1. Jóhannesarbréf 3:1–24

  • Við erum börn Guðs (1–3)

  • Börn Guðs og börn Djöfulsins (4–12)

    • Jesús á að brjóta niður verk Djöfulsins (8)

  • Elskið hvert annað (13–18)

  • Guð er meiri en hjarta okkar (19–24)

3  Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur sýnt okkur – við erum kölluð börn Guðs! Og það erum við. En heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann hefur ekki kynnst honum.  Þið elskuðu, nú erum við börn Guðs en það hefur enn ekki verið opinberað hvað við verðum. Við vitum að þegar hann opinberast verðum við eins og hann því að við munum sjá hann eins og hann er.  Og allir sem hafa þessa von til hans hreinsa sjálfa sig eins og hann er hreinn.  Þeir sem halda áfram að syndga brjóta lög því að syndin er lögbrot.  Þið vitið líka að Jesús birtist til að taka burt syndir okkar og í honum er engin synd.  Enginn sem er sameinaður honum heldur áfram að syndga. Sá sem heldur áfram að syndga hefur hvorki séð hann né kynnst honum.  Börnin mín, látið engan afvegaleiða ykkur. Sá sem gerir það sem er rétt er réttlátur eins og Jesús er réttlátur.  Sá sem heldur áfram að syndga er undir áhrifum Djöfulsins þar sem Djöfullinn hefur syndgað frá upphafi.* Sonur Guðs birtist til að brjóta niður* verk Djöfulsins.  Enginn sem er fæddur af Guði heldur áfram að syndga því að það sem Guð hefur sáð* varir í honum. Hann getur ekki haldið áfram að syndga þar sem hann er fæddur af Guði. 10  Börn Guðs og börn Djöfulsins þekkjast á þessu: Sá sem gerir ekki hið rétta er ekki Guðs megin og hið sama er að segja um þann sem elskar ekki bróður sinn. 11  Þetta er boðskapurinn sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hvert annað 12  en ekki vera eins og Kain sem var undir áhrifum hins vonda og myrti bróður sinn. Og hvers vegna myrti hann hann? Vegna þess að hans eigin verk voru vond en verk bróður hans réttlát. 13  Látið það ekki koma ykkur á óvart, bræður og systur, að heimurinn skuli hata ykkur. 14  Við vitum að við höfum stigið yfir frá dauðanum til lífsins því að við elskum trúsystkini okkar. Sá sem elskar ekki er áfram í dauðanum. 15  Sá sem hatar bróður sinn er morðingi* og þið vitið að enginn morðingi hefur í sér eilíft líf. 16  Við þekkjum kærleikann af því að hann gaf líf sitt* fyrir okkur, og okkur er skylt að gefa líf* okkar fyrir bræður okkar og systur. 17  En ef einhver hefur nóg af efnislegum gæðum og sér bróður sinn líða skort en vill ekki sýna honum umhyggju, hvernig getur hann þá sagst elska Guð? 18  Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika. 19  Þannig vitum við að við erum sannleikans megin og getum róað* hjörtu okkar frammi fyrir Guði, 20  hvað sem hjartað kann að dæma okkur fyrir, því að Guð er meiri en hjarta okkar og veit allt. 21  Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki getum við talað óhikað við Guð 22  og við fáum allt sem við biðjum hann um því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum líkar. 23  Og boðorð hans er að við eigum að trúa á nafn sonar hans, Jesú Krists, og elska hvert annað eins og hann gaf okkur fyrirmæli um. 24  Sá sem heldur boðorð Guðs er auk þess sameinaður Guði og Guð sameinaður honum. Og vegna andans sem hann gaf okkur vitum við að hann er sameinaður okkur.

Neðanmáls

Eða „síðan hann hófst handa“.
Eða „afmá“.
Það er, sáðkorn sem getur borið ávöxt.
Eða „manndrápari“.
Eða „sál sína“.
Eða „sál“.
Eða „sannfært“.