisveinar af hópi Gyðinga á Pétur og hvernig rökstuddi hann það sem hann gerði?

15 Pétur hélt til Jerúsalem, eflaust spenntur að segja frá því sem hafði gerst. En bræðurnir í Jerúsalem höfðu þegar frétt að óumskorið fólk af þjóðunum hefði „tekið við orði Guðs“. Stuttu eftir að Pétur kom þangað „fóru þeir sem aðhylltust umskurð að gagnrýna hann“. Þeim fannst óverjandi að hann skyldi hafa farið ‚inn í hús óumskorinna manna og borðað með þeim‘. (Post. 11:1–3) Málið snerist ekki um það hvort fólk af þjóðunum gæti tekið kristna trú. Þessir lærisveinar af hópi Gyðinga stóðu á því fastar en fótunum að fólk af þjóðunum þyrfti að halda lögin, þar á meðal um umskurð, til að tilbiðja Jehóva á velþóknanlegan hátt. Það er ljóst að þeir áttu erfitt með að sleppa tökunum á Móselögunum.

16 Hvernig rökstuddi Pétur það sem hann gerði? Samkvæmt Postulasögunni 11:4–16 nefndi hann fjórar ástæður fyrir því að hann taldi sig hafa stuðning Guðs: (1) sýnina sem Guð hafði gefið honum (vers 4–10), (2) fyrirmælin sem andi Guðs gaf honum (vers 11, 12), (3) að engill hefði birst Kornelíusi (vers 13, 14) og (4) að heilögum anda hefði verið úthellt yfir þetta fólk af þjóðunum. (Vers 15, 16) Pétur lauk máli sínu með spurningu sem vakti menn til umhugsunar: „Fyrst Guð gaf þeim [fólki af þjóðunum] sömu gjöf [heilagan anda] og hann gaf okkur [Gyðingum] sem trúum á Drottin Jesú Krist, hvernig gat ég þá staðið gegn Guði?“ – Post. 11:17.

17, 18. (a) Hvað þurftu kristnir Gyðingar að gera eftir að hafa heyrt rökfærslu Péturs? (b) Af hverju getur verið áskorun að varðveita einingu safnaðarins og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

17 Kristnir Gyðingar þurftu að líta í eigin barm eftir að hafa hlustað á rökfærslu Péturs. Myndi þeim takast að losa sig við alla fordóma og viðurkenna þetta nýskírða fólk sem trúsystkini? Frásagan segir: „Þegar þeir [postularnir og aðrir kristnir Gyðingar] heyrðu þetta hættu þeir að mótmæla, lofuðu Guð og sögðu: ‚Guð hefur þá líka gefið fólki af þjóðunum tækifæri til að iðrast og hljóta líf.‘“ (Post. 11:18) Með jákvæðni sinni varðveittu þeir einingu safnaðarins.

18 Það getur reynt á að varðveita eininguna nú á dögum því að þjónar Jehóva eru „af öllum þjóðum, ættflokkum, kynþáttum og tungum“. (Opinb. 7:9) Í mörgum söfnuðum er því fólk af ólíkum kynþáttum, menningarsamfélögum og uppruna. Það er gott að spyrja sig: Hef ég upprætt alla fordóma úr hjarta mér? Er ég staðráðinn í að láta ekki sundrungaröfl þessa heims hafa áhrif á það hvernig ég kem fram við trúsystkini mín – öfl eins og þjóðernishyggju, kynþáttafordóma eða menningarhroka? Munum hvað gerðist hjá Pétri (Kefasi) einhverjum árum eftir að fyrsta fólkið af þjóðunum tók trú. Hann lét fordóma annarra hafa áhrif á sig, „dró sig í hlé“ og forðaðist trúsystkini sem voru af þjóðunum. Páll þurfti að leiðrétta hann. (Gal. 2:11–14) Höldum alltaf vöku okkar og látum ekki fordóma skjóta rótum í hjörtum okkar.

„Mikill fjöldi tók trú“ (Post. 11:19–26a)

19. Hverjum boðuðu kristnir Gyðingar í Antíokkíu trúna og með hvaða árangri?

19 Fóru fylgjendur Jesú að boða óumskornu fólki af þjóðunum trúna? Sjáum hvað gerðist síðar í Antíokkíu í Sýrlandi. d Þar í borg var fjölmennt samfélag Gyðinga en þeir áttu í ágætum samskiptum við fólk af þjóðunum. Þar var því góður vettvangur til að boða fólki af þjóðunum trúna. Það var þar sem nokkrir lærisveinar af hópi Gyðinga byrjuðu að boða „grískumælandi fólki fagnaðarboðskapinn“. (Post. 11:20) Þessari boðun var beint bæði að grískumælandi Gyðingum en líka að óumskornu fólki af þjóðunum. Jehóva blessaði boðunina og „mikill fjöldi tók trú“. – Post. 11:21.

