Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 37

Hvað segir Biblían um vinnu og peninga?

Hvað segir Biblían um vinnu og peninga?

Hefur þú einhvern tíma haft miklar áhyggjur af vinnu eða peningum? Það getur verið erfitt bæði að sjá fyrir okkur og þjóna Jehóva á þann hátt sem hann á skilið. Í Biblíunni eru hagnýt ráð sem geta hjálpað okkur.

1. Hvað segir Biblían um vinnu?

Guð vill að við höfum ánægju af vinnu okkar. Biblían segir: „Ekkert er betra fyrir manninn en að … njóta erfiðis síns.“ (Prédikarinn 2:24) Jehóva leggur hart að sér. Þegar við líkjum eftir honum og erum dugleg að vinna gleðjum við bæði hann og okkur sjálf.

Vinna er mikilvæg. En við ættum aldrei að taka hana fram yfir þjónustuna við Jehóva. (Jóhannes 6:27) Hann lofar að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar ef við setjum hann í fyrsta sæti.

2. Hvað er rétt viðhorf til peninga?

Biblían viðurkennir að ‚peningar veiti vernd‘ en hún segir einnig að peningar einir sér geti ekki gert okkur hamingjusöm. (Prédikarinn 7:12) Við erum því hvött til að elska ekki peninga heldur ‚láta okkur nægja það sem við höfum‘. (Lestu Hebreabréfið 13:5.) Þegar við erum nægjusöm komumst við hjá þeim vonbrigðum að finnast við aldrei eiga nóg. Við forðumst óþarfar skuldir. (Orðskviðirnir 22:7) Og við forðumst hættuna sem fylgir því að stunda fjárhættuspil og láta glepjast af óraunhæfum loforðum um auðfengið fé.

3. Hvernig getum við verið örlát?

Jehóva er örlátur Guð og við líkjum eftir honum þegar við erum ‚örlát og fús til að gefa öðrum af því sem við eigum‘. (1. Tímóteusarbréf 6:18) Við getum gefið örlátlega af fjármunum okkar með því að styðja söfnuðinn og hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, sérstaklega trúsystkinum. Það skiptir Jehóva meira máli af hvaða hvötum við gefum heldur en hve mikið við gefum. Þegar við erum fús til að gefa verðum við ánægð og við gleðjum Jehóva. – Lestu Postulasöguna 20:35.

KAFAÐU DÝPRA

Sjáðu hvernig það er okkur til góðs að hafa rétt viðhorf til vinnu og að vera nægjusöm.

4. Viðhorf þitt til vinnu getur heiðrað Jehóva

Samband okkar við Jehóva ætti að hafa áhrif á viðhorf okkar til vinnu. Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvað fannst þér jákvætt við framkomu og hegðun Jasons á vinnustaðnum?

  • Hvað gerði hann til að hafa rétt viðhorf til vinnunnar?

Lesið Kólossubréfið 3:23, 24 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvers vegna skiptir máli að hafa rétt viðhorf til vinnu?

Vinna er mikilvæg. En við ættum aldrei að taka hana fram yfir þjónustuna við Jehóva.

5. Það er gott að vera nægjusamur

Margir reyna að sanka að sér eins miklum peningum og þeir geta. En Biblían hvetur okkur til að líta allt öðruvísi á peninga. Lesið 1. Tímóteusarbréf 6:6–8 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað hvetur Biblían okkur til að gera?

Við getum verið hamingjusöm þótt við höfum ekki mikið milli handanna. Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað veitir þessum fjölskyldum hamingju þrátt fyrir fátækt?

En hvað ef við eigum mikið en viljum samt meira? Jesús lýsti hættunni sem því fylgir í einni dæmisögu. Lesið Lúkas 12:15–21 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað lærðirðu af dæmisögu Jesú? – Sjá 15. vers.

Lesið Orðskviðina 10:22 og 1. Tímóteusarbréf 6:10. Ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvort finnst þér mikilvægara að eiga vináttu við Jehóva eða mikla peninga? Hvers vegna?

  • Hvaða vandamál geta fylgt því að eltast við peninga?

6. Jehóva sér til þess að við höfum það sem við þurfum

Vandamál vegna vinnu og peninga geta reynt á traust okkar á Jehóva. Spilið MYNDBANDIÐ til að sjá hvernig við getum tekist á við slík vandamál og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvaða vandamálum stóð bróðirinn í myndbandinu frammi fyrir?

  • Hvernig tókst hann á við vandamálin?

Lesið Matteus 6:25–34 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað lofar Jehóva að gera fyrir þá sem setja hann í fyrsta sæti?

SUMIR SEGJA: „Ég verð að vinna mikið til að sjá fyrir fjölskyldunni. Ég get ekki farið á samkomu í hverri viku.“

  • Hvaða biblíuvers sannfærir þig um að það sé alltaf best að setja tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sæti?

SAMANTEKT

Það er nauðsynlegt að vinna og afla peninga, en það ætti aldrei að trufla þjónustuna við Jehóva.

Upprifjun

  • Hvað getur hjálpað þér að hafa rétt viðhorf til vinnu?

  • Hvers vegna er gott að vera nægjusamur?

  • Hvernig geturðu sýnt að þú treystir loforði Jehóva um að hann sjái um þjóna sína?

Markmið

KANNAÐU

Kynntu þér hvort Biblían segi að peningar séu slæmir.

„Eru peningar rót alls ills?“ (Vefgrein)

Lestu um hvers konar gjafir gleðja Guð.

„Hvað segir Biblían um gjafir?“ (Vefgrein)

Sjáðu hvað fékk fjárhættuspilara og innbrotsþjóf til að breyta lífi sínu.

„Veðhlaupahestar voru ástríða mín“ (Grein úr Varðturninum)