20, 21. Hvernig sýndi Barnabas viðeigandi hógværð og hvernig getum við líkt eftir honum í boðuninni?

20 Söfnuðurinn í Jerúsalem sendi Barnabas til Antíokkíu til að sinna þessum frjósama akri. Fólk var svo áhugasamt að hann réð ekki við að annast þetta einn síns liðs. Var nokkur betur til þess fallinn að hjálpa til en Sál sem átti eftir að verða postuli þjóðanna? (Post. 9:15; Rómv. 1:5) Leit Barnabas á Sál sem keppinaut? Síður en svo. Barnabas var hógvær. Hann tók frumkvæðið, fór til Tarsus, leitaði Sál uppi og tók hann með sér til Antíokkíu. Þeir störfuðu þar saman í heilt ár og byggðu upp söfnuðinn. – Post. 11:22–26a.

21 Hvernig getum við sýnt hógværð þegar við sinnum boðuninni? Hógværð felur í sér að viðurkenna takmörk sín. Við höfum öll mismunandi styrkleika og hæfileika. Sumir eru duglegir að tala við fólk á förnum vegi eða hús úr húsi en finnst erfitt að fara í endurheimsóknir eða hefja biblíunámskeið. Hvers vegna ekki að biðja um aðstoð ef þig langar til að bæta þig á einhverju sviði boðunarinnar? Með því að taka slíkt frumkvæði geturðu orðið færari biblíukennari og haft meiri ánægju af boðuninni. – 1. Kor. 9:26.

Þeir ‚sendu hjálpargögn til trúsystkinanna‘ (Post. 11:26b–30)

22, 23. Hvernig sýndu kristnir menn í Antíokkíu bróðurást og hvernig líkja þjónar Guðs nú á dögum eftir þeim?

22 Það var í Antíokkíu sem „lærisveinarnir voru fyrst kallaðir kristnir vegna handleiðslu Guðs“. (Post. 11:26b) Þetta nafn lýsir vel þeim sem líkja eftir líferni Krists. Ríkti samhugur með kristnum Gyðingum og fólki af þjóðunum sem tók trú? Sjáum hvað gerðist þegar mikil hungursneyð skall á um árið 46. e Til forna lögðust hungursneyðir þungt á fátæka því að þeir áttu hvorki varasjóð né matarbirgðir. Kristnir Gyðingar sem bjuggu í Júdeu voru margir hverjir fátækir og því hjálparþurfi. Þegar kristnir menn í Antíokkíu, þar á meðal af þjóðunum, fréttu af þessu sendu þeir „hjálpargögn til trúsystkinanna sem bjuggu í Júdeu“. (Post. 11:29) Þetta var sannur bróðurkærleikur.

23 Hið sama er uppi á teningnum meðal þjóna Guðs nú á tímum. Þegar fréttist að trúsystkini okkar í öðru landi eða á okkar eigin svæði séu í neyð réttum við fúslega hjálparhönd. Deildarnefndir skipa strax hjálparstarfsnefndir til að hugsa um trúsystkini okkar sem hafa lent í náttúruhamförum á borð við fellibylji, jarðskjálfta eða flóð. Hjálparstarf af þessu tagi vitnar um að við erum ósvikið bræðralag. – Jóh. 13:34, 35; 1. Jóh. 3:17.

24. Hvernig getum við sýnt að við drögum lærdóm af sýninni sem Pétur sá?

24 Við sem erum kristin drögum lærdóm af sýninni sem Pétur fékk að sjá uppi á húsþakinu í Joppe á fyrstu öld. Við tilbiðjum Guð sem fer ekki í manngreinarálit. Hann vill að við vitnum ítarlega um ríki sitt og tölum við fólk óháð kynþætti, þjóðerni eða þjóðfélagsstöðu. Verum því staðráðin í að gefa öllum sem vilja hlusta tækifæri til að taka við fagnaðarboðskapnum. – Rómv. 10:11–13.

Við réttum fúslega hjálparhönd þegar trúsystkini okkar eru hjálparþurfi.

a Sumir Gyðingar litu niður á sútara því að þeir þurftu að vinna með dauðar skepnur og skinn þeirra og efni sem mörgum Gyðingum bauð við. Sútarar voru ekki velkomnir í musterið og vinnustaður þeirra þurfti að vera að minnsta kosti 50 álnir eða um 20 metra frá bænum. Það kann að vera skýringin á því að hús Símonar var „við sjóinn“. – Post. 10:6.

b Sjá rammann „ Kornelíus og rómverski herinn“.

d Sjá rammann „ Antíokkía í Sýrlandi“.

e Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus minnist á þessa ‚miklu hungursneyð‘ sem átti sér stað í stjórnartíð Kládíusar keisara (41–54).